Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. september 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Áfram en ekki aftur á bak

Grein birt í Morgunblaðinu 14. september 2024

Það verða bráðum liðin 110 ár síðan konur, fertugar og eldri, máttu kjósa sér fulltrúa á Alþingi og bjóða fram krafta sína þangað. En rétturinn kom ekki að sjálfu sér og óþarft að hafa mörg orð um þá baráttu sem þær háðu til að honum fram. Þessum sjálfsagða rétti.

En alltaf er verið að minna okkur á að þetta er raunar langt frá því að vera sjálfsagt. Við erum farin að tala svo oft um hið alræmda bakslag að orðið sjálft er nánast farið að missa merkingu sína. Það sem nú á sér stað um allan heim, ekki síst í Bandaríkjunum, er afturför. Þrengt er að réttindum kvenna til þess að taka sjálfar ákvarðanir um eigin líkama; um þungunarrof og getnaðarvarnir, og vegið er að réttindum hinsegin fólks. Fólk sem fer með mikil völd gerir hvað það getur til að leggja sitt að mörkum í afturförinni. Þetta er alvarleg þróun og Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun.

Skýringar á þessu má að ég held finna í breytingum á samfélagsgerðinni okkar. Tækniþróun, aukinn einmanaleiki, verri andleg heilsa og tengslaleysi er kjörlendi fyrir öfgaafturhald sem boðar töfralausnir, til dæmis um að vandinn sé sé of mikill femínismi, of mikil félagshyggja, of mikið vinstri og of mikil áhersla á samfélagslegar lausnir. Rætur fólks standa orðið á lofti - án tengingar við það sem áður kom. Þannig birtist þrá eftir veröld sem aldrei var. Að lausnin sé að konur eigi að vera heima, sjá um börnin og halda fallegt heimili, og samfélagsmiðlar sýna þess konar fjölskyldumynstur sem eftirsóknarverða glansmynd. Litlir karlar eiga litlar samræður um hversu mikið vandamál femínismi sé á Íslandi. Sú staða að launamunur kynjanna sé enn vandamál og hafi raunar aukist hér á landi á milli áranna 2022 og 2023 er dæmi um afleiðingu af þessari stöðu.

Lausnin við þessum vanda er ekki meira afturhald, afturhvarf til samfélagsgerðar þar sem konur voru heima og karlar unnu fyrir heimilinu eða skertur sjálfsákvörðunarréttur fólks. Lausnin felst í því að rjúfa þennan vítahring. Við verðum að passa að jafnréttismál séu alltaf á dagskrá því bakslagið er raunverulegt og viðbragð feðraveldisins við frumkvæði og styrk kvenna, rýminu sem við tökum og röddunum sem við höfum er áþreifanlegt. Líka í íslenskum stjórnmálum og íslenskri umræðu. Við eigum ekki að líða kynbundið ofbeldi, kvenfyrirlitningu og mismunun á grundvelli kynferðis, og ekki heldur bakslag í réttindum hinsegin fólks. Rétta leiðin er fram á við en ekki afturábak.

Við í VG erum meðvituð um þessa stöðu og ég legg mikla áherslu á jafnréttismálin í öllum mínum störfum. Það hef ég gert hingað til og mun gera áfram. Aðeins þannig komum við í veg fyrir afturför og tryggjum samfélag sem verður betra á morgun en í gær. Við höfum ekki áhuga á að fara afturábak.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta