Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. september 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Ávarp á umferðarþingi 2024

Ávarp flutt við setningu umferðarþings Samgöngustofu 20. september 2024

Góðir gestir.

Ég vil byrja á að þakka Samgöngustofu fyrir að hafa boðið mér að ávarpa ykkur hér í dag. Þema umferðarþingsins er „Samspil ólíkra vegfarendahópa“. Ef rýnt er í dagskrána má búast við umfjöllun um hjólreiðar, gangandi vegfarendur, almenningssamgöngur, smáfarartæki, bifhjól, umferð vörubíla og einkabíla ásamt auðvitað þarfasta þjóninum, okkar trausta reiðhesti, sem var okkar helsta farartæki í þúsund ár. Allt undir vökulu auga ríkissáttasemjara. M.ö.o. allskonar, eitthvað fyrir alla: Samgönguhlaðborð.

Ég fagna þessari áherslu sem hér er lögð á fjölbreytta ferðamáta. Kjarni málsins er nefnilega sá að við ferðumst ekki öll með sama hætti, sem betur fer. Til þess að ná árangri er því nauðsynlegt að horfa yfir allt litrófið.

Umræðan hefur ekki alltaf verið á þessum stað.

Að gamni þá prófaði ég að fletta upp dagskránni fyrir umferðarþingið sem haldið var fyrir 20 árum síðan, árið 2004. Árið var merkilegt fyrir margra hluta sakir, olíuverð náði yfir 50 dollara á tunnu í fyrsta sinn frá upphafi 9. áratugarins, bílaeigendum til mikils hryllings. Þá varð þriðja lestarslys í sögu landsins þetta ár, þegar farþegalest og vöruflutningalest skullu saman við Kárahnjúkavirkjun. Og svo var auðvitað haldið glæsilegt umferðarþing. Umferðarþingið þetta ár stóð í tvo heila daga og flutt voru heil 20 erindi… sem öll fjölluðu um umferð bíla. Út frá ýmsum hliðum vissulega, en ekki eitt einasta erindi sem sérstaklega fjallaði um þau sem ferðast með öðrum hætti.

Á þessum árum var því oft haldið fram að við værum bílaþjóð í grunninn, værum með það í erfðamenginu, og það notað sem rök m.a. fyrir því að það væri vonlaust að fá fólk til að nota almenningssamgöngur. 2004 flutti Strætó alls 7,9 milljón farþega. Í fyrra voru farþegarnir 12,6 milljónir, 60% aukning. Það er árangur. En getum við gert betur? Getur þessi svokallaða bílaþjóð með sitt DNA mögulega farið meira í Strætó?

Sitt sýnist hverjum. Í fjölmiðlum hafa nýlega birst skoðanagreinar þar sem því er haldið fram að óraunhæft sé að gera áætlanir til framtíðar sem gerir ráð fyrir að fleiri noti Strætó, jafnvel þó að innviðir batni og þjónustan og tíðnin verði aukin. Þarna er væntanlega verið að gera ráð fyrir að eðlisávísun Íslendingsins segi stopp og haldi tryggð við bílinn… En erum við í alvöru þessi bílaþjóð?

1962 var í fyrsta sinn framkvæmd talning á farþegum Strætó í Reykjavík. Talningin var hluti af mjög vandaðri vinnu við mótun aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983. Í þessari fyrstu talningu kom í ljós að farþega þetta ár voru alls tæpar 17,5 milljónir, í borg sem þá taldi 75 þúsund íbúa.

Niðurstaða aðalskipulagsins var hins vegar sú að til framtíðar væri nauðsynlegt að tryggja að allir borgarbúar gætu átt og komist um á bíl. Teiknað var upp stofnvegakerfi borgarinnar með Miklubraut, Sæbraut og hraðbrautum í gegnum Fossvoginn, Elliðaárdalinn og Grjótaþorpið svo fátt eitt sé nefnt.

Sumt af þessu komst til framkvæmda, sumt ekki eins og gengur. En grunnmarkmiðið tókst, þ.e. að auka bílaumferð. Það tókst raunar svo vel að mörg sitja í umferðartöfum á hverjum degi.

Það var því auðvitað ekkert í erfðamenginu sem kallaði á 100 hestöfl, sprengihreyfil og 1 tonn af stáli utan um hvern þann sem ætlaði milli húsa. Það var mannanna verk, það voru pólitískar ákvarðanir, teknar fyrir áratugum, að skipuleggja byggðina með einn ferðamáta í forgangi á kostnað allra hinna. Við erum ekkert frekar bílaþjóð en aðrar þjóðir.

Þemað á þessu umferðarþingi er tímabær birtingarmynd þess að við í þessu samfélagi höfum loksins áttað okkur á því að samgöngur eru fjölbreyttar og það mun bæta þetta samfélag á ótalmörgum sviðum að sú þær verði jafnvel fjölbreyttari til framtíðar.

Ég vil að lokum hvetja ykkur öll til að taka virkan þátt í umræðum dagsins. Ég er viss um að það munu koma fram fjölmargar hugmyndir og lausnir sem nýtast okkur til að bæta efla samspil ólíkra vegfarendahópa, auka öryggi í samgöngum og fjölbreytta ferðamáta.

Takk fyrir mig

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta