Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. september 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Bíllinn í erfðamenginu

Grein birt í Morgunblaðinu 24. september 2024

Því er stundum haldið fram að til sé sérstakt bílagen hjá Íslendingum. Að það sé ástæðan fyrir því að það sé vonlaust að fá fólk til að nota almenningssamgöngur. Árið 2004 flutti Strætó alls 7,9 milljónir farþega. Í fyrra voru farþegarnir 12,6 milljónir. Það er 60% aukning - og mikill árangur. En getum við gert betur? Getur þessi svokallaða bílaþjóð með sitt meinta bíla-DNA mögulega farið meira í Strætó?

Sitt sýnist hverjum. Í fjölmiðlum hafa nýlega birst skoðanagreinar þar sem því er haldið fram að óraunhæft sé að gera áætlanir til framtíðar sem gera ráð fyrir að fleiri noti Strætó, jafnvel þó að innviðir batni og þjónustan og tíðnin verði aukin. Þarna er væntanlega verið að gera ráð fyrir því að eðlisávísun Íslendingsins segi stopp og haldi tryggð við bílinn.

En erum við bílaþjóð?

Árið 1962 var í fyrsta sinn framkvæmd talning á farþegum Strætó í Reykjavík. Talningin var hluti af mjög vandaðri vinnu við mótun aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983. Í þessari fyrstu talningu kom í ljós að farþegar þetta ár voru alls tæpar 17,5 milljónir, í borg sem þá taldi 75 þúsund íbúa.

Niðurstaða aðalskipulagsins var hins vegar sú að til framtíðar væri nauðsynlegt að tryggja að allir borgarbúar gætu átt og komist um á bíl. Teiknað var upp stofnvegakerfi borgarinnar með Miklubraut, Sæbraut og hraðbrautum í gegnum Fossvoginn, Elliðaárdalinn og meira að segja Grjótaþorpið svo fátt eitt sé nefnt. Sumt af þessu komst til framkvæmda, sumt ekki eins og gengur. En grunnmarkmiðið tókst, þ.e. að auka bílaumferð. Það tókst raunar svo vel að mörg sitja í umferðartöfum á hverjum degi.

Það var því auðvitað ekkert í erfðamenginu sem kallaði á 100 hestöfl, sprengihreyfil og 1 tonn af stáli utan um hvern þann sem ætlaði milli húsa. Það var mannanna verk, pólitískar ákvarðanir sem voru teknar fyrir áratugum, um að skipuleggja byggðina með einn ferðamáta í forgangi á kostnað allra hinna. Við erum ekkert frekar bílaþjóð en aðrar þjóðir

Förum áfram en ekki afturábak

Það liggur vitaskuld fyrir að við erum ekki bílaþjóð af erfðafræðilegum orsökum. Ég legg áherslu á að við eflum fjölbreytta samgöngumáta og gerum það sem þarf til þess að almenningssamgöngur og aðrir samgöngumátar en einkabíllinn verði raunhæfur kostur fyrir sem flest. Förum áfram inn í framtíðina en ekki aftur á bak. Það eru líka pólitískar ákvarðanir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta