Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2025 Matvælaráðuneytið

Aukið gagnsæi í sjávarútvegi - Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2025

Aukið gagnsæi í sjávarútvegi

Hin stór­góða sjón­varps­sería Ver­búðin sem Vest­urport skapaði fyr­ir nokkr­um árum dró fram magnaða mynd af upp­hafi kvóta­kerf­is­ins á Íslandi. Þætt­irn­ir sýndu ekki aðeins í hvaða um­hverfi nú­ver­andi stjórn­kerfi fisk­veiða var sett á lagg­irn­ar held­ur drógu einnig fram hvaða áhrif kerfið hafði á sam­fé­lög, bæði til betri og verri veg­ar. Við mun­um sann­ar­lega mörg þetta upp­haf og höf­um fylgst með þróun mála all­an þann tíma sem liðinn er.

Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins seg­ir að í sjáv­ar­út­vegi verði gerðar aukn­ar kröf­ur um gagn­sæi í eign­ar­haldi og skerpt á skil­grein­ingu tengdra aðila. Í því skyni mun ég á næst­unni leggja fram frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um um stjórn fisk­veiða sem fjall­ar um gagn­sæi eigna- og stjórn­un­ar­tengsla, há­marks­afla­hlut­deild og tengda aðila.

Sam­kvæmt þessu nýja frum­varpi verða viðskipti með afla­hlut­deild til­kynn­ing­ar­skyld til Fiski­stofu sem mun birta þær upp­lýs­ing­ar með sam­bæri­leg­um hætti og gert er með viðskipti í kaup­höll. Hug­tak­inu „yf­ir­ráð“ verður í frum­varp­inu gef­in sama merk­ing og það hef­ur í sam­keppn­is­lög­um og skerpt verður á því hverj­ir telj­ast tengd­ir aðilar. Sem dæmi má nefna að nú­gild­andi lög telja systkini og sam­búðarfólk ekki tengda aðila en því verður breytt með nýju lög­un­um.

Þá mun yfir 20% eign­ar­hald út­gerða í öðrum út­gerðarfé­lög­um hafa áhrif á há­marks­afla­hlut­deild þeirra enda eðli­legt að slík eigna­tengsl telji upp í há­marks­afla­hlut­deild. Einnig verður að finna í frum­varp­inu sér­stakt ákvæði um viðbót­ar­há­marks­afla­hlut­deild út­gerða í dreifðu eign­ar­haldi að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum.

Loks mun Fiski­stofa einnig fá skýr­ari eft­ir­litsúr­ræði til þess að tryggja virkni ákvæðis um há­marks­afla­hlut­deild ein­stakra út­gerða. Aukn­ar kröf­ur verða þar lagðar á stærri fé­lög og verður hluti þess­ara upp­lýs­inga birt­ur í þágu gagn­sæ­is.

Gagn­sæi er ein mik­il­væg­asta burðarstoð heil­brigðs viðskipta- og efna­hags­lífs. Þegar upp­lýs­ing­ar eru uppi á borðum geta fyr­ir­tæki og al­menn­ing­ur treyst því að leik­ur­inn sé jafn og leik­regl­ur skýr­ar. Í sjáv­ar­út­vegi, sem er grund­vall­ar­at­vinnu­grein á Íslandi, er sér­stak­lega mik­il­vægt að traust ríki gagn­vart kerf­inu, enda bygg­ist af­koma mik­ils fjölda lands­manna um allt land á nýt­ingu á fisk­veiðiauðlind­inni.

Þetta frum­varp er stórt fram­fara­skref í átt að meira gagn­sæi í sjáv­ar­út­vegi. Um leið er stuðlað að auk­inni sam­keppni með jafn­ari aðgangi fyr­ir­tækja að mik­il­væg­um upp­lýs­ing­um. Hvort tveggja verður án efa til mik­illa bóta í þess­ari þjóðhags­lega mik­il­vægu at­vinnu­grein.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta