Aukið gagnsæi í sjávarútvegi - Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2025
Hin stórgóða sjónvarpssería Verbúðin sem Vesturport skapaði fyrir nokkrum árum dró fram magnaða mynd af upphafi kvótakerfisins á Íslandi. Þættirnir sýndu ekki aðeins í hvaða umhverfi núverandi stjórnkerfi fiskveiða var sett á laggirnar heldur drógu einnig fram hvaða áhrif kerfið hafði á samfélög, bæði til betri og verri vegar. Við munum sannarlega mörg þetta upphaf og höfum fylgst með þróun mála allan þann tíma sem liðinn er.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að í sjávarútvegi verði gerðar auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpt á skilgreiningu tengdra aðila. Í því skyni mun ég á næstunni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem fjallar um gagnsæi eigna- og stjórnunartengsla, hámarksaflahlutdeild og tengda aðila.
Samkvæmt þessu nýja frumvarpi verða viðskipti með aflahlutdeild tilkynningarskyld til Fiskistofu sem mun birta þær upplýsingar með sambærilegum hætti og gert er með viðskipti í kauphöll. Hugtakinu „yfirráð“ verður í frumvarpinu gefin sama merking og það hefur í samkeppnislögum og skerpt verður á því hverjir teljast tengdir aðilar. Sem dæmi má nefna að núgildandi lög telja systkini og sambúðarfólk ekki tengda aðila en því verður breytt með nýju lögunum.
Þá mun yfir 20% eignarhald útgerða í öðrum útgerðarfélögum hafa áhrif á hámarksaflahlutdeild þeirra enda eðlilegt að slík eignatengsl telji upp í hámarksaflahlutdeild. Einnig verður að finna í frumvarpinu sérstakt ákvæði um viðbótarhámarksaflahlutdeild útgerða í dreifðu eignarhaldi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Loks mun Fiskistofa einnig fá skýrari eftirlitsúrræði til þess að tryggja virkni ákvæðis um hámarksaflahlutdeild einstakra útgerða. Auknar kröfur verða þar lagðar á stærri félög og verður hluti þessara upplýsinga birtur í þágu gagnsæis.
Gagnsæi er ein mikilvægasta burðarstoð heilbrigðs viðskipta- og efnahagslífs. Þegar upplýsingar eru uppi á borðum geta fyrirtæki og almenningur treyst því að leikurinn sé jafn og leikreglur skýrar. Í sjávarútvegi, sem er grundvallaratvinnugrein á Íslandi, er sérstaklega mikilvægt að traust ríki gagnvart kerfinu, enda byggist afkoma mikils fjölda landsmanna um allt land á nýtingu á fiskveiðiauðlindinni.
Þetta frumvarp er stórt framfaraskref í átt að meira gagnsæi í sjávarútvegi. Um leið er stuðlað að aukinni samkeppni með jafnari aðgangi fyrirtækja að mikilvægum upplýsingum. Hvort tveggja verður án efa til mikilla bóta í þessari þjóðhagslega mikilvægu atvinnugrein.