Erindi á aðalfundi Sambands ísl. tryggingafélaga, 6. mars 1996.
Fundarstjóri, ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir.
I.
Á fyrri hluta árs 1995 fluttist hluti tryggingamálanna, þ.e. vátryggingamálin frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu til viðskiptaráðuneytisins en almannatryggingar urðu eftir hjá heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu. Þessi breyting er í samræmi við þær miklu breytingar sem orðið hafa á innlendum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum. Tryggingafélögin eru hluti af fjármálamarkaðinum og því eðlilegt að þau heyri undir sama ráðuneyti og aðrar fjármálastofnanir svo sem bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki. Jafnframt verður að telja eðlilegt að bankaeftirlit og vátryggingaeftirlit heyri undir sama ráðuneytið. Ég tel að þessi skipulagsbreyting í stjórnkerfinu hafi gefið góða raun og fagna því sérstaklega að fá nú tækifæri til þess sem viðskiptaráðherra að ávarpa hér aðalfund Sambands íslenskra tryggingafélaga í fyrsta sinn.
II.
Þær miklu breytingar sem orðið hafa á innlendum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum eru að hluta til komnar vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu en að hluta til vegna nýrra aðstæðna í íslensku þjóðfélagi og í alþjóðlegu efnahags- og viðskiptaumhverfi sem landið er hluti af. Umskiptin gegna mikilvægu hlutverki í því að aðlaga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að breyttum aðstæðum. Á þessum sviðum sem öðrum verður að gæta þess að löggjöfin hamli ekki framþróun íslensks atvinnulífs og íslensk fyrirtæki búi ekki við lakari kost en erlendir keppinautar. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar allt viðskiptaumhverfið er orðið alþjóðlegra en áður og íslensk fyrirtæki þurfa í auknum mæli að keppa við erlenda aðila um hvers konar viðskipti hér á landi. Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á, skipan sem einkennist af ríkisviðskiptabönkum og nokkrum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins. Þá var íslenskur fjármagnsmarkaður veikburða. Sífelldur skor
tur var á lánsfé og fáum stóð fyrirgreiðsla erlendra lánastofnana til boða. Þetta hefur gerbreyst. Því er rökrétt að endurskoða skipulag og starfsemi allra fjármagnsfyrirtækja í eigu ríkisins.
III.
Fyrir dyrum standa því róttækari skipulagsbreytingar á innlendum fjármagnsmarkaði en við höfum áður kynnst. Þær taka í fyrsta lagi til þess að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að breyta rekstrarformi fjárfestingarlánasjóðanna. Í þriðja lagi er stefnt að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að starfsgrundvöllur alls lífeyrissjóðakerfis landsmanna verði tekinn til endurskoðunar.
Aukin samkeppni á fjármagnsmarkaði hefur beint sjónum að samkeppnisskilyrðum fyrirtækja á þessum markaði, sérstaklega mismunandi samkeppnisskilyrðum ríkisviðskiptabankanna og einkabankans. Í nýlegri greinargerð sem Seðlabankinn tók saman kemur fram að í sumum atriðum hallar á einkabankann en í öðrum hallar á ríkisviðskiptabankana. Ég hef nú hrundið af stað nauðsynlegri undirbúningsvinnu að formbreytingunni. Sérstök nefnd hefur verið skipuð til að annast þetta verk. Hlutverk hennar er að finna lausnir á ýmsum álitaefnum í tengslum við breytingar á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagabanka og semja lagafrumvörp þar að lútandi.
Það þýðir ekki það að ákvörðun hafi verið tekin um að selja eignarhluti ríkisins í bönkunum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að Alþingi skuli fara með ákvörðun um hvernig og með hvaða hætti skuli staðið að sölu á eignarhlutum ríkisins í þeim fyrirtækjum og stofnunum sem það á eignarhlut í.
Ég er þeirrar skoðunar að eftir að búið er að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög eigi að auka hlutafé í bönkunum, bjóða það út á almennum markaði þannig að með þeim hætti komi nýir aðilar inn sem eigendur að bönkunum ásamt ríkinu. Þannig yrði eiginfjárstaða bankanna styrkt, þannig yrðu bankarnir betur í stakk búnir til að mæta aukinni samkeppni í harðnandi og síminnkandi heimi. Ríkisviðskiptabankarnir þurfa á auknu eigin fé að halda. Með því að selja eignarhluti ríkisins er ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna heldur er fyrst og fremst verið að skipta um eigendur að eignarhlutunum.
IV.
Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi að draga sig sem mest út úr beinni þátttöku í almennri starfsemi á fjármagnsmarkaði. Því ber einnig að breyta fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins í hlutafélög. Hluta arðs af fjárfestingarlánasjóðunum á síðan að verja til þeirra verka á fjármagnsmarkaði sem hin frjálsu markaðsöfl sinna ekki. Það er brýnt að standa undir áhættufjármögnun til raunverulegrar nýsköpunar í því skyni að stuðla að framfarasókn í íslensku efnahags- og atvinnulífi og fjölga arðbærum störfum. Nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna er því eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar. Undirbúningsvinna er nú hafin við það verk. Tilgangurinn með því er að skapa fjárhagslegar traustar heildir og draga úr eða afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum. Atvinnulífið tvinnast æ meira saman. Hlutföll milli atvinnugreina eru sífelldum breytingum háð og nýjar atvinnugreinar skjóta rótum sem falla illa inn í fyrra mynstur. Skipulag fjárfestingar
lánasjóða atvinnuveganna má ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar breytingar í íslensku efnahagslífi og allt þetta og fleira til eru rök fyrir því að tími sérgreindra fjárfestingarlánasjóða sé liðinn. Nýskipan á þessu sviði verður þó að hafa eðlilegan aðdraganda og að mörgu er þar að hyggja ekki hvað síst trausti innlendra og erlendra lánadrottna sjóðanna.
V.
Áform eru uppi um að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið. Þar yrði í raun um hefðbundna lánastarfsemi að ræða sem óþarft er að sinnt sé af sérstakri ríkisstofnun. Núverandi húsnæðislánakerfi er íþyngjandi fyrir ríkissjóð og hinar miklu ríkisábyrgðir hafa neikvæð áhrif á lánstraust ríkissjóðs. Núverandi kerfi skortir sveigjanleika og töluvert vantar á að allir njóti fullnægjandi fyrirgreiðslu. Því tel ég að eftirfarandi markmið þurfi að hafa að leiðarljósi við það færa húsnæðislánakerfið yfir til banka og sparisjóða:
- Í fyrsta lagi, að tryggja almenningi aðgang að löngum lánum með veði í fasteign á hagkvæmustu kjörum.
- Í öðru lagi, að draga umtalsvert úr ábyrgðum ríkisins á húsnæðislánum.
- Í þriðja lagi, að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna húsnæðislánakerfisins.
- Í fjórða lagi, að auka sveigjanleika lánakerfisins þannig að það geti veitt fleirum úrlausn.
- Í fimmta lagi, að færa úrvinnslu og framkvæmd lánveitinga til bankakerfisins.
- Í sjötta lagi, að koma í veg fyrir að kerfisbreytingin hafi í för með sér vaxtahækkun.
VI.
Árið 1969 var lagður grunnurinn að því skipulagi í lífeyrismálum sem við búum við enn þann dag í dag. Á þessum 25 árum hefur mönnum ekki auðnast að ná samstöðu um heildstæða löggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu fyrir utan löggjöf frá árinu 1991. Sú löggjöf gerir ekki annað en leggja þá skyldu á stjórn lífeyrissjóðanna að sjá til þess að samdir og endurskoðaðir séu ársreikningar fyrir lífeyrissjóði og að slíkum endurskoðuðum reikningum skal vera skylt að skila inn til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Annað segir þessi löggjöf ekki. En á þessum árum hafa eignir lífeyrissjóðanna vaxið með miklum hraða. Í lok september 1995 námu eignir lífeyrissjóðanna um 230 milljörðum kr. Á sama tíma námu innlán bankakerfisins 235 milljörðum kr. og eignir verðbréfasjóðanna námu 11 milljörðum kr. Og því er spáð að eignir lífeyrissjóðanna muni nema um 400 milljörðum um aldamótin og verða þá langstærsti hluti lánakerfisins.
Af þessu má sjá að lífeyrissjóðirnir eru álíka stórir og allt bankakerfið og verðbréfafyrirtækin samanlagt. Ríkar kröfur eru gerðar til verðbréfafyrirtækja, banka og sparisjóða um ársreikninga, ársuppgjör, endurskoðun, hæfni stjórnenda, eiginfjárkröfur og þannig mætti lengi telja. Það getur því ekki talist eðlilegt, né verjandi að stærsti hluti fjármálamarkaðarins lúti engum slíkum reglum né kröfum og ekki síst þegar það er haft í huga að lífeyrissjóðirnir hafa einkarétt á því að varðveita lífeyrissparnað landsmanna þar sem launamennirnir eru skyldaðir til að greiða til ákveðinna lífeyrissjóða. Sjóða sem vitað er að eiga oft á tíðum ekki fyrir lífeyrisskuldbindingum sínum.
Það er því orðið tímabært að sett verði almenn lög um starfsemi lífeyrissjóðanna, þar sem gerðar verði sambærilegar kröfur til lífeyrissjóða og til banka og sparisjóða í landinu. Jafnframt því verði sett lög um stöðu og hlutverk séreignasjóða lífeyrisréttinda þar sem launafólki verði heimilað að greiða hluta lífeyrissjóðsiðgjalds í slíka sjóði að eigin vali.
Hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði fer hækkandi og mun sú þróun halda áfram næstu áratugi og reyna verulega á lífeyriskerfið. Við þurfum því að búa við traust, - sveigjanlegt, - opið og lýðræðislegt lífeyristryggingakerfi sem verður að byggjast á eftirfarandi meginatriðum: Skylduaðild, - lögbundinni grunntryggingavernd, - sjóðssöfnun, - sjóðsfélagalýðræði og valfrelsi einstaklinganna þar sem einstaklingarnir geta valið sér lífeyrissjóð og tryggingavernd.
Ríkisstjórnin er nú með í heildarendurskoðun allt lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Sú endurskoðun miðar ekki að því að leggja niður lífeyrissjóðina heldur að því að treysta þá, auka hagkvæmina og samkeppnina milli þeirra. Það hlýtur þó að vera komið að því að afnema eigi einkarétt lífeyrissjóðanna til þess að taka á móti lífeyrissparnaði landsmanna. Fleiri aðilar verða að fá þann rétt, bankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki, tryggingafélög og önnur fjármálafyrirtæki sem talin eru traust þess verð að fara með lífeyrissparnað landsmanna. Í lok nóvember á sl. ári skipaði fjármálaráðherra samstarfsnefnd sem enn er að störfum til að yfirfara lífeyrismál opinberra starfsmanna. Meginmarkiðið með endurskoðun laganna er:
- Að ríkissjóður og aðrir hliðstæðir launagreiðendur geri upp skuldbindingar sínar með tilliti til fortíðar.
- Að framvegis verði öllum skuldbindingum launagreiðenda fullnustað um leið og til þeirra er stofnað með iðgjaldagreiðslu í stað uppbótar á útborgaðan lífeyrir.
- Að áunninn réttur sjóðsfélaga til ellilífeyris verði gerður upp og staðfestur á grundvelli þeirra launa sem sjóðsfélagar hafa á uppgjörsdegi.
- Að framvegis ávinni sjóðsfélagar sér rétt til ellilífeyris á grundvelli innborgaðra iðgjalda og nemi samsvarandi réttarávinningur þeirra 2% árslauna fyrir hvert starfsár þar til ellilífseyrisaldri er náð.
- Að áunnin réttindi og útborgaður lífeyrir verði tryggður með tilliti til breytinga á neysluvöruvísitölu.
- Að leitast verði við að eignir sjóðsins njóti hámarks ávöxtunar að teknu tilliti til áhættu og tryggt að allar tekjur nýtist til útborgunar lífeyris.
Í þeim frumvarpsdrögum sem nú eru til skoðunar milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins er gert ráð fyrir þessum meginbreytingum:
- Í fyrsta lagi, óbreytt aðild að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna er tryggð.
- Í öðru lagi, að í stað uppbótar á útborgaðan lífeyri er launagreiðendum gert skylt að greiða iðgjald til sjóðsins til að standa undir þeim skuldbindingum sem stofnað er til.
- Í þriðja lagi, í stað þess að miða rétt sjóðsfélaga til ellilífeyris við lokalaun tekur hann mið af samanlögðum iðgjöldum á starfsævinni, m.ö.o. er lagt til sambærilegt réttindakerfi og hjá almennu sjóðunum, sem byggist á stigaútreikningi og verðtryggingu á grundvelli vísitölu neysluvöruverðs.
- Í fjórða lagi, að í stað 95 ára reglu er ellilífeyrisaldur alfarið miðaður við 65 ára aldur. Hins vegar er sjóðsfélaga gefinn kostur á að flýta eða seinka töku lífeyris um allt að 5 ár samkvæmt almennum reglum um skerðingu eða aukningu réttinda.
VII.
Það er víðtæk samstaða um, að um skylduaðild að lífeyriskerfinu eigi að vera að ræða, þar sem ella væri ekki víst að launamaðurinn legði til hliðar hluta launa sinna til efri áranna. Í því felst auðvitað ákveðin forsjárhyggja af hálfu ríkisins en það verður að hafa í huga að langtímahagsmunir samfélagsins eru best tryggðir með skylduaðild að lífeyriskerfinu sem leggur grunninn að langtímasparnaði í landinu og kemur í veg fyrir stórkostleg útgjöld ríkisins í framtíðinni.
Skylduaðildin þarf ekki að þýða skylduaðild að ákveðnum lífeyrissjóði. Þar á einstaklingurinn að geta valið um hvort hann vill greiða inn í hið hefðbundna lífeyrissjóðakerfi sameignarsjóðanna eða inn í séreignarsjóð lífeyrisréttinda. Með því að greiða í séreignarsjóð lífeyrisréttinda og kaupa um leið lífeyristryggingu hjá tryggingafélagi geta sjóðsfélagar greitt í séreignarsjóð og notið sambærilegra trygginga og jafnvel betri en sjóðsfélagar í núverandi sameignarsjóðum njóta. Með þessu móti vita sjóðsfélagar nákvæmlega hversu hátt hlutfall iðgjald fer í eftirlaunasjóð annars vegar og tryggingar hins vegar. Þeir vita nákvæmlega hvað hver trygging kostar og hver inneign þeirra er í séreignarsjóðum á hverjum tíma.
Andstæðingar þessa fyrirkomulags segja að eini gallinn við þetta fyrirkomulag sé það að dánardægur þurfi að vera vitað fyrirfram. Hér er um barnalegan útúrsnúning rökþrota manna að ræða. Tryggingarfélag sem ræki séreignarsjóð ætti að geta boðið sjóðsfélögum sínum líftryggingu sem tryggir afkomuöryggi til viðbótar séreign hvers og eins. Þannig má hugsa sér að greiðsla úr lífeyristryggingu taki við þegar sjóðsfélagi er búinn með inneign sína í séreignarsjóði, en eftir því sem inneignin eykst í séreignarsjóðnum minnkar þörfin á líftryggingunni. Til viðbótar geta sjóðsfélagar valið sér þá tryggingu sem hentar best hverju sinni en eru ekki rígbundnir af að greiða tryggingar í sameignarsjóðunum fyrir eitthvað sem þeir aldrei munu þurfa á að halda.
VIII.
Sem betur fer virðast augu manna vera að opnast fyrir því að lögbundin grunntryggingavernd sé nauðsynleg, því að í samkomulagi því sem ASÍ og VSÍ hafa nýlega gert um áframhald tiltölulega óbreytt fyrirkomulag lífeyriskerfisins og í þeim tillögum sem nú liggja fyrir vegna lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna er gert ráð fyrir að lágmarksréttindi séu fastákveðin en iðgjöldin breytileg. Hér tel ég að sé verið að stíga mikilvægt skref fram á við, en það er ekki verjandi að skylda einstaka launamenn til að greiða í tiltekna lífeyrissjóði sem vitað er fyrirfram að munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Við getum ekki þvingað launamenn til þess að greiða inn í lífeyrissjóði þar sem áfallin réttindi eru skert ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum. Samtryggingin við slíkar kringumstæður er lítils virði. Launamennirnir hafa í raun engu getað treyst. Á undanförnum árum hafa lífeyrissjóðirnir verið að skera niður barnalífeyri og makalífeyri, réttindi sem greiðendur í lífeyrissjóðina töldu sig vera að
afla sér. Þeir treystu á réttindin í framtíðinni og töldu að þau væru hlutur af samtryggingakerfi sjóðanna.
IX.
Stjórnir lífeyrissjóðanna gæta mikilla hagsmuna mjög margra aðila og því skiptir miklu fyrir sjóðsfélagana og reyndar þjóðfélagið allt að vel sé með þessa hagsmuni farið. Því er nauðsynlegt að hagsmunaaðilarnir, launamennirnir, velji sjálfir þá sem stjórna eiga sjóðunum. Það virðist staðreynd að áhrif sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna á stjórnun þeirra og rekstur er takmarkaður. Þannig hafa sjóðsfélagarnir oftast ekki beina aðild að aðalfundi eða fulltrúaráði heldur eru tilteknir aðalfundarfulltrúar kosnir sérstaklega til setu á aðalfundi eða stjórnir aðila vinnumarkaðarins tilnefna beint aðila í stjórn lífeyrissjóðanna.
Hér er um óeðlilega tilhögun að ræða sem hefur leitt m.a. til þess að sjóðsfélagarnir hafa lítinn áhuga á réttindum sínum og hagsmunum í tilteknum sjóðum eða lífeyrissjóðsþátttöku yfirleitt þrátt fyrir skylduaðild lögum samkvæmt. Nauðsynlegt er að hver sjóðsfélagi geti átt þess kost að kynna sér að eigin raun málefni sjóðsins milliliðalaust. Það er því nauðsynlegt að virkja hvern sjóðsfélaga til vitundar um réttindi sín og skyldur. Það verður best gert með beinni þátttöku sjóðsfélaga í aðalfundi þar sem sjóðsfélagar geta komið skoðunum sínum á framfæri og beitt afli sínu með atkvæðisrétti sínum. Þannig munu sjóðsfélagarnir ennfremur veita stjórnum lífeyrissjóðanna nauðsynlegt aðhald í ákvarðanatöku um málefni sjóðanna.
X.
Ég legg áherslu á að sjóðssöfnun í lífeyriskerfinu er mjög mikilvæg. Sjóðssöfnun í gegnum lífeyriskerfið stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði og styrkir efnahagslíf þjóðarinnar. Íslenska lífeyriskerfið mun stækka mikið á komandi árum og er ekki fjarri lagi að það geti orðið um 1,5 sinnum stærra en nemur árlegri landsframleiðslu Íslendinga. Vöxtur í lífeyriskerfinu hefur átt mikinn þátt í eflingu fjármagnsmarkaðar hérlendis og bætt framboð á langtímafjármagni. Líklegt má telja að stór hluti ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða á næstu árum muni fara í kaup á erlendum verðbréfum. Því er spáð að lífeyriskerfið muni eiga um 35 milljarða í erlendum verðbréfum um aldamót.
Ágætu aðalfundarfulltrúar.
Ég hef reynt í þessu ávarpi mínu að gera sem gleggsta grein fyrir þeim fyrirhuguðu breytingum sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir á íslenskum fjármálamarkaði. En það kunna einhverjir að spyrja, hvað kemur það tryggingafélögunum við? Íslensku tryggingafélögin eru stór, sterk og öflug fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þau gegna í dag mikilvægu hlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Hlutverk þeirra mun aukast í framtíðinni, nái þær skipulagsbreytingar fram að ganga sem ég hef hér verið að lýsa.
Samkeppnin mun fara vaxandi. Sú samkeppni mun bæði koma að innan og að utan. Við þurfum því að vera í stakk búin til þess að mæta vaxandi samkeppni og í þeim róttæku skipulagsbreytingum sem ég sé að framundan eru þá er ég sannfærður um að tryggingafélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Ég er sannfærður um að með auknu valfrelsi í lífeyriskerfinu þar sem launamaðurinn getur valið milli séreignarsjóða og sameignarsjóða og því að sjóðirnir þurfa að keppa um að bjóða bestu ávöxtunina og lægstan rekstrarkostnað, þannig byggjum við upp öruggusta og besta lífeyriskerfið.
Hafið þið hins vegar búist við því, ágætu aðalfundarfulltrúar, að ég fjallaði hér einungis um iðgjöld og tryggingasjóði, þá er því fljótsvarað. Iðgjöldin eru of há fyrir þá sem þau þurfa að greiða og tryggingasjóðirnir eru of miklir fyrir þá sem ekki ná í þá.
Ég þakka áheyrnina