Ræða ráðherra á ársfundi Orkustofnunar, 21. mars 1996.
Ágætu ársfundargestir.
Bjartara er framundan í efnahagslífinu en um langt skeið. Tveggja áratuga kyrrstaða í orkumálum og erlendri fjárfestingu var rofin með samningnum um stækkun álversins í Straumsvík. Stóriðjufyrirtækin eru rekin með nokkrum hagnaði og samkeppnisstaða atvinnulífsins gagnvart erlendum keppinautum hefur stórbatnað með raungengi í sögulegu lágmarki og meiri stöðugleika en íslenskt atvinnulíf hefur búið við um áratugaskeið.
Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur verið ákaflega lítil. Á árinu 1994 nam bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi 351 milljónir króna og árið 1995 var hún 477 milljónir króna. Þetta eru ekki háar tölur. Með samningum um stækkun ÍSAL sl. haust var rofin áratuga kyrrstaða í erlendri fjárfestingu hér á landi og tryggð veruleg erlend fjárfesting á þessu ári og því næsta. Fjárfesting vegna álversframkvæmdanna er talin verða um 16,5 milljarðar króna, þar af eru um 14 milljarðar vegna álversins og um 2,5 milljarðar vegna raforkuframkvæmda. Ársverk vegna framkvæmdanna verða alls um 750 til 800. Hagvöxtur er talinn aukast um 0,7% á þessu ári af þessum sökum.
Það sem helst er á döfinni um þessar mundir í orkufrekum iðnaði er, auk stækkunar álversins í Straumsvík, viðræður við Columbia Aluminium um álver á Grundartanga en þær voru komnar langt áleiðis þegar skyndilega kom upp ágreiningur milli eigenda fyrirtækisins sem valda mun frestun á ákvörðun. Hugmyndir eru um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga um 60% og ákvað stjórn fyrirtækisins í síðasta mánuði að verja 50 M.kr. til frekari tæknilegs undirbúnings. Ríkið mun, sem 55% eignaraðili, leggja áherslu á stækkunina en hún mun auka hagkvæmni rekstrar verulega. Þá má nefna áhuga kínverskra aðila á að reisa hér lítið álver með 30-40 þúsund tonna framleiðslugetu. Íslensk viðræðunefnd fer til Kína í næsta mánuði til að halda áfram viðræðum.
Loks nefni ég áframhaldandi viðræður við Atlantálshópinn um álver á Keilisnesi. Í síðustu viku var undirrituð samstarfsyfirlýsing Atlantálshópsins, ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Vatnsleysustrandarhrepps um að endurskoða fyrri áætlanir um byggingu álvers á Keilisnesi. Ég hef lagt áherslu á að aðilar nái fljótt niðurstöðu um hvort fýsilegt sé að ráðast í nýtt álver og vænti ég fyrstu niðurstöðu eftir 4-6 mánuði. Verði sú niðurstaða jákvæð eru aðilar sammála um að ljúka undirbúningi á fyrsta ársfjórðungi 1997.
Í áætlunum frá árinu 1991 um þjóðhagsleg áhrif framkvæmda við Atlansálsálverið og virkjanir var gert ráð fyrir að samanlögð fjárfesting yrði nálega 100 milljarðar króna. Talið var að landsframleiðslan yrði um 1% meiri en ella árið 1992 og að munurinn yrði enn meiri árin 1993 og 1994. Það hafði því mikil áhrif á þjóðarhag þegar ákvörðun um framkvæmdir var slegið á frest í nóvember 1991.
Þó að ljóst sé að áhugi erlendra aðila á samstarfi á sviði orkufreks iðnaðar sé meiri nú en verið hefur um langt skeið, þá vil ég í ljósi reynslunnar vara við of miklum væntingum um nýjar framkvæmdir á þessu sviði.
Árangur sá sem náðst hefur við að kynna Ísland sem fjárfestingarkost hefur fyrst og fremst tengst ákveðnum verkefnum sem undirbúin hafa verið af íslenskum aðilum. Þetta á bæði við um stækkun ISAL og álver á Grundartanga, en Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar hafði í báðum tilvikum unnið frumhagkvæmniáætlanir. Sama á við um hugsanlega stækkun Járnblendiverksmiðjunnar.
Hagvöxtur hefur verið að aukast síðustu tvö ár og Þjóðhagsstofnun spáir 3% hagvexti á þessu ári og að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð, eða jafnvel heldur lægri, en í helstu samkeppnislöndum okkar, afgangur er í viðskiptum við útlönd, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuleysi fer nú minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. Við þessar aðstæður er kjörið að takast á við þann mikla halla sem verið hefur á ríkissjóði á undanförnum árum. Það er því eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að það verði m.a. gert með nýskipan í ríkisrekstri, t.d. með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum, breyttu launakerfi og aukinni ábyrgð stjórnenda.
Í ljósi þessa hefur ríkisstjórnin samþykkt stefnu sem m.a. felur í sér að náð verður fram rekstrarhagræðingu með sameiningu stofnana ríkisins og með því að ríkið leggi niður starfsemi sem unnt er að fá á almennum markaði. Áhrifa þessa mun gæta í starfsemi allra fyrirtækja og stofnana ríkisins, þar á meðal Orkustofnunar.
Í september sl. skipaði ég nefnd til að endurskoða starfsemi Orkustofnunar og Iðntæknistofnunar. Í tillögum nefndarinnar, sem mér hafa nýlega borist, er ekki gert ráð fyrir breytingum á því meginverkefni Orkustofnunar að annast yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra. Sú breyting verði þó gerð að vinna við rannsóknarverkefni, sem nú eru unnin af stofnuninni með eigin starfsfólki, verði framvegis boðin út eða keypt á almennum markaði eftir því sem frekast er unnt. Lagt er til að Orkustofnun taki virkari þátt í orkupólitískri stefnumótun og leggi aukna áherslu á almennar rannsóknir og þróunarverkefni varðandi nýtingu orkulinda þjóðarinnar. Jafnframt er í tillögunum gert ráð fyrir að stofnunin varðveiti áfram og viðhaldi gagnagrunnum um orkulindirnar og fái nýtt hlutverk sem verkkaupi fyrir ríkið við öflun grundvallarupplýsinga.
Í tillögum nefndarinnar felst að ríkið mun draga sig út úr ýmiss konar sölu á þjónusturannsóknum til orkufyrirtækja og annarra. Við það kemur upp sú staða að orkufyrirtækin jafnt sem ríkið þurfa að kaupa þessa þjónustu á almennum markaði.
Vatnamælingar Orkustofnunar hafa þó talsverða sérstöðu. Vatnamælingar eru grundvallarrannsóknir sem stunda þarf í tugi ára til að fá áreiðanlegar rennslisraðir til að meta orkuvinnslugetu fallvatnanna. Sama á hugsanlega við um vissa þætti á jarðhitasviði.
Á fundum um tillögur nefndarinnar sem ég hef átt með nokkrum forstöðumönnum orkufyrirtækja kom fram vilji hjá þeim, um að vatnamælingum og starfsemi á jarðhitasviði, sem ekki er með góðu móti unnt að setja á almennan markað, verði haldið saman í nýju hlutafélagi sem ríkið og orkufyrirtækin stæðu að. Hlutafélagið hefði fyrst og fremst þann tilgang að viðhalda samstæðri rannsóknarheild sem veitt gæti ríkinu og orkufyrirtækjunum nauðsynlega þjónustu við rannsóknir á innlendum orkulindum og sem lagt gæti grunn að útflutningi á þeirri sérfræðiþekkingu og reynslu sem starfsmenn Orkustofnunar og orkufyrirtækjanna búa yfir. Hlutafélag með orkufyrirtækin að bakhjarli mundi skapa ný og betri skilyrði til sóknar erlendis á þessu sviði og ég trúi því að slíkt félag muni jafnframt skapa sóknarfæri fyrir þá sem vilja leita erlendra verkefna á orkusviði.
Viðræður við orkufyrirtækin standa yfir og er markmið þeirra að ná sammælum um stofnun hlutafélags með aðild orkufyrirtækja, ríkisins og annarra sem telja sér hag af þátttöku í því. Fulltrúi starfsmannafélags Orkustofnunar tekur virkan þátt í þessum viðræðum og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum stofnunarinnar fyrir ágæta fundi sem og tillögur sem þeir hafa sent ráðuneytinu. Ég legg á það áherslu að orkufyrirtækin þurfa að koma að stofnun félagsins með öflugum hætti. Ríkið mun ekki standi að því eitt, eða með mikilli meirihlutaeign. Náist ekki viðunandi samstaða um félagsstofnunina í þessum mánuði þá blasir við að ríkið verði að draga sig út úr umræddri rannsókna- og þjónustustarfsemi.
Auk þess að endurskoða starfsemi stofnana sem heyra undir ráðuneytið til að ná fram nauðsynlegri rekstrarhagræðingu og auka sveigjanleika í starfsemi stofnananna tel ég brýnt að endurskoða orkulöggjöfina í heild sinni, þar með talin sérlög sem gilda um nokkur orkufyrirtæki. Orkulöggjöfin er að stofni til frá miðjum sjöunda áratugnum. Aðstæður þá voru verulega frábrugðnar því sem nú er. Meirihluti landsmanna hitaði hús sín með olíu, raforkuver landsins voru ekki samtengd, unnið var að rafvæðingu sveitanna og svo mætti áfram telja. Markmið þessarar endurskoðunar á að vera fernskonar:
- að auka hagkvæmni á orkusviðinu,
- að auka samkeppni en jafnframt stuðla að jöfnun orkuverðs,
- að tryggja gæði þjónustu og afhendingaröryggi,
- að auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda.
Ég hef ákveðið að skipa ráðgjafarnefnd til að vera ráðuneytinu til ráðuneytis við endurskoðun á orkulöggjöfinni. Ég óskaði í lok síðasta árs eftir tilnefningum frá fjölmörgum aðilum í nefndina, bæði hagsmunaaðilum og stjórnmálaflokkum. Nefndin verður skipuð á næstu dögum og ég legg áherslu á að hún ljúki störfum fyrir næsta haust.
Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um endurskoðun orkulaganna hér, enda hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um hvaða breytingar eigi að gera á lögunum. Ef svo væri þyrfti ekki að skipa ráðgjafarnefnd. Ég tel að nefndin eigi að hafi rúman ramma til að starfa eftir.
Ég vil þó nota þetta tækifæri til að fara nokkrum orðum um þetta mál. Ég tel að færa þurfi lögin til nútímalegra horfs og að þau þurfi að vera gott og öflugt tæki til að koma í framkvæmd stefnu stjórnvalda svo sem um nýskipan í ríkisrekstri, meiri samkeppni og aukna nýtingu orkulindanna til atvinnusköpunar. Lögin þurfa að horfa til langs tíma og vera sveigjanleg. Þau þurfa jafnframt að taka mið af nýskipan orkumála í heiminum, aukinni áherslu á að nýta endurnýjanlegar orkulindir og draga þannig úr losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda og loks alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.
Ég tel að orkufyrirtækin eigi almennt að starfa eftir sömu grundvallarreglum og önnur fyrirtæki og við svipuð starfsskilyrði. Stjórnendur fyrirtækjanna og stjórnir þurfa að axla aukna ábyrgð um leið og þau fá meira sjálfstæði. Ég tel að lykillinn að aukinni skilvirkni sé meiri samkeppni bæði í orkuvinnslu og orkusölu. Mér er ljóst að erfitt er að koma við beinni samkeppni milli hitaveitna, enda eru þær staðbundnar. Öðru máli gildir um raforkuna, jafnvel þó svo að eitt fyrirtæki, Landsvirkjun, framleiði yfirgnæfandi hluta raforkunnar eða um 93%. Ég tel aðgreiningu raforkukerfisins milli orkuframleiðslu, orkuflutnings og orkudreifingar mjög áhugaverða. Í því sambandi tel ég að skoða þurfi hvort heppilegt sé að kljúfa meginflutningskerfið frá vinnslunni, annað hvort bókhaldslega eða með stofnun nýs fyrirtækis, þannig að allir eigi jafnan möguleika á að selja inn á netið. Með því móti yrði unnt að koma á samkeppni í raforkuvinnslunni. Ég tel jafnframt rétt að kanna hvort heppilegt sé að kljúfa hluta af aðveitu- o
g jafnvel dreifikerfinu frá orkusölu rafveitnanna til að koma á meiri samkeppni í orkusölu til endanlegra notenda.
Í lok síðast liðins árs skipaði ég nefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna til að undirbúa löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna. Ég tel að nú séu að skapast forsendur til þess að ná pólitískri samstöðu um skipan þessara mála, en eignarréttindi á auðlindum hafa verið tilefni deilna alla þessa öld. Það er sérstaklega mikilvægt að settar verði skýrar reglur um meðferð og eignarrétt þessara auðlinda nú þar sem fyrir liggur að okkur ber að fella úr gildi takmarkanir á heimildum aðila innan EES-svæðisins til að eiga virkjunarréttindi og jarðhita sem og stunda orkuvinnslu eða orkudreifingu hér á landi. Tillögur þar að lútandi hafa verið lagðar fyrir Alþingi með frumvarpi um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
Löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna á að mínu mati að tryggja sem hagkvæmasta og greiðlegasta nýtingu auðlindanna, án þess þó að gengið verði á eignarrétt landeigenda. Einnig er að mínu mati nauðsynlegt að greiða fyrir því að niðurstaða fáist um inntak eignarheimilda á einstökum afréttarsvæðum.
Ágætu ársfundargestir.
Ég hef hér farið nokkrum orðum um þær breytingar sem ég tel að þurfi að gera á skipan orkurannsókna og orkumála í landinu. Ég minnti á að orkulöggjöfin sem nú er um þriggja áratuga gömul var sett við allt aðrar aðstæður í orkumálum, en við búum við í dag. Nú eiga nánast allir landsmenn aðgang að innlendri orku, einkum jarðvarma, til að hita híbýli sín, raforkukerfið er samtengt og nær nánast til allra bæja sem í byggð eru í landinu. Hlutur endurnýjanlegra orkulinda í orkubúskapnum er meiri hér en í nokkru öðru ríki og svo mætti áfram telja. Orkustofnun og orkumálastjóri, Jakob Björnsson, með starfsfólki sínu eiga stóran hlut í að þetta hefur tekist svo vel sem raun ber vitni.
Ég vil að endingu þakka gott samstarf við stjórn stofnunarinnar, orkumálastjóra og starfsfólk stofnunarinnar. Ég tel brýnt að efla starf í þessu sambandi og að myndað verði sterkt eignarhaldsfélag, hugsanlega í samstarfi við lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta, til að taka aukið fjárhagslegt frumkvæði að nýjum verkefnum. Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að leggja mætti eignarhluti ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu, Sementsverksmiðjunni, Steinullarverksmiðjunni og Kísiliðjunni til slíks félags. Hlutverk þess yrði að kanna möguleika á alls kyns nýiðnaði, að kynna þá hugsanlegum fjárfestum, vinna að undirbúningi iðnfyrirtækja og loks leggja fram hluta hlutafjár til að greiða fyrir stofnun slíkra fyrirtækja. Ef eignarhlutur ríkissjóðs í áðurgreindum hlutafélögum yrði lagður til félagsins hefði það frá upphafi burði til að vinna að þessum verkefnum. Í því sambandi má nefna að nafnvirði hlutafjár ríkisins í þessum fyrirtækjum var um 1.670 m.kr. í árslok 1995. Fyrirtækin voru öll rekin með hagnaði á
síðastliðnu ári og var hann samtals um 650 m.kr. Hlutur ríkissjóðs í hagnaðinum var rúmlega 350 m.kr., sem jafngildir 21% arðsemi hlutafjár