Ræða á ársfundi Seðlabanka Íslands, 28. mars 1996.
I.
Ágætu ársfundargestir.
Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Þannig jókst landsframleiðsla um 2% á síðasta ári og því er spáð að hún muni aukast um 3% á þessu ári og að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð eða jafnvel heldur lægri en í helstu samkeppnislöndum okkar, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuleysi fer nú minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. Við þessar aðstæður er kjörið að takast á við þann mikla halla sem verið hefur á ríkissjóði á undanförnum árum.
Ríkisstjórnin telur það vera eitt brýnasta verkefni sitt að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og að því er stefnt á árinu 1997. Við það mun draga úr lánsfjáreftirspurn ríkisins og svigrúm skapast til enn frekari vaxtalækkunar, aukinnar fjárfestingar og hagvaxtar. Það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að halda áfram þannig á málum að hagvöxtur aukist jafnhliða því að tryggður sé áframhaldandi stöðugleiki.
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur hlotið viðurkenningu hins virta bandaríska matsfyrirtækis Standard & Poor}s, því að fyrir skömmu bárust þau góðu tíðindi að fyrirtækið hefði hækkað mat sitt á lánshæfi Íslands. Ísland fær nú hæstu einkunn sem gefin er fyrir erlend skammtímalán. Einkunn sú sem landið fær fyrir innlend langtímalán lýsir einnig mjög mikilli getu til að greiða vexti og endurgreiða höfuðstól. Þessi hækkun á lánshæfismati endurspeglar bætta hagstjórn. Standard & Poor}s bendir á að bætt hagstjórn ásamt styrkri stjórn á auðlindum sjávar geri þjóðarbúskapinn síður viðkvæman fyrir ytri áföllum og að aukinn sveigjanleiki í ríkisfjármálum og peningamálum ætti að draga úr háu hlutfalli erlendra skulda opinberra aðila og leggja um leið grunn að stöðugri hagvexti í framtíðinni.
Hið nýja lánshæfismat er nú þegar farið að hafa áhrif til lækkunar vaxta. Ríkissjóður tók nú nýverið lán í þýskum mörkum og voru lánskjörin þau bestu sem íslenska ríkið hefur fengið á sambærilegum útboðum erlendis til þessa. Þetta sýnir vel það traust sem borið er til efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Vextir innanlands hafa farið lækkandi undanfarnar vikur, enda var slíks að vænta í ljósi efnahagsskilyrða. Vaxtamunur hérlendis og erlendis er þó enn meiri en efnahagsaðstæður gefa tilefni til. Því má vænta að verulega dragi úr þessum mun á næstunni.
Þó að sjálfsagt sé að gleðjast yfir góðum árangri þá má hvergi slaka á klónni. Standard & Poor}s tekur fram í áliti sínu að lánshæfiseinkunn Íslands séu settar skorður af víðtækri þátttöku hins opinbera í efnahagslífinu, einkum í fjármálalífinu. Það er mat bandaríska fyrirtækisins að víðtæk þátttaka hins opinbera í fjármálalífinu leiði af sér óhagkvæmar aðferðir við lánsfjárúthlutun.
Ég er mjög sammála þeirri mynd sem Standard og Poor}s dregur upp af íslensku fjármálalífi. Þar er víða pottur brotinn. Eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar er að tryggja að íslenskar fjármálastofnanir aðlagist því viðskiptaumhverfi sem við búum við í dag. Að mínu mati hefur ekki verið hugað nægilega vel að þessu á undanförnum árum þó menn hafi kannski gert sér grein fyrir vandanum.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir róttækum skipulagsbreytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði. Skipulagsbreytingarnar taka í fyrsta lagi til þess að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að breyta rekstrarformi fjárfestingarlánasjóðanna. Í þriðja lagi er stefnt að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið og í fjórða lagi er gert ráð fyrir að starfsgrundvöllur alls lífeyrissjóðakerfis landsmanna verði tekinn til endurskoðunar. Vinna við undirbúning að þessum skipulagsbreytingum er nú hafin og nái þær fram að ganga er líklegast að tiltrú erlendra markaða á íslensku efnahagslífi aukist enn frekar.
II.
Í síðasta mánuði kynnti ríkisstjórnin sjónarmið sín í vaxtamálum fyrir Seðlabanka og ríkisviðskiptabönkunum. Þetta bar nokkurn árangur því bankavextir sem og vextir á verðbréfa- og peningamörkuðum hafa lækkað að undanförnu. Vextir eru þó óvíða hærri en hér á landi. Hærri vextir hér á landi en í löndunum í kringum okkur leiða til lakari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Það er alkunna að háir vextir draga mátt úr fyrirtækjum sem hyggja á fjárfestingu. Fjárfesting var á síðasta ári tæp 16% af landsframleiðslu, sem er um 5 prósentustigum lægra hlutfall en í iðnríkjunum að meðaltali. Lágt fjárfestingarhlutfall er áhyggjuefni því það bendir til þess að þjóðin vanræki að treysta þann grunn sem hagvöxtur framtíðarinnar byggist að hluta til á. Það er því afar brýnt að auka fjárfestingu hér á landi.
Oft hefur verið látið að því liggja að háir vextir hér á landi stafi að miklu leyti af tregðu markaðarins við breytingar í stað þess að þeir endurspegli þjóðhagsleg skilyrði á hverjum tíma. Mikill raunvaxtamunur hérlendis og erlendis við skilyrði frjálsra fjármagnsflutninga og núverandi árferði í íslenskum þjóðarbúskap gæti verið til marks um óskilvirkni hérlends fjármagnsmarkaðar.
Síðastliðið haust skipaði ég starfshóp til að kanna skilvirkni á skuldabréfamarkaði. Starfshópnum er ætlað að draga fram í dagsljósið þær hindranir sem kunna að vera í vegi eðlilegrar þróunar á markaðnum, svo sem varðandi vexti, sýnileika viðskipta, auðseljanleika og áhættumat skuldabréfa. Hópurinn mun skila af sér innan skamms og vænti ég þess að í kjölfarið hefjist vinna við að hrinda ýmsum tillögum hans í framkvæmd.
Þó íslenskur fjármagnsmarkaður sé að mörgu leyti ófullkominn má ekki gleyma því að hann hefur sprottið upp úr engu á örstuttum tíma. Hann hefur ekki fengið áratugi eða árhundruð til þroskast með eðlilegum hætti eins og markaðir landanna í kringum okkur. Fjármagnsmarkaðurinn okkar er enn að slíta barnsskónum. Við verðum að hlúa að honum á hinum erfiðu uppvaxtarárum því skilvirkur fjármagnsmarkaður er öllum framfarasinnuðum þjóðum brýn nauðsyn.
Vera kann að einangrun íslenska fjármagnsmarkaðarins skýri hluta af stirðleika markaðarins. Erlendir fjárfestar þekkja lítt til íslenska markaðarins og setja smæð hans fyrir sig. Tilraunir til að selja erlendum fjárfestum innlend bréf hafa lítinn árangur borið þrátt fyrir góða ávöxtun bréfanna. Eftir að flæði fjármagns var gefið frjálst hefur fjármagn til verðbréfakaupa leitað út en nær ekkert inn. Um síðustu áramót nam verðbréfaeign útlendinga í íslenskum bréfum um 11 milljónum. Þetta er sláandi. Eign útlendinga í íslenskum verðbréfum samsvarar því verðmæti góðrar blokkaríbúðar í Reykjavík. Til samanburðar má geta þess að verðbréfaeign Íslendinga í erlendri mynt var um 13 milljarðar í lok síðasta árs. Því hefur síðan verið spáð að verðbréfaeign lífeyrissjóða í bréfum í erlendri mynt muni nema um 35 milljörðum um aldamót. Fjárstraumar munu því aðeins leita í aðra áttina nema hérlendur fjármagnsmarkaður verði gerður aðgengilegri og áhugaverðari kostur fyrir erlenda fjárfesta.
Síðastliðið haust skipaði ég starfshóp til að kanna möguleika á markaðssetningu innlendra bréfa meðal erlendra fjárfesta. Hópurinn hefur lokið störfum. Hópurinn telur að forsenda fyrir því að takast megi að markaðssetja innlend verðbréf til erlendra fjárfesta sé að innlendur markaður og form verðbréfa svari þeim kröfum sem almennt eru gerðar af hálfu alþjóðlegra fjárfesta.
Erlendir fjárfestar eru almennt ekki kunnugir verðtryggðum bréfum. Þeir setja einnig fyrir sig smæð verðbréfaflokka hér á landi auk þess sem þeir telja að seljanleika bréfanna sé ábótavant. Einnig er erfiðleikum bundið að verjast gengisáhættu, enda hafa ekki þróast hér á landi áhættuvarnir, eða svokallaðar afleiður, í sama mæli og víðast hvar annars staðar. Hópurinn bendir einnig á nauðsyn þess að sníða af ýmsa tæknilega vankanta á verðbréfaviðskiptum hér á landi, svo sem varðandi skráningu, uppgjör og vörslu verðbréfa.
Enn vantar talsvert upp á að innviðir fjármagnsmarkaðar og skipuleg meðferð verðbréfa sé með sama hætti hér á landi og tíðkast á grónum mörkuðum erlendis. Stofnun verðbréfamiðstöðvar og breyting yfir í pappírslaus viðskipti með stöðluð verðbréf er mjög mikilvæg til að koma á æskilegum úrbótum í þessum efnum. Að þessu er nú þegar unnið. Jafnframt er skipulega unnið að því að bæta viðskiptavakt og fækka og stækka verðbréfaflokka. Búast má við að á næstu tveimur árum takist að sníða ýmsa vankanta af verðbréfamarkaðnum þannig að hann verði gildari á alþjóðavettvangi.
III.
Þær skipulagsumbætur á fjármagnsmarkaði, sem ríkisstjórnin fyrirhugar, eiga að stuðla að aukinni hagkvæmni, greiðari aðgangi að fjármagni og lægri vöxtum. Umskiptin gegna mikilvægu hlutverki í því að aðlaga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að breyttum aðstæðum. Á þessum sviðum sem öðrum verður að gæta þess að löggjöfin hamli ekki framþróun íslensks atvinnulífs og íslensk fyrirtæki búi ekki við lakari kjör en erlendir keppinautar. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar allt viðskiptaumhverfið er orðið alþjóðlegra en áður og íslensk fyrirtæki þurfa í auknum mæli að keppa við erlenda aðila um hvers konar viðskipti hér á landi.
Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á, skipan sem einkennist af ríkisviðskiptabönkum og nokkrum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins. Þá var íslenskur fjármagnsmarkaður veikburða. Sífelldur skortur var á lánsfé og fáum stóð fyrirgreiðsla erlendra lánastofnana til boða. Þetta hefur gerbreyst. Því er rökrétt að endurskoða skipulag og starfsemi allra fjármagnsfyrirtækja í eigu ríkisins.
IV.
Hlutafélagavæðing ríkisviðskiptabankanna hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Ekki er ljóst á þessu stigi hvort lög um formbreytingu bankanna verða afgreidd á yfirstandandi þingi, þó enn sé stefnt að því. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að formbreytingin eigi sér stað um næstu áramót.
Ég er þeirrar skoðunar að eftir fyrirhugaða formbreytingu eigi að auka hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum, bjóða það út á almennum markaði þannig að með þeim hætti komi nýir aðilar inn sem eigendur að bönkunum ásamt ríkinu. Þannig yrði eiginfjárstaða bankanna styrkt og bankarnir yrðu betur í stakk búnir að mæta aukinni samkeppni. Ríkisviðskiptabankarnir þurfa á auknu eigin fé að halda. Ef hins vegar væri farin sú leið að selja eignarhluti ríkisins er aftur á móti ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna heldur er einungis verið að skipta um eigendur á eignarhlutunum.
V.
Einnig er stefnt að því að breyta formi og skipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Það er brýnt að standa undir áhættufjármögnun til raunverulegrar nýsköpunar í því skyni að stuðla að framfarasókn í íslensku efnahags- og atvinnulífi og fjölga arðbærum störfum. Nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna er því eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar.
Það er skoðun mín að sameina eigi Fiskveiðisjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð og að á grunni þeirra eigi að stofna nýjan fjárfestingarbanka er hafi það hlutverk að veita atvinnulífinu almenna fyrirgreiðslu varðandi langtímalán. Til álita kemur að fleiri opinberir lánasjóðir komi að myndun fjárfestingarbankans. Ráðgert er að sú áhættufjármögnun sem nú fer fram í sjóðunum þremur verði sameinuð og efld í sérstökum nýsköpunarsjóði. Til að tryggja nýsköpunarsjóðnum nægilega fjármuni njóti hann arðs af hluta af eigin fé sjóðanna þriggja auk arðs af hluta af hlutafé fjárfestingarbankans. Að öðru leyti verði bankinn í upphafi hlutafélag í eigu ríkisins en það hlutafé selt um leið og markaðsaðstæður leyfa. Aðkoma atvinnuveganna verður tryggð að nýsköpunarsjóðnum og um leið áhrif þeirra á mótun fjárfestingarbankans. Atvinnulífið mun síðan að sjálfsögðu hafa þau áhrif sem það kýs með því að eignast hlut í bankanum.
Markmiðið með þessum breytingum er að skapa fjárhagslegar traustar heildir og draga úr eða afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum. Atvinnulífið tvinnast æ meira saman. Hlutföll milli atvinnugreina eru sífelldum breytingum háð og nýjar atvinnugreinar skjóta rótum sem falla illa inn í fyrra mynstur. Skipulag fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna má ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar breytingar í efnahagslífinu. Nýskipan á þessu sviði verður þó að hafa eðlilegan aðdraganda og að mörgu er þar að hyggja, ekki hvað síst trausti innlendra og erlendra lánardrottna sjóðanna.
VI.
Áform eru uppi um að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið. Þar yrði í raun um hefðbundna lánastarfsemi að ræða sem óþarft er að sinnt sé af sérstakri ríkisstofnun. Núverandi húsnæðislánakerfi er íþyngjandi fyrir ríkissjóð og hinar miklu ríkisábyrgðir hafa neikvæð áhrif á lánstraust ríkissjóðs. Núverandi kerfi skortir sveigjanleika og töluvert vantar á að allir njóti fullnægjandi fyrirgreiðslu.
VII.
Árið 1969 var lagður grunnurinn að því skipulagi í lífeyrismálum sem við búum við enn þann dag í dag. Á þessum 25 árum hefur mönnum ekki auðnast að ná samstöðu um heildstæða löggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu ef frá er talin löggjöf frá árinu 1991. Sú löggjöf gerir ekki annað en leggja þá skyldu á stjórn lífeyrissjóðanna að sjá til þess að samdir og endurskoðaðir séu ársreikningar fyrir lífeyrissjóði og að slíkum endurskoðuðum reikningum sé skilað til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Annað segir þessi löggjöf ekki. En á þessum árum hafa eignir lífeyrissjóðanna vaxið með miklum hraða. Um síðustu áramót voru eignir lífeyrissjóða 262 milljarðar, eignir bankakerfisins 228 milljarðar og eignir verðbréfasjóða 15 milljarðar. Því hefur verið spáð að eignir lífeyrissjóðanna muni nema um 400 milljörðum um aldamótin og verði þá langstærsti hluti lánakerfisins.
Lífeyriskerfið er nú stærra en bankakerfið og verðbréfasjóðir til samans. Ríkar kröfur eru gerðar til verðbréfafyrirtækja, banka og sparisjóða um ársreikninga, ársuppgjör, endurskoðun, hæfni stjórnenda, eiginfjárkröfur og þannig mætti lengi telja. Það getur því ekki talist eðlilegt, né verjandi að stærsti hluti fjármagnsmarkaðarins lúti engum slíkum reglum né kröfum og ekki síst þegar það er haft í huga að lífeyrissjóðirnir hafa einkarétt á því að varðveita lífeyrissparnað landsmanna þar sem launamennirnir eru skyldaðir til að greiða til ákveðinna lífeyrissjóða. Það hlýtur því að teljast eðlileg og sjálfsögð varúðarráðstöfun fyrir launþega, sem treysta á greiðslur úr lífeyrissjóðum í ellinni, að starfsemi lífeyrissjóða lúti virku eftirliti Bankaeftirlitsins og að sjóðirnir fjárfesti í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á opinberum verðbréfamarkaði.
Að mínu mati er orðið löngu tímabært að sett verði almenn lög um starfsemi lífeyrissjóðanna, þar sem gerðar verði sambærilegar kröfur til lífeyrissjóða og annarra fjármálastofnana í landinu. Jafnframt því verði sett lög um stöðu og hlutverk séreignasjóða lífeyrisréttinda þar sem launafólki verði heimilað að greiða hluta lífeyrissjóðsiðgjalds í slíka sjóði að eigin vali.
Ríkisstjórnin er nú með í heildarendurskoðun allt lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Sú endurskoðun miðar ekki að því að leggja niður lífeyrissjóðina heldur að því að treysta þá, auka hagkvæmina og samkeppnina milli þeirra. Það er orðið brýnt að skapa samstöðu á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um nauðsynlegar og óumflýjanlegar breytingar á lífeyriskerfi landsmanna.
VIII.
Það er víðtæk samstaða um skylduaðild að lífeyriskerfinu, þar sem ella væri ekki víst að launamaðurinn legði til hliðar hluta launa sinna til efri áranna. Í því felst auðvitað ákveðin forsjárhyggja af hálfu ríkisins en það verður að hafa í huga að langtímahagsmunir samfélagsins eru best tryggðir með skylduaðild að lífeyriskerfinu sem leggur grunninn að langtímasparnaði í landinu og kemur í veg fyrir stórkostleg útgjöld ríkisins í framtíðinni.
Skylduaðildin þarf ekki að þýða skylduaðild að ákveðnum lífeyrissjóði. Þar á einstaklingurinn að geta valið um hvort hann vill greiða inn í hið hefðbundna lífeyrissjóðakerfi sameignarsjóðanna eða inn í séreignarsjóð lífeyrisréttinda. Með því að greiða í séreignarsjóð lífeyrisréttinda og kaupa um leið lífeyristryggingu hjá tryggingafélagi geta sjóðsfélagar greitt í séreignarsjóð og notið sambærilegra trygginga og jafnvel betri en sjóðsfélagar í núverandi sameignarsjóðum njóta. Með þessu móti vita sjóðsfélagar nákvæmlega hversu hátt hlutfall iðgjalda fer í eftirlaunasjóð annars vegar og tryggingar hins vegar. Þeir vita nákvæmlega hvað hver trygging kostar og hver inneign þeirra er í séreignarsjóðum á hverjum tíma.
Allir eru vonandi sammála um að lögbundin grunntryggingavernd sé óhjákvæmileg. Í samkomulagi því sem ASÍ og VSÍ hafa nýlega gert sín á milli um óbreytt fyrirkomulag lífeyriskerfisins er gert ráð fyrir að lágmarksréttindi séu fastákveðin en iðgjöldin breytileg. Hér tel ég að sé verið að stíga mikilvægt skref fram á við, en það er ekki verjandi að skylda einstaka launamenn til að greiða í tiltekna lífeyrissjóði sem vitað er fyrirfram að munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Við getum ekki þvingað launamenn til þess að greiða inn í lífeyrissjóði þar sem áfallin réttindi eru skert ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum.
IX.
Ég legg áherslu á að sjóðssöfnun í lífeyriskerfinu er mjög mikilvæg. Sjóðssöfnun í gegnum lífeyriskerfið stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði og styrkir efnahagslíf þjóðarinnar. Íslenska lífeyriskerfið mun stækka mikið á komandi árum og er ekki fjarri lagi að það geti orðið um 1,5 sinnum stærra en nemur árlegri landsframleiðslu Íslendinga. Vöxtur í lífeyriskerfinu hefur átt mikinn þátt í eflingu fjármagnsmarkaðar hérlendis. Líklegt má telja að stór hluti ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða á næstu árum muni fara í kaup á erlendum verðbréfum. Stjórnir lífeyrissjóðanna gæta mikilla hagsmuna mjög margra aðila og því skiptir miklu fyrir sjóðsfélagana og reyndar þjóðfélagið allt að vel sé með þessa hagsmuni farið. Því er nauðsynlegt að hagsmunaaðilarnir, þar með taldir launamennirnir, velji sjálfir þá sem stjórna eiga sjóðunum. Það virðist staðreynd að áhrif sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna á stjórnun þeirra og rekstur eru takmörkuð. Þannig hafa sjóðsfélagarnir sjaldnast beina aðild að aðalfundi eða fulltrúaráði heldur
eru tilteknir aðalfundarfulltrúar kosnir sérstaklega til setu á aðalfundi eða stjórnir aðila vinnumarkaðarins tilnefna beint aðila í stjórn lífeyrissjóðanna.
Hér er um óeðlilega tilhögun að ræða sem hefur meðal annars leitt til þess að sjóðsfélagarnir hafa lítinn áhuga á réttindum sínum og hagsmunum í tilteknum sjóðum eða lífeyrissjóðsþátttöku yfirleitt þrátt fyrir skylduaðild lögum samkvæmt. Nauðsynlegt er að hver sjóðsfélagi geti átt þess kost að kynna sér að eigin raun málefni sjóðsins milliliðalaust. Það er því nauðsynlegt að virkja hvern sjóðsfélaga til vitundar um réttindi sín og skyldur. Það verður best gert með beinni þátttöku sjóðsfélaga í aðalfundi þar sem sjóðsfélagar geta komið skoðunum sínum á framfæri og beitt afli sínu með atkvæðisrétti sínum. Þannig munu sjóðsfélagarnir ennfremur veita stjórnum lífeyrissjóðanna nauðsynlegt aðhald í ákvarðanatöku um málefni sjóðanna.
X.
Ég vil í lokin geta þess að ég hef ákveðið að skipa nefnd til endurskoðunar á eftirliti með fjármálastofnunum. Þeirri nefnd er ætlað að taka til skoðunar með heildstæðum hætti hvernig eftirliti með fjármálastofnunum verði best háttað í framtíðinni, hvernig hagsmunir viðskiptavinanna verði best tryggðir og hvernig traust og trúverðugleiki gagnvart innlendum og erlendum aðilum verði best tryggður. Á grundvelli þeirrar skoðunar verði síðan hugað að breytingum á löggjöf þar að lútandi. Af hálfu ráðuneytisins mun verða óskað tilnefninga í nefndina á næstu dögum.
XI.
Ágætu ársfundargestir. Eins og þið heyrið hefur ríkisstjórnin fyrirætlanir um róttækar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaðinum til að hann þjóni betur þörfum nútíma atvinnulífs. Ég er sannfærður um nauðsyn þessara skipulagsbreytinga til að fjármagnsmarkaður geti dafnað og þroskast með eðlilegum hætti. Ég vil nota tækifærið og þakka bankaráði, bankastjórum og öðrum starfsmönnum Seðlabankans fyrir gott samstarf. Ég þakka áheyrnina.