Ávarp við setningu ráðstefnu um framtíð iðnaðar, 18. apríl 1996.
I.
Góðir þinggestir.
Bjart er yfir íslenskum iðnaði um þessar mundir. Hann hefur blómstrað við hagstæð ytri skilyrði undanfarin misseri eftir stöðnun áranna 1988 til 1993. Þess bera hagstærðir iðnaðarins glöggt vitni. Velta í iðnaði hefur aukist mjög og markaðshlutdeild íslenskra iðnaðarvara hefur vaxið á ný. Sérstaklega er þó ánægjulegt að sjá mikla sókn iðnaðarins á erlenda markaði. Þannig sýna tölur frá Þjóðhagsstofnun að útflutningur iðnaðarvara, að stóriðju undanskilinni, jókst um tæp 19% að magni á síðasta ári. Á sama tíma dróst útflutningur þjóðarinnar í heild saman um 2% að magni.
Þau efnahagslegu skilyrði sem iðnaðurinn býr við eru sérlega hagstæð um þessar mundir. Hagvöxtur hefur verið vel viðunandi síðustu tvö ár. Þjóðhagsstofnun spáir 3% hagvexti á þessu ári og reiknar með að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð, eða jafnvel heldur lægri, en í helstu samkeppnislöndum okkar, afgangur er í viðskiptum við útlönd, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa fer vaxandi.
II.
Það er mikilvægt að batinn í efnahagslífinu verði nýttur til að stuðla að nauðsynlegum búháttabreytingum í íslensku atvinnulífi og til þess að leggja grunn að enn frekari framfarasókn. Það mun ráða miklu um framtíð þjóðarinnar hvernig til tekst á næstu árum.
Í þessu sambandi er forvitnilegt að velta vöngum yfir því á hvaða sviðum við þurfum að taka okkur á. Í ítarlegri skýrslu World Economic Forum um alþjóðlega samkeppnisstöðu kemur fram að staða Íslands er hin 25 besta af 48 ríkjum. Við erum, sem sagt, um miðjan hóp ríkustu þjóða veraldar. Helstu styrkleikar hagkerfisins eru, samkvæmt þessari skýrslu, fólkið í landinu og innviðir þjóðfélagsins. Ísland fær meðaleinkunn fyrir efnahagslegan styrkleika, stjórnsýslu, stjórnun fyrirtækja og vísindi og tækni. Veikleikar íslensks atvinnulífs eru augljósir við lestur skýrslunnar. Þeir eru alþjóðvæðing og fjármál.
Ísland kemur mjög illa út úr samanburði um alþjóðavæðingu. Einungis örfá ríki hafa minni erlenda fjárfestingu og fjárfesta minna erlendis en við Íslendingar. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að mun minna er um samstarf við erlend fyrirtæki en almennt tíðkast í ríkjunum 48. Einnig er verndarstefna meiri hér á landi en gengur og gerist.
Það er áhyggjuefni hvað Ísland kemur illa út úr þessum samanburði og ljóst að það tekur langan tíma að snúa þessu við. Um þessar mundir er verið að skoða ýmsar hugmyndir um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Nú er lag að auka erlenda fjárfestingu. Á árinu 1994 nam bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi 351 milljónir króna og árið 1995 var hún 477 milljónir króna. Þetta eru ekki háar tölur. Með samningum um stækkun ÍSAL hefur verið tryggð veruleg erlend fjárfesting á þessu ári og því næsta. Fjárfesting vegna álversframkvæmdanna er talin verða um 16,5 milljarðar króna, þar af eru um 14 milljarðar vegna álversins og um 2,5 milljarðar vegna raforkuframkvæmda.
Íslenski fjármagnsmarkaðurinn fær heldur ekki góða dóma í skýrslunni. Sérstaklega fær Ísland slaka einkunn fyrir takmarkaðan aðgang fyrirtækja að áhættufé og lítið sjálfstæði fjármálastofnana. Eins og fram hefur komið í fréttum þá eru miklar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði í burðarliðnum. Ég ætla ekki að fjalla nánar um það hér en fulltrúar ráðuneytisins munu gera betur grein fyrir þessum hugmundum í erindi sínu hér síðar í dag.
III.
Góðir þinggestir. Þó framtíð iðnaðar virðist björt þá má hvergi slaka á klónni. Það skiptir iðnaðinn í landinu höfuðmáli að ríkisstjórninni takist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Gróskan í íslenskum iðnaði í dag er tilkomin vegna dugnaðar iðnrekenda sem létu tækifærið, sem stöðugleikinn gaf þeim, sér ekki úr greipum ganga. Möguleikar iðnaðarins til vaxtar eru gríðarlegir og takmarkast einungis af hugmyndaauðgi þeirra er þar starfa. Þetta þing um framtíð iðnaðar er hið mesta þarfaþing og ég vona að það verði árangursríkt. Þakka ykkur fyrir.