Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. apríl 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Landsvirkjunar, 19. apríl 1996.



Góðir ársfundarfulltrúar.

Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Þannig jókst landsframleiðsla um 2% á síðasta ári og því er spáð að hún muni aukast um 3% á þessu ári og að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð eða jafnvel heldur lægri en í helstu samkeppnislöndum okkar, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuleysi fer nú minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. Þessar aðstæður skapa okkur ný sóknarfæri - ekki hvað síst í orkufrekum iðnaði.

Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur verið ákaflega lítil á undanförnum árum. Á árinu 1994 nam bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri 351 milljón króna og árið 1995 var hún 477 milljónir króna eða um 0.1% af landsframleiðslu. Með samningum um stækkun ÍSAL er erlend fjárfesting tífölduð. Fjárfesting vegna álversframkvæmdanna er talin verða um 16.500 milljónir króna. Þessar framkvæmdir auka hagvöxt um 0,7% á þessu ári. Fyrir Landsvirkjun er stækkunin mjög þýðingarmikil eins og fram hefur komið.

Fjárfesting vegna stækkunar ÍSAL er hins vegar bara tveggja ára verkefni. Því þurfum við að vinna skipulega að því að laða hingað erlenda fjárfestingu í auknum mæli. Í samstarfi iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar í gegnum Markaðsskrifstofu þessara aðila hafa fjölmargir kostir verið kannaðir á sviði orkufreks iðnaðar:

Viðræður við Bandaríska fyrirtækið Columbia Aluminium um álver á Grundartanga en þær voru komnar langt áleiðis þegar skyndilega kom upp ágreiningur milli eigenda fyrirtækisins sem frestar ákvörðun.

Stjórn Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga ákvað í febrúar sl. að verja um 50 m.kr. til tæknilegs undirbúnings að stækkun verksmiðjunnar. Ríkið mun leggja áherslu á stækkunina enda mun hún auka hagkvæmni rekstrar verulega.

Í síðasta mánuði var undirrituð samstarfsyfirlýsing Atlantsálshópsins, ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Vatnsleysustrandarhrepps um að endurskoða fyrri áætlanir um byggingu álvers á Keilisnesi.

Loks má nefna áhuga Kínverja á að reisa hér lítið álver. Íslensk viðræðunefnd fer til Kína á morgun til að halda áfram viðræðum.

Árangur sá sem náðst hefur við að kynna Ísland sem fjárfestingarkost hefur fyrst og fremst tengst ákveðnum verkefnum sem undirbúin hafa verið af íslenskum aðilum og hefur Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar þar gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki.

Það er ljóst að áhugi erlendis á samstarfi á sviði orkufreks iðnaðar er meiri nú en verið hefur um langt skeið. Þetta sjónarmið hefur aðalframkvæmdastjóri OECD sem var hér á landi í þessari viku staðfest. Ég vil þó í ljósi reynslunnar vara við of miklum væntingum. Ég vil jafnframt minna á að við verðum að vinna enn frekar að því að búa í haginn fyrir slíka nýtingu, t.d. með því að stytta framkvæmdatíma við virkjanir.

Í iðnaðarráðuneytinu er nú í samvinnu við orkufyrirtækin, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila unnið að víðtækri endurskoðun á skipan orkumála og löggjöf á því sviði. Þar er margt á döfinni og vil ég hér minnast örlítið á fjögur mál.

Í fyrsta lagi vil ég nefna endurskoðun á lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins. Óvissuástand hefur ríkt í rafmagnseftirlitsmálum um nokkurt skeið vegna óskýrrar verkaskiptingar. Nauðsynlegt er að ábyrgð þeirra sem að þessum málum koma verði lögfest og viðunandi rafmagnsöryggi tryggt til frambúðar. Nefnd sú sem ég skipaði til að vinna að þessum málum hefur skilað af sér tillögum. Annars vegar er um að ræða tillögu sem tekur á framkvæmd og fyrirkomulagi rafmagnseftirlits. Hins vegar er tillaga sem gerir ráð fyrir að Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan verði sameinaðar í eina stofnun.

Í öðru lagi nefni ég framtíðarskipan orkurannsókna. Í september sl. skipaði ég nefnd til að endurskoða starfsemi Orkustofnunar og Iðntæknistofnunar. Nefndin lagði til að Orkustofnun beri áfram ábyrgð á öflun grundvallarupplýsinga um orkulindirnar, en að vinna við rannsókna- og þjónustuverkefni verði framvegis boðin út eða keypt á markaði eins og frekast er unnt. Á fundi sem ég átti með stjórn Samorku í lok febrúar til að ræða tillögurnar var ákveðið að kanna möguleika á stofnun hlutafélags um verkefni sem gert er ráð fyrir að flytja frá stofnuninni og var skipuð viðræðunefnd í því skyni. Hún hefur lokið störfum og ég legg mikla áherslu á að fljótt verði úr því skorið hvort vilji er til þess meðal orkufyrirtækja að ganga til samstarfs þessa.

Í þriðja lagi vil ég nefna að í lok sl. árs skipaði ég nefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna til að undirbúa löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna. Ég tel að nú séu að skapast forsendur til þess að ná pólitískri samstöðu um skipan þessara mála, en eignarréttindi á auðlindum hafa verið tilefni deilna alla þessa öld. Það er sérstaklega mikilvægt að settar verði skýrar reglur um meðferð og eignarrétt þessara auðlinda nú þar sem fyrir liggur að okkur ber að fella úr gildi takmarkanir á heimildum aðila innan EES-svæðisins til að eiga virkjunarréttindi og jarðhita sem og stunda orkuvinnslu eða orkudreifingu hér á landi. Tillögur þar að lútandi hafa verið lagðar fyrir Alþingi með frumvarpi um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu og rétt til virkjunar fallvatna á að mínu mati að tryggja sem hagkvæmasta og greiðasta nýtingu auðlindanna, án þess þó að gengið verði á eignarrétt landeigenda.

Í fjórða lagi vil ég nefna að ég tel löngu tímabært að endurskoða orkulöggjöfina í heild sinni, þar með talin sérlög sem gilda um nokkur orkufyrirtæki. Orkulöggjöfin var að stofni til sett á miðjum sjöunda áratugnum við allt aðrar aðstæður en nú. Markmið þessarar endurskoðunar er að leggja grunn að hagkvæmri frambúðarskipan í orkumálum þjóðarinnar, með það að leiðarljósi:

  • að auka hagkvæmni á orkusviðinu,
  • að auka samkeppni en jafnframt stuðla að jöfnun orkuverðs,
  • að tryggja gæði þjónustu og afhendingaröryggi,
  • að auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda.

Ég skipaði í gær ráðgjafarnefnd til að vera ráðuneytinu til ráðuneytis við endurskoðun á orkulöggjöfinni. Fjölmargir aðilar tilnefndu fulltrúa í nefndina, bæði frá hagsmunaaðilum og stjórnmálaflokkum. Formaður nefndarinnar er Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar.

Ég tel að færa þurfi lögin til nútímalegra horfs og að þau þurfi að vera gott og öflugt tæki til að koma í framkvæmd stefnu stjórnvalda svo sem um nýskipan í ríkisrekstri, meiri samkeppni og aukna nýtingu orkulindanna til atvinnusköpunar. Lögin þurfa að horfa til langs tíma og vera sveigjanleg. Þau þurfa jafnframt að taka mið af nýskipan orkumála í heiminum, aukinni áherslu á að nýta endurnýjanlegar orkulindir og alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.

Ég vil nú víkja að málum Landsvirkjunar. Í byrjun þessa árs lögðu meðeigendur ríkisins í Landsvirkjun, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, formlega til við mig að eignaraðilar tækju upp viðræður um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Í febrúar skipuðu eignaraðilar fyrirtækisins fulltrúa sína í viðræðunefnd í þessu skyni og hóf hún störf í síðasta mánuði. Ég tel heppilegt að þessi vinna fari fram samhliða þeirri endurskoðun á orkulöggjöfinni sem nú er hafin, því það getur haft úrslita áhrif hvaða stefna verður tekin varðandi framtíðarhlutverk fyrirtækisins, M.a. varðandi eftirfarandi:
  • Stöðu Landsvirkjunar sem meginorkuöflunarfyrirtækis landsmanna.
  • Hlutverk Landsvirkjunar við rekstur meginflutningskerfisins og í að tryggja að tiltæk sé, með viðunandi öryggi, nægilega mikil orka til að anna þörfum landsmanna.
  • Hlutverk Landsvirkjunar í atvinnuuppbyggingu á sviði orkufreks iðnaðar, sem ég legg mikla áherslu á,
  • og hlutverk Landsvirkjunar vegna hugsanlegs útflutnings raforku.

Nefndin þarf að láta gera úttekt á þeim áhrifum sem breytt eignarhald og rekstrarform kann að hafa á fjölmarga þætti, s.s.:
  • Áhrif mismunandi rekstrarforms á lánskjör.
  • Áhrif mismunandi mikillar opinberrar eignaraðildar á lánshæfni.
  • Mat á verðmæti eignarhluta í Landsvirkjun.
  • Mat á eftirspurn í eignarhluti ef sala á þeim yrði heimiluð, t.d. ef rekstrarformi fyrirtækisins yrði breytt.
  • Áhrif opinberrar stefnu um verðlagningu orku til lengri tíma.
  • Áhrif formbreytinga á traust Landsvirkjunar, t.d. varðandi samningagerð um nýja orkufreka stóriðju.

Á því leikur enginn vafi að eignarhald, staða og traust Landsvirkjunar hefur gegnt lykilhlutverki við að koma á þeim samningum um orkufrekan iðnað sem við Íslendingar höfum gert. Við þessa endurskoðun verður því að gæta að því að traust og geta fyrirtækisins til þeirra hluta verði ekki veikt.

Ágætu ársfundargestir.
Framundan eru tímar búháttabreytinga í íslensku atvinnulífi, ekki síst á sviði orkumála. Við þurfum að nýta batann í efnahagslífinu til þess að koma slíkum breytingum á eins og ég vék að í upphafi máls míns. Við þurfum að stilla saman strengina og vinna saman að því að finnan skipan sem stuðlar að þeim þjóðfélagslegu markmiðum sem við setjum. Á sviði orkumála vænti ég góðs samstarfs við alla þá fjölmörgu aðila sem að því máli koma.

Ég vil að endingu þakka gott samstarf við stjórn fyrirtækisins, forstjóra og annað starfsfólk fyrirtækisins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta