Matur '96. Ávarp ráðherra. 19. apríl 1996.
Ágætu gestir.
I.
Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að opna þá glæsilegu sýningu sem hér er orðin að veruleika - Matur '96. Hæfileikar Íslendinga til vinnslu matvæla úr fyrsta flokks hráefnum, ásamt framreiðslu þeirra, eru á heimsmælikvarða. Hér gefur að líta þessa kunnáttu í öllu sínu veldi.
Við Íslendingar erum matvælaframleiðsluþjóð og þótt við höfum til skamms tíma gefið fullvinnslu matvælanna full lítinn gaum er góðu heilli að verða breyting þar á. Fjölmargir aðilar hafa orðið lifibrauð sitt af greininni, jafnt stórir sem smáir og það er vel.
Í heimsóknum mínum í fyrirtæki að undanförnu hef ég séð glögg dæmi slíks og án þess að fara að nefna þau sérstaklega hér, hafa þessar heimsóknir sannfært mig um að við eigum mikla möguleika á sviði matvælaframleiðslu.
II.
Það er hlutverk stjórnvalda að skapa fyrirtækjum það umhverfi í rekstri að þau geti jöfnum höndum greitt eigendum arð, starfsfólki hærri laun og fjárfest í tækifærum framtíðarinnar.
Meðal þess sem ég varð fljótlega var við þegar ég tók við mínu starfi fyrir ári var, að þrátt fyrir að við hefðum verið aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu um nokkurt skeið, höfðu íslensk fyrirtæki lítið gert til þess að nýta sér þau tækifæri sem samningurinn býður. Því setti ég af stað, í samvinnu við atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna, skipulagða vinnu til að kanna með hvaða hætti íslensk fyrirtæki geti nýtt sér þau tækifæri sem EES-samningurinn býður upp á. Eitt fyrsta verkefnið var útgáfa upplýsingarits þar sem öll þau verkefni sem til þessa sviðs heyra eru kynnt. Ekki er nokkur vafi á að fyrirtæki á sviði matvælaframleiðslu eiga þar mikla möguleika.
Þá hratt ég af stað, í samvinnu við sjóði iðnaðarins og Iðntæknistofnun, verkefninu Átak til atvinnusköpunar, en því er ætlað að vera frumkvöðlum, hvort sem er fyrirtækjum eða einstaklingum, innan handar við stuðning ýmiss konar. Í gegnum Átak til atvinnusköpunar er rekin Evrópumiðstöð lítilla og meðalstórra fyrirtækja og fyrir tilstuðlan hennar og starfsmanns iðnaðarráðuneytisins í Brussel var þess farið á leit við Evrópusambandið að það tæki fjárhagslegan þátt í stórum kynningarfundi hér á landi sem menn höfðu hug á að halda í tengslum við Sjávarútvegssýninguna í haust. Nú er komið á daginn að kynningarfundurinn verður að veruleika og tel ég mikinn feng í honum fyrir íslensk fyrirtæki.
Þetta verkefni ESB, sem þykir hafa gefið sérlega góða raun, byggir á því að fjöldi fyrirtækja, jafnvel nokkur hundruð, kynnir þar starfsemi sína með það í huga að afla samstarfsaðila í öðrum löndum. Samstarfsaðilar okkar í þessu verkefni verða Þjóðverjar, Englendingar, Danir og Skotar en reikna má með þátttöku fyrirtækja hvaðanæva að úr Evrópu.
Þá er ljóst að í ágúst verður haldinn hér á landi annar samevrópskur fundur þar sem megintilgangurinn er að hvetja til samvinnu fyrirtækja á matvælasviðinu. Með fundinum er þess freistað að skapa grundvöll til rannsókna- og þróunarsamstarfs meðal fyrirtækja á þessu sviði og verður hann haldinn í tengslum við NordFood - samnorræna matvælaráðstefnu.
III.
Því nefni ég þessa viðburði hér að mér finnst ástæða til að hvetja stjórnendur íslenskra fyrirtækja til að gefa þeim góðan gaum. Þarna höfum við tækifæri til að nýta okkur sóknarfærin á Evrópsku efnahagssvæði og ég er sannfærður um að þau liggja ekki síst á matvælasviðinu. Ef við ætlum okkur að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf þurfum við að vera samkeppnisfær við löndin hér í kringum okkur. Það gerum við best með samvinnu á ýmsum sviðum milli fyrirtækja hér heima og erlendis.
Að lokum vil ég nefna gæðamálin sem ég er sannfærður um að eru einna mikilvægasti þátturinn í starfsemi hvers fyrirtækis, að ekki sé talað um á matvælasviði. Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld tekið á í þessum efnum með greininni þótt vitanlega sé það fyrirtækjanna að fylgja slíkri vinnu eftir og sjá til þess að gæði framleiðslunnar og þjónustunnar séu eins og best verður á kosið. Sýning sem þessi er að mínu mati einmitt vel til þess fallin að hvetja til aukinna gæða og vöruvöndunar hjá þeim fyrirtækjum sem taka þátt í henni. Hér sjáum við trúlega brot af því besta sem við Íslendingar höfum fram að færa á sviði matvælaframleiðslu, eldunar og framreiðslu. Hér munu fagmenn etja kappi og það er vel - keppnisandinn svífur yfir vötnum og ég trúi því að allir sem hér kynna starfsemi sína séu ákveðnir í að tefla fram því besta sem þeir hafa yfir að ráða. Góðir gestir. Hér er vel að verki staðið og ég vil nota þetta tækifæri til að óska öllum sem hönd hafa lagt á plóginn til að gera þessa sýningu sem glæsilegasta
, til hamingju með árangurinn. Ég segi matvælasýninguna Matur '96 setta.