Ávarp á afmælishátíð Hörpu hf., 27. apríl 1996.
Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Þannig jókst landsframleiðsla um 2% á síðasta ári og því er spáð að hún muni aukast um 3% á þessu ári. Jafnframt hefur því verið spáð að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð, eða jafnvel heldur lægri, en í helstu samkeppnislöndum okkar, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuleysi fer nú hratt minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. Þessar aðstæður skapa okkur ný sóknarfæri.
Besta atvinnustefna sem ríkisstjórnin getur gefið atvinnulífinu er að halda raungengi óbreyttu. Atvinnulífið sér um afganginn með markvissri uppbyggingu á öllum sviðum. Samkeppnisstaða atvinnulífsins gagnvart erlendum keppinautum, mælt á mælikvarða raungengis, hefur ekki verið betri í áratugi. Við þessi skilyrði blómstrar atvinnulífið. Við aldahvörf verðum við búin að skjóta traustari stoðum undir íslenskt atvinnulíf, útflutningur verður fjölbreyttari og vægi hefðbundins sjávarútvegs verður minna. Við megum ekki láta þetta tækifæri okkur úr greipum ganga. Stöðugleikanum, samhliða lágu raungengi, verður að viðhalda með öllum tiltækum ráðum.
Íslenskur málningariðnaður stendur traustum fótum í samkeppni við innflutning. Hér á landi er framleidd hágæðamálning sem stenst erlendri framleiðslu fyllilega snúning í algjörlega óverndaðri samkeppni. Mörg störf eru í greininni. Á árinu 1993 voru ársverk í málningar-, lakk- og límgerð 169 í fjórum fyrirtækjum.
Harpa er fyrsti og elsti málningarframleiðandinn á Íslandi. Fyrirtækið hefur á 60 árum sveiflast með íslensku atvinnulífi í gegnum það umrót og þær breytingar sem orðið hafa á atvinnuháttum og viðskiptum landsmanna. Þeir sem eiga svo langan feril að baki í atvinnulífi okkar hafa borið gæfu til að aðlaga sig að aðstæðum hverju sinni og hafa því átt samleið með þjóðinni. Harpa hefur nú átt 60 ára samleið með íslensku þjóðinni.
Harpa er traust og gott fyrirtæki í arðsömum rekstri, eins og sem betur fer er reyndin með æ fleiri íslensk fyrirtæki. Uppistaðan í íslenskum iðnaði eru meðalstór og traust iðnfyrirtæki sem eru samkeppnisfær á sínu sviði, fyrirtæki sem stunda vöruþróun, framleiða gæðavörur og aðlaga sig að aðstæðum á hverjum tíma. Á sextíu ára afmælinu er Harpa hf. góður fulltrúi þessara fyrirtækja.