Ávarp ráðherra á þingi Neytendasamtakanna, 3. maí 1996.
Fundarstjóri, formaður, ágætu þingfulltrúar.
Mér er það sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til að ávarpa þing Neytendasamtakanna en þessi samtök hafa mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna til hagsmuna fyrir fjölskyldurnar í landinu og þjóðfélagið í heild.
Flestar breytingar á íslensku samfélagi hafa áhrif á stöðu neytenda. Viðskipti milli landa og ferðir milli landa aukast stöðugt og íslenskir neytendur verða fyrir áhrifum af því sem gerist annarsstaðar í okkar heimshluta. Þátttaka okkar í fjölþjóðlegu samstarfi á Evrópska Efnahagssvæðinu gerir einnig kröfur til okkar sem þjóðar að uppfylla þá samningsskilmála og reglur, sem settar eru á þeim vettvangi. Neytendalöggjöf hefur því orðið sífellt viðameiri hér á landi og má í því sambandi nefna að sett hafa verið lög um skaðsemisábyrgð, lög um neytendalán,lög um alferðir, lög um húsgöngu- og fjarsölu,lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og breytingar á samningalögum. Einnig hafa verið sett lög án þess að til hafi komið kröfur erlendis frá eins og lög um sölu notaðra ökutækja.
Að undanförnu hefur mikið verið unnið að undirbúningi að nýrri lagasetningu á neytendasviðinu. Þar má nefna að nefnd sem ég skipaði m.a. með þáttöku neytendasamtakanna hefur skilað drögum að lagafrumvarpi um innheimtustarfsemi og nefnd er starfandi til að semja drög að frumvarpi um þjónustustarfsemi . Hér er um mjög mikilvæga löggjöf að ræða út frá sjónarmiði neytenda og hyggst ég leggja þessi frumvörp fyrir Alþingi sem allra fyrst. Þá er starfandi nefnd sem skoða á til hvaða aðgerða þarf að grípa til að vernda hagsmuni ábyrgðarmanna. Mjög mikilvægt er að þessi mál nái fram að ganga sem allra fyrst.
Áfram þarf að vinna á þessu sviði. Þar má nefna að hafin er vinna við löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á lögum um lausafjárkaup,kaupalög, og færa þau til nútímahorfs. Stefni ég að því að leggja fram á Alþingi frumvarp þessa efnis síðar á þessu ári eða um leið og vinnu við nýtt frumvarp þessa efnis lýkur.Við þá endurskoðun hljótum við að horfa til annarra Norðurlanda og þá ekki síst til Noregs en norðmenn hafa nýlega endurskoðað sína löggjöf.Einnig má nefna nauðsyn þess að sett verði sem allra fyrst löggjöf um starfsábyrgðartryggingar til að tryggja að neytendur vegna tjóns fjölmargra starfsstétta. Þessi mál vill ráðuneytið vinna í nánu samráði við Neytendasamtökin enda í báðum tilvikum um mjög mikilvæga löggjöf að ræða hvað varðar neytendavernd.
Fjármál heimilanna
Vandamál í fjármálum heimilanna er gríðarleg og skuldaaukning ár frá ári mikið áhyggjuefni. Það vekur að sjálfsögðu athygli að sjóðir sem hafa lánað til fyrirtækja hafa tapað stórlega. Á meðan hafa sjóðir sem eingöngu lána til heimila nánast tapað engu. Því má ætla að útlánatap banka og sparisjóða á undanförnum árum hafi einkum verið vegna lána til fyrirtækja. Ríkisstjórnin hefur að undanförnu gert tillögur til úrbóta, en ég legg áherslu á að þar er um tilraunaverkefni að ræða, en vissulega mikilvægt verkefni. Það hefur verið mjög gagnlegt að geta þar gengið að mikilli þekkingu og reynslu hjá Neytendasamtökunum. Ég vil nefna sem mikilvægt skref á þessu sviði sem er Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og er reynsluverkefni fjölmargra aðila til tveggja ára. Fyrir Alþingi liggja einnig frammi mikilvæg frumvörp til að reyna að leita leiða til úrbóta á þessu sviði, svo sem frumvarp til laga um nauðasamninga og fleiri því tvengt. Þarna á að gera tilraun til að fara aðra leið en nágrannaþjóðir okkar hafa farið, það
er að í stað þess að fara leið lögþvingaðrar greiðsluaðlögunar að fara leið frjálsra nauðasamninga sem til þessa hefur í raun aðeins verið fyrir hendi gagnvart fyrirtækjum, en ekki skuldugum heimilum. Stjórnvöld munu að sjálfsögðu endurskoða þessa leið reynist hún ekki nægjanlegt úrræði fyrir einstaklinga.
Aðgengi neytenda að úrlausnarleiðum (Access to justice)
Að frumkvæði Neytendasamtakanna hefur verið komið á fót úrskurðar- og kvörtunarnefndum á fjölmörgum sviðum. Með þessari leið hefur tekist að skapa greiða leið fyrir neytendur að úrlausn deilumála sinna vegna viðskipta við seljendur vöru og þjónustu, jafnframt því sem hér er um að ræða leið sem er bæði ódýr og fljótvirk fyrir aðila. Þessi leið sparar þjóðfélaginu einnig verulegar upphæðir þar sem hér er um að ræða ódýra málsmeðferð og sem í mörgum tilvikum ella hefðu farið fyrir dómstóla. Viðskiptaráðuneytið hefur mjög stutt það frumkvæði sem Neytendasamtökin hafa sýnt á þessu sviði.
Stjórmálamenn hafa almennt ekki gert sér að fullu grein fyrir mikilvægi þessarar úrlausnarleiðar sem Neytendasamtökin hafa valið að fara fyrir hönd neytenda. Nú þegar rætt er um innan Evrópusambandsins að byggja upp víðtækt kerfi um aðgengi neytenda úrlausnarleiðum í deilumálum við seljendur vöru og þjónustu (Access to Justice) er það ómetanlegt fyrir íslensk stjórnvöld að hafa þær úrskurðar- og kvörtunarnefndir sem Neytendasamtökin hafa haft frumkvæði að þegar kemur að því að koma á fót því úrræði sem við munum þurfa vegna aðgengis neytenda að úrskurðarleiðum.
Bankamál
Nýlega vakti ég athygli á því að vaxtamunur væri nú meiri en nokkru sinni fyrr. Þegar bankar og sparisjóðir rökstuddu álagningu þjónustugjalda á sínum tíma var það gert með því að vaxtamunur væri óeðlilega mikill þar sem greiða þyrfti niður ýmsa þjónustu, en nú skyldi hún gjaldlögð. Í úrskurði Samkeppnisráðs vegna kæru Neytendasamtakanna um meinst samráð lánastofnana um þjónustugjöldin, sagði eitthvað á þá leið að samkeppnisyfirvöld myndu hafa sérstakt eftirlit með fjármálastofnunum vegna fákeppni á markaðinum, þar á meðal vaxtamun. Þetta mál mun örugglega koma til umræðu á þingi Neytendasamtakanna.
Af þessu tilefni vil ég segja .....
Stuðningur við neytendastarf
Viðskiptaráðuneytið gerir sér grein fyrir því að mikilvægi neytendastarfs hefur verið vanmetið af stjórnvöldum í gegnum árin. Það er ljóst að neytendastarf þarf að efla mjög mikið frá því sem nú er, ef skapa á sem jafnasta stöðu neytenda annars vegar og framleiðenda og seljenda hins vegar. Neytendasamtökin hafa vissulega fengið miklu áorkað með þeim fjármunum sem þau hafa sjálf aflað með félagsgjöldum. En meira þarf að koma til og hef ég vissulega hug á því að breyta því á meðan ég gegni starfi viðskiptaráðherra.
Þegar þetta er skoðað liggur fyrir, að um er að ræða aukna þörf á að stjórnvöld hafi í ríkara mæli en verið hefur afskipti af neytendamálum. Staðreyndin er líka sú, að stjórnvöld hafa nú meiri afskipti af neytendamálum en þau höfðu áður þó að sjálfsagt finnist mörgum eðlilegt að afskipti þeirra væru meiri.
Það er oft vandratað meðalhófið og vafalaust mundu mikil og virk afskipti stjórnvalda af neytendamálum draga nokkuð úr krafti frjálsra félagssamtaka neytenda. Hætt er við, að einhverjir mundu þá kvarta yfir of miklum afskiptum hins opinbera og vafalaust með réttu yrði hægt að benda á, að frumkvæðið yrði ekki eins mikið í opinberu neytendastarfi og í starfi sem mótað er og stýrt af samtökum áhugamanna um neytendamál. Þessi orð eru þó ekki sögð til að afsaka of mikið afskiptaleysi stjórnvalda á ýmsum tímum heldur til að leggja áherslu á það, að nauðsynlegt er eins og verið hefur, að samtök neytenda hér á landi Neytendasamtökin verði áfram það frumkvæðisafl og gagnrýnisafl í neytendamálum, sem heldur markaðnum og stjórnvöldum við efnið.
Neytendasamtökin hér á landi hafa náð miklum árangri. Þau eru hlutfallslega fjölmennustu samtök sinnar gerðar í heiminum og hafa náð að vera öflugur talsmaður neytenda í landinu. Samtök, sem tekið er tillit til og sjá til þess, að rödd neytenda heyrist og þau sjá einnig til þess, að tekið er í ríkum mæli tillit til sjónarmiða neytenda. Ég geri mér hinsvegar grein fyrir því, að vegna þeirra breytinga, sem hafa orðið á viðskiptalegu umhverfi okkar og þeirra breytinga, sem fyrirsjáanlegar eru á þessu umhverfi á næstu árum, þá verða stjórnvöld að koma að neytendamálum í ríkara mæli en verið hefur. Þar kemur til mótun sameiginlegra laga og reglna á sviði neytendamála og þáttaka í meðferð mála, sem auðveldar neytendum að ná fram rétti sínum. Einnig gera tækninýungar í síbreytilegum heimi auknar kröfur til þess, að stjórnvöld hyggi vel að réttindum og öryggi neytenda í hvívetna.
Á vegum viðskiptaráðuneytisins og á vegum nokkurra annarra ráðuneyta er nú unnið að margvíslegri lagasmíð, í sumum tilvikum vegna frumkvæðis Neytendasamtakanna, og athugun á ýmsum atriðum sem varða neytendur. Nefna má vinnu við undirbúning lagasetningar um innheimtustarfsemi, lagasetningu um kaup á þjónustu og athugun á stöðu ábyrgðarmanna á fjárskuldbindingum, þá nefni ég einnig væntanlegar breytingar á samkeppnislögum varðandi greiðslukort. Neytendaráðherrar Norðurlanda hafa ennfremur sett fram óskir um athugun á fjölmörgum atriðum, sem nú er unnið að á vegum nefnda á vegum Norðurlandaráðs. Allt miðar þetta að því, að íslenskir neytendur njóti sambærilegra kjara og best gerist í neytendamálum í okkar heimshluta, og það hlítur að vera langtímamarkmið okkar að þannig skuli það vera.
- Ég hef sett mér eftirtalin markmið í neytendamálum, sem ég mun vinna að ásamt ríkisstjórninni á kjörtímabilinu:
- Að fjölskyldan hafi góða aðstöðu til að nýta sér á sem áhrifa- ríkastan hátt fjárhagslega og aðra möguleika sína.
- Að neytendur hafi sterka stöðu á markaðnum og sjónarmið þeirra séu virt til jafns við aðra.
- Að gætt sé að heilsu og öryggi neytenda og
- Að þróun í neyslu og framleiðslu verði með þeim hætti, að um verði að ræða, sem jákvæðust áhrif á umhverfið.
Þessum markmiðum verður ekki náð nema til komi góð og náin samvinna stjórnvalda og Neytendasamtakanna. Ég hef fullan hug á því, að sú samvinna megi verða sem best meðan ég hef með þessi mál að gera.
Jóhannes Gunnarsson, sem verið hefur formaður Neytendasamtakanna um árabil lætur nú af því starfi og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir góð og óeigingjörn störf í hans formannstíð. Jóhannes hefur verið einarður og góður talsmaður íslenskra neytenda og það er gott til þess að vita að hann mun áfram gegna mikilvægum störfum fyrirNeytendasamtökin þannig að við munum áfram njóta krafta hans.
En maður kemur í manns stað segir einhversstaðar, en nú háttar svo til, að kona kemur í manns stað, þar sem að Drífa Sigfúsdóttir mun taka við formennsku af Jóhannesi Gunnarssyni. Ég þekki það vel til starfa Drífu, að ég er þess fullviss, að hún muni verða verðugur fulltrúi íslenskra neytenda og ekki láta deigan síga ef hagsmunir þeirra eru í húfi. Ég bíð Drífu velkomna til starfa.
Góðir þingfulltrúar, ég færi ykkur mínar árnaðaróskir og vona að þing ykkar megi verða til þess, að þoka málum neytenda fram á við.
Ég veit að Neytendasamtökin munu ekki fara að með þessum hætti heldur þakka það, þegar stjórnvöld bregðast við kröfum þeirra, þó að ekki sé það gert að öllu leyti.