Ávarp á ráðstefnu um bætta samkeppnisstöðu Íslands, Hótel Loftleiðum, 26. september 1996.
I.
First of all, it is a pleasure to welcome to this Conference on Competitiveness Policy all our foreign guests, Mr. Gassmann from OECD, Mr. Dobbie from the United Kingdom, Mr. Bausoleil from Canada and Mr. Hernæs from Norway. We appreciate very much the time and effort they have spent in coming to Iceland and I look forward to their presentations. Allow me to revert back to Icelandic for some brief opening remarks.
II.
Ágætu ráðstefnugestir.
Mikilvægasta verkefni stjórnvalda og atvinnulífs á næstu árum er að greina styrkleika Íslands í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og finna leiðir til að nýta auðlindir og mannauð til atvinnusköpunar. Vöxtur og nýsköpun ræðst af hæfni fyrirtækjanna til að byggja á styrk Íslands. Stjórnvöld þurfa að móta almenna umgjörð og almennar stuðningsaðgerðir sem styðja fyrirtækin á þeirri braut. Skipulega er unnið að því í ráðuneytum iðnaðar, viðskipta og fjármála. Fjármálaráðuneytið gaf síðastliðið vor út skýrslu nefndar forystumanna í atvinnulífi um bætta samkeppnisstöðu Íslands. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur um eins árs skeið kannað leiðir til að bæta vaxtarskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hefur sérstök nefnd leitt það starf.
Ráðstefna þessi er hluti af þessari viðleitni og er ætlað að auka umfjöllun um þau atriði sem bætt geta samkeppnisstöðu Íslands. Jafnframt þarf að draga lærdóm af reynslu nágrannalanda og heimfæra það sem best hefur tekist erlendis yfir á íslenskar aðstæður.
Fljótlega verður dreift nýútkomnu riti um bætta samkeppnisstöðu Íslands. Að ritinu hefur verið unnið í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við fjármálaráðuneyti. Í ritinu er útlistuð stefna ríkisstjórnarinnar á sviðum er varða samkeppnishæfni atvinnulífs. Lögð er áhersla á það að samkeppnisstaða verður ekki bætt með því að einblína á einn þátt umfram annan heldur mótast samkeppnisstaða af mörgum samverkandi þáttum. Ég vonast til að ritið verði þarft innlegg í umræðuna um bætta samkeppnisstöðu Íslands en nánari útfærsla ritsins er væntanleg innan tíðar.
III.
Íslenskt atvinnulíf býr við hagstæð efnahagsskilyrði um þessar mundir. Batinn í efnahagslífinu gefur svigrúm til að stuðla að nauðsynlegum búháttabreytingum í íslensku atvinnulífi og til þess að leggja grunn að enn frekari framfarasókn. Rétt greining á styrk Íslands mun ráða miklu um framtíð þjóðarinnar hvernig til tekst á næstu árum.
Í þessu sambandi er forvitnilegt að velta vöngum yfir stöðu Íslands. Í nýútkominni skýrslu World Economic Forum um alþjóðlega samkeppnisstöðu kemur fram að Ísland er í 25. sæti 46 ríkja. Við erum, sem sagt, um miðjan hóp ríkustu þjóða veraldar. Helstu styrkleikar hagkerfisins eru, samkvæmt þessari skýrslu, fólkið í landinu og innviðir þjóðfélagsins. Ísland fær meðaleinkunn fyrir efnahagslegan styrkleika, stjórnsýslu, stjórnun fyrirtækja og vísindi og tækni. Ljóst er af lestri skýrslunnar að bæta má verulega samkeppnisstöðuna með því að nýta betur tækifæri tengd aukinni alþjóðavæðingu atvinnustarfsemi og með styrkingu á fjármagnsmarkaði.
IV.
Umræða um bætta samkeppnisstöðu Íslands varðar fyrst og fremst framtíðina, þótt ávallt sé hollt að líta yfir farinn veg. Hvernig getum við stuðlað að vexti og viðgangi íslensks atvinnulífs? Þetta er lykilspurning. Atvinnulífið er aflið sem knýr vélina áfram. Stjórnvöld sjá síðan um að smyrja vélina svo hún gangi snurðulaust og hiksti ekki. Aflið er fyrirtækjanna. Um það efast enginn sem fór á sjávarútvegssýninguna um síðustu helgi og varð vitni að allri þeirri grósku sem einkennir íslenskan sjávarútveg og þann hátækniiðnað sem myndast hefur með sjávarútveg að bakhjarli. Þessi iðnfyrirtæki búa við öflugan heimamarkað og nýta sér þá þekkingu sem þau öðlast heima fyrir þegar þau sækja út fyrir landsteinanna. Það fé sem fyrirtækin leggja í atvinnustarfsemi erlendis skilar sér margfalt til baka fyrir íslenskt þjóðarbú. Þannig hafa til að mynda Danir metið að hver króna sem varið er til fjárfestingar erlendis skili þremur og hálfri krónu til baka inn í danskt þjóðarbú.
Samkeppnisstaða einstakra ríkja byggir í auknum mæli á almennri og víðtækri stefnumótun í stað sérgreindrar atvinnustefnu byggðri á hagsmunum einstakra atvinnugreina. Með ört stækkandi alþjóðlegum markaði eykst einnig samkeppni milli þjóða. Mikilvægi stefnumótunar stjórnvalda til aukinnar samkeppnishæfni atvinnulífs hefur aukist með vaxandi samkeppni þjóða, ekki síður en mikilvægi stefnumótunar innan fyrirtækja.
Til að auka samkeppnisstöðu atvinnulífs dugar ekki að beina spjótum að einu eða fáum sviðum. Við verðum að samhæfa aðgerðir á öllum sviðum til að ná sem bestum árangri. Þessu standa fyrirtæki frammi fyrir í sínum rekstri. Hið sama á við um þjóðfélagið í heild. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
V.
Búa þarf atvinnulífinu gott heildarumhverfi til að nýta styrkleika Íslands, þ.e. - stöðugt efnahagsumhverfi, - einfalt laga- og reglugerðarumhverfi, - traustan fjármagnsmarkað, - frjálst utanríkisviðskiptaumhverfi, - aukin erlend fjárfesting, - skilvirkar stuðningsaðgerðir og þekkingarumhverfi. Ég vil í örstuttu máli tæpa á hlutverki stjórnvalda varðandi hvern þessara þátta.
Hlutverk stjórnvalda varðandi efnahagsumhverfið er að búa svo um hnúta að stöðugleiki haldist, verðbólga verði sambærileg og í viðskiptaríkjum og samkeppnisstaða, mæld með raungengi, versni ekki. Stjórnvöld skulu stuðla að því að skattaumhverfi sé svipað og gerist meðal viðskiptaríkja. Stjórnvöld eiga einnig að koma því til leiðar að virk samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífs.
Bæta þarf laga- og reglugerðarumhverfi með því að einfalda og grisja lög og reglugerðir. Einfalda þarf skriffinnsku varðandi stofnun fyrirtækja sem og almenn samskipti fyrirtækja við stjórnvöld. Nýta þarf upplýsingatækni í auknum mæli til að bæta aðgang atvinnulífsins að upplýsingum. Síðast en ekki síst er brýn þörf á að gera laga- og skattaumhverfið stöðugra þannig að atvinnulífið geti treyst því að ekki sé verið að tjalda til einnar nætur.
Varðandi utanríkisviðskiptaumhverfi er hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst að stuðla að því að hér ríki alþjóðlegt viðskiptaumhverfi, góð skilyrði séu til frjálsra viðskipta og vörur, fé og fólk geti flutt óhindrað milli landa. Stjórnvöld skulu einnig gera tvísköttunar- og fjárfestingarsamninga eins og kostur er.
Á fjármagnsmarkaði skulu stjórnvöld í auknum mæli beina athyglinni að flóknari fjárfestingarfyrirgreiðslu svo sem verkefnafjármögnun og beinni áhættufjármögnun. Þar er þörfin brýnust því að reynslan sýnir, hér á landi sem erlendis, að einkafjármagnið leitar síður á þau áhættusömu mið. Í flestum ríkjum sem búa við þróaðan fjármagnsmarkað hafa stjórnvöld einskorðað beina þátttöku sína við áhættufjármögnun en hætt afskiptum af viðskiptabankastarfsemi.
Stjórnvöld þurfa að skapa hagstæð skilyrði fyrir beinar fjárfestingar milli ríkja. Þar er bæði þörf aukinnar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Alþekkt er að áhugi erlendra aðila á beinni fjárfestingu á Íslandi hefur lengst af verið takmarkaður. Bein erlend fjárfesting hefur verið sáralítil hér á landi en víðast hvar erlendis nemur hún 2-3% af landsframleiðslu á hverju ári. Erlend fjárfesting hefur mikil margfeldisáhrif í þjóðarbúskapnum og styður því vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Stuðningsaðgerðir eru mikilvægur hlekkur í keðjunni. Hér er um að ræða almennar stuðningsaðgerðir sem örva atvinnulíf en eru ekki markaðstruflandi. Þetta eru til að mynda aðgerðir á sviði þjálfunar, þekkingaröflunar, ráðgjafar, samstarfs fyrirtækja, upplýsingamiðlunar, útflutnings, rannsókna, vöruþróunar og stofnunar fyrirtækja. Þessar aðgerðir eru sérstaklega mikilvægar við að hjálpa smáfyrirtækjum og frumkvöðlum til að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd.
Síðasti hlekkurinn í keðjunni er þekkingarumhverfi. Mikilvægi menntunar og rannsókna- og þróunarstarfs verður seint ofmetið í þekkingarsamfélagi nútímans. Fyrirtæki verða að sækja þekkingu til fólksins í landinu. Fólkið er okkar helsta auðlind.
VI.
Góðir ráðstefnugestir.
Þessir sjö hlutar sem ég hef rakið mynda eina samverkandi heild. Ekki er hægt að segja að einn hluti öðrum fremur leiði til betri samkeppnisstöðu. Ef stjórnvöld móta farsæla umgjörð á þessum sjö sviðum þá efast ég ekki um getu atvinnulífsins til að byggja á styrk Íslands, auðlindum og mannauði. Vísbendingar benda til að störfum muni fjölga á þessu ári um tæplega þrjú þúsund. Flest þessara starfa eru í iðnaði, verslun, þjónustu og samgöngum. Þetta eru góð tíðindi og sýnir hvers atvinnulífið er megnugt fái það hagstæð skilyrði til vaxtar. Við erum að byggja grunninn og verðum að halda áfram á sömu braut.
Atvinnulífið þarf að byggjast á vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau eru hvarvetna burðarásar hagvaxtar. Vissulega mun stóriðja vera mikilvæg viðbót við þann vöxt og styðja vöxt smárra fyrirtækja. Við getum hins vegar ekki vænst að stóriðja verði grundvöllur efnahagslegra framfara á næstu áratugum og auðlindir hafins eru ekki lengur óþrjótandi ávísun á verðmæti. Sá auður sem í fólkinu býr skiptir því sköpum í harðnandi samkeppni. Það verðum við að hafa í huga við mótun samkeppnisstefnu.