Ávarp og afhending viðurkenninga á 10 ára afmælisfundi Gæðastjórnunarfélags Íslands, 14. nóvember 1996.
Ágætu samkomugestir.
Ég flyt ykkur kveðju Finns Ingólfssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem getur ekki vegna brýnna verkefna, sem upp komu fyrr í dag, verið viðstaddur þennan fund.
Gæðastjórnunarfélag Íslands fagnar nú 10 ára afmæli sínu. Það steig sín fyrstu spor á árum almenns samdráttar í efnahagslífi þjóðarinnar; - í kreppu sem var dýpri og langvinnari en við höfum áður kynnst. Við fyrstu sýn gáfu þessar aðstæður ekki tilefni til að ætla að einmitt þá væri helst nýsköpunar að vænta og það í mörgum tilfellum á nýjum og áður lítt viðurkenndum áherslusviðum.
Líklegt má telja að sú viðurkenning sem gæðastarfið fékk eigi einmitt rætur sínar að rekja til þessara erfiðu aðstæðna. Þær opnuðu augu manna fyrir mikilvægi þess að efla samkeppnisstöðuna og mikilvægi þess að ná almennum umbótum og hagræðingu í rekstri með því að beita tækjum gæðastjórnunar. Nú er svo komið að flestir stjórnendur viðurkenna mikilvægi gæðastarfsins í rekstri og til þess að ná fram öðrum markmiðum sínum. Gæðastarfið snýr að öllum þáttum rekstrarins, frá beinni framleiðslustýringu inni á gólfi, þjónustu hverskonar og einnig út fyrir fyrirtæki til viðskiptavina og neytenda. Allt er þar undir.
Ég sagði að skjótan framgang gæðastarfsins mætt að einhverju leyti rekja til yfirstaðinnar efnahagskreppu. Við það vil ég bæta, að uppsveiflan sem við nú búum við byggir jafnframt á virkri gæðastjórnun. Við höfum séð kostnað lækka, nýtingu starfskrafta og auðlinda bætta. Við höfum séð ánægt starfsfólk og ánægða viðskiptavini. Og allt hefur þetta leitt til þess að við höfum séð betri afkomu og ný tækifæri til nýrrar sóknar, auk jákvæðra umhverfisáhrifa.
Sú nýja sókn sem hvað mestu máli mun skipta fyrir okkur á næstu árum er sókn til aukinnar útrásar með vörur og þjónustu á erlenda markaði. Mér er það fullljóst, eins og eflaust öllum hér, að eitt helsta lykilatriðið til að efla varanlega tiltrú kaupenda á vörum okkar og þjónustu er að gæðastjórnun verði fest í sessi á sem flestum sviðum atvinnulífsins. Því hraðar og því markvissar sem það verður gert því betra.
Við verðum í fyrsta lagi að geta uppfyllt allar þær kröfur og væntingar sem viðskiptavinir okkar hafa til okkar nú þegar - og í öðru lagi að skapa okkur visst forskot með því að geta sýnt fram á meiri gæði og um leið meiri áreiðanleika en samkeppnisþjóðirnar. Mikilvægi þessa í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi verður seint ofmetið.
Yfirskrift gæðaviku Gæðastjórnunarfélagsins að þessu sinni : "Vinnum saman - gæði í þágu þjóðar" á vel við. Hún leggur áherslu á að gæðamálin er ekki einagrað sérviskulegt fyrirbæri einhverra fárra sérfræðinga. Þvert á móti leggur þessi yfirskrift áherslu á að um er að ræða sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar. Um er að ræða mikilvægan þátt í að auka framleiðni og bæta lífskjör. Starf Gæðastjórnunarfélags Íslands er mjög mikilvægur þáttur í áframhaldandi uppbyggingu á öllum sviðum.
Ég vil að lokum óska Gæðastjórnunarfélaginu til hamingju með þann merka áfanga sem það hefur náð á tíu ára afmæli sínu. Félagið hefur áorkað miklu með framsýnu og farsælu starfi. Megi svo og verða um ókomin ár. Að lokum ítreka ég góðar óskir iðnaðar- og viðskiptaráðherra til félagsins á þessum tímamótum.