Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á EDI-ráðstefnu um gildi staðlaðra pappírslausra viðskipta, 19. nóvember 1996.


I.

Ágætu ráðstefnugestir.

Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið hefur nú litið dagsins ljós. Lykilorð hennar eru tvö: VEGSÖGN og VARÐSTAÐA.

Vegsögn vísar til þess hlutverks strjórnvalda að vísa upplýsigatækninni veg og greiða fyrir framgangi hennar á sem flestum sviðum, til hagsbóta fyrir landsmenn.

Varðstaða vísar til þess að stjórnvöld þurfa einnig að standa vörð um sjálskennd þjóðarinnar, um menningarleg og siðferðisleg verðmæti hennar og um vernd mannréttinda og einkalífs.

Í þessu felst að við þurfum stöðugt að taka mið af þróun upplýsingatækninnar og nýta hana til að bæta lífskjör okkar en jafnframt að setja nauðsynlegar skorður við notkun hennar þannig að hún skaði ekki hagsmuni þegnanna. Þessi tvö lykilorð skapa hið nauðsynlega jafnvægi sem við þurfum stöðugt að taka tillit til í umfjöllun okkar um upplýsingasamfélagið.
II.

Hæfni til að hagnýta upplýsingatækni verður sífellt mikilvægari í alþjóðlegri samkeppni og er brýnt að atvinnulífið og stjórnvöld vinni saman að því að upplýsingatæknin nýtist atvinnulífinu sem best. Meðal annars er ljóst að með markvissri nýtingu upplýsingatækni má ná fram aukinni hagræðingu og framleiðni á flestum sviðum íslensks atvinnulífs. Þetta á jafnt við í viðskipta- og þjónustugreinum sem í framleiðslugreinum.

Mikilvægur þáttur í sókn atvinnulífsins er virk íslensk þátttaka í alþjóða viðskiptum. Íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf er vissulega alþjóðlegt og mun ný tækni og verkkunnátta enn hraða þróun í þá átt. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi verður að taka mið af þessu og atvinnuþróun að verða á þann veg að útflutningur standi að mestu undir bættri afkomu.

Það er því verkefni mitt og ríkisstjórnarinnar allrar að tryggja að ný tækni verði á markvissan hátt nýtt - til að bæta þjónustu og starfsemi ríkisstofnana í samræmi við þá stefnu sem nú liggur fyrir.

Slíkar endurbætur verða ekki sjálfkrafa. Nauðsynlegt er að þeir sem málið varðar komi að því og sjónarmið sem flestra komi fram. Öll verðum við að hjálpast að við að bæta samskipti og auka samvinnu stjórnvalda við fyrirtæki og almenning. Þetta hefur EDI félagið og ICEPRO-nefndin gert m.a.með því að stuðla að bættu verklagi í viðskiptum og upptöku skjalasendinga á milli tölva.

Það eru einkum fjögur verkefni sem ég tel að við þurfum sérstaklega að vinna að á næstu misserum. Þau eru:
  • Að nýta upplýsingatækni til að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
  • Að auka aðgang fyrirtæka og borgara að upplýsingum frá stjórnvöldum.
  • Að minnka skrifræði í samskiptum almennings og fyrirtækja við stjórnvöld og að afnema óþarfa laga- og reglugerðarákvæði.
  • Og seinast en ekki síst: - Að þjónusta ríkisins verði sniðin að nútímatækni, t.d. með nettengingu ríkisstofnanna og pappírslausum viðskiptum.

III.

Í dag þurfa mörg fyrirtæki að sækja aðföng erlendis frá eða þau selja vöru og þjónustu á alþjóðlegum markaði. Viðskiptalöndin eru ekki lengur einvörðungu þau sem næst okkur standa í menningarlegu og landfræðilegu tilliti - heldur allt eins fjarlæg lönd, t.d. í Asíu eða Suður-Ameríku. Vörurnar sem fluttar eru milli fjarlægra staða eru tíðum dýrar og viðkvæmar. Fersk matvara er t.d. flutt milli heimsálfa og því ríður á að afgreiðsla allra aðila sem að starseminni koma sé hröð og örugg.

Um þetta eru sífellt auknar kröfur og okkar er að finna leiðir til að verða við þeim. Varla er lengur hægt að tala um tæknilega óyfirstíganleg vandamál. Fremur er um að ræða ýmiss lagaleg sjónarmið og atriði er snúa að framkvæmd í stjórnsýslunni. Þannig þarf með lagasetningu að bregðast við ýmsum álitamálum sem upplýsingatæknin vekur, t.d.:
  • Hvernig eigi að tryggja höfundaréttindi þegar afrit þekkjast ekki lengur frá frumriti.
  • Hvernig tolla eigi og skattleggja rafrænar upplýsingar.
  • Hver sé lagalegur grundvöllur fyrirtækja sem reka viðskipti um allan heim úr tölvu, e.t.v. ekki innan lögsögu neins ríkis.
  • Og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að rafrænt skjal tekjist löglegt í viðskiptum.

Í Framtíðsrsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið er mörkuð stefna fyrir okkur að fylgja. Mikilvægur hluti hennar er að greiða fyrir og bæta verklag í viðskiptum og afnema lagalegar viðskiptahindranir, sem m.a. verði til þess að greiða götu pappírslausra viðskipta. Slíkt mun leiða til einföldunar og sparnaðar og bæta samkeppnisstöðu okkar. Mikilvægt er að sem flestir verði virkir þátttakendur í þeirri þróun, hið opinbera, félaga- og hagsmunasamtök og almenningur. Það er vissulega gleðiefni að talsvert hefur þokast í rétta átt á seinustu árum, -ekki hvað síst vegna þeirrar forystu sem EDI félagið og ICEPRO nefndin hefur tekið í þessum efnum og er dagskrá þessarar ráðstefnu til vitnis um það.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta