Framsöguræða vegna frumvarps til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.
Herra forseti.
Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga á þingskjali nr. 706, sem er 409. mál þingsins, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.
I.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er ákveðið að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna, þannig að þeir verði reknir sem hlutafélög. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að breyta í hlutafélög þeim ríkisfyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði þannig að þau starfi við sömu samkeppnisaðstæður og önnur fyrirtæki.
II.
Á síðustu árum hefur átt sér stað ör þróun á fjármagnsmarkaði. Þannig hefur hann opnast og orðið alþjóðlegri og áherslur í viðskiptum haga breyst. Þessi þróun er í samræmi við þróun viðskiptaumhverfisins í heild. Samhliða þessu hafa áherslur í fjármálastarfsemi breyst og starfsaðferðir fjármálastofnana sömuleiðis.
Eitt megineinkenni þessara breytinga er að hefðbundin flokkun fjármálastarfsemi hefur riðlast. Í því felst m.a. að hinar rótgrónu og hefðbundnu fjármálastofnanir standa nú frammi fyrir samkeppni nýrra aðila, svo sem fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, lífeyrissjóða o.fl. Sú þróun hefur leitt til aukinna krafna um jafna samkeppnisstöðu.
Þetta hefur beint athyglinni að aðstöðumun fjármálastofnana í ríkiseigu og annarra aðila á fjármagnsmarkaði. Sá munur er fjármálastofnunum í ríkiseigu bæði í hag og óhag. Kostir geta verið því samfara að njóta ríkisábyrgðar og verndar ríkisins. Á hinn bóginn hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að svigrúm stofnana í eigu ríkisins til að bregðast við aukinni samkeppni er oft á tíðum lítið.
Á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði hefur löggjöf um fjármálastofnanir og fjármálastarfsemi verið aðlöguð reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og löggjöf á þessu sviði tekið stakkaskiptum. Kröfur um eðlileg samkeppnisskilyrði eiga sér stoð í EES-samningnum og Eftirlitsstofnun EFTA hefur um nokkurt skeið þrýst á úrbætur að því er rekstur ríkisviðskiptabanka hér á landi varðar.
III.
Í nýlegri skýrslu World Economic Forum um alþjóðlega samkeppnisstöðu er efnahagslegur styrkleiki, stjórnsýsla, stjórnun fyrirtækja, vísindi og tækni, innviðir hagkerfis og fjármagnsmarkaður borin saman og þjóðum gefnar einkunnir fyrir frammistöðu á hverju sviði fyrir sig og samkeppnishæfni þjóða þannig borin saman. Í skýrslunni er Ísland talið vera í 25. sæti af 46 ríkjum. Við erum, sem sagt, um miðjan hóp ríkustu þjóða veraldar. Það getur ekki talist viðunandi. Ef aðeins er tekið mat á stöðu fjármagnsmarkaðar erum við hins vegar í 32. sæti af 46 ríkjum. Staða fjármagnsmarkaðar er samkvæmt því einn af helstu veikleikum íslensks efnahags- og atvinnulífs.
Það er áhyggjuefni hvað Ísland kemur illa út úr þessum samanburði og ljóst að það tekur langan tíma að snúa þessu við. Í þessu sambandi er hins vegar vert að hugleiða stöðu ríkisins á íslenskum fjármagnsmarkaði. Tveir af þremur starfandi viðskiptabönkum eru ríkisviðskiptabankar og í annarri fjármálaþjónustu er ríkið mjög umfangsmikið og í fjárfestingarlánastarfsemi alls ráðandi.
IV.
Með hliðsjón af þeim atriðum sem ég hef hér nefnt er nauðsynlegt að skilgreina að nýju hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði. Meginhlutverk þess hlýtur jafnan að vera að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á þessu sviði og að reglunum sé fylgt. Jafnframt kann á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um fjármálastarfsemi sem nauðsynleg er til að efla atvinnulíf og tryggja þjóðfélaginu ákveðin lífsgæði.
Hins vegar hníga ýmis rök að því að ríkið ætti að draga sig út úr hefðbundinni starfsemi á fjármagnsmarkaði eins og viðskiptabankastarfsemi, verðbréfaþjónustu ýmis konar, hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi og fleiru. Sem dæmi um svið þar sem ríkið hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna má nefna fjárfestingarþjónustu eins og verkefnafjármögnun og beina áhættufjármögnun.
Þó ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags, eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Einn megin kostur þessa er að hlutafélög geta styrkt eiginfjárstöðu sína með útboði á hlutafé. Með þeim hætti geta hlutafélög einnig styrkt samkeppnisstöðu sína.
V.
Með frumvarpinu sem hér er lagt fram eru stigin skref í þá átt sem að framan er lýst. Samhliða þessu frumvarpi hef ég lagt fram frumvarp til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Frumvörpin tvö fela í sér umfangsmiklar breytingar á sjóðakerfi atvinnuveganna.
Með þessum breytingum eru boðaðar róttækustu og umfangsmestu skipulags- og hagræðingaraðgerðir sem gerðar hafa verið á íslenskum fjármagnsmarkaði. Megintilgangur aðgerðanna er að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti í framtíðinni séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á sem hagstæðustum kjörum.
VI.
Tilgangur þessa frumvarps er þríþættur:
•Í fyrsta lagi að jafna samkeppnisaðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði. •Í öðru lagi að treysta samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja. •Í þriðja lagi að skapa aukna samkeppni á markaðinum og þannig auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja og stofnana á þessu sviði, sem skilar sér í betri og ódýrri þjónustu til viðskiptavina.
Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
1.Hlutafélagsbankarnir taki við öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna, þ.m.t. skattaréttarlegum réttindum og skyldum. 2.Ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna sem stofnað er til áður en rekstur þeirra er yfirtekinn af hlutafélagsbönkunum. Þó fellur niður ríkisábyrgð á innlánum öðrum en bundnum innlánum. 3.Ríkissjóður beri ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum ríkisviðskiptabankanna eins og þær eru við formbreytinguna og eins og um semst að öðru leyti. 4.Viðskiptaráðherra fari með hlut ríkissjóðs í hlutafélagsbönkunum. Það þýðir meðal annars að hann mun fara með atkvæði ríkissjóðs á aðalfundi. 5.Sérstakar nefndir verði skipaðar til að annast undirbúning vegna stofnunar hlutafélaga um hvorn ríkisviðskiptabankanna. Þær starfi í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við hvorn banka fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir að sérstök nefnd verði skipuð til að aðstoða við mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár. 6.Allir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna sem taka laun
samkvæmt kjarasamningum SÍB og kjarasamningum annarra stéttarfélaga eigi kost á sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Starfsmaður njóti þá sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum gildi ákvæði nýsettra laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
VII.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að selja eignarhluti ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., nema með samþykki Alþingis. Þannig er beinlínis tekið fram í 6. gr. frumvarpsins að hlutafé í eigu ríkissjóðs í bönkunum tveimur verði ekki selt nema með samþykki Alþingis.
Það er mat ríkisstjórnarinnar að tryggja verði hlutafélagsbönkunum nokkurn tíma til að sanna að þeir njóti sama trausts og fyrirrennarar þeirra. Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagsbankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.
Hins vegar er gert ráð fyrir að ráðherra geti heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum. Með þessum hætti er mögulegt að styrkja eiginfjárstöðu bankanna án þess að leita til ríkissjóðs, jafnframt því sem utanaðkomandi aðilum gefst færi á að eignast hlut í þeim. Hlutafjárútboð af þessu tagi ætti einnig að leiða til þess að virði bankanna verði ljósara. Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að samkvæmt reglum um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, mega áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna og fjárhagslega tengdra aðila ekki fara yfir 25% af eigin fé lánastofnunar frá og með 31. desember 2001. Hlutfall þetta er nú 40% af eigin fé, en mun fara stiglækkandi fram að fyrrgreindu tímamarki. Með tilliti til þessa er einnig mikilvægt að bankarnir auki við eigið fé sitt.
Útboði á hlutafé eru sett þau takmörk að samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig. Í því felst takmörkun á heimildum til hlutafjárútboðs, en ekki vísbending um að selja eigi upp í þá heimild þegar í stað.
Þegar til sölu á hlutabréfum í hlutafélagsbönkunum kemur er það mat ríkisstjórnarinnar að allir aðilar í landinu eigi að hafa rétt til að eignast hlut í bönkunum. Jafnframt beri að stefna að dreifðri eignaraðild. Þá er að mínu mati rétt að huga að því hvernig veita megi starfsmönnum bankanna aukinn rétt eða aðgang að kaupum á hlutafé í bönkunum.
VIII.
Það er ætlun mín að staða viðskiptamanna í hlutafélagsbönkunum verði tryggð og að hagsmunir þeirra skerðist ekki við breytinguna. Á það við um almenna viðskiptavini og innlánseigendur bankanna, svo og erlenda lánardrottna. Má nefna nokkur atriði sem tryggja eiga að hagsmunir þessara aðila skerðist ekki.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkisábyrgð haldist á skuldbindingum sem til eru orðnar fyrir formbreytinguna. Þetta á þó tekki við um almenn innlán, en bundnar innstæður sem lagðar hafa verið inn fyrir yfirtökuna verða með ríkisábyrgð út binditímann.
Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hlutafélagsbankarnir verði fyrst um sinn í eigu ríkissjóðs að meirihluta.
Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra geti heimilað útboð á nýju hlutafé. Með því gefst færi á að styrkja eiginfjárstöðu bankanna og tryggja enn betur stöðu viðskiptamanna þeirra auk þess sem nýjum aðilum, þar með talið viðskiptamönnum, gefst færi á að eignast eignarhlut í bönkunum.
IX.
Frumvarpið miðar að því að sem minnst röskun verði á starfshögum almennra starfsmanna við breytinguna. Gert er ráð fyrir að almennir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna fái sambærilegt starf í hlutafélagsbönkunum við breytinguna. Í því felst að þeir haldi réttindum samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Þá er ekki gert ráð fyrir breytingum á lögbundnum réttindum umfram það sem almennt fylgir breytingu sem þessari lögum samkvæmt. Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum fer samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þau lög byggja á stefnu ríkisstjórnarinnar í starfsmannamálum ríkisins, sem m.a. miðar að því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum.
Bankastjórum og öðrum helstu stjórnendum bankanna eru ekki tryggð störf með sama hætti. Nauðsynlegt þykir að tryggja nýjum hlutafélagsbönkum nokkurt svigrúm til að gera breytingar á innra skipulagi bankanna með það fyrir augum að gera skipulag á yfirstjórn þeirra skýrara.
Á undanförnum mánuðum hefur endurskoðun lífeyrismála verið til umfjöllunar innan bankanna og liggja nú fyrir drög að nýjum reglugerðum fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og Eftirlaunasjóð Búnaðarbanka Íslands. Ekki er ljóst á þessari stundu hvernig þessum áformum muni lykta. Því er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir almennu ákvæði þess efnis að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna gagnvart eftirlaunasjóðunum vegna starfsmanna bankanna, í samræmi við reglugerðir sem gilda þegar rekstur þeirra er yfirtekinn af hlutafélagsbönkunum, en jafnframt að heimilt sé að semja um annað eftir það tímamark. Ákvæðið er í samræmi við 12. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um ábyrgð ríkissjóðs á innlendum og erlendum skuldbindingum.
Það ræðst af þróun þessara mála nú á næstu vikum hvernig ákvæði frumvarpsins um lífeyrismál verður endanlega hagað. Í því efni verður að huga að því að skýra sem best lífeyrisréttindi starfsmanna og skuldbindingar ríkissjóðs og hlutafélagsbankanna. Vonast ég til að eiga um það gott samstarf við Alþingi.
X.
Gert er ráð fyrir að hlutafélagsbankarnir taki við rekstri og starfsemi ríkisviðskiptabankanna 1. janúar 1998. Á þeim degi skulu ríkisviðskiptabankarnir lagðir niður.
Við undirbúning málsins hefur verið hugað að ýmsum leiðin við framkvæmd formbreytingarinnar. Niðurstaðan varð sú að leggja til að kveðið verði á um sérstakar undirbúningsnefndir fyrir hvorn banka, sem verði fengið það verkefni að undirbúa stofnun hlutafélagsbankanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna breytinganna. Nefndunum verði falið að annast undirbúning löggerninga er varða stofnun hlutafélagsbankanna og fyrirhugaða starfsrækslu þeirra. Gert er ráð fyrir að nefndirnar starfi í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við viðkomandi ríkisviðskiptabanka. Nánar er vikið að því í athugasemdum með frumvarpinu í hverju verkefni nefndanna geta falist.
Með þessu tel ég að best verði tryggt samstarf þeirra aðila sem eðli málsins samkvæmt koma að þessum breytingum. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að umræddum nefndum er ekki ætlað að skerða lögbundið valdssvið bankastjórna og bankaráða ríkisviðskiptabankanna. Staðfestingar- eða ákvörðunarvald vegna þeirra löggerninga sem nefndunum er ætlað að undirbúa er í höndum þar til bærra bankaráða og eftir atvikum bankastjóra eða bankastjórna, lögum samkvæmt.
XI.
Herra forseti.
Með því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir standa vonir til að hrint verði í framkvæmd áformum um breytingar sem verið hafa á stefnuskrá ríkisstjórna hin síðari ár. Með því verður létt af þessum stofnunum óvissu sem eflaust hefur um nokkurt skeið íþyngt starfsemi þeirra. Mikilvægt er því að vel takist til um vinnslu frumvarpsins og framkvæmd málsins er frumvarpið verður að lögum.
Herra forseti.
Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og að það verði afgreitt á þessu þingi.