Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. mars 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Framsöguræða vegna frumvarps til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.



Herra forseti.
Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga á þingskjali nr. 705, sem er 408. mál þingsins, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

I.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kemur fram að eitt af markmiðum hennar sé að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða og annarra fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Jafnframt skuli unnið að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Þá er í stefnu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á að stuðla að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um allt land, tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.

Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Jafnframt er nauðsynlegt að öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem er, eigi jafnan aðgang að fjármagni. Í þessu skyni ákváðu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra að fela ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta að vinna að endurskoðun á núverandi sjóðakerfi að því er varðar starfsemi Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Þessi hópur hefur síðan átt náið samráð við forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði. Þessar atvinnugreinar hafa haft áhrif á stefnu og starfsemi sjóðanna með setu í stjórnum þeirra og lagt þeim til fé, einkum í formi skattlagningar á viðkomandi greinar, þó sjóðirnir séu í eigu ríkisins.

Frumvarp það er ég mæli hér fyrir er afrakstur þessarar vinnu.

II.
Þátttaka ríkisins á íslenskum fjármagnsmarkaði er áberandi og mun meiri en í öðrum iðnríkjum. Starfandi eru fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins auk þess sem tveir af þremur starfandi viðskiptabönkum eru ríkisstofnanir. Starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna er gjarnan bundin við afmörkuð svið eða atvinnugreinar og þeim eru settar sérreglur í lögum.

Kostir geta verið því samfara að njóta verndar ríkisins, ýmissa sérreglna sem gilda um einstaka fjárfestingarlánasjóði, og í sumum tilvikum ríkisábyrgðar. Á hinn bóginn hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að svigrúm stofnana í eigu ríkisins til að bregðast við aukinni samkeppni er oft á tíðum lítið.

Á sama tíma benda erlendar samanburðarkannanir á alþjóðlegri samkeppnisstöðu til þess að Ísland sé aðeins um miðjan hóp ríkustu þjóða heims. Í nýlegri skýrslu World Economic Forum er Ísland í 32. sæti af 46 ríkjum ef einvörðungu er litið til fjármagnsmarkaðar. Ef litið er til alþjóðavæðingar er Ísland í 36. sæti í sama hópi, en með alþjóðavæðingu er átt við erlenda fjárfestingu, fjárfestingu innlendra aðila erlendis og tæknisamstarf. Margt bendir til þess að staða þessara tveggja sviða sé á meðal helstu veikleika íslensks atvinnulífs.

Í þessu ljósi er því afar brýnt að skilgreina að nýju hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði. Meginhlutverk þess verður jafnan að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á þessu sviði og að reglunum sé fylgt. Jafnframt kann á hverjum tíma að vera brýnt að ríkið hlutist til um fjármálastarfsemi sem nauðsynleg er til að efla atvinnulíf. Hins vegar ber að láta öðrum eftir að stunda þá starfsemi sem einkaaðilar eru tilbúnir að annast með eðlilegum hætti.

Þannig má færa fyrir því sterk rök að ríkinu beri í áföngum að draga úr vægi sínu í hefðbundinni fjármálastarfsemi á borð við viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarlánastarfsemi, en beita kröftum sínum fremur að áhættumeiri fjárfestingarþjónustu eins og verkefnafjármögnun og beinni áhættufjármögnun. Með frumvarpinu sem ég mæli nú fyrir, auk frumvarpa til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem ég hef einnig lagt fram, eru stigin skref í þá átt sem hér var lýst.

Með þessu eru boðaðar róttækar og umfangsmiklar skipulags- og hagræðingaraðgerðir á íslenskum fjármagnsmarkaði. Megintilgangur aðgerðanna er að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti í framtíðinni séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á sem hagstæðustum kjörum.

III.
Frumvarpið sem hér er mælt fyrir gerir ráð fyrir að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. verði stofnaður á grunni Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs auk Útflutningslánasjóðs. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verður einnig reistur á grunni þessara sjóða, ef þetta frumvarp og frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð verða að lögum. Til greina kemur að fleiri fjárfestingarlánasjóðir sameinist hinum nýja fjárfestingarbanka fljótlega eftir stofnun hans. Má í því sambandi nefna Ferðamálasjóð.

Fjárfestingarbankanum er ætlað að starfa eftir lögum nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og afmarkast starfsemin því af þeim heimildum sem hann hefur í þeim lögum. Megináhersla í starfsemi fjárfestingarbankans mun snúa að hefðbundinni starfsemi sem tengist veitingu langtímaveðlána. Auk þess má ætla að hann sinni fjármögnun skilgreindra og afmarkaðra verkefna. Þá er ljóst að fjárfestingarbankanum verða sett ströng markmið um hagkvæmni og ódýra þjónustu. Af þessu leiðir að öllum líkindum að áhersla verður lögð á þjónustu yfir tilteknum fjárhæðamörkum.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:

•Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. taki til starfa sem lánastofnun hinn 1. janúar 1998. Fjárfestingarbankinn muni þó verða stofnaður sem hlutafélag eigi síðar en 1. júlí 1997. Fram til 1. janúar 1998 verði unnið að undirbúningi þess að hann hefji starfsemi sem lánastofnun. •Ríkisjóður verði einn eigandi hlutafjár í fjárfestingarbankanum við stofnun hans. Heimilt verður að selja 49% hlutafjár ríkisjóðs og er gert ráð fyrir að undirbúningur að sölu verði þegar hafinn. •Samtökum fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi verði tryggð aðild að meðferð atkvæða ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum. •Ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem stofnað var til í starfstíð þeirra. •Fjárfestingarbankinn taki við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem ekki er ráðstafað til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Fjárfestingarbankinn taki jafnframt við öllum skattalegum réttindum og skyldum sjóðanna. •Starfsmönnum
núverandi sjóða verði tryggð störf í fjárfestingarbankanum eða Nýsköpunarsjóði.

IV.
Það er mat ríkisstjórnarinnar, að sú leið sem hér er farin þjóni best þeim meginmarkmiðum sem áður hefur verið lýst, þ.e. að tryggja atvinnulífinu aðgang að hagkvæmu fjármagni. Atvinnufyrirtækjum er nauðsynlegt að eiga slíka stofnun að bakhjarli, sem býður upp á raunhæfan valkost við fjármögnun. Fjárfestingarbanki af þessu tagi getur náð hagstæðum samningum við lánveitendur og með því, ásamt lágum rekstrarkostnaði, veitt fyrirtækjum hagstæð lán og skapað starfandi viðskiptabönkum heilbrigða samkeppni. Einnig er með þessari leið varðveitt og nýtt mikil fyrirliggjandi þekking núverandi sjóða á atvinnulífinu og náin tengsl þeirra við viðskiptafyrirtæki sín. Þá er atvinnugreinaskipting í starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna afnumin, en það leiðir til hagstæðari áthættudreifingar. Í heild mun þessi leið því leiða til hagræðingar á fjármagnsmarkaði.

V.
Við undirbúning málsins var leitað til ýmissa aðila um mat á helstu leiðum við endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna. Meðal annars var leitað til fjármálafyrirtækisins JP-Morgan í London, og óskað eftir að sérfræðingar legðu mat á hin mismunandi viðhorf og þær mismunandi leiðir sem um hefur verið fjallað á undanförnum misserum. Hliðsjón var höfð af þeirri þróun sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar og líklegri þróun til framtíðar.

Það er mat JP-Morgan að með tilliti til líklegrar þróunar næstu ára, megi ætla að starfsemi fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka verði samþætt. Viðskiptamenn þessara stofnana séu hinir sömu og þekking á starfseminni til staðar. Engu að síður er það niðurstaða athugunarinnar að fjárfestingarlánasjóðir muni áfram hafa hlutverki að gegna. Bent er einkum á tvö atriði sem marka fjárfestingarlánasjóðunum sérstöðu sem geti nýst íslensku atvinnulífi.

Annars vegar eru möguleikar sjóðanna til að viðhalda og þróa áfram náin tengsl sín við atvinnulífið, sem leiði til bættrar þjónustu á þessu sviði. Þannig geti slíkir sjóðir veitt þjónustu til hliðar við þjónustu viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja og verið valkostur við aðra starfsemi á fjármagnsmarkaði. Hins vegar geta fjárfestingarlánasjóðirnir áfram veitt langtímalán á mjög hagstæðum kjörum, vegna góðrar stöðu á lánamarkaði og lágs rekstrarkostnaðar.

Þá er það mat JP-Morgan að sameining sjóðanna í einn fjárfestingarbanka og stofnun nýsköpunarsjóðs hafi marga kosti. Með sameiningu megi ná fram hagræðingu í rekstri. Einnig gefi þessi nýskipan færi á að aðgreina hefðbundna fjárfestingarlánastarfsemi frá áhættufjármögnun. Stofnun fjárfestingarbanka geti ýtt undir samkeppni á fjármagnsmarkaði, auðveldað einkavæðingu og leitt til sérhæfðari fjármálaþjónustu. Þá geti nýr fjárfestingarbanki orðið álitlegur kostur fyrir erlenda lánveitendur og fjárfesta. Að mati JP-Morgan ætti nýr fjárfestingarbanki að starfa á sama grunni og Iðnlánasjóður og Fiskveiðasjóður, þ.e að veita langtímalán og tengda fjármálaþjónustu, en gæti einnig aukið sérhæfingu á fjármagnsmarkaði.

VI.
Eins og bent er á má með sameiningu sjóðanna ná fram verulegri hagræðingu í rekstri sem mun skila sér í betri kjörum á lánum til fyrirtækja.

Fullri hagræðingu verður þó ekki náð í fyrstu. Nokkurn tíma mun taka að koma starfseminni í fastar skorður. Þá er gert ráð fyrir að starfsfólki sjóðanna þriggja verði tryggt starf í fjárfestingarbankanum eða Nýsköpunarsjóði, enda má ætla að uppbygging starfseminnar í fyrstu kalli á mikla vinnu. Reynslan sýnir hins vegar að náðst hefur hagræðing í starfsmannamálum þar sem svipuð leið hefur verið farin. Ekki liggja fyrir nákvæmar rekstraráætlanir fyrir bankann enda verður það hlutverk stjórnar bankans að taka endanlegar ákvarðanir um rekstur og mannahald. Samkvæmt áætlunum sem sem ég hef látið gera, og byggjast á fyrirliggjandi ársreikningum og rekstraráætlunum fjárfestingar-lánasjóðanna, má þó ætla að meginstærðir efnahagsreiknings fjárfestingarbankans við stofnun hans verði sem hér segir:

Eignir fjárfestingarbankans verði um 50.000 m.kr., en þar af næmu útlán um 43.300 m.kr. Skuldir samtals verði um 41.600 m.kr., en þar af væri lántaka 40.000 m.kr.

Eigið fé næmi tæpum 8.500 m.kr.

Ef rekstur fjárfestingarbankans á fyrsta ári, þ.e. 1998, er áætlaður með hliðsjón af reikningum sjóðanna fyrir þetta ár ásamt rekstraráætlunum samkvæmt framansögðu, má ætla að hagnaður fyrir skatta geti numið 845 m.kr. Hins vegar má ætla að á fyrstu rekstrarárum hans muni nást hagræðing sem skili meiri hagnaði. Þannig hefur í áætlunum verið gert ráð fyrir að rekstrargjöld lækki um 120-130 m.kr. á fyrstu þremur rekstrarárum fjárfestingarbankans.

Ætla má að arðsemi eigin fjár gæti numið um 8,1,% í árslok 1998. Fyrirliggjandi áætlanir gera þó ráð fyrir að vaxtamunur verði með svipuðum hætti og verið hefur eða um 1,8-2%. Ætla má hins vegar að samkeppni leiði til lægri vaxtamunar, en það mun hafa áhrif á arðsemi eigin fjár.

Ljóst er að eiginfjárhlutfall fjárfestingarbankans yrði sterkt. Samkvæmt fyrrgreindri rekstraráætlun gæti eiginfjárhlutfall fjárfestingarbankans numið um 17, 5%.

VII.
Það er mat þeirra sérfræðinga sem leitað hefur verið til að staða fjárfestingarbankans á erlendum lánamarkaði verði sterk strax frá upphafi. Þannig hefur þess verið gætt í frumvarpinu að tryggja stöðu erlendra lánveitenda núverandi sjóða eftir því sem kostur er. Þá er það mat sérfræðinga að fjárfestingarbankinn muni allt frá upphafi eiga kost á hagstæðum lánakjörum.

Rekstur Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs síðustu mánuði gefur góð fyrirheit um framhaldið og ekki verður séð að staða þeirra á erlendum lánamarkaði síðustu mánuði bendi til annars en að arftaki þeirra eigi einnig að geta náð góðri stöðu á skömmum tíma.

VIII.
Í gegnum árin hafa verið skiptar skoðanir um eignarhald þeirra sjóða sem til umfjöllunar eru, einkum Fiskveiðasjóðs Íslands og Iðnlánasjóðs. Af hálfu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og iðnaði hefur verið lögð áhersla á að atvinnuvegirnir og jafnvel fyrirtæki hafi með viðskiptum sínum við sjóðina og greiðslum til þeirra öðlast eignarrétt eða hlutdeild í sjóðunum. Lögum samkvæmt er hins vegar ótvírætt að sjóðirnir eru í eigu ríkisins. Í umræðum um breytingar á sjóðunum hafa þó á liðnum árum komið fram hugmyndir að leiðum til að taka tillit til þessara sjónarmiða.

Við undirbúning þeirrar endurskipulagningar sem nú er á döfinni hefur verið miðað við að veita samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði aðild að stjórnun fjárfestingarbankans við stofnun hans. Þannig er lagt til að atvinnuvegirnir eigi aðild að meðferð atkvæða fyrir hönd ríkissjóðs. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði, ásamt Alþýðusambandi Íslands, eigi þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Ég tel hins vegar rétt að undirstrika að fjárfestingarbankanum er ætlað að sinna öllum atvinnugreinum, ekki bara sjávarútvegi og iðnaði.

IX.
Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fjárfestingarbankinn taki við eignum, skuldum og skuldbindingum umræddra sjóða, að frádregnum 3.000 m.kr. sem lagðar verði til Nýsköpunarsjóðsins í formi markaðshæfra hlutabréfa sem nú eru í eigu sjóðanna, auk skuldabréfs sem gefið yrði út af fjárfestingarbankanum.

Einnig er gert ráð fyrir að til Nýsköpunarsjóðs renni eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs. Þessi deild hefur afmarkaðan tilgang á sviði iðnþróunar og er fjárhagur hennar aðskilinn frá annarri starfsemi. Til hennar rennur meginhluti svokallaðs iðnlánasjóðsgjalds, sem innheimt er af iðnaðinum í landinu.

X.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gildistöku laganna verði hafinn undirbúningur að sölu á allt að 49% hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Það mun ráðast af aðstæðum á markaði og hagsmunum fjárfestingarbankans að öðru leyti, hversu hratt hlutabréf verða seld. Hins vegar er lögð áhersla á að hin heimilaða sala fari fram strax og aðstæður leyfa.

Í ákvæðinu felst að ekki verður heimilt að selja meirihluta ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum nema með heimild Alþingis. Í þessu sambandi verður að hafa í huga stöðu fjárfestingarbankans á erlendum lánamarkaði. Það er samdóma álit þeirra sérfræðinga sem leitað hefur verið til að mikilvægt sé að meirihluti ríkissjóðs verði ekki seldur fyrst um sinn, þannig að hinum nýja fjárfestingarbanka verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaði við öflun lánsfjár og afla sér trausts á erlendum lánamarkaði. Hafa verður og í huga stöðu núverandi lánardrottna sjóðanna, einkum með tilliti til þeirra skuldbindinga sem Fiskveiðasjóður Íslands er nú í, en hann nýtur ekki ríkisábyrgðar.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði Nýsköpunarsjóði 1.000 m.kr. af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Nauðsynlegt er með vísan til þessa að flýta fyrstu sölu hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Gengið er út frá því að Nýsköpunarsjóði verði lagt til fyrsta söluandvirði bréfanna.

XI.
Gert er ráð fyrir að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. taki til starfa sem lánastofnun hinn 1. janúar 1998. Hins vegar verði hann stofnaður í síðasta lagi 1. júlí 1997 til þess að auðvelda og gera markvissari þann undirbúning sem nauðsynlegur er.

Á sama tíma skulu Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður lagðir niður og lög sem um þá gilda felld úr gildi. Rétt er að benda sérstaklega á að lög nr. 93/1986 um Stofnfjársjóð fiskiskipa falla niður, og með því sá greiðslumáti lána hjá Fiskveiðasjóði sem þar er gert ráð fyrir. Jafnframt er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Nauðsynlegt þykir að hraða aðgerðum þeim sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, til að eyða sem fyrst þeirri óvissu sem ríkt hefur um framtíð þessara sjóða og óvissu sem óhjákvæmilega fylgja breytingum af þessu tagi.

XII.
Herra forseti,
Umræða um endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna hefur verið á sér langa sögu. Síðustu ríkisstjórnir hafa gert sér grein fyrir mikilvægi breytinga, en ekki hefur enn tekist að efna til breytinga, þó frumvarp þar að lútandi hafi einu sinni verið lagt fram á Alþingi.

Nú er hins vegar brýnt að aflétt verði þeirri óvissu sem skapast hefur í kringum áform síðustu ára. Á þar hið sama við og um þær breytingar sem nú eru fyrirhugaðar á starfsemi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

Herra forseti,
Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og að þau verði afgreidd á þessu þingi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta