Stóriðja og umhverfið.
Ágætu ráðgjafarverkfræðingar.
Í samræmi við framkomnar óskir ykkar og yfirskrift þessa fundar mun ég hér á eftir fjalla lauslega um hin samtvinnuðu tengsl orku- og stóriðjumála annarsvegar og umhverfismála hinsvegar. Í fyrri hluta erindisins er fjallað um "stóriðju og umhverfið", sem er yfirskrift fundarins, og sumir vilja líta á sem hin stóru ósættanlegu átakamál í þjóðmálaumræðunni. Í seinni hluta erindisins verður aftur á móti fjallað um þær stóriðjuframkvæmdir sem efstar eru á baugi þessa stundina.
I.
Það hefur lengi verið lenska hér á landi að margt sé rætt og ritað um sambúð okkar mannanna við náttúru landsins. Sú umræða hefur jafnan verið nauðsynleg til að halda vöku okkar um sameiginleg hagsmunamál þjóðarinnar og til þess að við gætum náð sameiginlegri sátt um umgengni okkar við bæði landið og hafið umhverfis það og um nýtingu auðlinda láðs og lagar.
Lykill að farsælum lyktum slíkrar umræðu er, að hún sé málefnaleg og að litið sé á umfjöllunarefnið á heildstæðan hátt út frá raunhæfum heildarhagsmunum þjóðarinnar allrar. Því miður er því oft á annan veg farið. Af alkunnri sóknarfestu okkar Íslendinga vill það henda, að mönnum rennur slíkt kapp í kinn að úr verður málflutningur sem einkennist öðru fremur af órökstuddum gífuryrðum. Þá tíðkast jafnvel þau áróðursbrögð að mála hlutina svo sterkum litum og ljótum að þeir sem ekki vita betur skipa sér fyrr en síðar í flokk gegn vargmenninu. Slíkur áróður, þar sem fyrst og fremst er reynt að höfða til tilfinninga fólks en ekki til skynsemi þess, er engum til sóma en öllum til tjóns.
Sú umfjöllun sem átt hefur sér stað upp á síðkastið um nýtingu orkulindanna og uppbyggingu iðnaðar í landinu hefur því miður einkennst allt of mikið af þröngri sýn á þau mál. Ástæða þess kann að vera sú að umfjöllunarefnið er margbreytilegra og flóknara en mörg fyrri deilumál, sem þjóðin hefur látið sig varða.
Umræðan um orku- og stóriðjumál snertir mörg svið og ólíka hagsmuni. Þar er m.a. tekist á um nýtingu orkulindanna, umhverfismál, landbúnað, ferðaþjónustu og síðast en ekki síst um efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Það gefur auga leið að þegar svo margþætt mál er til skoðunar hljóta sjónarmið einhverstaðar að stangast á. Slíkt er eðlilegt, en umfjöllun sem einvörðungu snýst um afmarkaða viðnámspunkta lýsir engu öðru en þröngsýni eða baráttu fyrir afmörkuðum sérhagsmunum, sem er engu betra.
II.
Umræðuefni þessa fundar er stóriðja- og umhverfi. Það fyrsta sem skaut upp í huga mér þegar ég sá yfirskrift þessa var, að þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa um hið gagnstæða, er það fullvissa mín, - að hagnýting orku fallvatnanna og jarðhitans er fyllilega samrýmanleg hagsmunum umhverfisverndar.
Augljósasta dæmið um þetta er hið tignarlega samspil orkunýtingar og umhverfis við orkuverið í Svartsengi. Þar hefur tekist að nýta frárennslisvatn virkjunarinnar í "Bláa lóninu" og skapa einn eftirsóttasta ferðamannastað hér suðvestanlands. Staðurinn er ekki hvað síst eftirsóknarverður vegna þeirra dulúðar sem gufur orkuversins kalla fram - í hinni hrópandi andstöðum úfins hraunsins og skínandi áferðar orkuversins sjálfs. Fáum leynist fegurð og tignarleiki þessa staðar þar sem sérkenni íslenskrar náttúru og mannanna verk upphefja hvert annað.
Með þessu dæmi um "Bláa lónið" vil ég draga fram það sjónarmið að umræðan má ekki stöðugt snúast um það viðhorf sem felst í orðunum ANNAÐ HVORT - EÐA, heldur ætti hún fremur að taka mið af þeim heildarhagsmunum sem felast í orðumum BÆÐI - OG.
Álit þjóðarinnar í þessum efnum kemur raunar mjög skýrt fram í skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar í síðasta mánuði. Þar kemur m.a. fram að rúm 74% landsmanna telja að virkjanamannvirki á hálendinu hafi jákvæð eða engin áhrif á ferðamenn sem koma á þau svæði og rúm 84% telja að hægt sé að sætta sjónarmið til raforkuframleiðslu og umhverfisverndar í óbyggðum svo vel fari.
Þessi niðurstaða undirstrikar þá skoðun mína að nýting auðlinda landsins, hverju nafni sem nefnast, ætti ætíð að hafa að meginmarkmiði að gæta bæði að raunhæfri náttúruvernd og skynsamlegri nýtingu auðlindanna.
III.
Um það deila fáir, að orku- og stóriðjuframkvæmdir eru fýsilegir og góðir kostir fyrir efnahagslegt sjálfstæði okkar. Þær raddir sem á sínum tíma voru andvígar álverinu í Straumsvík eru löngu þagnaðar og almenn samstaða er um áframhaldandi uppbyggingu þar.
Framtíð þjóðarinnar byggir á því að við getum á farsælan hátt styrkt stoðir efnahagslífs okkar. Nýting orkulindanna og stóriðja er ótvírætt hluti af þeirri viðleitni, en einskorðast að sjálfsögðu ekki við einhliða uppbyggingu orkufreks iðnaðar, án skírskotunar til annars.
Fullyrða má, að aukin nýting orkulindanna, stóriðja og verndun umhverfisins eru samrýmanleg markmið. Fegurð landsins er einstök og sérkenni þess verður okkur að auðnast að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Hornsteinn þess er raunhæf náttúruvernd sem byggir á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlindanna. Þar þarf að vera rými fyrir eðlilega landnýtingu vegna - landbúnaðar, -ferðaþjónustu, - orkuvinnslu og -annarar atvinnustarfsemi, sem hver á sinn hátt taka vissulega toll af landinu.
Náttúruverndarstefna sem felst í því að ekkert megi gera til að byggja upp innviði samfélagsins leiðir aðeins til stöðnunar. Hún hefur enga þá verðleika sem komandi kynslóðir munu þakka okkur og hún leiðir ekki til markvissrar náttúruverndar. Sameiginlegt takmark okkar hlýtur að felast í því að efla efnahagslega afkomu þjóðarinnar og bæta mannlífið hér á landi. Ávinningur þess er margbreytilegur, m.a. er það ein helsta forsenda þess að okkur takist að ná raunverulegum árangri í umhverfismálum.
IV.
Vík ég þá máli mínu að stóriðjuframkvæmdum.
Markmið og ávinningur
Sem upphafsorð í umfjöllun minni um fyrihugaðar stóriðjuframkvæmdir hér á landi vil ég bregða upp mynd af helstu markmiðum slíkra framkvæmda.
Markmið:
1.Auka hagvöxt. 2.Auka atvinnu og kaupmátt 3.Afla aukinna úflutningstekna 4.Sveiflujöfnun í framleiðlsu og útflutningstekjum 5.Virkjun þekkingar og aukin þekkingaröflun 6.Skynsamleg nýting náttúruauðlindanna
Eðli sínu samkvæmt eru framkvæmdir í stóriðju- og orkumálum svo risavaxnar í litlu hagkerfi okkar að þær hafa veruleg áhrif á þjóðhagsstærðir. Sem dæmi má nefna að ef reist er 60 þús. tonna álver á Grundartanga og Járnblendiverksmiðjan stækkuð um einn ofn, með 40.000 tonna ársframleiðslu, myndi fjárfesting aukast um fimmtung umfram það sem vænta mætti án þeirra.
Vegna þess er ástæða til að líta nánar á þann þjóðhagslega ávinning sem leiðir af tilkomu þessara tveggja stóriðjuvera á Grundartanga.
Þjóðhagsleg áhrif álvers CVC og stækkun ÍJ
Framkvæmdatími: Fjárfesting fyrir 36,2, milljarða 1600 ársverk skapast á framkvæmdatíma
(mynd 3)
Full framleiðsla iðjuveranna:
•Útflutningur eykst um 8,5 milljarða kr. •180 störf í iðjuverum og raforkuvinnslu •Varanleg heildaraukning landsframleiðslu u.þ.b. 5,5 milljarðar •Varanleg heildaraukning þjóðarframleiðslu 0,7 %
.
Um mynd 2
Ráðgert er að framkvæmdir við byggingu þessara iðjuvera standi yfir á árunum 1997-2000 með hámarki 1998. Ársverk í framkvæmdum vegna stækkunarinnar verða alls um 1600 - að langmestu leyti Íslendingar. Mest verður eftirspurnin eftir mannafla tvö fyrstu byggingarárin 530 og 760 ársverk, sem nemur um 5-8 % aukningar mannafla þessi ár.
Eins og fram kemur á myndinni verður fjárfest fyrir rúmlega 32 milljarða króna vegna framkvæmdanna. Af þessari fjárfestingu er gert ráð fyrir að um 16 milljarðar komi í hlut innlendra aðila, eða um helmingur fjárfestingarkostnaðar. Fjárfestingakostnaðurinn skiptist þannig að um 22,2 milljarðar kr. eru vegna fjárfestinga í raforkumannvirkjum, 11,3 milljarðar vegna álversins og 2,7 milljarðar vegna járnblendiverksmiðjunnar.
Um mynd 3
Iðjuverin verða bæði rekin á fullum afköstum árið 2000 og útflutningur þeirra nemur þá um 8 1/2 milljarði á ári. Þetta mun svara til fjögurra komma fimm prósenta aukningar í heildarútflutningi allrar vöru og þjónustu, sem vex við þetta úr 11% í 15%.
Varanleg aukning starfa nemur um 180 ársverkum samanlagt í iðjuverunum tveimur og í raforkuvinnslu, sem samsvarar um 0,13 % af áætluðum heildarmannafla.
Áhrif framkvæmdanna á hagvöxt eru umtalsverð. Fjárfestingar í heild aukast um 14% og allt að 24% árið 1998. Þetta á að leiða til þess að hagvöxtur á þessu ári verði 4% í stað 2 1/2%, eða 1,2 % meiri en ella. Þessi áhrif fjárfestinganna fjara síðan út 1999-2000, en samtímis hefst framleiðsla iðjuveranna.
Reiknað er með að varanleg heildaraukning þjóðarframleiðslunnar geti orðið 0,7%.
Framhald framkvæmd á Grundartanga
Um framhald framkvæmda á Grundartanga er of fljótt að fullyrða nokkuð um á þessri stundu. Engu að síður er ástæðulaust að horfa fram hjá því að CVC mun áforma að stækka verksmiðju sína á Grundartanga ef vel gengur með það verkefni sem nú er áætlað að ráðast í. Þannig er í mati á umhverfisáhrifum miðað við allt að 180.000 árstonna framleiðslu.
Framangreint yfirlit miðast við að hafist verði handa við byggingu 3ja ofns Járnblendiverksiðjunnar eins og nú hefur verið tryggt með samningum við Elkem. Hann mun auka árlega framleiðslugetu verksmiðjunnar um 40.000 tonn, þ.e. úr 70.000 tonnum í 110.000 tonn. Ljóst er að þessi stækkun er mjög hagstæð fyrir afkomu verksmiðjunnar og mun styrkja samkeppnisstöðu hennar til lengri tíma litið.
Í ljósi þess að stærri rekstrareining hefur í för með sér lækkun á framleiðslukostnaði og hagkvæmari rekstur hefur komið til tals að í framtíðinni verði hugað að enn frekari stækkun Járnblendi- verksmiðjunnar. Í því sambandi hefur verið rætt um að í framtíðinni komi til greina að bæta við IV. og V. ofni, hvorum fyrir sig með 40.000 tonna framleiðslugetu. Ekkert er ákveðið í þessu máli en rætt hefur verið um að til greina komi að V. ofninn verði kominn í starfrækslu innan 10 ára.
V.
Um stækkum Járnblendiverksmiðjunnar:
Málefni Járnblendiverksmiðjunnar hafa verið nokkuð í sviðsljósinu á undanförnum vikum. Fyrir réttum tveim vikum slitnaði upp úr samningaviðræðum okkar við ELKEM og daginn eftir (laugardaginn 8. mars) rann út frestur Landsvirkjunar um rafmagnsverð til verksmiðjunnar. Á þessum tímapunkti voru góð ráð dýr enda voru það sameiginlegir hagsmunir allra eigendanna að styrkja rekstur verksmiðjunnar með stækkun hennar. Þótt mögulegt hefði verið að knýja fram stækkun með liðsinni Sumitomo og 70% sameiginlegrar eignaraðildar í fyrirtækinu voru á því ýmsir hnökrar sem fyrst og fremst tengdust framkvæmd markaðssamningsins. Eina raunhæfa leiðin í stöðunni var að reyna til hlítar að ná samkomulagi milli allra eignaraðila um stækkunina.
Hagsmunir okkar Íslendinga í því máli voru miklir. Eignaraðildin að verksmiðjunni skipti þar ekki meginmáli. Hin þjóðhagslegu áhrif stækkunarinnar vógu þar mun þyngra.
Án þess að rekja þau áhrif í smáatriðum má sem dæmi benda á að án stækkunar Járnblendiverksmiðjunnar hefði hagvöxtur orðið um 3,5 % í stað 4,5 % og varanleg heildaraukning þjóðarramleiðslu 0,5 % í stað 0,7%.
Sá samningur sem nú hefur tekist, og undirritaður var í gær, á milli ELKEM og íslenska ríkisins felur í meginatriðum í sér eftirfarandi:
mynd 4 (vantar hér)
Ágætu ráðgjafaverkfræðingar.
Ég hef hér að framan farið yfir þau mál sem umfangsmest hafa verið í stóriðjuumræðunni að undanförnu. Virkjun orkulindanna og bygging stóriðjuvera er vitaskuld mikilvægur þáttur í því að styrkja efnahagslíf okkar. Því má þó ekki gleyma, að efling og uppbygging smærri fyrirtækja skiptir þar engu minna máli. Um allan heim eru það litlu og meðalstóru fyrirtækin sem skapa flest störf, mestu verðmætin og þar verða flestar nýjungarnar til. Ísland er engin undantekning frá þessu og væntanlega verður svo áfram.
Takk fyrir.