Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. mars 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á ársfundi Orkustofnunar

Ræða á ársfundi Orkustofnunar

Ágætu ársfundargestir.

I.

Hefðbundin viðhorf til ríkisreksturs hafa verið að breytast á undanförnum árum. Hvarvetna er leitast við að auka hagkvæmni hans og draga úr útgjöldum. Það hefur þó ekki reynst auðvelt verk, þar sem stöðugt eru gerðar meiri kröfur á hendur ríkinu um meiri samfélagslega þjónustu. Ein helsta forsenda þess að unnt sé að verða við slíkum kröfum er markvissari og skilvirkari ríkisbúskapur. Það getur m.a. falist í því að ríkið dragi sig smám saman út úr almennum rekstri og eignaraðild að fyrirtækjum sem einkaaðilar geta sinnt fullt eins vel. - Minnkandi ríkisafskipti af almennri atvinnustarfsemi eru hluti af þeirri viðleytni stjórnvalda að minnka opinber útgjöld, auka hagræði og framleiðni í rekstri og bæta þjónustu.

Þessar breytingar snerta ráðuneyti mín talsvert. Það er m.a. vegna þess að þar eru miklvægir málaflokkar, sem á komandi árum munu taka veigamiklum breytingum í átt til aukins markaðsbúskapar. Eitt þessarra mála snertir framtíðarskipan raforkumála sem ég mun nú fjalla nokkuð nánar um.

II.

Núverandi skipan raforkumála hefur um margt reynst vel. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Þrátt fyrir þetta er ástæða til að horfa til framtíðarinnar í ljósi breyttra viðhorfa og nýta sér þau sóknarfæri sem leitt geta til enn betri árangurs. Í því felst að virkja þarf markaðsöflin í því skyni að auka hagkvæmni í raforkubúskapnum.

Meginefni þeirra breytinga á framtíðarskipan raforkumála sem til umræðu hafa verið felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Í þessu felst, að í áföngum verði unnið að því að skapa forsendur fyrir aðskilnaði - vinnslu, - flutnings, - dreifingar og - sölu rafmagns. Jafnframt er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að samkeppni geti þróast eðlilega á þeim sviðum þar sem hún á við, þ.e. í - vinnslu og - sölu rafmagns, og að komið verði á virku eftirlitskerfi á sviðum einkaréttar, þ.e. í - flutningi og -dreifingu rafmagns. Þessar breytingar þurfa að eiga sér stað í áföngum þar sem fullt tillit verður tekið til stöðu raforkufyrirtækjanna og þeim veitt nauðsynlegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum.

Eðlilegur fyrsti áfangi þess að koma á samkeppni í viðskiptum með rafmagn er að vinnsla, flutningur, dreifing og sala rafmagns verði bókhaldslega aðskilin í starfsemi þeirra raforkufyrirtækja sem eru með blandaðan rekstur. Ástæður þess að bókhaldslegur aðskilnaður er nauðsynlegur eru fyrst og fremst þær að hluti af orkugeiranum, þ.e. flutnings og dreifikerfið, býr við náttúrulega einkasölu og því koma aðstæður í veg fyrir að samkeppni geti átt sér stað á þeim sviðum. Vinnsla og sala rafmagns er hins vegar þess eðlis að þar má beita markaðslausnum. Til þess að unnt verði að tryggja samkeppni á jafnréttisgrundvelli verða þessi þættir augljóslega að vera aðgreindir. Slíkur bókhaldslegur aðskilnaður hefur nú þegar verið tekinn upp hjá Landsvirkjun og fleiri munu vera með það í undirbúningi.

Næsta skref í þessari framtíðarskipan gæti verið stofnun félags um flutningskerfið sem nefna má Landsnet. Gert er ráð fyrir að framleiðendur raforku selji rafmagn inn á Landsnetið þannig að til verði virkur markaður með rafmagn. Auk þess að reka flutningskerfið og annast álagsstýringu myndi Landsnetið þurfa að tryggja afhendingaröryggi og gæði raforkunnar. Ekki er augljóst hvar mörkin á milli Landsnetsins og dreifiveitnanna eigi að liggja og bíður það nánari skoðunar. Margt styður þó það sjónarmið að Landsnetið yfirtaki að lágmarki flutningskerfi Landsvirkjunar og þann hlut af flutningskerfi RARIK sem þarf til að tryggja að allar rafveitur eigi beinan aðgang að Landsnetinu.

Annar skilgreinanlegur áfangi í markaðsvæðingu raforkukerfisins er að skapa svigrúm fyrir frjáls viðskipti kaupenda og seljenda rafmagns. Í þessu felst m.a. að einkaleyfi rafveitna á sölu rafmagns á tilteknum orkusölusvæðum verði afnumin í áföngum. Í stað þess yrðu viðskipti með rafmagn gefin frjáls. Frjáls viðskipti með rafmagn og tilkoma Landsnetsins þarf ekki að þýða að víkja þurfi frá verðjöfnun á raforku heldur gefst betra tækifæri verðjöfnunar með skýrari hætti.

Í fyrstu mætti hugsa sér að um takmarkaða samkeppni yrði að ræða, sem t.d. yrði bundin við aukna raforkuþörf þar sem nýjum stórnotendum yrði gert kleift að kaupa rafmagn frá nýjum raforkuverum og þeim tryggður flutningur um Landsnetið samkvæmt reglum sem miða að markaðsviðskiptum.

Við það að samkeppni komist á í vinnslu og sölu rafmagns mun starfsumhverfi raforkufyrirtækjanna breytast verulega. Í skýrslu nefndar um framtíðarskipan orkumála eru m.a. leiddar líkur að því að skynsamlegt kynni að vera að fá einkafjármagn inn í raforkugeirann og að breyta eingarhaldi á orkufyrirtækjum. Þessar hugmyndir eru enn á mótunarskeiði og bíða frekri skoðunar.

III.

Þær breytingar á skipulagi raforkumarkaðarins sem ég hef hér í stuttu máli fjallað um hafa það að meginmarkmiði að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmari nýtingu orkulindanna. Þótt þær snerti fyrst og fremst rafveiturnar þá hljóta þær engu að síður að hafa nokkur áhrif á starfsemi Orkustofnunar.

Meðal annars munu breytingarnar kalla á skýrari ákvæði um fjármögnun orkurannsókna. Einkum þarf að skilgreina nauðsynlegar rannsóknir, t.d. svo kallaðar grundvallarrannsóknir, og ljóst þarf að vera hverjum sé ætlað að sjá til þess að slíkar rannsóknir séu stundaðar.

Í því samkeppnisumhverfi, sem hér er lagður grunnur að, verður varla til þess ætlast að einstök orkufyrirtækin kosti rannsóknir - sem óvíst er hvort eða hvernig þær nýtast þeim, eða - sem geta jafnframt nýtst keppinautunum, án þess að til komi einhverskonar endurgreiðsla á útlögðum kostnaði.

Um þessi mál hefur verið fjallað all ítarlega í vinnuhópi um gerð orkurannsóknaráætlunar og mun ráðuneytið taka afstöðu til tillagna vinnuhópsins að fengnu áliti hans. Verður þá lagt mat á heildarniðurstöðuna út frá því sjónarmiði að nauðsynlegar orkurannsóknir raskist ekki og með það í huga að til verði hvati fyrir orkufyrirtækin til að taka þátt í orkurannsóknum í ekki minna mæli en hingað til.

IV.

Orkustofnun og aðrar rannsóknarstofnanir ríkisins standa nú frammi fyrir aukinni samkeppni frá aðilum á frjálsum markaði. Fyrirtæki á einkamarkaði hafa í auknum mæli séð sér fært að bjóða upp á þjónustu sem samkvæmt hefð hefur verið sinnt af opinberum stofnunum. Samhliða þessu hefur orðið nauðsynlegra að gera ákveðnari kröfur um það að opinberir aðilar og einkaaðilar standi jafnfætis á markaði þegar þeir veita sömu eða sambærilega þjónustu. Kröfur verða því stöðugt háværari um að opinber samkeppnisrekstur verði fjárhagslega aðskilinn frá annarri starfsemi, þannig að greinileg fjárhagsleg skil verði á milli þeirra rekstrareininga sem eiga í samkeppni við einkaaðila og annarrar starfsemi sem er utan við slíka samkeppni.

Á sl. ári var skipulagi Orkustofnunar breytt til samræmis við ríkjandi viðhorf um nýskipan ríkisrekstursins. Þar hefur m.a. verið skilið á milli þess hluta starfseminnar sem annast framkvæmd rannsókna og þess hluta sem annast aðra þætti orkumálanna. Einnig er gerð sú krafa að sá hluti rannsóknarstarfseminnar sem telst vera í samkeppni á markaði sé rekinn á sömu forsendum og einkareksturinn sem hann keppir við. Þótt þetta sé ekki nýmæli í rekstri hins opinbera er Orkustofnun fyrsta rannsóknarstofnunin sem getur tekið þátt í samkeppnisrekstri á sama rekstrar- og efnahagslega grundvelli og einkareksturinn.

Á Orkustofnun ríkir nú rekstrarlegt umhverfi sem er sambærilegt við það sem einkareksturinn býr við og er því eðlilegt að stofnunin fái aukið svigrúm til að athafna sig á makaðnum í samræmi við hina auknu ábyrgð. Samkeppnisreksturinn fær þá að njóta góðs af faglegri færni sinni og hagkvæmni rekstursins. Takist honum að vaxa og dafna í viðskiptaumhverfi samkeppnisrekstursins, þar sem undanbragðalaust er keppt á jafnræðisgrundvelli, getur það ekki verið af öðru en hinu góða. Slíkt er aðeins til vitnis um að þar sé að fá góða og ódýra þjónustu.

V.

Eftir margra ára samdráttarskeið í virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum horfir nú vænlegar í þeim efnum en oftast fyrr. Vel miðar með stækkun álvers ÍSAL í Straumsvík, samið hefur verið um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og byggingu nýs álvers Columbia á sama stað. Eðli sínu samkvæmt eru slíkar framkvæmdir í stóriðju- og orkumálum svo risavaxnar í litlu hagkerfi okkar að þær hafa veruleg áhrif á þjóðhagsstærðir. Áhrifa þeirra mun gæta í þjóðfélaginu öllu, þær munu skapa fjölmörg ný störf og leiða til umtalsverðrar aukningar í landsframleiðslu okkar.

Um frekari framkvæmdir á Grundartanga, eða um aðra nýja stóriðju, er of fljótt að fullyrða nokkuð um á þessari stundu. Engu að síður er ástæðulaust að horfa fram hjá því að Columbia mun áforma að stækka verksmiðju sína þar. Þannig er í mati á umhverfisáhrifum miðað við allt að 180.000 árstonna framleiðslu, sem líta má á sem langtíma markmið eigenda.

Á sama hátt er ljóst að frekari stækkun verksmiðju Járnblendifélagsins yrði mjög hagkvæm og myndi styrkja samkeppnisstöðu hennar til lengri tíma litið. Í því sambandi hefur verið rætt um að til greina komi að bæta við IV. og V. ofni, hvorum um sig með 40.000 tonna framleiðslugetu.

VI.

Ágætu ársfundargestir.
Framundan eru breyttir tímar í orkumálum okkar. Í bráð bera hæst stóraukin umsvif í virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum eftir langvarandi samdráttarskeið. Jafnframt má sjá teikn á lofti um umtalsverðar breytingar í fyrirkomulagi raforkumála okkar í átt að markaðsvæðingu þeirra. Á sama tíma hefur Orkustofnun stigið veigamikil spor til þess að geta tekið þátt í samkeppnisrekstri á almennum markaði. Öll þessi atriði munu hafa nokkur áhrif á starfsemi Orkustofnunar. Í þeim felst nokkur ögrun, en það sem meira er um vert er að þau bjóða upp á tækifæri fyrir stofnunina til nýrrar sóknar og nýrra sigra.


Orkustofnun hefur senn starfað í þrjá áratugi og allan þann tíma gegnt lykilhlutverki í orkuvæðingu þjóðarinnar. Stofnunin hefur átt því láni að fagna að hafa notið farsællar forystu mikilla hæfileikamanna, fyrst Jakobs Gíslasonar og síðan Jakobs Björnssonar sem lét af störfum sl. haust. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Jakobi Björnssyni fyrir framúrskarandi starf sem orkumálastjóri. - Jafnframt vil ég óska Þorkeli Helgasyni orkumálastjóra gæfu og góðs gengis í hinu nýja og vandasama starfi hans.

Starf Orkustofnunar og starfsmanna allra hefur verið heilladrjúgt og hefur orðspor þeirra borist langt út fyrir landsteinana. Ástæða er til að ætla svo verði áfram. Í tilefni þessara merku tímamóta vil ég að lokum óska Orkustofnun farsældar á komandi árum og þakka fyrir hið góða samstarf sem ætíð hefur verið á milli stofnunarinnar og ráðuneytisins.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta