Ræða á samráðsfundi Landsvirkjunar, 28. apríl 1997.
I.
Góðir fundargestir.
Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá síðasta ársfundi Landsvirkjunar. Eigendur fyrirtækisins hafa mótað fyrirtækinu stefnu, þar sem skýr markmið eru sett um raunlækkun á verði raforku til almennings, arðsemi og arðgreiðslur. Einnig hafa eigendur Landsvirkjunar tekið áfanga í átt að formbreytingu á rekstri með því að færa stjórnskipulag fyrirtækisins nær ákvæðum hlutafélagalaga. Alþingi hefur samþykkt þessa stefnumótun með breytingu á lögum um Landsvirkjun. Þessi ársfundur er því haldinn með nokkuð öðru sniði en verið hefur og markar tímamót í merkri sögu Landsvirkjunar.
Samráðsfundurfundur Landsvirkjunar er einnig haldinn á miklum umbrotatímum í íslenskum orkumálum. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi hefur tveggja áratuga kyrrstaða í stórnýtingu íslenskra orkulinda verið rofin. Í öðru lagi hefur gjörbreytt skipulag orkumála verið til umræðu, meðal annars í ljósi reynslu margra þjóða af því að virkja markaðsöflin á þessu sviði. Vík ég nú nánar að þessu tvennu.
II.
Með þremur nýjum stóriðjusamningum á örfáum misserum rofar aftur til í orkumálum eftir langvarandi stöðnum. Vinnsla hefst í nýjum kerskála í Straumsvík á miðju þessu ári og hafa framkvæmdir gengið þar framar vonum. Samningar voru undirritaðir milli ríkisins, Elkem og Sumitomo um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar með þriðja ofni sem á að komast í rekstur haustið 1999. Í samkomulaginu er jafnframt lagður grunnur að fjórða og fimmta bræðsluofni. Framkvæmdir eru þegar hafnar við byggingu álvers Columbia sem mun hefja rekstur á Grundartanga um mitt ár 1998.
Með þessum samningum munu 2300 gígavattstundir bætast við raforkunotkun landsmanna, sem er um 40% aukning. Raforkunotkun Íslendinga um aldamótin verður þá komin í 7000 gígavattstundir, þar af um tveir þriðju hlutar til stóriðju.
Þessir samningar eru hagkvæmir fyrir þjóðarbúið. Þeir munu draga úr vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum, renna fleiri styrkum stoðum undir útflutningsatvinnuvegina, auka framleiðslugetu þjóðfélagsins, skapa fjölbreyttara atvinnulíf og flytja inn erlent fjármagn, tækniþekkingu og hundruð nýrra hálaunastarfa. Síðast en ekki síst leiðir meiri fjölbreytni til sveiflujöfnunar og bættra lánskjara.
Áhrif framkvæmda við álver Columbia og járnblendiverksmiðjunar á hagsveifluna verða töluverð fram til aldamóta, án þess þó að stöðugleikanum í þjóðarbúskapnum sé fórnað. Hagvöxtur á þessu ári verður þannig 3,7% í stað 2,5% ef ekki hefði komið til stóriðjuframkvæmda. Ársverk vegna framkvæmdanna verða um 1600. Fjárfesting á næstu þremur árum eykst um 36 milljarða vegna framkvæmdanna. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu verður svipuð og í löndum OECD á næsta ári, en lítil fjárfesting hefur verið eitt stærsta efnahagsvandamál okkar á þessum áratug.
Þessir samningar eru mjög hagstæðir fyrir Landsvirkjun. Núvirtur hagnaður af orkusölu til Columbia og Járnblendifélagsins er um 1700 milljónir króna miðað við ávöxtunarkröfuna 5,5% og innri vextir af fjárfestingunni 6,7%. Þetta þýðir að fjárhagsstaða Landsvirkjunar batnar með tilkomu nýju samningana og fyrirtækið verður betur í stakk búið en áður að lækka orkuverð til almenningsveitna og fylgja þannig eftir þeirri stefnumótun sem eigendur fyrirtækisins hafa sett því.
III.
Skipulag raforkumála hefur verið mjög í brennidepli síðustu misserin. Auk viðræðunefndar eigenda Landsvirkjunar um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins skilaði ráðgjafarnefnd fulltrúa orkufyrirtækja, þingflokka, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, undir forystu Þórðar Friðjónssonar, tillögum til mín um endurskoðun á skipulagi raforkumála.
Á grundvelli tillagna nefndarinnar er nú unnið að stefnumótun um framtíðarskipulag raforkumála í landinu. Áður en málið verður lagt fyrir Alþingi tel ég nauðsynlegt að eiga samráð við hagsmunaaðila um þá stefnumörkun og verður það gert í sumar.
Ég tel að megináherslu eigi að leggja á að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Í þessu felst, að í áföngum verði unnið að því að skapa forsendur fyrir aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu rafmagns. Jafnframt er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að samkeppni geti þróast eðlilega á þeim sviðum þar sem hún á við, þ.e. í vinnslu og sölu rafmagns, og að komið verði á virku eftirlitskerfi á sviðum einkaréttar, þ.e. í flutningi og dreifingu rafmagns. Þessar breytingar þurfa að eiga sér stað í áföngum þar sem fullt tillit verður tekið til stöðu raforkufyrirtækjanna og þeim veitt nauðsynlegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum.
Fyrstu skrefin í átt að breyttu skipulagi raforkumála gætu verið að aðskilja vinnslu, flutning, dreifingu og sölu bókhaldslega í reikningum orkufyrirtækja, stofna félag um meginflutningskerfið, leggja frumvarp til raforkulaga fyrir Alþingi, breyta stjórnskipulagi orkufyrirtækja og móta arðstefnu þeirra. Jafnframt verði unnið að athugun á tæknilegum og fjárhagslegum möguleikum þess að tengja íslenska raforkukerfið við Evrópu.
Ef litið er lengra fram á veg má í ljósi þessa gera ráð fyrir að á árunum 2000-2005 verði orkufyrirtækjum breytt í hlutafélög, 2005-2007 verði lokið við að innleiða samkeppni til að mæta aukinni raforkuþörf til almenningsnota og loks 2007-2009 verði myndaður orkumarkaður á vegum Landsnetsins. Frjáls samkeppni ríki þá í viðskiptum með raforku.
IV.
- Stefnumótun eigenda Landsvirkjunar og nýsamþykktar breytingar á lögum um Landsvirkjun er í fullu samræmi við þetta. Breytingar á lögum og sameignarsamningi um Landsvirkjun fela meðal annars í sér að
- Landsvirkjun verði rekin sem sameignarfélag fyrst um sinn en fyrir árið 2003 verði metið hvort ástæða sé til að stofna hlutafélag um fyrirtækið,
- Stjórnskipulag félagsins verður fært til aukins samræmis við ákvæði hlutafélagalaga, meðal annars hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra,
- Skýr markmið eru sett um raunlækkun á verði raforku til almennings, sem tryggi 3% árlega raunlækkun frá 2001 til 2010,
- Skýr stefna er sett um arðsemi fyrirtækisins og samkomulag gert um hóflegar arðgreiðslur til eigenda, sem eru vel samrýmanlegar markmiðum um verðlækkun á raforku,
- Endurmat á eigendaframlögum sem verða notuð sem arðgreiðslustofn og
- Að Landsvirkjun verði heimiluð þátttaka í félögum á sviði orkumála
V.
Árangur er nú að koma í ljós af því markaðsstarfi sem unnið hefur verið á Markaðskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar. Þar hefur verið unnið mjög gott starf. Stofnun skrifstofunnar árið 1988 var skynsamlegt skref, sem tryggði að þekking og reynsla af þessu starfi byggðist upp á einum stað. Markaðsskrifstofan hefur gegnt eðlilegu og mikilvægu hlutverki við að greiða fyrir fjárfestingarverkefnum með hliðstæðum hætti og erlendar fjárfestingarskrifstofur almennt vinna.
Breska ráðgjafarfyrirtækið Ernst og Young, sem hefur víðtæka reynslu af ráðgjöf við erlendar fjárfestingar, er nú að ljúka úttekt á Markaðsskrifstofunni. Er það mat ráðgjafarfyrirtækisins að mikilvægur árangur hafi náðst. Fyrir utan þann beina árangur sem nú blasir við í þeim verkefnum sem verið er að leiða til lykta er ljóst að Ísland er komið á landakort fjárfesta á þeim sviðum sem Markaðsskrifstofan hefur einkum sinnt. Á síðustu tólf mánuðum hefur einungis verið tilkynnt um fimmtán nýjar fjárfestingar í málmvinnslum í Evrópu. Nú hefur okkur Íslendingum tekist að laða að þrjú verkefni á þessu sviði á undanförnum átján mánuðum. Óhætt er að segja að nú sé svo komið að ekki komi til fjárfesting á þessu sviði í Evrópu nema Ísland sé skoðað sem vænlegur valkostur.
Með stofnun Fjárfestingarskrifstofu Íslands, sem viðskiptaráðuneytið rekur í samvinnu við Útflutningsráð, var stefnt að því að auka kynningu á kostum fjárfestingar á öðrum sviðum hér á landi. Starfsemi þeirrar skrifstofu er nú komin í fast horf og ýmis fjárfestingarverkefni verið skilgreind, m.a. á sviði matvælaframleiðslu, hugbúnaðarþjónustu og vegna innflutnings starfandi fyrirtækja.
Brýnt er að auka erlenda fjárfestingu hér á landi og efla markaðsstarf á því sviði. Meðal þess sem þar kemur til athugunar er að sameina þessar tvær skrifstofur í eina öfluga fjárfestingarskrifstofu sem rekin yrði með virkri þátttöku Landsvirkjunar.
VI.
Í alþjóðlegu samstarfi eru sífellt gerðar meiri kröfur til umhverfismála á sviði orkumála. Þetta má sjá í áherslu á sjálfbæra þróun, notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að draga úr mengun vegna orkuframleiðslu.
Orkufyrirtækin hafa staðið sig með miklum ágætum á þessu sviði en sjónarmið þeirra hafa ekki komist nægilega skýrt til skila í almennri umræðu. Ég hef nýlega boðað forsvarsmenn stærstu orkufyrirtækja landsins saman til fundar til að ræða þörfina á átaki í umhverfismálum í orkugeiranum. Eru þeir sammála um að slíkt samstarf sé nauðsynlegt til að ná megi sem bestum árangri á þessu sviði og að sjónarmið orkufyrirtækjanna verði ekki útundan í þeirri umræðu sem nú á sér stað jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi. Hagkvæm nýting orkulinda landsins, að teknu tilliti til umhverfisþátta, er hagsmunamál fyrir þjóðina alla. Jafnframt mun aukin nýting hreinna og endurnýjanlegra orkulinda Íslendinga, m.a. til iðnaðarframleiðslu, draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og því mikilvægt að um slíka nýtingu ríki samstaða.
VII.
Góðir fundargestir.
Í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á lögum um Landsvirkjun verður breyting á stjórn fyrirtækisins. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem nú hverfa úr stjórn fyrir mikið og farsælt starf í þágu fyrirtækisins. Fráfarandi formanni, Helgu Jónsdóttur, vil ég þakka sérstaklega fyrir ánægjulegt samstarf um leið og ég býð nýja stjórn velkomna til starfa. Ég vil að lokum þakka starfsmönnum fyrirtækisins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á liðnum árum.