Grein í MBL, 21. febrúar 1998: "Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins"
Mér er í mun að áfram verði haldið við að ryðja burtu þeim múrum, segir Finnur Ingólfsson, sem enn eru á milli atvinnugreinanna. Um síðustu áramót urðu þáttaskil á íslenskum fjármagnsmarkaði. Gömlu ríkisviðskipta-
bönkunum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands var breytt í hlutafélög og fjórir fjárfestingarlánasjóðir sameinuðu starfsemi sína í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þessum breytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði voru strax í upphafi sett skýr markmið:
- Í fyrsta lagi að draga úr umsvifum ríkisins í almennri fjármálastarfsemi og leggja af ríkisábyrgðir.
- Í öðru lagi að brjóta niður þá múra sem verið hafa á fjármagnsmarkaðinum á milli einstakra atvinnugreina.
- Í þriðja lagi að greina á milli og skýra ábyrgð þróunar og áhættufjármögnunar annars vegar og almennrar fjármálastarfsemi
hins vegar. - Í fjórða lagi að efla framboð áhættufjármagns fyrir atvinnulífið.
- Í fimmta lagi að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaðinum með aukinni samkeppni, sem á að skila sér í ódýrari og betri
fjármálaþjónustu fyrir atvinnulífið.
Starfssvið Nýsköpunarsjóðs
Auk starfrækslu tryggingadeildar útflutningslána verður starfssvið Nýsköpunarsjóðsins í meginatriðum tvíþætt:
Annars vegar þátttaka í arðvænlegum fjárfestingarverkefnum með íslenskum og erlendum fyrirtækjum.
Hins vegar stuðningur við forathuganir, vöruþróunar- og kynningarverkefni.
Starfar á fyrstu stigum fjárfestingar
Nýsköpunarsjóði er fyrst og fremst ætlað að starfa sem áhættufjármagnssjóður. Í því felst að hann leggur fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána með sambærilegum kjörum og hlutafé hvað varðar áhættu og arðsemisvon. Í hlutafélagaforminu er fólginn mikill styrkur því það gefur ramma um aðhald og eftirlit með verkefnunum. Þess vegna er eðlilegt að sjóðurinn taki þátt í félögum með kaupum á hlutafé.
Af þessu leiðir að þátttaka Nýsköpunarsjóðs í fjárfestingarverkefnum er ekki hefðbundin stofnlánastarfsemi. Sjóðurinn beinir sjónum sínum fyrst og fremst að áhættumeiri fjárfestingarverkefnum á fyrstu stigum vaxtar, þ.e. á þeim stigum þar sem hefðbundinn áhættufjármagnssjóður starfar ekki. Honum er því ekki ætlað að keppa við aðra fjárfesta, sem nú þegar hafa á farsælan hátt markað sér veigamikið hlutverk á síðari stigum áhættufjárfestinga, eins og t.d. Aflvaki, Þróunarfélagið, Burðarás og Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hafa svo ágætlega gert.
Sjóðurinn mun jafnframt styðja við vöruþóun og ýmiss konar forathuganir og hagkvæmiathuganir, þar sem minni kröfur eru gerðar til beins arðs eða endurgreiðslu fjárframlaga, enda þótt ætla megi að þau geti leitt til arðsamra fjárfestinga eða framleiðslu síðar meir.
Nýsköpunarsjóðurinn mun sinna vandaðri áhættufjárfestingu á grundvelli þeirra meginreglna sem beitt hefur verið með góðum árangri á þróaðri mörkuðum en okkar. Nýsköpunarsjóðurinn er sem sagt sjóður sem fjárfestir á faglegum grunni þar sem arðsemisvon er í takt við áhættu.
Í umfjöllun Alþingis um frumvarp um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og í þeim starfsreglum sem nú hafa verið staðfestar kemur skýrt fram að Nýsköpunarsjóði er ætlað sérstakt hlutverk á íslenskum fjármálamarkaði á frumstigum fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum. Það er síðan á ábyrgð stjórnenda sjóðsins hvernig tekst til.
Múrum milli atvinnugreina rutt úr vegi
Sú breyting sem nú hefur orðið á rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna og fjárfestingalánasjóðanna er mér vissulega kærkomin. Jafnframt er mér í mun að áfram verði haldið við að ryðja burtu þeim múrum sem enn eru á milli
atvinnugreinanna. Hætta verður að meta alla hluti út frá einangruðum sérhagsmunum einstakra atvinnugreina. Í stað þess þurfum við öll að opna augu okkar fyrir því að það er miklu meira sem sameinar atvinnugreinarnar en skilur þær að. Þetta hefur tekist vel í þeim tilvikum þar sem reynt hefur á þetta. Átak til atvinnusköpunar og Samstarfsvettvangur sjávarútvegs og iðnaðar eru góð dæmi um hvernig til hefur tekist.
Átak til atvinnusköpunar er samstarfsverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem starfrækt hefur verið síðastliðin tvö ár. Þótt aðstandendur þess samstarfs hafi átt rætur í hefðbundnum iðnaði studdi það fyrst og fremst lítil og meðalstór fyrirtæki og nutu mörg fyrirtæki úr öðrum greinum, t.d. úr sjávarútvegi, ferðaþjónustu og landbúnaði, góðs af því. Nú eru gömlu samstarfsaðilarnir, þ.e. sjóðir iðnaðarins, horfnir af sjónarsviðinu. Brýnt er að halda
þessu starfi áfram.
Nýsköpunarsjóður mun taka upp merki þeirra og halda áfram því uppbyggingarstafi sem þeir unnu að og áttu vissulega sinn hlut í að koma á fót. Hér er ég fyrst og fremst að hugsa um mikilvæga verkefnaflokka eins og Vöruþróun, verkefni þar sem fyrirtæki hafa verið studd gegnum vöruþróunarferlið allt frá hugmynd að markaðshæfri vöru, Frumkvæðiframkvæmd, sem snúist hefur um sértæka ráðgjöf við fyrirtæki á ýmsum sviðum, s.s. stjórnun og markaðsmál, Snjallræði, hugmyndasamkeppni fyrir snjalla einstaklinga og Samstarfsvettvang sjávarútvegs og iðnaðar, sem stutt hefur við þróun og gerð ýmissa tækja og aðferða sem tengja saman sjávarútveg og iðnað. Allt eru þetta verkefni sem unnið hafa sér traust og virðingu þeirra sem til þekkja.
Endurskipulagning rannsóknastofnana næsta skref
Ekki þarf að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að Nýsköpunarsjóður myndi sterk tengsl við rannsóknar- og þróunarumhverfið hér á landi. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að gott samstarf myndist við atvinnulífið og samtök þeirra. Það kemur bæði til af því að uppsprettu nýsköpunar er gjarnan að finna í frjóum nýsköpunarjarðvegi stærri fyrirtækja og nauðsyn þess að fá fagfjárfesta til samstarfs um fjárfestingu á frumstigi með öflugri þátttöku í framtakssjóði Nýsköpunarsjóðs.
Það er trú mín og vissa að tilkoma Nýsköpunarsjóðs muni leiða til efldrar nýsköpunar og aukinnar sóknar og uppbyggingar íslensks atvinnulífs, m.a. með erlendri samvinnu. Það mun hvíla á herðum stjórnar og starfsliðs sjóðsins að búa svo um hnútana að það takist.
Ég lít svo á að Nýsköpunarsjóður sé fyrsta skrefið í átt að breyttu nýsköpunarumhverfi hér á landi. Óhætt er að segja að stofnun sjóðsins sé mjög mikilvægt skref að því marki. Næsta skref er hins vegar að endurskipuleggja tækniog rannsóknarstofnanir atvinnulífsins. Það er verkefni næstu ára.