Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Grein í MBL, 22. mars 1998: Fjölþjóðlegur fjárfestingarsáttmáli

 



Það er mér mikilvægt að fá tilefni til þess að gera grein fyrir stöðu samningaviðræðna sem nú standa yfir um hinn fjölþjóðlega fjárfestingarsáttmála, MAI (Multilateral Agreement on Investment). Ég vil þakka Steingrími J. Sigfússyni, alþingismanni, fyrir að hafa opnað umræðuna á opinberum vettvangi hér í Morgunblaðinu og vona ég að grein þessi muni svara spurningum hans um þátttöku Íslands í samningaferlinu.

Forsaga
Mál þetta á sér nokkra forsögu því allt frá 1991 hefur verið unnið að undirbúningi fjölþjóðlegs fjárfestingarsáttmála á vettvangi OECD sem fæli í sér aukið frelsi í alþjóðlegri fjárfestingu, örugga fjárfestingarvernd og virka lausn deilumála er kynnu að koma upp á milli aðildaríkja eða aðildaríkis og einstakra fjárfesta.
Hinar eiginlegu viðræður hófust í maí 1995 samkvæmt ákvörðun ráðherraráðs OECD og er MAI ætlað að skapa víðtækan ramma utan um alþjóðlegar fjárfestingar. Þó sáttmálinn sé unninn á vettvangi OECD er mikilvægi hans ekki síst fólgið í því að ríki utan OECD geta orðið aðilar að honum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig er Evrópusambandið aðili að samningnum.
Viðskiptaráðuneytið hefur tekið þátt í viðræðunum frá upphafi í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Nefnd ráðuneytisstjóra hefur verið samningamönnum til ráðuneytis, auk þess sem sérfræðingar hinna ýmsu ráðuneyta hafa komið að málinu eftir þörfum.

Tilgangur sáttmálans
Gildi sáttmálans er sérstaklega mikið fyrir smáríki eins og Ísland sem ekki er í sömu aðstöðu og viðskiptastórveldi sem geta beitt hernaðarmætti eða umfangsmiklum fjárfestingarhvötum í samskiptum sínum við önnur ríki eða til þess að laða hingað fjárfesta.
Sáttmálinn er íslenskum fjárfestum hvatning til sóknar erlendis og mun fjárfesting erlendis skapa störf hér innanlands. Þá geta erlendir fjárfestar gengið að því sem vísu að hagsmunum þeirra hér á landi sé borgið vegna aðildar Íslands að MAI og ætti það að auka hlut þeirra í fjárfestingum hér á landi.
Sáttmálinn mun sérstaklega koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góða. Fjölþjóðleg risafyrirtæki ráða yfir þeim fjármunum og mannafla að þau geta á eigin vegum staðið í beinum samningaviðræðum við stjórnvöld um allan heim; MAI skiptir þau engum sköpum. Sáttmálinn mun því sem næst leysa af hólmi, eða gera óþarfa, tvíhliða fjárfestingarsamninga í framtíðinni. Slíkt leiðir til sparnaðar þegar til lengri tíma er litið.
Tryggt verður forræði á náttúruauðlindum og ekki verður hróflað við þeim fullveldisrétti landsins að setja reglur sem tryggi skynsamlega nýtingu og umgengni um náttúru landsins enda gildi þær reglur jafnt um innlenda sem erlenda aðila. Af hálfu stjórnvalda hefur verið lögð á það áhersla að standa vörð um rétt okkar við stjórnun fiskveiðiauðlinda og rétt til takmarkana á fjárfestingum erlendra fjárfesta í sjávarútvegi og fiskvinnslu.


Meginákvæði MAI

1. Áhrif á fjárfesta og fjárfestingar
Kjarni sáttmálans er að fjárfestum er tryggður sambærilegur réttur og innlendum fjárfestum í viðkomandi aðildarríki, auk þess sem meginreglan er að fjárfestum er tryggður sambærilegur réttur og aðrir fjárfestar hafa samkvæmt alþjóðasamningum sem viðkomandi ríki er aðili að. Jafnframt er í samningnum ákvæði er varða lykilstarfsmenn í fyrirtækjum, einkavæðingu, einokunarfyrirtæki, skilyrðingu fjárfestinga og fjárfestingarhvata.
Upphafsákvæði sáttmálans fela í sér að aðilar taki fullt tillit til alþjóðlegra skuldbindinga á sviði umhverfisverndar og verður aðildarríkjunum óheimilt að slaka á umhverfisstöðlum til þess að laða til sín erlenda fjárfesta. Fulltrúar viðskiptaráðuneytis hafa lagt mikla áherslu á að möguleikar aðildarríkja á beitingu fjárfestingarhvata verði takmarkaðir. Beiting þeirra til að laða að erlenda fjárfesta gæti skaðað möguleika aðildarlanda eins og Íslands til þess að njóta þess samkeppnisforskots sem t.d. náttúruauðlindir eða mannauður annars gefa.

2. Fjárfestingarvernd
Í MAI er að finna ítarleg ákvæði um fjárfestingarvernd þar sem m.a. er fjallað um skilgreiningu á eignarnámi, skilyrði til eignarnáms, virðingu og málsskot, bætur, svo sem um útreikning, vexti á ógreiddar bætur, gjaldmiðil bótagreiðslna, gengi og yfirfærslurétt. Þá eru ákvæði um frjálsan flutning fjármagns sem tengist fjárfestingum. Einnig eru tryggð réttindi sem aðildarlönd hafa öðlast samkvæmt öðrum samningum. Þá er kveðið á um að ríki geti tekið yfir kröfur fjárfesta gagnvart öðru aðildarríki.

3. Lausn deilumála
Í MAI er gert ráð fyrir að kveðið verði á um lausn deilumála sem upp geta komið á milli aðildarríkja, en auk þess geta einstakir fjárfestar verið aðilar að deilumáli gagnvart aðildarríki. Fjallað verður um hvernig farið verður með slíkar deilur, þ.e. sáttaumleitanir, gerðardóma, kröfugerð, fullnustu úrskurða og tengd atriði.

4. Fyrirvarar
Óraunhæft er að ætla að aðildarríki geti fyrirvaralaust tekið á sig allar skuldbindingar MAI. Því verður að heimila aðildarríkjunum að setja fyrirvara við viss ákvæði sáttmálans. Umræðum um þennan þátt hans er ekki lokið en gera má ráð fyrir þeim sveigjanleika að ekki verði vandkvæðum bundið fyrir Ísland að gerast aðili að honum. Aðildarlönd samningaviðræðnanna hafa þegar lagt inn bráðabirgðafyrirvara við einstök ákvæði samningsdraganna. Drög að fyrirvörum Íslands hafa verið samþykkt í ríkisstjórn. Þar er gert ráð fyrir fyrirvörum við fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi, fiskvinnslu, fasteignum, flugrekstri svo og orkufyrirtækjum. Þá hefur því einnig verið lýst yfir að Ísland áskilji sér rétt til þess að endurskoða fyrirvara sína þegar endanlegur samningstexti liggur fyrir.

5. Undanþágur
Samningamenn eru sammála um að undanþiggja þurfi viss atriði gildissviði MAI. Má þar nefna aðgerðir sem aðildarríki kunni að þurfa að grípa til á stríðstímum. Nokkur aðildarríkjanna hafa einnig óskað eftir því að þau megi ganga gegn ákvæðum MAI á grundvelli allsherjarreglu svo og að fjárfestingar í menningargeiranum skuli vera undanþegnar ákvæðunum. Eins og fyrr er vikið að hefur Ísland lagt áherslu á sjálfsákvörðunarrétt að því er varðar nýtingu náttúruauðlinda.

6. Samspil við aðra alþjóðasamninga
Á vettvangi OECD eru ýmsir sáttmálar og samþykktir sem tengjast hinum fjölþjóðlega fjárfestingarsáttmála og fjallar þessi hluti um samspil skuldbindinga samkvæmt MAI og þessara samninga, sérstaklega ef ákvæði stangast á.
Má þar nefna gjaldeyrissamþykktir OECD sem eru bindandi fyrir aðildarlöndin. Aðrar samþykktir sem ekki eru bindandi eru t.d. jafngildissamþykktin og leiðbeiningareglur fyrir fjölþjóðafyrirtæki. Aðrir samningar utan OECD eru t.d. gagnkvæmir fjárfestingarsamningar, gagnkvæmir samningar í skattamálum (tvísköttunarsamningar), ýmsir svæðisbundnir samningar (t.d. NAFTA, EES), samningar á sérsviðum (t.d. Energy Charter Treaty) og síðast en ekki síst hinir ýmsu samningar sem tengjast Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Lokaorð
Eins og í öðrum samningaviðræðum hafa verið skiptar skoðanir um nokkur atriði samningstextans. Því hafa verið lagðar fram fjölmargar textatillögur sem aðildarlöndin hafa ekki viljað að yrðu gerð opinber fyrr en nokkur sátt væri um texta. Íslensk stjórnvöld, eins og aðrir samningsaðilar, hafa tekið fullt tillit til þessara óska. Aðildarríkin hafa einnig óskað eftir því að fyrirvarar þeirra við einstök ákvæði samningsdraganna yrðu ekki gerðir opinberir fyrr en endanlegur samningstexti lægi fyrir.
Að öðru leyti er ekki hægt að segja að sérstök leynd hafi ríkt um samningaviðræðurnar. Nefna má að samningurinn hefur verið kynntur fyrir stjórnvöldum um allan heim sem standa utan viðræðnanna. Þannig hafa verið haldnar kynningar í Seul í Suður-Kóreu fyrir lönd Asíu, í Kairó fyrir lönd Mið-Asíu og Afríku, í Brasilíu fyrir lönd latnesku Ameríku og í Riga fyrir lönd Mið- og Austur Evrópu. Kynningarfundir hafa verið haldnir með fulltrúum alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga (TUAC) og atvinnurekenda (BIAC) í OECD-löndunum, svo og með fulltrúum umhverfissamtaka og þeirra er láta sig þróunarmál varða. OECD hefur einnig gefið út bækling um samningaviðræðurnar, auk fréttatilkynninga, að ónefndri þeirri umfjöllun sem samningaviðræðurnar hafa fengið á Internetinu.
Hér á landi hafa samningsdrög verið kynnt fyrir Samtökum iðnaðarins og fyrir fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi.
Í upphafi var stefnt að því að ljúka samningaferlinu í maí 1997. Ljóst var fljótlega að þau tímamörk voru of þröng og var fresturinn framlengdur til vors 1998. Mörg atriði eru þó enn óútkljáð og má því vænta að enn verði frestur samningamanna til að ljúka samningaviðræðum framlengdur.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta