Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. mars 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Afhending nýsköpunarverðlauna Rannsóknaráðs og Útflutningsráðs 1998.



I.

Ágætu fundarmenn.

Í starfi mínu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hef ég m.a. lagt áherslu á þessi meginatriði:

· Samkeppnishæft rekstrarumhverfi.
· Aukna framleiðni.
· Fjölgun atvinnutækifæra.
· Fleiri og betur launuð störf.
· Aukna erlenda fjárfestingu.
· Markvissan stuðning við atvinnulífið.
· Uppbyggingu atvinnulífsins á landinu öllu.

Þessi atriði eiga það sammerkt að þau tengjast atvinnuþróunar- og nýsköpunarstefnu stjórnvalda, sem ég mun nú fjalla stuttlega um.

II.

Í grófum dráttum má lýsa nýsköpunarumhverfinu svo að það standi á þrem megin stoðum. Þær eru:

1. Fjármagnsmarkaðurinn.
2. Leiðsögn og þekkingarmiðlun fyrir atvinnulífið.
3. Vísinda- og tækniumhverfi atvinnulífsins

Hugum fyrst að fjármagnsmarkaðinum. Um síðustu áramót urðu þau þáttaskil á íslenskum fjármagnsmarkaði að gömlu ríkisbönkunum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, var breytt í hlutafélög og fjórir fjárfestingalánasjóðir sameinuðu starfsemi sína í Fjárfestingabanka atvinnulífsins h.f. og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Þessar breytingar á fjármagnsmarkaðinum hafa eftirfarandi fimm megin markmið:

· Í fyrsta lagi að draga úr umsvifum ríksins í almennri fjármálastarfsemi og leggja af ríkisábyrgðir.
· Í öðru lagi að brjóta niður þá múra sem verið hafa á fjármagnsmarkaði á milli einstakra atvinnugreina.
· Í þriðja lagi að greina á milli og skýra ábyrgð þróunar- og áhættufjármögnunar annars vegar og almennrar fjármálastarfsemi hins vegar.
· Í fjórða lagi að efla framboð áhættufjármagns fyrir atvinnulífið.
· Í fimmta lagi að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaðinum með aukinni samkeppni, sem á að skila sér í ódýrari og betri fjármálaþjónustu fyrir atvinnulífið.
·
Þessum endurbótum á fyrstu stoð nýsköpunarumhverfi atvinnulífsins er lokið og vænti ég mikils af þeim breytingum.
III.

Aðra stoð nýsköpunarumhverfisins má kalla þekkingarmiðstöð, þar sem atvinnulífinu er boðið upp á margvíslegan aðgang að þekkingu og leiðsögn, t.d. hjálp við að komast í alþjóðleg samstarfsverkefni sem okkur stendur til boða.

Í hnotskurn er markmiðið með slíkri þekkingarmiðstöð:

      að leggja áherslu á, að umbreyta þeirri vísindalegu þekkingu
      sem við höfum aflað, eða eigum aðgang að í raunverulegar söluhæfar afurðir.
Til þess að ná þessu markmiði getur hlutverk þekkingarmiðstöðvarinnar m.a. verið:
1. Skapa sterka þekkingarheild á einum stað, sk. "one-stop-shop" fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem atvinnulífið hafi greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustu.
2. Tækniyfirfærsla til fyrirtækja og betri nýting tækniþekkingar.
3. Starfrækja "uppeldisstöð", þar sem álitlegar hugmyndir eru fóstraðar í þeim tilgangi að til verði ný fyrirtæki um framleiðslu vöru sem byggja á nýjum hugmyndum.
4. Starfrækja tæknitengda viðskipta- og markaðsleiðsögn, sem aðrir veita ekki.
5. Starfrækja tæknivöktun að eigin frumkvæði og í umboði fyrirtækja sem þess óska.
6. Koma á netsamstarfi lítill og meðalstórra fyrirtækja og milli þeirra og rannsóknarstofnana, háskóla o.fl.
7. Reka sérstök átaksverkefni sem eru sniðin að því að bæta rekstur, framleiðslu og samkeppnishæfni fyrirtækja.
8. Vera tengiliður á milli fyrirtækja sem eru á frumstigi vaxtar og áhættufjármögnunaraðila.

Það getur varla nokkrum dulist mikilvægi þess að hér verði til sterk þverfagleg þekkingarmiðstöð í líkingu við það sem hér er lýst. Í framtíðarþróun Iðntæknistofnunar vil ég sjá að þar verði til slík þekkingarmiðstöð sem geti sinnt þörfum atvinnulífsins án tillits til hvar í flokki fyrirtækin falla samkvæmt hefðbundnum atvinnugreina skilgreiningum.
IV.

Þriðja stoð nýsköpunarumhverfisins er hið vísinda- og tæknilega umhverfi nýsköpunarinnar. Þar standa rannsóknarstofnanir atvinnulífsins ríkisvaldinu að sjálfsögðu næst. Í mörg ár hefur verið rætt um aukið samstarf rannsóknarstofnana atvinnulífsins í þeim tilgangi að hámarka nýtingu mannafla, tækja og húsnæðis. Lítið sem ekkert hefur þó orðið af þessu og virðast sérhagsmunir hvers og eins hafa ráðið þar mestu. Þetta er afleit staða, sem getur ekki leitt til neins annars en að veikja enn frekar veikburða stöðu þessara stofnana.

Úr þessu verður að bæta enda er farsæl framþróun opinberrar rannsókna- og þróunarstarfsemi undir því komin að hér verði til sterkar rannsóknarheildir sem hafa burði til að keppa við erlendar rannsóknarstofnanir í því alþjóðlega samkeppnisumhverfi sem rannsóknarstofnanirnar standa frammi fyrir engu síður en fyrirtækin.

Þær þrjár stoðir nýsköpunarumhverfis atvinnulífsins sem ég hef hér gert að umtalsefni, þ.e. fjármagnsmarkaðurinn, þverfagleg þekkingarmiðstöð atvinnulífsins og rannsóknarstofnanirnar mynda eina heild. Þekkingarmiðstöðinni verður best fyrir komið í sterku rannsóknarumhverfi og án greiðs aðgangs að þróunarfjármagni náum við skammt.
V.

Vafalítið viljum við öll stuðla að öflugri atvinnuppbyggingu sem víðast um land. Þessi áhugi hefur leitt til þess að ósamstæður flokkur stofnana og fyrirtækja hefur haslað sér völl í atvinnuþróunarmálum. Sem dæmi má nefna Byggðastofnun, atvinnuráðgjafa, framfarafélög, iðnþróunarfélög, ráðuneyti og stofnanir. Í hnotskurn er vandamálið það að allt of margir eru að fást við atvinnuþróunar- og nýsköpunarstuðning með allt of litlum árangri. Starfsemi þessara aðila og fleiri, t.d. ferðamálafulltrúa og jafnvel landbúnaðarráðgjafa, vil ég sjá sameinaða sem mest til að ná fram sem sterkustum heildum á hverjum stað. Án þess munum við ekki ná þeim árangri sem við þörfnumst.

Til viðbótar því að styrkja þessar einingar þarf að gera enn betur með því að skapa atvinnuskrifstofunum á landsbyggðinni traust bakland. Það má gera með því að koma á samstarfi þeirra við rannsóknarstofnanir og háskóla. Ég get t.d. séð fyrir mér að sterk þekkingarmiðstöð hjá Iðntæknistofnun gæti gengt þar veigamiklu hlutverki með netsamstarfi við atvinnuskrifstofur landsbyggðarinnar.

Ágætu fundarmenn.
Ég hef í þessum fáu orðum stiklað á stóru um þær áherslur sem ég hef lagt í nýsköpunar- og atvinnuþróunarmálum. Mér er fullljóst að þar er ég ekki einn örlagavaldur. Málefnið snertir fjöldamarga aðra þar á meðal önnur ráðuneyti. Það er engu að síður von mín að áður en langt um líður skapist víðtækari samstaða um þessi mál, - þó í upphafi væri ekki annað en að augu manna opnist fyrir því að hagsmunir atvinnulífsins eru ekki einkamál sem bundið er við einstakar atvinnugreinar.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta