Rafræn viðskipti í verslun
Finnur Ingólfsson,
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
I.
Ágætu ráðstefnugestir. Það er deginum ljósara að örar framfarir í tölvu- og fjarskiptatækni munu gjörbreyta viðskiptaháttum okkar í komandi framtíð. Við Íslendingar höfum fylgst vel með þessum breytingum og höfum að flestra mati ekki verið eftirbátar annarra í innleiðingu nýrrar tækni sem nýtist atvinnulífinu. Ráðstefna Kaupmannasamtakanna hér í dag og sýningin um rafrænar lausnir í verslun eru svo sannarlega til vitnis um það.
Viðfangsefni ráðstefnunnar er margslungið, enda oft erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum þegar rafræn viðskipti eru annars vegar. Þrátt fyrir að rafræn viðskipti hafi enn sem komið er aðeins stigið sín fyrstu spor hafa þau nú þegar markað veigamikil spor í alþjóðavæðingu viðskipta. Rafræn viðskipti hafa einnig haft umtalsverð áhrif á rekstur fyrirtækja með því að auðvelda þeim birgðahald, framleiðslustýringu og fjármálastjórnun svo dæmi séu tekin. Rafræn viðskipti eru því ekki aðeins viðbót við núgildandi viðskiptavenjur heldur gjörbreyting á öllu viðskiptalegu umhverfi fyrirtækja jafnt innan dyra sem út á við.
II.
Fjölmörg vandamál eru enn í vegi rafrænna viðskipta. Meðal þessara vandamála sem huga þarf að eru samningsleg og fjármálaleg úrlausnarefni. Til glöggvunar má draga upp mynd af íslensku fyrirtæki sem hefur komist í samband við t.d. rússneskt fyrirtæki. Í upphafi þarf að yfirstíga þá hindrun sem er á milli þessara landa vegna gjörólíkra tungumála og glíma þarf við óvissu um gagnkvæman skilning á viðskiptavenjum hins landsins sem í mörgum tilfellum byggjast á ríkjandi hefð og eru óskrifaðar. Vilji fyrirtækin eiga viðskipti sín á milli, að varan verði pöntuð rafrænt, hún afhent rafrænt og greiðsla fari á sama hátt fram á rafrænan hátt, vakna nokkrar spurningar:· Á hvaða stigi er kominn á bindandi samningur milli fyrirtækjanna?
· Hver er lagaleg staða slíks samnings?
· Hver hefur lögsögu um samninginn?
· Hvernig fer greiðslan fram og hvernig er móttaka hennar staðfest?
· Hvaða skatta- og tollareglur gilda?
· Hvernig er eftirliti með slíkum gjöldum háttað og hvernig eru þau innheimt?
Rafræn viðskipti um opin kerfi krefjast fyllsta öryggis fyrir gögnin, m.a. til að verja höfundarétt, verja þau gegn spellvirkjum og til að vernda trúnaðarmál, hvort sem þau eru viðskiptalegs eðlis eða snerta hagi einstaklinga. Slíkt öryggi er ekki hægt að tryggja á fullkominn hátt enn sem komið er.
Þótt vissulega hafi margt áunnist eru úrlausnarmálin sem glíma þarf við enn fjöldamörg. Staðan um þessar mundir er í grófum dráttum þannig að tæknilega er flest til staðar sem þarf fyrir stóraukin rafræn viðskipti. Aftur á móti er nokkuð í land með að samræma notkun tæknibúnaðar og ekki síður í því að ákveða hið lagalega umhverfi rafrænna viðskipta.
Netkerfi eru eðli sínu þannig að þau eru öllum opin. Því er lykilkatriði að tryggja öryggi þeirra gagna sem um netkerfin fara. Setja þarf reglur um verndun einkalífsins og um höfundarétt en hvortveggja er vandmeðfarnara á opinni netrás en ella væri. Jafnframt þarf að sporna gegn siðlausu efni og ólögmætri notkun netanna og skilgreina ábyrgð notenda.
Ég hef hallast að þeirri skoðun sem Clinton Bandaríkjaforseti setti fram í skýrslu sinni um rafræn viðskipti á seinasta ári. Þar lagði hann til að Internetið yrði einskonar fríverslunarsvæði, án tolla og hafta á viðskipti með rafrænar vörur og þjónustu. Jafnframt yrði það meginsjónarmið haft að leiðarljósi að þær reglur sem gilda í viðskiptum utan netsins skuli einnig gilda um viðskipti innan þess. Í þessu felst að eftir megni skuli forðast að setja sérstakar reglur um rafræn viðskipti enda leiddi slíkt til lítils annars en óeðlilegra viðskiptahátta og tafa á því að rafræn viðskipti þróist á farsælan hátt. Aftur á móti taki hinar almennu viðskiptareglur mið af því að rafræn viðskipti sé fullgildur viðskiptamáti til jafns við þær hefðbundnari.
III.
Rafræn viðskipti spanna verksvið allra ráðuneytanna. Þau snerta verksvið iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis fyrst og fremst vegna banka- og verðbréfaviðskipta, hugverkaréttar, neytendaverndar og almennra hagsmuna atvinnulífsins. Ráðuneytið hefur verið að vinna að stefnumörkun um rafræn viðskipti í upplýsingasamfélaginu og hlutverk ráðuneytisins í því sambandi. Ýmsu sem snýr að þjónustu ráðuneytisins við almenning hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd, svo sem að koma umsóknareyðublöðum er varða starfsleyfi ásamt viðeigandi laga- og reglugerðartilvísunum á gagnvirkan gagnagrunn. Jafnframt hafa öll rit ráðuneytisins verið sett á opinn gagnagrunn til skoðunar og afritunar án endurgjalds. Önnur verkefni sem ráðuneytið hyggst beita sér fyrir snúa að ýmsum aðilum og mun ráðuneytið taka þau upp innan verkefnisstjórnar forsætisráðuneytisins um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Hér má nefna tillögu um að upplýsingakerfi hins opinbera og aðgengi að þeim verði samhæfð og komið verði á innra neti stjórnarráðsins með sameiginlegum og sérstökum gagnagrunnum. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið mun jafnframt beita sér fyrir því að opinberar upplýsingar sem nýst geta atvinnulífinu og aukið samkeppnisfærni þess verði atvinnulífinu aðgengilegar á opnum upplýsingakerfum.
IV.
Ágætu ráðstefnugestir. Ég vil í lok máls míns þakka Kaupmannasamtökunum fyrir að halda svo glæsilega ráðstefnu um rafræn viðskipti í verslun. Þetta er svo sannarlega tímabært framtak því rafræn viðskipti í verslun snertir okkur öll. Ég þakka fyrir.