Umhverfisstyrkir ÍSAL
Ágætu samkomugestir,
Á undanförnum misserum hafa orðið mikil umskipti í orkumálum. Það voru tímamót þegar ÍSAL ákvað í nóvember 1995 að auka framleiðsluna sína og átti sú ákvörðun ríkan þátt í því að löngu stöðnunarskeiði í nýting orkulindanna lauk. Nýting þeirra á síðustu misserum hefur verið ein helsta forsenda þess að okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn í atvinnumálum, efla hagvöxt og skapa skilyrði til bættra lífsskilyrða. Þessa sér glögglega stað í því að kaupmáttur heimilanna hefur aukist um nálega 20% frá árinu 1995.
Það er nú ljóst að framkvæmdir við þessi iðjuver og tengd orkumannvirki sem hófust í lok ársins 1995 munu halda áfram fram á árið 2000 eða í rúm fjögur ár. Þegar er farið að huga að næstu skrefum í nýtingu orkulindanna eins og kunnugt er. ÍSAL mun þar gegna mikilvægu hlutverki.
Við Íslendingar höfum líka þá sérstöðu að eiga miklar endurnýjanlegar orkulindir sem hafa einungis verið nýttar að litlu leyti. Viðurkennt er, m.a. í Kyotobókuninni, að mikilvægt sé að hagnýta þessar orkulindir til að sporna gegn hugsanlegum loftslagsbreytingum. Ísland er hins vegar í þeirri einkennilegu stöðu að sú nýting sem er nærtækust, þ.e. til orkufrekrar stóriðju myndi leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, vegna efnaferla við sjálfa framleiðsluna. Sú losun á sér að sjálfsögðu stað hvar sem framleiðslan fer fram og því ætti auðvitað að stuðla að því að hún fari fram þar sem endurnýjanlegar orkulindir eru tiltækar og heildarlosun minnst. Annað er rökleysa og andstætt samningnum um lofstlagsbreytingar.
Í niðurstöðum aðildarríkjaþings að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í Kyoto í desember síðastliðnum var sérstaða Íslands staðfest. Sérstöðu Íslands má fyrst og fremst rekja til þess mikla árangurs sem náðist á 8. og 9. áratugnum í að nýta jarðhita og vatnsorku í stað olíu. Sá árangur kemur m.a. fram í því að hlutur endurnýjanlegra orklinda í orkubúskapnum er hærri hér en hjá nokkurri annarri þjóð. Hér á landi er hlutur losunar gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu nánast engin og sama á við um jarðhitann sem notaður er til húshitunar. Á orkusviðinu höfum við náð hámarksárangri í að draga úr losun, en á því sviði ætla aðrar þjóðir að ná mestum árangri á næstu árum.
Útfærsla á íslenska ákvæðinu sem samþykkt var í Kyoto þarf að tryggja að slík nýting verði ekki takmörkuð. Þetta er eitt mesta hagmunamál íslensku þjóðarinnar um þessar mundir og eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda. Við megum ekki setja okkur í heimatilbúna fjötra sem ógna myndu efnahagslegri og félagslegri framþróun þjóðarinnar með ófyrirséðum afleiðingum, enda væri slíkt í andstöðu við markmið rammasamningsins.
Umræðan um gróðurhúsaáhrif hér á landi hefur að verulegu leyti snúist um orkufrekra stóriðju. Í þeirri umræðu hefur fyrst of fremst verið fjallað um þá losun sem óhjákvæmilega er samfara framleiðslunni. Í umfjöllun um málið hefur hins vegar þeim mikla árangri sem stóriðjufyrirtækin hafa náð í að draga úr losun verið gefinn lítill gaumur. ÍSAL hefur með skipulögðum aðgerðum tekist að draga mjög verulega úr losun kolflúorefna og hún var á árinu 1996 einungis um einn tíundi hluti þess sem var á viðmiðunarárinu 1990. Auk þess sem fyrirtækið nýtir rafmagn í auknum mæli í stað olíu, m.a. í flutningum. Þessar aðgerðir ÍSAL jafngiltu á árinu 1996 nálega 10% af allri - ég endurtek allri losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum árið 1990. Önnur stóru iðnfyrirtækin hafa einnig gripið til aðgerða sem tiltækar voru og samtals hafa þessar aðgerðir og aukin sala á ótryggðu rafmagni á rafskautakatla í fiskimjölsverksmiðjum dregið úr heildarlosun Íslendinga sem nemur 12%, eða sem jafngildir allri losun frá ÍSAL í dag! Bæði stóriðjuverin og orkufyrirtækin hafa því tekið málið föstum tökum og það ber að þakka.
Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi er lögð áhersla á að iðnfyrirtækin taki upp umhverfisstjórnunarkerfi. ÍSAL hefur tekið upp slíkt kerfi og var fyrsta íslenska fyrirtækið sem fékk vottun samkvæmt alþjóðlegum umhverfisstjórnunar staðli. Það má því fullyrða að fyrirtækið er nú í fararbroddi á þessu sviði.
Í almennri umræðu hefur stundum verið haldið fram að stærri iðnfyrirtæki framleiði eingöngu hráefni til útflutnings og að virðisaukinn sé lítill. Þetta er ekki rétt. Árleg verðmætaaukning hjá ÍSAL vegna framleiðslu sérvöru og steypu á hágæða áli, þ.e. úrvinnsluþátturinn, er álíka mikill og ársvelta stærri íslenskra iðnfyrirtækja, þ.e. um 1,5 milljarður króna. Bæði ÍSAL og Járnblendiverksmiðjan hafa stuðlað að rannsóknum og nýsköpun sem tengjast framleiðslu fyrirtækjanna. Í því sambandi má nefna þróun Altech á róbótum fyrir ÍSAL, en Altech flytur þennan búnað út í talsverðum mæli. Þessi stuðningur ÍSAL er raunar ekki bundinn álframleiðslu, því við erum hér saman komin í tilefni af því að ÍSAL er að styrkja rannsóknir á sviði umhverfismála. Verkefni sem meðal annars tengjast baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórn ÍSAL, forstjóra og öðrum starfsmönnum fyrir frumkvæði og framsýni við mótun og framkvæmd umhverfisstefnu, sem fellur vel að alþjóðlegri stefnumótun á sviði umhverfisstjórnar og umhverfismála.