Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Grein í MBL, 27. ágúst 1998: "Rafræn viðskipti"

 

Enginn vafi leikur á að rafræn viðskipti eru á góðri leið með að bylta hefðbundnum viðskiptaháttum. Viðteknar viðskiptavenjur breytast, milliliðum fækkar, viðskiptakostnaður minnkar, nánara samband ríkir á milli fyrirtækja og neytenda og nýir markaðir og vörur spretta upp. Hver sá sem hefur aðgang að Internetinu getur boðið fram vörur og þjónustu og náð til neytenda hvar sem er í heiminum og með sama hætti getur neytandi keypt vörur og þjónustu á hinu sameiginlega markaðstorgi heimsins óháð tíma og stað. Það er því ekki að undra að rætt sé um hinn fullkomna markað.

Hvað eru rafræn viðskipti?
Með rafrænum viðskiptum er átt við viðskipti sem byggjast á gagnaflutningi um tölvur eða aðra rafeindatækni. Viðskiptin geta falist í verslun með hefðbundnar vörur eða þjónustu, verslun með stafrænt efni, fjármagnsflutningum, inn- og útflutningsskýrslum, útboðum og tilboðum svo fátt eitt sé nefnt. Í stórum dráttum má skipta rafrænum viðskiptum í eftirfarandi fjóra flokka:
1. Viðskipti milli fyrirtækja. Dæmi um þetta er þegar fyrirtæki notar samskiptanet, t.d. Internetið, til að panta vöru frá öðru fyrirtæki, fær reikning og annast greiðslu fyrir vöruna á rafrænan hátt, sbr. EDI-viðskipti. Um 80% rafrænna viðskipta eru á milli fyrirtækja.
2. Viðskipti fyrirtækis og neytenda, svokölluð rafræn smásala. Dæmi um þetta eru almenn milliliðalaus vöru- og þjónustuviðskipti á Internetinu.
3. Viðskipti fyrirtækis og stjórnvalda. Dæmi um þetta eru útboð opinberra framkvæmda, gerð tollskjala og greiðsla opinberra gjalda.
4. Viðskipti almenns borgara og stjórnvalda, sem eru skemmst á veg komin en munu væntanlega ná til flestra þátta opinberrar stjórnsýslu, t.d. greiðslu hins opinbera vegna velferðarmála og greiðslu borgaranna á opinberum gjöldum.

"Smellið hér" hagkerfið
Þrátt fyrir að rafræn viðskipti hafi enn sem komið er aðeins stigið sín fyrstu skref hafa þau nú þegar markað veigamikil spor í alþjóðavæðingu viðskipta og munu gjörbreyta öllum viðskiptaháttum í framtíðinni. En rafræn viðskipti munu einnig breyta uppbyggingu innan fyrirtækja, auðvelda birgðahald, framleiðslustýringu, framleiðslustjórnun o.fl. Þau eru því ekki aðeins viðbót við núgildandi viðskiptahefðir heldur gjörbreyting á öllu viðskiptalegu umhverfi fyrirtækjanna inn á við sem út á við.
Tækifæri fyrir framleiðendur og neytendur eru óþrjótandi. Tækifæri framleiðenda felast t.d. í opnum alþjóðlegum markaði, aukinni samkeppnishæfni, styttri afhendingartíma og minni útgjöldum. Þannig hafa rannsóknir sýnt að rafræn viðskipti hafa lækkað kostnað þeirri fyrirtækja sem lengst eru komin á þessari braut um 10% að meðaltali. Ávinningur neytenda getur hins vegar falist í alþjóðlegu vöruvali, auknum gæðum, skjótri úrlausn á þörfum og lægra verði.
Talið er að rafræn viðskipti muni tvöfaldast árlega fram til 2002 og muni þá nema um 25 þúsund milljörðum króna sem er svipað og landsframleiðsla Hollands. Ef áætlanir um varanlega aukningu landsframleiðslu vegna slíkra viðskipta í Bandaríkjunum eru heimfærðar á Ísland má reikna með að landsframleiðsla muni aukast varanlega um 3500 milljónir króna vegna lægra verðs, aukinnar eftirspurnar og minni birgða. Þetta samsvarar um 0,6% af landsframleiðslu. Þess ber að geta að rafræn viðskipti hafa sérstaka þýðingu fyrir okkur Íslendinga vegna smæðar þjóðarinnar og legu landsins.

Fjölmörg úrlausnarefni
Fjölmörg vandamál eru enn í vegi rafrænna viðskipta, m.a. á sviði samninga og fjármála. Til glöggvunar má draga upp mynd af íslensku fyrirtæki sem hefur komist í samband við erlent. Vilji fyrirtækin eiga viðskipti sín á milli, að varan verði pöntuð rafrænt, hún afhent rafrænt og greiðsla fari á sama hátt fram á rafrænan hátt, vakna nokkrar spurningar:

  • Á hvaða stigi er kominn á bindandi samningur milli fyrirtækjanna?
  • Hver er lagaleg staða slíks samnings?
  • Hver hefur lögsögu um samninginn?
  • Hvernig fer greiðslan fram og hvernig er móttaka hennar staðfest?
  • Hvaða skatta- og tollareglur gilda?
  • Hvernig er eftirliti með slíkum gjöldum háttað og hvernig eru þau innheimt?
Rafræn viðskipti um opin kerfi krefjast fyllsta öryggis fyrir gögnin, m.a. til að verja höfundarétt, verja þau gegn spellvirkjum og til að vernda trúnaðarmál, hvort sem þau eru viðskiptalegs eðlis eða snerta hagi einstaklinga. Slíkt öryggi er ekki hægt að tryggja á fullkominn hátt enn sem komið er. Það er lykilatriði að tryggja öryggi þeirra gagna sem um netkerfin fara. Setja þarf reglur um verndun einkalífsins og um höfundarétt en hvortveggja er vandmeðfarnara á opinni netrás en ella væri. Jafnframt þarf að sporna gegn siðlausu efni og ólögmætri notkun netanna og skilgreina ábyrgð notenda.
Í dag er tæknilega flest til staðar sem þarf fyrir stóraukin rafræn viðskipti. Aftur á móti er nokkuð í land með að samræma notkun tæknibúnaðar og ekki síður í því að ákveða hið lagalega umhverfi rafrænna viðskipta.

Alþjóðleg stefnumótun
Flest bendir til þess að fylgt verði tillögu Clintons Bandaríkjaforseta um að Internetið verði fríverslunarsvæði. Jafnframt virðast flestir hallast að því meginsjónarmiði að þær reglur sem gilda í viðskiptum utan netsins skuli einnig gilda í viðskiptum innan þess. Forðast skuli að setja reglur um rafræn viðskipti sérstaklega enda leiddi slíkt til lítils annars en óeðlilegra viðskiptahátta og tafa á því að rafræn viðskipti þróist á farsælan hátt.
Mikil vinna er unnin á vegum alþjóðastofnana, eins og OECD og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, um samræmingu rafrænna viðskipta. Á ráðherraráðstefnu OECD í Ottava næstkomandi október er ráðgert að setja leikreglur sem muni stuðla að enn frekari framgangi rafrænna viðskipta í heiminum.
Við Íslendingar þurfum að fylgjast grannt með þróun rafrænna viðskipta og taka frumkvæði þegar svo ber undir. Þó Íslendingar séu ekki eftirbátar annarra í að taka upp nýja tækni í atvinnulífinu þá bendir margt til að brýnt sé að herða róðurinn í þessum efnum. Að ýmsu er þó unnið um þessar mundir sem mun auka rafræn viðskipti hér á landi, eins og rafræn tollskjöl, pappírslaus verðbréfaviðskipti í verðbréfamiðstöð, lagarammi um fjarsölu og notkun rafeyris í viðskiptum og samræmingarstarf verkefnisstjórnar forsætis-ráðuneytis um upplýsingasamfélagið.
Á næstu misserum er brýnt að yfirfara lög og reglugerðir með tilliti til rafrænna viðskipta. Markmiðið er að þau verði jafnrétthá öðrum viðskiptum. Það þarf að hlúa að rafrænum viðskiptum til að ná því meginmarkmiði Framtíðarsýnar ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, sem samþykkt var í september 1996, að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta