Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Grein í afmælisrit Sambands iðnmenntaskóla

 

Mannauðurinn er mikilvægasti og óbrigðulasti auður hverrar þjóðar. Það má m.a. merkja af því að bera saman efnalega velgengni mismunandi þjóða og hvernig þeim hefur tekist að verja sig fyrir áföllum þegar á brattan hefur verið að sækja. Þær þjóðir sem þar standa sig einna best byggja afkomu sína umfram annað á þekkingu, enda búa þessar þjóðir oft við fremur litlar náttúruauðlindir.

Mannauðurinn er ekki sjálfsprottinn. Hann byggist aftur á móti á ýmsum menningarlegum og þjóðfélagslegum þáttum. Sennilega byggist mannauðurinn umfram annað á menningararfleifð þjóðarinnar sem mótar heildarviðmót einstaklinganna til menningarinnar, lista, vísinda og menntunar. Bókmenntaarfur okkar vegur hér vafalítið þyngst, enda hefur hann ítrekað orðið okkur uppspretta nýrra hugmynda og skerpt meðvitund okkar um það hversu lítil smáþjóð, og við sjálf hver fyrir sig, getur í raun áorkað.

Annar mikilvægur mótunarþáttur mannauðsins er menntunin og sú margbreytilega reynsla sem við öflum okkur á lífsleiðinni. Mikilvægi menntunarinnar er öllum ljós og með meiri skilningi á kennslufræðilegum málefnum og stöðugt vaxandi meðvitund þorra landsmanna á mikilvægi endurmenntunar og símenntunar hefur menntunin jafnframt fengið meira vægi í uppbyggingu mannauðs þjóðarinnar.

Ekki fer á milli mála að samtök iðnaðarmanna hafa frá upphafi borið menntun og menningarvitund félagsmanna sinna mjög fyrir brjósti. Þau stóðu fyrir námskeiðum áður en iðnskólarnir voru stofnaðir og hafa ávallt barist fyrir eflingu iðnskólanna og gætt hagsmuna þeirra í hvívetna. Hin síðari ár hafa þau, með áberandi hætti, kvatt sér hljóðs á nýjum vettvangi og verið leiðandi í símenntun fyrir félagsmenn sína og aðra þá sem þangað hafa viljað leita. Framtak iðnaðarmanna í menntamálum hefur vakið verðskuldaða athygli og m.a. leitt til þess að þorri manna hefur áttað sig á því að menntunin er ekki einstakur atburður sem bundin er við ákveðið æviskeið með ákveðnum lokum við upphaf starfsævinnar, heldur viðvarandi verkefni sem aldrei þrýtur.

Samband iðnmenntaskóla er fimmtíu ára á þessu ári. Sambandið getur með stolti horft yfir farinn veg og hefur vissulega ástæðu til að fagna þessum merku tímamótum. Ég færi Sambandinu mínar bestu kveðjur og óska því velfarnaðar á komandi árum.

Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta