Grein í MBL 25. nóvember 1998: "Stóriðja og þjóðarhagur"
Að undanförnu hefur átt sér stað lífleg þjóðmálaumræða um frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar og áhrif hans á umhverfið. Frjó umræða af þessu tagi er nauðsynleg til að leiða erfið deilumál til lykta. Ég hef lagt áherslu á að sátt náist um eðlilega nýtingu landsins og auðlinda þess, hvort sem það er til orkuvinnslu, ferðamennsku eða annarra nota um leið og tekið er tillit til verndunarsjónarmiða. Ég tel að eftir stóryrtar og tilfinningaþrungnar yfirlýsingar í byrjun umræðunnar hafi hún nú færst í málefnalegri búning og er þess fullviss að ásættanleg lausn finnist.
Skrif Tryggva Felixsonar
Enn ber þó nokkuð á óvandaðri umfjöllun um orkufrekan iðnað. Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu í gær þegar Tryggvi Felixson, embættismaður í þjónustu ríkisstjórnarinnar, reynir að gera tölur mínar um þjóðhagsleg áhrif frekari stóriðjuframkvæmda tortryggilegar með villandi samanburði við niðurstöðu Páls Harðarsonar hagfræðings. Embættismaðurinn fer villur vegar í sínum samanburði. Hann segir að mismunurinn felist aðallega í þeim aðferðum sem beitt er. Það er ekki rétt. Hann felst fyrst og fremst í því að ekki er verið að bera saman sambærileg dæmi, enda er í mínu dæmi, sem reiknað er af Þjóðhagsstofnun, miðað við að komi til byggingar 360 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði. Embættismaðurinn las það einnig út úr orðum mínum að stóriðjuáformin leiddu til 4,5% árlegrar aukningar landsframleiðslunnar. Það er ekki rétt. Landsframleiðslan eykst varanlega um 4,5% sem þýðir að framleiðslugeta hagkerfisins eykst sem þessu nemur. Þó Páll Harðarson hafi ekki tekið nákvæmlega sambærilegt dæmi í sínum ágæta fyrirlestri á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands má af samanburði við svipuð dæmi sjá að ekki er mikill munur á niðurstöðu hans og Þjóðhagsstofnunar.
Áhrif framkvæmda að mati Þjóðhagsstofnunar
Í haust fól iðnaðarráðuneytið Þjóðhagsstofnun að meta þjóðhagsleg áhrif af byggingu nokkurra stóriðjuvera. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar er sú að ef gert er ráð fyrir að álver Norðuráls stækki um 30 þúsund tonn og nýtt álver rísi á Reyðarfirði í tveimur áföngum frá 2003-2006 megi, að öðru óbreyttu, reikna með að landsframleiðsla aukist varanlega um 4-5%, þjóðarframleiðsla og einkneysla um ríflega 3%, útflutningur um 10-15%, fjárfesting um 180 milljarða á byggingartíma og bein ný framtíðarstörf við iðjuverin yrðu 530. Hins vegar mætti gera ráð fyrir að viðskiptajöfnuður á byggingartíma yrði um 3,5% lakari sem hlutfall af landsframleiðslu en ella.
Góðærið og stóriðjan
Ekki er nokkrum blöðum um það að fletta að efnahagsuppveiflan á Íslandi á ekki hvað síst rót sína að rekja til stóraukinnar fjárfestingar atvinnuveganna undanfarin ár. Þar bera hæst framkvæmdir í tengslum við stóriðju og tengd orkumannvirki. Alls má gera ráð fyrir að þessar framkvæmdir nemi rúmum 56 milljörðum króna og þar af sé erlend fjárfesting um 27 milljarðar króna.
Erlend fjárfesting í atvinnurekstri hefur stóraukist með uppbyggingu orkufreks iðnaðar á síðustu árum. Erlend fjárfesting var nær engin á fyrra hluta þessa áratugar. Bein fjármunaeign erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi nam rúmum 8 milljörðum króna á árslok 1995. Um síðustu áramót var bein fjármunaeign erlendra aðila tæpir 24 milljarðar og hefur vaxið umtalsvert á þessu ári. Í fyrra var erlend fjárfesting um 2% af landsframleiðslu en algengt er meðal OECD-ríkja að erlend fjárfesting nemi á bilinu 2-3% af landsframleiðsu. Á þessu sviði hafa því orðið straumhvörf.
Stóriðjuframkvæmdirnar hafa átt verulegan þátt í auka tiltrú Íslendinga á efnahagslífinu og væntanlega einnig stuðlað að auknum fjárfestingum á öðrum sviðum. Þær hafa hins vegar ekki leitt til slíkrar þenslu í hagkerfisinu sem títt var um stórar framkvæmdir á árum áður. Þannig spáir Seðlabankinn að verðbólga á þessu ári verði aðeins um 0,6%.
Reikna má með að framkvæmdirnar auki landsframleiðslu varanlega um 2% og bæti þannig við framleiðslugetu þjóðarbúsins. Útflutningur mun aukast um 16 milljarða þegar framleiðslugeta iðjuveranna verður að fullu nýtt. Það er um 8% aukning útflutnings ef miðað er við heildarútfluning vöru og þjónustu í ár. Framkvæmdirnar hafa á hinn bóginn haft tímabundið neikvæð áhrif á halla á viðskiptum við útlönd.
Uppbygging orkufreks iðnaðar að undanförnu hefur dregið úr vægi sjávarútvegs í útflutningi og aukið fjölbreytni í efnahagslífinu. Bandarísku matsfyrirtækin Standard & Poor}s og Moodys hafa einmitt nefnt minnkandi einhæfni útflutningsatvinnuvega sem eina af meginröksemdum sínum fyrir að hækka lánshæfismat Íslands.
Ótvírætt er hægt að fullyrða að uppbygging orkufreks iðnaðar á undanförnum árum hefur reynst þjóðarbúinu farsæl. Hún hefur aukið vægi annarra greina en sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum, rennt fleiri styrkum stoðum undir útflutningsatvinnuvegina, aukið framleiðslugetu þjóðfélagsins, skapað fjölbreyttara atvinnulíf og flutt inn erlent fjármagn, tækniþekkingu og hundruð nýrra hálaunastarfa. Síðast en ekki síst leiðir meiri fjölbreytni til sveiflujöfnunar og bættra lánskjara.