Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. mars 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Orkustofnunar, 17. mars 1999.


Síðastliðið sumar voru sett lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Markmið laganna er að setja samræmdar reglur um nýtingu auðlinda í jörðu, hvar sem þær er að finna. Með lögunum er stjórnsýsla vegna rannsókna og nýtingar auðlindanna samræmd og stefnt að því að meðferð mála verði í einu samfelldu ferli, þar sem þess er gætt að öll viðkomandi stjórnvöld komi að.

Lögin taka til auðlinda í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjárvarbotni innan netlaga. Meðal auðlinda í þessu sambandi eru jarðhiti, jarðefni og grunnvatn. Í lögunum er fjallað um eignarrétt að auðlindunum, sem og um rannsóknir, leit og nýtingu auðlindanna. Samkvæmt lögunum fylgir eignarréttur að auðlindum eignarlöndum, en í þjóðlendum eru þær eign ríkisins.

Lögin heimila iðnaðarráðherra að láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á landinu og gefa út rannsóknarleyfi í því skyni og skiptir ekki máli hvort um er að ræða eignarland eða ekki. Þá er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi iðnaðarráðherra hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða þjóðlendum og hefur landeigandi ekki forgang að nýtingarleyfi í eignarlandi sínu. Með lögunum er þannig gerður skýr greinarmunur á eign að auðlindunum og rétti til að nýta þær. Það er gert meðal annars til að eigendur geti ekki komið í veg fyrir þjóðhagslega skynsamlega nýtingu auðlindanna.

Samkvæmt lögunum hefur Orkustofnun fengið þýðingarmikið hlutverk. Leita skal umsagnar stofnunarinnar áður en leyfi eru veitt og hún annast eftirlit með leitar- og vinnslusvæðum jarðhita, jarðefna og grunnvatns. Mikilvægt er að stofnunin komi upp skilvirku eftirliti í þessu sambandi og nýti sér í því efni innra eftirlit fyrirtækjanna sem nýta auðlindirnar.

Í síðstu viku setti Alþingi sérstök lög um Orkusjóð. Með lögunum fær sjóðurinn nokkuð breytt hlutverk. Þannig verður heimilt að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn á að gera á grundvelli rannsóknaáætlunar frá Orkustofnun. Stjórn sjóðsins, Orkuráði, er breytt og rofin þau sterku tengsl sem hafa verið milli sjóðsins og Orkustofnunar. Meðal annars verður orkumálastjóri ekki áfram framkvæmdastjóri sjóðsins, enda myndi það leiða til hagsmunaárekstra eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á hlutverki sjóðsins. Í lögunum er kveðið með skýrari hætti á um að ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skuli framkvæmaraðili endurgreiða þann kostnað við veitingu virkjunar- eða nýtingarleyfa. Þeim skal að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út og skal verja þeim til yfirlits- og undirbúningsrannsókna á orkulindum landsins.

Þessar breytingar eiga að styrkja Orkusjóð og efla undirbúningsrannsóknir á orkulindum okkar. Á fjárlögum þessa árs fær sjóðurinn 50 milljónir króna til virkjanarannsókna og gert er ráð fyrir svipaðri fjárhæð næstu fimm árin.

Í síðustu viku var hafin vinna við rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kveðið er á um þetta verkefni í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Í henni segir m.a. að áætlunin skuli vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum og að í henni skuli sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra svæða. Unnið hefur verið að undirbúningi áætlunarinnar undanfarna mánuði í samvinnu við umhverfisráðuneytið og Orkustofnun. Þess er vænst að þetta starf geti stuðlað að almennri sátt um sambýli manns og náttúru við nýtingu auðlindanna. Kjörorð verkefnisins er því: Maður - Nýting - Náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt jarðhita og vatnsafls, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og hagsmuni þeirra sem nýta þessi svæði.

Með verkefninu verður lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Allt þetta verður gert með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Skipulag verkefnisins mun rúma bæði faglega vinnu í faghópum og almennan samráðsvettvang þeirra fjölmörgu aðila sem eðlilegt er að komi að málinu.

Fimmtán manna verkefnisstjórn undir forustu Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, mun stjórna verkinu. Hlutverk hennar verður meðal annars:
· Að skilgreina og afmarka viðfangsefnið og setja því meginramma.
· Að móta verklagsreglur fyrir starf faghópanna.
· Að finna og skilgreina aðferðir til að meta orkukostina á grundvelli flokkunar faghópanna.
· Að fjalla um tillögur faghópanna um gagnaöflun og rannsóknarþörf.
· Að vinna úr niðurstöðum faghópanna og flokka virkjunarkostina á grundvelli þeirra.

Fjórum faghópum verður komið á til að fjalla sinn um hvert eftirtalinna efna:

· Náttúru- og minjavernd. Formaður hópsins verður Þóra Ellen Þórhallsdóttir líffræðingur og prófessor.
· Útivist og hlunnindi. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur og formaður Ferðafélags Íslands verður formaður hópsins.
· Þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun. Formaður verður Sigurður Guðmundsson skipulagsfræðingur.
· Orkulindir. Þorkeli Helgasyni stærðfræðing og orkumálastjóra hefur verið falið að leiða störf hópsins.

Hlutverk faghópanna er að fara yfir virkjunarkosti hver frá sínum sjónarhóli, meta þá, gefa þeim stig með tilliti til þeirra þátta sem hópnum er ætlað að fjalla um og loks gera tillögur til verkefnisstjórnarinnar.

Nauðsynleg forsenda þess að verkefnið skili þeim árangri sem að er stefnt er að það njóti trausts í samfélaginu. Því er mikilvægt að koma á öflugu samráði við hagsmunaaðila og almenning um allt land meðan unnið er að því. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að efnt verði til fundarhalda, opnuð heimasíða o.fl. Með þeim hætti verður tryggður beinn aðgangur almennings til að koma skoðunum sínum á framfæri. Ákveðið hefur verið að óska eftir því að Landvernd annist samráðsvettvanginn.

Orkustofnun mun gegna þýðingarmiklu hlutverki í verkefninu enda liggur gríðarleg þekking á orkulindunum hjá stofnuninni og starfsmönnum hennar. Sú breytings sem gerð hefur verið á Orkusjóði á að geta stuðlað að því að unnt verði að taka myndarlega á þessu máli og verður stjóðurinn væntanlega sterkur fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins.

Ég vonast til þess að góð samvinna takist við alla aðila sem að málinu koma og að við getum skapað nauðsynlega sátt sem gerir okkur í senn kleift að nýta orkulindirnar, aðrar auðlindir landsins og vernda náttúruperlur þess. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að taka virkan þátt í verkefninu.

Rammaáætlunin á að auðvelda breytingar á skipan raforkumála sem ég mun nú víkja að, því flokkun virkjanakosta á að draga úr hættu á að við göngum of nærri hinu náttúrulega umhverfi um leið og áhætta fyrirtækja sem hyggja á nýtingu orkulindanna minnkar.

Í morgun kynnti ráðuneytið drög að frumvarpi til raforkulaga sem unnið hefur verið að í vetur. Frumvarpsdrögin taka mið af niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem skilaði niðurstöðum sínum í október árið 1996. Þau byggja einnig á umræðum á Alþingi um þingsályktunartillögu sem lögð var fram á þinginu í lok árs 1997 og nefndaráliti meirihluta iðnaðarnefndar um tillöguna.

Þrátt fyrir að skipulag raforkumála, sem hefur að stofni til verið óbreytt síðasta aldarþriðjunginn, hafi gefist vel til að byggja upp greinina, fylgja því ýmsir annmarkar og vandamál. Nefna má:

· Að í lögum um Landsvirkjun eru lagðar miklar skyldur á fyrirtækið án þess að það hafi einkarétt til orkuvinnslu eða orkuflutnings.
· Að í gjaldskrá Landsvirkjunar er ekki greint milli vinnslu og flutnings á rafmagninu. Sama á við um gjaldskrár annarra orkufyrirtækja.
· Að sumar rafveitur telja sig geta lækka kostnað við orkuöflun með því að virkja. Þá bera þær raunar gjarnan saman kostnað við stöðvarvegg virkjunar og gjaldskrá Landsvirkjunar, en hún felur í sér bæði orkuvinnslu og flutning orkunnar.
· Að ekki er skilið á milli samkeppnisþátta í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnslu og sölu, og starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar.

Markmið með breytingunum er að koma á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku um leið og stuðlað er að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulindanna. Breytingarnar þurfa að stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og hefðbundinna landnytja. Með þeim verður stefnt að því að draga úr opinberum rekstri, tryggja gagnsæja verðmyndun og stuðla að lækkun orkuverðs. Stefnt er að því að auka skilvirkni í starfseminni og laða nýtt fjármagn til greinarinnar. Að endingu ber að nefna að einnig þarf að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Rétt er þó að taka fram að þær eru ekki og eiga ekki að vera drifkrafturinn í breytingunum og ljóst er að á mörgum sviðum ganga fyrirliggjandi drög lengra í átt til markaðsbúskapar en t.d. tilskipun Evrópusambandsins gerir um innri markað á sviði raforku.

Í drögunum er gert ráð fyrir að draga úr hlutverki ríkisins meðal annars í sambandi við ákvarðanir í orkuframkvæmdum. Hlutverk Alþingis og ráðherra verður að setja skýrar og gagnsæjar reglur fyrir starfsemina og móta stefnu um nýtingu orkulindanna. Framkvæmdavaldið þarf að hafa eftirlit með því að reglum sé fylgt. Jafnframt má ætla að ríkið muni reka meginflutningskerfið, a.m.k. fyrst um sinn.

Forsenda samkeppni er að skilja á milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu á rafmagni. Tryggja verður rétt bæði þeirra sem vinna og kaupa rafmagn að flutnings- og dreifikerfunum. Ella verður samkeppni ekki komið á.

Hér gefst ekki tími til að kynna efni frumvarpsdraganna nánar. Ljóst er að áður en ný skipan verður ákveðin þarf að ræða og greina ýmis álitamál nánar. Meðal álitaefna má nefna, hvaða skref þarf að stíga, hvenær er rétt að stíga þau og hve stór eiga þau að vera? Hvernig tryggjum við nauðsynlegt jafnvægi í samkeppni, þ.e.a.s. samkeppni í vinnslu og sölu? Með hvaða hætti afnemum við skuldbindingar orkufyrirtækjanna gagnvart viðskiptamönnum sínum? Hvernig verður farið með kostnað og skuldbindingar sem fyrirtækin bera nú og koma til með að þurfa að standa undir þó svo að einkaréttur þeirra falli niður? Hvernig verður eftirliti sinnt með skilvirkum hætti? Svo mætti áfram spyrja.

Hugmynd mín með því að kynna frumvarpið nú er að fyrirhugaðar breytingar fái sem vandaðasta umfjöllun. Ég hef því óksða eftir ábendingum um það sem betur mætti fara í umræddum drögum fyrir lok aprílmánaðar með það fyrir augum að láta vinna að þeim í sumar. Þannig gæti iðnaðarráðherra – hver sem það verður – lagt fram í haust á Alþingi frumvarp um þetta efni sem hefur fengið ítarlega og vandaða skoðun.

Eins og mörgum ykkar er kunnugt um var sl. haust skipuð nefnd til að fjalla um flutningskerfið. Starf þeirrar nefndar er þýðingarmikið fyrir framhald málsins. Hún fjallar um mörg þýðingarmikil álitamál. Svo sem: Hvar skilið verði milli flutningskerfisins og dreifikerfisins? Hvernig eigi að tryggja vinnsluaðilum og kaupendum aðgang að flutningskerfinu? Niðurstöður nefndarinnar og ákvarðanir sem taka þarf þegar þær liggja fyrir munu að verulegu leyti marka framhaldið, því flutningskerfið er lykillinn að því að það takist að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Ég vil að lokum þakka stjórn Orkustofnunar, orkumálastjóra og starfsmönnum stofnunarinnar gott og ánægjulegt samstarf á viðburðarríku ári.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta