Ávarp á kynningarfundi um breytingar á starfsemi Iðntæknistofnunar.
Ágætu gestir.
Það hefur verið eitt af meginmarkmiðum mínum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra að vinna að framgangi nýsköpunar og atvinnuþróunar hér á landi. Þrátt fyrir að fyrirtæki og einstaklingar séu augljóslega drifkraftur þeirrar þróunar verður ekki fram hjá því litið að ábyrgð hins opinbera er engu að síður talsverð í mótun ytri umgjarðar málsins.
Í hnotskurn hefur meginmarkmið mitt varðandi nýsköpun verið:
Að skapa þau skilyrði sem skila mestum ávinningi fyrir uppbyggingu framsækins atvinnulífs.
Í málefnavinnu ráðuneytisins hefur þessu meginmarkmiði verið skipt upp í þessi undirmarkmið:
1. Að skapa ný og vellaunuð störf
2. Að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins
3. Að stuðla að atvinnuþróun í sátt við umhverfið.
Í samræmi við þessi markmið hefur farið fram endurskoðun á aðkomu stofnana iðnaðarráðuneytisins að nýsköpunarmálum. Ein af ástæðum þess er, að þrátt fyrir hátt menntastig og góðan árangur í vísindum hefur okkur miðað fremur hægt í því að skila þeim árangri út í þjóðfélagið í formi söluhæfra afurða. Eftir að hafa skoðað líklegar ástæður þessa fékkst sú niðurstaða að ástæða væri til að auka þann þátt starfseminnar sem lítur að miðlun vísindalegrar þekkingar til atvinnulífsins, -án þess þó að gegnið væri á hlut vísindarannsóknna sjálfra.
Í stærra samhengi má segja að um sé að ræða heilan og samofinn vef sem byggir –
· í fyrsta lagi á: - öflun vísindalegrar þekkingar,
· í öðru lagi á: - miðlun hennar til atvinnulífsins og
· í þriðja lagi á: - hagnýtingu þekkingarinnar til að standa undir efnahagslegum framförum þjóðarinnar.
Þetta hefur verið dregið fram í þessari mynd sem kölluð hefur verið:
- stoðkerfi þekkingar og nýsköpunar.
Sú starfsemi sem kynnt er ér í dag hverfist um þetta samspil - miðlunar þekkingarinnar og - svöruninni við þörfum hins alþjóðlega samkeppnis-markaðar. Kynnt verður tvennskomnar nátengd starfsemi. Annars vegar IMPRU, sem svo hefur verið kölluð, og er þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki og hins vegar Frumkvöðlasetur fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
Jafnframt þessu verður kynnt nýtt skipurit sem byggir á áherslubreytingum sem orðið hafa í starfsemi Iðntæknistofnunar. Í meginatriðum felast breytingarnar í því að starfsemin hefur verið skipulögð út frá því - að fjárhagslega- og stjórnunarlega hefur verið skilið á milli þeirrar starfsemi sem er rekinn í samkeppni við aðila á almennum markaði og þess hluta starfseminar sem ekki er í slíkri starfsemi og rekinn er af ríkisfé. Þessi ráðstöfun er í beinu framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar - að vinna skuli að fullu jafnræði í samkeppni einkafyrirtækja og ríkisstofnana, - að efla skuli kostnaðarvitund ríkisstofnana og - að gera skuli kostnað við samkeppnisstarfsemi á vegum ríkisins sýnilegan.
Með þessu er m.a. hvatt til hámarksnýtingar mannauðs og eigna. Mikilvægi þessa er augljóst í ljósi smæðar íslensks þjóðfélags þar sem meginmáli skiptir að okkur takist að nýta hinn dýrmæta mannauð okkar og takmörkuð fjárráð á sem bestan hátt.
Einmitt á þeirri forsendu mun þessi þjónusta Iðntæknistofnunar ekki verða einskorðuð við þá starfsemi sem felst í hefðbundnum skilning orðsins iðnaður, - enda er svo þröng afmörkun löngu úr sér gengin og í engu samhengi við nútíma tækni- og atvinnuþróun.
Það er þvert á móti á grundvelli þverfaglegrar þekkingarmiðlunar sem þessi starfsemi er reist, - þar sem haft verður að leiðarljósi að farsæl hagnýting hverskonar vísindalegrar- og tæknilegrar þekkingar er ráðandi þáttur í efnahagslegri afkomu atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar.