Ræða á ársfundi Seðlabankans
I.
Góðir ársfundargestir.
Á sama tíma og virkur fjármagnsmarkaður hefur komist á hér á landi á síðustu árum hefur viðhorf til greinarinnar breyst. Fjármálastarfsemi er nú almennt viðurkennd sem mikilvæg atvinnugrein í stað þess að vera talin milliliður sem litlu skilar í þjóðarbúið. Öflugur fjármagnsmarkaður er nauðsynlegur hlekkur í samkeppnishæfni atvinnulífsins og einn af grundvallarþáttum nútíma efnahagslífs.
Fá dæmi eru um jafn hraða framþróun í einni atvinnugrein og verið hefur í íslenskri fjármálastarfsemi á undanförnum árum. Almennar reglur og viðskiptaleg sjónarmið hafa á skömmum tíma rutt úr vegi sérhagsmunum og höftum af ýmsu tagi. Greinin hefur færst í nútímalegt horf á nokkrum árum og grunnur hefur verið lagður að því að Íslendingar geti mætt með fullri reisn vaxandi samkeppni og alþjóðavæðingu sem svo mjög setur svip sinn á þróun fjármála á alþjóðavettvangi um þessar mundir. Stefna okkar hlýtur að vera sú að komast í fremstu röð þjóða á þessu sviði eins og öðrum. Við höfum verið á réttri leið og verði framþróunin jafn ör og að undanförnu náum við þessu markmiði á fáum árum.
Það er þó ekki ofmælt að kennileitin í fjármálaumhverfinu hafi breyst mikið á síðustu árum. Í því sambandi nægir að nefna nýlega sölu hlutabréfa ríkisins í þremur fjármálafyrirtækjum, hraða uppbyggingu hlutabréfa- og skuldabréfamarkaða og uppgang verðbréfafyrirtækja og verðbréfastofa banka og sparisjóða. Á verðbréfamarkaði starfa nú mörg hundruð sérhæfðra starfsmanna sem standa starfsmönnum erlendra verðbréfafyrirtækja fyllilega jafnfætis.
Þessar umbætur í fjármálum þjóðarinnar hafa þegar skilað sér í minnkandi vaxtamun. Jafnframt hafa þær skapað traustari forsendur fyrir hagstjórn. Það fer því ekki á milli mála að við erum á réttri braut í þessum efnum. Með því að halda áfram á sömu braut á næstu misserum og árum getur fjármálalífið lagt enn meira af mörkum til þess að efla atvinnuvegina og bæta lífskjörin hér á landi.
II.
Mörg stór mál hafa náð fram að ganga á kjörtímabilinu á fjármagnsmarkaði. Þar má nefna fækkun fjármálastofnana í eigu ríkisins, hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna og endurskipulagningu og fækkun fjárfestingarlánasjóðanna með stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum með útboði á nýju hlutafé í viðskiptabönkunum og sölu á eignarhlut ríkisins í FBA. Þá hefur hafið starfsemi nýtt og sterkara fjármálaeftirlit, með sameiningu bankaeftirlits Seðlabankans og Vátryggingareftirlitsins. Með nýrri löggjöf um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða var einkaréttur Verðbréfaþings Íslands á kauphallarstarfsemi afnuminn og sett inn ýmis ákvæði til eflingar verðbréfamarkaði. Frá og með síðustu áramótum er Verðbréfaþing Íslands rekið í formi hlutafélags. Með nýrri löggjöf um rafræna eignarskráningu verðbréfa og stofnun félags um verðbréfamiðstöð hefur verið lagður grunnur að pappírslausum viðskiptum með verðbréf. Að síðustu má nefna mikið starf sem unnið hefur verið til að laða erlent fjármagn til landsins. III.
Við aldahvörf getum við verið sátt við þann árangur sem náðst hefur á fjármagnsmarkaði. Ekki er þó allt eins og best verður á kosið. Þótt mikið hafi vissulega áunnist erum við að sumu leyti aftarlega á merinni. Kannski er það ekki furða. Við höfum ekki haft áratugi eða árhundruð til að byggja upp okkar fjármagnsmarkað eins og nágrannalönd okkar. Ég ætlað hér að nefna þrennt sem skilur okkur helst frá nágrannalöndunum. Í fyrsta lagi vil ég nefna takmarkaða og frekar einhliða tengingu íslenska fjármagnsmarkaðarins við erlenda fjármagnsmarkaði. Fjármagn streymir úr landi í kaup á verðbréfum erlendis, sér í lagi frá lífeyrissjóðum. Þó svo erlend fjárfesting hafi aukist í atvinnurekstri hér á landi á síðustu árum þá fjárfesta útlendingar nánast ekkert í íslenskum verðbréfum. Einnig virðast einstaka atburðir úti í heimi sem koma róti á fjármálamarkaði í kringum okkur hafa takmörkuð áhrif hér á landi enn sem komið er. Að þessu leytinu til er Ísland eyland í annars konar merkingu en landfræðilegri. Að vísu er brúarsmíð til alþjóðlegra markaða hafin en ekki er gott að segja til um hvenær henni lýkur.
Í öðru lagi vil ég nefna meiri vaxtamun og kostnað en þekkist í nágrannalöndum okkar. Á síðustu misserum hefur þó orðið breyting þar á. Þannig minnkaði vaxtamunur banka og sparisjóða verulega á síðasta ári. Kostnaður banka og sparisjóða sem hlutfall af vaxtamun og þjónustutekjum er hins vegar enn mun hærri hér heldur en í löndunum í kringum okkur. Hagræðingar er því þörf í greininni.
Þróunin á vestrænum bankamarkaði hefur verið geysilega ör á þessum áratug. Aukin samkeppni, alþjóðavæðing, opnun hólfa á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja, lægri vaxtamunur og aukið framboð af nýrri þjónustu hefur verið einkennandi fyrir markaðinn. Ekkert lát virðist vera á þessari þróun. Bankar búa sig undir enn harðnandi samkeppni með samruna og yfirtökum. Ef við lítum til þróunar í Evrópu á síðustu árum má búast við að það sé einungis tímaspursmál hvenær samrunahrina gengur yfir íslenskan fjármagnsmarkað.
Í þriðja lagi vil ég nefna stóran hlut ríkisins á fjármagnsmarkaði. Þó margt hafi gerst í þessum efnum ræður ríkið enn yfir meirihluta í þremur af fimm stærstu fjármálafyrirtækjunum. Ljóst má þó vera að þetta er tímabundið ástand. Sala banka í eigu ríkisins gengur samkvæmt áætlun. Yfir 110 þúsund manns keyptu sér hlut í bönkunum þremur síðastliðið haust í einkar vel heppnuðum útboðum. Landsbankinn, Búnaðarbankinn og Fjárfestingarbankinn lúta nú allir aga markaðarins og njóta trausts fjárfesta. Unnið er að undirbúningi að sölu FBA í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að bankinn verði allur seldur.
Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sölu hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka var lögð mikil áhersla á tafarlausa skráningu bankanna á Verðbréfaþing Íslands. Með skráningunni yrði verðmæti bankanna mælt með viðskiptum á markaði og viðskiptalegur agi skráningar nýttur þeim til framdráttar. Útboð á nýju hlutafé og skráning á Verðbréfaþing eiga stjórnendur bankanna að nýta til hins ítrasta til að styrkja markaðslega ímynd þeirra og efla samkeppnishæfni, meðal annars með innri hagræðingu og tækninýjungum. Það verður síðan þeirrar ríkisstjórnar sem verður við völd eftir kosningar að móta stefnu um sölu á hlutafé ríkisins í bönkunum með hliðsjón af árangri bankanna og þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til.
IV.
Nokkur umræða hefur verið síðustu daga um nýjar reglur Seðlabankans um lausafjárskyldu og vexti sem bankinn greiðir viðskiptabönkum og sparisjóðum af bundnu fé. Þar hafa bankastjórar viðskiptabankanna og Seðlabankans skipst á skoðunum. Mikilvægast er að þessar deilur verða farsællega til lykta leiddar og er vonandi að þær breyttu lausafjárreglur sem Seðlabankinn kynnti í morgun stuðli að lausn málsins.Hér skiptir tvennt mestu máli. Annars vegar er brýnt að draga úr erlendum skammtímaskuldum lánastofnana. Þetta hefur Seðlabankinn ítrekað bent á og er auðvitað sjónarmið sem ekki má líta fram hjá í ljósi stöðu innlendra efnahagsmála og þeirra kosta sem blasa við. Hins vegar þarf að gæta þess að nýjar lausafjárreglur skaði ekki það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið á þessum vettvangi undanfarin ár. Verkefnið er því alveg skýrt, þ.e. finna þarf leið til að draga úr umræddum skammtímaskuldum án þess að tefla í tvísýnu skilvirkni fjármagnsmarkaðarins.
Útlánaaukning banka og sparisjóða á síðustu tólf mánuðum er meiri en samræmst getur stöðugleika í efnahagsmálum til lengri tíma litið. Nýjustu tölur um útlánaaukningu benda einnig til að ekkert lát sé á henni. Fjármálafyrirtæki þurfa að huga vel að gæðum útlána við þær aðstæður sem nú ríkja. Við erum nú nálægt toppi hagsveiflunnar eftir langvinnt hagvaxtarskeið. Þótt spár Þjóðhagsstofnunar og alþjóðastofnana bendi eindregið í þá átt að Íslendingar geti vænst áframhaldandi hagsældar á næstu árum, og núverandi hagvaxtarskeið verði því hið lengsta í sögunni, þá sýnir reynslan erlendis frá að bankar þurfa að fara að öllu með gát þegar hagvaxtarskeið hefur staðið jafn lengi yfir eins og það hefur gert hér á landi.
V.
Góðir ársfundargestir. Viðburðarríku kjörtímabili er að ljúka. Auðvitað er margt ógert enda á ungur og óharðnaður fjármagnsmarkaður að vera í stöðugri mótun. Ég tel að á næstu árum verði að fara út í miklar laga- og skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði. Þetta á t.d. við um lög um viðskiptabanka og sparisjóði annars vegar og lög um aðrar lánastofnanir hins vegar. Í þessu sambandi er sérstaklega mikilvægt að horft verði til breytinga á lagaumhverfi sparisjóðanna sem geri þeim kleift að laga sig að breyttum aðstæðum á fjármagnsmarkaði. Þannig væri hægt að gera breytingar á rekstrarformi þeirra, opna fyrir möguleika til að auka eigið fé sparisjóða á markaði og stækka hóp eigenda að sparisjóðunum sem taki þátt í rekstri þeirra á viðskiptalegum forsendum.
Önnur lög sem þarfnast endurskoðunar á næstu árum með hliðsjón af breyttum aðstæðum eru t.d. vaxtalög, lög um verðbréfasjóði og lög um Seðlabanka Íslands. Á öðrum sviðum þar sem þróunin er hröð þarf að setja ný ákvæði í lög, t.d. um rafeyri. Jafnframt er mikilvægt að sátt náist um skipulag greiðslumiðlunar í landinu og settar verði hlutlægar reglur um aðgang að greiðslumiðlunarkerfum.
Af þessu sést að það þarf að mörgu að hyggja. Fyrir nokkrum árum gerðum við okkur ekki vonir um að vöxtur og viðgangur fjármagnsmarkaðarins yrði jafn mikill og raun ber vitni. Nú höfum við góðan grunn til að byggja á. Það verðum við að nýta okkur til að blása saman til sóknar og styrkja fjármagnsmarkaðinn enn frekar á komandi árum. Verkefnið er að koma okkur í fremstu röð á þessu sviði. Í ljósi þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum er alls ekki óraunhæft að setja sér svo metnaðarfullt markmið.
Ég vil að endingu þakka bankaráði Seðlabanka, bankastjórum hans og starfsfólki fyrir samstarfið á síðasta ári.
Ég þakka fyrir.