Ræða á Alþingi við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra
Herra forseti. Góðir Íslendingar.
Við Íslendingar lifum nú einhvert mesta velsældarskeið í sögu þjóðarinnar og gildir þá einu hvaða mælistiku við berum á lífsgæðin. Okkur hefur tekist á fáum árum að koma okkur í fremstu röð þjóða heims þegar lífsgæði eru metin.
Fimm megin ástæður eru fyrir þessum árangri okkar:
Í fyrsta lagi að við höfum nýtt náttúruauðlindir okkar með skynsamlegum hætti í sátt við náttúruna og með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
Í öðru lagi höfum við skapað fjölbreyttara atvinnulíf þar sem samkeppnishæfni þess hefur verið treyst og um leið lagt áherslu á vaxtarbrodda íslensks atvinnulífs á sviði þekkingariðnaðar, afþreyingariðnaðar og ýmiss konar þjónustu. Við höfum eflt alþjóðavæðingu atvinnulífsins með aukinni erlendri fjárfestingu á Íslandi og útrás íslenskra fyrirtækja til starfa í útlöndum.
Í þriðja lagi tókst verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum í samvinnu við ríkið að gera skynsamlega kjarasamninga sem treyst hafa efnahagslegan stöðugleika í sessi og á þeim trausta grunni sem nú hefur verið lagður má byggja enn frekari ávinning og kjarabætur fyrir Íslendinga alla.
Í fjórða lagi hefur raunsæ stefna í ríkisfjármálum sem einkennt hefur störf okkar síðustu fjögur ár stuðlað að sókn í atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum.
Í fimmta lagi þá hefur tekist að skapa bjartsýni í þjóðfélaginu ólíkt því þrúgandi ástandi atvinnuleysis og svartsýni sem var áberandi hér í upphafi þessa áratugar. Þessa bjartsýni þarf að beisla til nýrrar framsóknar þjóðarinnar allrar inn í næstu öld.
Stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefur enga vörðu hlaðið á þessari leið.
Sóknarfæri okkar Íslendinga í dagrenningu nýs árþúsunds eru á flestan hátt betri en nokkru sinni fyrr. Tækifærin blasa við hvert sem litið er. Við erum hins vegar misjafnlega vel í stakk búin til að grípa tækifærin, - því við erum ólík. Sum okkar búa við góða heilsu, önnur við heilsuleysi. Sumir eru uppfullir af hugmyndum og miklum krafti til að koma þeim í framkvæmd. Aðrir kjósa að lifa hæglátu lífi og sinna ýmsum hugðarefnum í friði.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þannig að sérhver einstaklingur geti notið ávaxta aukinnar verðmætasköpunar. Það er hlutverk okkar að sjá til þess að enginn meðbræðra okkar eða systra verði þar út undan.
Góður árangur og sóknarfæri geta horfið eins og dögg fyrir sólu ef fyrirhyggjuleysis gætir við stjórn landsins. Jafnvægi og stöðugleiki í efnahagsmálum er viðkvæmt ástand sem ekki má við miklum sveiflum.
Blikur eru á lofti í þeim efnum núna, - því miður. Verðbólgan er aftur farin að sýna klærnar. Við hana verður ekki ráðið með aðferðum stjórnarandstöðunnar þar sem ósamstaðan og úrræðaleysið er algjört. Má ég herra forseti nefna nokkur dæmi úr umræðu síðustu daga um viðbrögð stjórnarandstöðunnar við aðgerðum sem gripið hefur verið til, til að sporna við þenslu og vaxandi verðbólgu.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti til að sporna við þenslu, þá mótmælti stjórnarandstaðan og vildi gera eitthvað annað. Þegar ríkissjóði er skilað með tekjuafgangi í þeim tilgangi að halda aftur af þenslunni, - þá flytur stjórnarandstaðan tillögur um að stórauka ríkisútgjöld. Þegar fresta á framkvæmdum til að draga úr þenslu, þá mótmælir stjórnarandstaðan harðlega. Þegar stjórnarandstaðan er spurð hvað hún vilji gera er svarið: "Bara eitthvað annað". Eitthvað annað er stefna stjórnarandstöðunnar í efnahagsmálum sem og í atvinnumálum.
En hvergi er málflutningur stjórnarandstöðunnar þó eins ótrúverðugur eins og í byggðamálum og uppbyggingu atvinnulífs á sviði orkufreks iðnaðar. Nú reyna nokkrir fyrrum forystumenn Alþýðuflokksins sem nú er Samfylkingin, að villa um fyrir þjóðinni og hlaupast undan ábyrgð á verkum sínum. En Alþýðuflokkurinn hefur í áratugi verið eitt aðal baráttuaflið fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi.
Það voru iðnaðar- og umhverfisráðherrar Alþýðuflokksins sem voru í fararbroddi fyrir virkjun Jökulsár í Fljótsdal með uppistöðulóni við Eyjabakka.
* Þá var ætlunin að leggja 80 km² gróins lands undir vatn
* Grafa skurði um þvera og endilanga Fljótsdalsheiði.
* Reisa tvær 400 kWt háspennulínur þvert yfir hálendi landsins til að flytja orkuna að austan og suður á Reykjanes og selja hana þar á útsöluverði.
Nú koma þessir sömu menn og leggjast gegn áformum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Austurlandi
* þó svo að búið sé að minnka um helming svæði gróins lands sem fer undir vatn,
* þó svo að hætt sé við að leggja háspennulínur þvert yfir hálendi landsins og orkuna eigi að nýta á Austurlandi til að treysta byggð þar í sessi
* og þó svo að orkan verði ekki seld nema að hún skili Landsvirkjun góðum arði sem skapað getur fólki og fyrirtækjum í landinu lægra orkuverð.
Er þessi málflutningur fyrrum forystumanna Alþýðuflokksins trúverðugur? Nei, hann er tækifærismennska af verstu gerð og í þeim tilgangi að skapa ósætti í samfélaginu, átök og togstreitu milli fólks og landshluta.
Öll umræða um umhverfismál, sérstaklega í sambandi við nýtingu miðhálendisins og náttúruvernd hefur aukist síðustu misserin. - Það er af hinu góða. Jafnframt hafa talsmenn byggða, þar sem byggð og atvinnulíf á í vök að verjast bent á hve mikilvægt sé að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. Ég taldi því nauðsynlegt að efna til faglegrar og málefnalegrar umfjöllunar um nýtingu orkulindanna og áhrif hennar á hið náttúrulega umhverfi en jafnframt um áhrif nýtingarinnar á efnahag þjóðarinnar, atvinnu og byggðaþróun.
Því er farin af stað vinna við stefnumótun um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma. Þess er vænst að sú vinna geti stuðlað að almennri sátt í samfélaginu um sambýli manns og náttúru við nýting auðlindanna. Að þessu starfi kemur fjölmenn sveit fagmanna hvaðanæfa að af landinu frá hagsmunahópum á sviði umhverfisverndar og atvinnulífs.
Virkjun Jökulsár í Fljótsdal fellur utan þessa starfs af þeirri ástæðu að Alþingi hafði áður veitt Landsvirkjun rétt til þess að virkja þar og sá réttur verður ekki tekin af fyrirtækinu nema með lögum frá Alþingi. Til þess að reyna að skapa sátt í samfélaginu um þessi virkjanaáform og til að kanna ótvírætt hver vilji Alþingis er til þessara framkvæmda mun ég um leið og skýrslan um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar er tilbúin, leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Sú tillaga mun byggja á skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum.
Það er á fleiri sviðum sem málstaður stjórnarandstöðunnar er ekki trúverðugur. Í bankamálum hafa einstakir þingmenn stjórnarandstöðunnar barist gegn öllum breytingum. Gerðar hafa verið einhverjar róttækustu skipulagsbreytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði sem nokkru sinni hefur verið ráðist í. Fjárfestingalánasjóðir atvinnulífsins voru sameinaðir í FBA, í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna. Ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög og tugþúsundir Íslendinga eignuðust hlut í bönkunum. Allt í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna á Alþingi. Nú eru þessar eignir þjóðarinnar tugmilljarða króna virði, eignir eins og Fjárfestingabanki atvinnulífsins sem metinn er á 20 milljarða króna, var að mati stjórnarandstöðunnar lítils virði og því rétt að gefa hann bönkunum.
Undirstaða samhjálpar og velferðar fólksins í landinu er öflugt atvinnulíf og blómlegar byggðir. Með áframhaldandi skynsamlegri hagstjórn og markvissri og skipulagðri stefnu í atvinnumálum og enn frekari hagræðingu í bankakerfinu sem leiðir til lægri vaxta og minni kostnaðar fyrir fólk og fyrirtæki tekst okkur að tryggja stöðu okkar í fremstu röð þjóða heims.
Þannig viðhöldum við stöðugleika, - höldum áfram að greiða niður skuldir ríkisins, - auka kaupmátt og skapa svigrúm til lífskjarajöfnunar og berjast fyrir mörgum mikilvægum verkefnum sem nú blasa við í íslensku samfélagi.
Þar má nefna:
* Baráttuna gegn fíkniefnum og sölumönnum dauðans sem nú er hafin.
* Baráttuna fyrir blómlegri byggðum þar sem öflugt og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf, aðgangur að góðri menntun og velferðarþjónustu ásamt jafnari orkukostnaði verða höfð að leiðarljósi.
* Baráttuna fyrir því að skapa þjóðarsátt um skynsamlega nýtingu orkulinda landsins og um byggð í landinu öllu.
* Baráttuna fyrir réttlátari tekjuskiptingu til að styrkja fjölskylduna sem hornstein samfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Mikilvægur liður í því er að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu en stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að það verði gert með útgáfu sérstakra barnakorta en slíkar breytingar verði gerðar samhliða breytingum á skattalögum og þær aðgerðir verði miðaðar við að þær ýti ekki undir þenslu í hagkerfinu.
Herra forseti.
Verkefnin, sem við Alþingi blasa nú í upphafi nýs kjörtímabils eru mörg og stór. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið reiðubúinn að takast á við erfið og mikilvæg úrlausnarefni. Við munum ekki skorast undan því á nýrri öld, heldur leitast við að ná sátt um verkefni framtíðarinnar.
Við Íslendingar lifum nú einhvert mesta velsældarskeið í sögu þjóðarinnar og gildir þá einu hvaða mælistiku við berum á lífsgæðin. Okkur hefur tekist á fáum árum að koma okkur í fremstu röð þjóða heims þegar lífsgæði eru metin.
Fimm megin ástæður eru fyrir þessum árangri okkar:
Í fyrsta lagi að við höfum nýtt náttúruauðlindir okkar með skynsamlegum hætti í sátt við náttúruna og með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
Í öðru lagi höfum við skapað fjölbreyttara atvinnulíf þar sem samkeppnishæfni þess hefur verið treyst og um leið lagt áherslu á vaxtarbrodda íslensks atvinnulífs á sviði þekkingariðnaðar, afþreyingariðnaðar og ýmiss konar þjónustu. Við höfum eflt alþjóðavæðingu atvinnulífsins með aukinni erlendri fjárfestingu á Íslandi og útrás íslenskra fyrirtækja til starfa í útlöndum.
Í þriðja lagi tókst verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum í samvinnu við ríkið að gera skynsamlega kjarasamninga sem treyst hafa efnahagslegan stöðugleika í sessi og á þeim trausta grunni sem nú hefur verið lagður má byggja enn frekari ávinning og kjarabætur fyrir Íslendinga alla.
Í fjórða lagi hefur raunsæ stefna í ríkisfjármálum sem einkennt hefur störf okkar síðustu fjögur ár stuðlað að sókn í atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum.
Í fimmta lagi þá hefur tekist að skapa bjartsýni í þjóðfélaginu ólíkt því þrúgandi ástandi atvinnuleysis og svartsýni sem var áberandi hér í upphafi þessa áratugar. Þessa bjartsýni þarf að beisla til nýrrar framsóknar þjóðarinnar allrar inn í næstu öld.
Stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefur enga vörðu hlaðið á þessari leið.
Sóknarfæri okkar Íslendinga í dagrenningu nýs árþúsunds eru á flestan hátt betri en nokkru sinni fyrr. Tækifærin blasa við hvert sem litið er. Við erum hins vegar misjafnlega vel í stakk búin til að grípa tækifærin, - því við erum ólík. Sum okkar búa við góða heilsu, önnur við heilsuleysi. Sumir eru uppfullir af hugmyndum og miklum krafti til að koma þeim í framkvæmd. Aðrir kjósa að lifa hæglátu lífi og sinna ýmsum hugðarefnum í friði.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þannig að sérhver einstaklingur geti notið ávaxta aukinnar verðmætasköpunar. Það er hlutverk okkar að sjá til þess að enginn meðbræðra okkar eða systra verði þar út undan.
Góður árangur og sóknarfæri geta horfið eins og dögg fyrir sólu ef fyrirhyggjuleysis gætir við stjórn landsins. Jafnvægi og stöðugleiki í efnahagsmálum er viðkvæmt ástand sem ekki má við miklum sveiflum.
Blikur eru á lofti í þeim efnum núna, - því miður. Verðbólgan er aftur farin að sýna klærnar. Við hana verður ekki ráðið með aðferðum stjórnarandstöðunnar þar sem ósamstaðan og úrræðaleysið er algjört. Má ég herra forseti nefna nokkur dæmi úr umræðu síðustu daga um viðbrögð stjórnarandstöðunnar við aðgerðum sem gripið hefur verið til, til að sporna við þenslu og vaxandi verðbólgu.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti til að sporna við þenslu, þá mótmælti stjórnarandstaðan og vildi gera eitthvað annað. Þegar ríkissjóði er skilað með tekjuafgangi í þeim tilgangi að halda aftur af þenslunni, - þá flytur stjórnarandstaðan tillögur um að stórauka ríkisútgjöld. Þegar fresta á framkvæmdum til að draga úr þenslu, þá mótmælir stjórnarandstaðan harðlega. Þegar stjórnarandstaðan er spurð hvað hún vilji gera er svarið: "Bara eitthvað annað". Eitthvað annað er stefna stjórnarandstöðunnar í efnahagsmálum sem og í atvinnumálum.
En hvergi er málflutningur stjórnarandstöðunnar þó eins ótrúverðugur eins og í byggðamálum og uppbyggingu atvinnulífs á sviði orkufreks iðnaðar. Nú reyna nokkrir fyrrum forystumenn Alþýðuflokksins sem nú er Samfylkingin, að villa um fyrir þjóðinni og hlaupast undan ábyrgð á verkum sínum. En Alþýðuflokkurinn hefur í áratugi verið eitt aðal baráttuaflið fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi.
Það voru iðnaðar- og umhverfisráðherrar Alþýðuflokksins sem voru í fararbroddi fyrir virkjun Jökulsár í Fljótsdal með uppistöðulóni við Eyjabakka.
* Þá var ætlunin að leggja 80 km² gróins lands undir vatn
* Grafa skurði um þvera og endilanga Fljótsdalsheiði.
* Reisa tvær 400 kWt háspennulínur þvert yfir hálendi landsins til að flytja orkuna að austan og suður á Reykjanes og selja hana þar á útsöluverði.
Nú koma þessir sömu menn og leggjast gegn áformum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Austurlandi
* þó svo að búið sé að minnka um helming svæði gróins lands sem fer undir vatn,
* þó svo að hætt sé við að leggja háspennulínur þvert yfir hálendi landsins og orkuna eigi að nýta á Austurlandi til að treysta byggð þar í sessi
* og þó svo að orkan verði ekki seld nema að hún skili Landsvirkjun góðum arði sem skapað getur fólki og fyrirtækjum í landinu lægra orkuverð.
Er þessi málflutningur fyrrum forystumanna Alþýðuflokksins trúverðugur? Nei, hann er tækifærismennska af verstu gerð og í þeim tilgangi að skapa ósætti í samfélaginu, átök og togstreitu milli fólks og landshluta.
Öll umræða um umhverfismál, sérstaklega í sambandi við nýtingu miðhálendisins og náttúruvernd hefur aukist síðustu misserin. - Það er af hinu góða. Jafnframt hafa talsmenn byggða, þar sem byggð og atvinnulíf á í vök að verjast bent á hve mikilvægt sé að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. Ég taldi því nauðsynlegt að efna til faglegrar og málefnalegrar umfjöllunar um nýtingu orkulindanna og áhrif hennar á hið náttúrulega umhverfi en jafnframt um áhrif nýtingarinnar á efnahag þjóðarinnar, atvinnu og byggðaþróun.
Því er farin af stað vinna við stefnumótun um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma. Þess er vænst að sú vinna geti stuðlað að almennri sátt í samfélaginu um sambýli manns og náttúru við nýting auðlindanna. Að þessu starfi kemur fjölmenn sveit fagmanna hvaðanæfa að af landinu frá hagsmunahópum á sviði umhverfisverndar og atvinnulífs.
Virkjun Jökulsár í Fljótsdal fellur utan þessa starfs af þeirri ástæðu að Alþingi hafði áður veitt Landsvirkjun rétt til þess að virkja þar og sá réttur verður ekki tekin af fyrirtækinu nema með lögum frá Alþingi. Til þess að reyna að skapa sátt í samfélaginu um þessi virkjanaáform og til að kanna ótvírætt hver vilji Alþingis er til þessara framkvæmda mun ég um leið og skýrslan um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar er tilbúin, leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Sú tillaga mun byggja á skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum.
Það er á fleiri sviðum sem málstaður stjórnarandstöðunnar er ekki trúverðugur. Í bankamálum hafa einstakir þingmenn stjórnarandstöðunnar barist gegn öllum breytingum. Gerðar hafa verið einhverjar róttækustu skipulagsbreytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði sem nokkru sinni hefur verið ráðist í. Fjárfestingalánasjóðir atvinnulífsins voru sameinaðir í FBA, í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna. Ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög og tugþúsundir Íslendinga eignuðust hlut í bönkunum. Allt í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna á Alþingi. Nú eru þessar eignir þjóðarinnar tugmilljarða króna virði, eignir eins og Fjárfestingabanki atvinnulífsins sem metinn er á 20 milljarða króna, var að mati stjórnarandstöðunnar lítils virði og því rétt að gefa hann bönkunum.
Undirstaða samhjálpar og velferðar fólksins í landinu er öflugt atvinnulíf og blómlegar byggðir. Með áframhaldandi skynsamlegri hagstjórn og markvissri og skipulagðri stefnu í atvinnumálum og enn frekari hagræðingu í bankakerfinu sem leiðir til lægri vaxta og minni kostnaðar fyrir fólk og fyrirtæki tekst okkur að tryggja stöðu okkar í fremstu röð þjóða heims.
Þannig viðhöldum við stöðugleika, - höldum áfram að greiða niður skuldir ríkisins, - auka kaupmátt og skapa svigrúm til lífskjarajöfnunar og berjast fyrir mörgum mikilvægum verkefnum sem nú blasa við í íslensku samfélagi.
Þar má nefna:
* Baráttuna gegn fíkniefnum og sölumönnum dauðans sem nú er hafin.
* Baráttuna fyrir blómlegri byggðum þar sem öflugt og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf, aðgangur að góðri menntun og velferðarþjónustu ásamt jafnari orkukostnaði verða höfð að leiðarljósi.
* Baráttuna fyrir því að skapa þjóðarsátt um skynsamlega nýtingu orkulinda landsins og um byggð í landinu öllu.
* Baráttuna fyrir réttlátari tekjuskiptingu til að styrkja fjölskylduna sem hornstein samfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Mikilvægur liður í því er að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu en stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að það verði gert með útgáfu sérstakra barnakorta en slíkar breytingar verði gerðar samhliða breytingum á skattalögum og þær aðgerðir verði miðaðar við að þær ýti ekki undir þenslu í hagkerfinu.
Herra forseti.
Verkefnin, sem við Alþingi blasa nú í upphafi nýs kjörtímabils eru mörg og stór. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið reiðubúinn að takast á við erfið og mikilvæg úrlausnarefni. Við munum ekki skorast undan því á nýrri öld, heldur leitast við að ná sátt um verkefni framtíðarinnar.