Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 1999 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á aðalráðstefnu FAO í Róm 12. - 23. nóvember 1999

Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarrádherra
á aðalráðstefnu FAO í Róm
12. - 23. nóvember 1999


Hr. fundarstjóri, hr. aðalframkvæmdastjóri, virðulegu fundargestir, herrar mínir og frúr.

Ég vil hefja mál mitt á því að óska formanni og varaformönnum til hamingju med kjörið. Ennfremur vil ég óska Dr. Diouf til hamingju með endurkjörið í starf aðalframkvæmdastjóra FAO og óska honum áframhaldandi velferðar í starfi.

Það er mér mikill heiður að ávarpa þessa samkomu sem nú undirbýr stofnunina að takast á við mikilvæg viðfangsefni á nýju árþúsundi. Þótt við stöndum á þröskuldi nýrra tíma sem virðast lofa framförum mannkyns sem aldrei fyrr, erum við samt víðsfjarri því að geta tryggt að allir fái notið réttarins til fæðu. Um leið og við fögnum komu þriðja árþúsundsins, ættum við að heita því að hin bjarta framtíð sem við gjarnan spáum verði björt öllu mannkyni. Fæðuöryggi fyrir alla hlýtur að vera grundvallarmarkmið.

Leiðtogafundurinn um matvælaöryggi fyrir þremur árum setti sér háleit markmið í baráttunni við hungrið. Það er ljóst að við verðum að herða okkur í baráttunni til að unnt verði að fækka þeim sem svelta með varanlegum og sjálfbærum hætti, án þess að skaða umhverfið. Til að ná þessu marki verður að tryggja FAO nægilegt fjármagn til að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd og samhæfa verður stefnu í öllu alþjóðlegu samstarfi. Eingöngu með því móti er von til þess að hægt verði að vinna á þeim þróunarvanda sem liggur að baki öryggisleysi hinna hungruðu. Við fögnum gerð rammaáætlunar FAO, sem ætti að verða okkur að leiðarljósi í þessu starfi.

Þessi fundur er haldinn á mikilvægum tímapunkti, því framundan eru umfangsmiklar samningaviðræður innan hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis, m.a. á sviði landbúnaðar. Í því sambandi vildi ég leggja áherslu á mikilvægi hins fjölþætta hlutverks landbúnaðar. Landbúnaður er undirstaða fæduöryggis sérhvers lands, verndar umhverfið og - það sem er e.t.v. mikilvægast - rennir efnahagslegum og félagslegum stoðum undir landsbyggðina.

Þetta atriði er minni þjóð sérstaklega mikilvægt. Það kemur kannski mörgum á óvart að komast að því að á Íslandi sé stundaður landbúnaður, í landi lengst norður í Atlantshafinu, þar sem meðalhiti sumars nær hæst 10 gráðum og hveiti nær vart þroska. Samt sem áður er á Íslandi stundaður blómlegur landbúnaður með framleiðslu búfjárafurða, mjólkur og kjöts, og garð- og gróðurhúsaávaxta, allt í hæsta gæðaflokki, framleitt í tæru lofti og hreinu vatni, nær laust við öll skaðleg efni. Gróðurhús okkar og nær öll íslensk heimili nýta jarðhita.

Það er e.t.v. ástæðulaust að tíunda þá erfiðleika sem nálægðin við heimskautsbaug ber með sér, sem þó á sér sínar góðu hliðar. Birta hins náttlausa sumars og næg úrkoma bæta upp lágan hita sumarsins og gefa bændum mikið af góðu grasfóðri fyrir búfénaðinn. Þannig hefur landbúnaðurinn haldið lífinu í þjóðinni frá því að landið byggðist fyrir 1100 árum og fram á þessa öld sem nú tekur senn enda. Við erum staðráðin í að standa vörd um íslenskan landbúnað og þar með velferð þjóðarinnar.

Hr. formaður.

Erfið ár miðalda, eldgos, hafís og pestir léku þjóðina grátt. Eldgosin miklu á Íslandi fyrir rúmum 200 árum skyggðu ekki bara á sólina í Evrópu og leiddu til hungursneyðar, heldur lifðu aðeins af um 40.000 sálir þessi ósköp á Íslandi.

Með nýrri tækni tóku Íslendingar að stunda sjóinn í auknum mæli. Á fyrri hluta þessarar aldar voru hin gjöfulu fiskimið í kringum landið full af fiskiskipum nágrannaþjóðanna. Síðan höfum við fengið full umráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu og náð stjórn á fiskveiðum á miðunum umhverfis landið. Árangurinn er sjálfbærar fiskveiðar og stöðug aukning í afla.

Miðað við tekjur, lífskjör og lífsgæði eru Íslendingar nú meðal tíu efstu þjóða heims. Þar sem fiskveiðar eru aðalundirstaða þessara lífskjara hefur því verið
haldið fram að aðrar þjóðir gætu lært af Íslendingum hvernig stjórna eigi fiskveiðum til þess að þær séu ekki bara sjálfbærar heldur gefi aukinn afla með ári hverju.

Okkur langar því til, í samvinnu við FAO, að miðla öðrum af reynslu okkar og læra af reynslu annarra að sama skapi. Vonandi getum við náð alþjóðlegri samstöðu um hvernig vinna skuli bug á sameiginlegum vandamálum. Í þessu sambandi er mér ljúft að tilkynna hér fyrir hönd sjávarútvegsráðherra og ríkistjórnar Íslands að ákveðið hefur verið að bjóða FAO að halda árið 2001 á Íslandi alþjóðaráðstefnu undir vinnuheitinu: "Sjálfbærar fiskveiðar í vistkerfinu". Þetta er að okkar mati mjög tímanlegt frumkvæði sem ætti að stuðla að markmiðinu um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og í breiðara samhengi skynsamlegri stjórnun vistkerfis sjávar.

Hr. formaður.

Eins og þú ert eflaust meðvitaður um er Ísland nú í fyrsta skipti að sækjast eftir kjöri í FAO-ráðið. Í því tilefni hefur Ísland nú einnig í fyrsta skipti skipað staðarfulltrúa sinn hér í Róm til að sinna málefnum FAO. Má telja víst að þetta muni leiða til enn virkari þátttöku Íslands í störfum FAO og heitum við því að leggja okkar að mörkum til að þau verði sem farsælust.

Með þökkum til fundarstjóra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta