Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. desember 1999 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á ráðstefnu í tilefni af 100 ára afmæli skógræktar á Íslandi. Haldin 3. desember 1999.

Guðni Ágústsson.

Ráðstefna í tilefni af 100 ára afmæli skógræktar á Íslandi.
Haldin í Borgartúni 6, föstudaginn 3. desember 1999.


Ágætu ráðstefnugestir.

Á þessu ári hefur víða verið minnst þeirra tímamóta að 100 ár eru liðin frá því að skógrækt hófst hér á landi, og er þá miðað við gróðursetningu í Furulundinum á Þingvöllum og ætla ég ekki að rekja hana nánar hér, enda öllum kunn. Það hefur líka komið fram að sögu skógræktar á Íslandi mætti telja lengra aftur en frá einhverjum stað og frá einhverjum tíma verður að hefja gönguna.

Í sumar ávarpaði ég samkomu skógrækarmanna á Þingvöllum vegna þessara tímamóta. Var mér þá hugsað til sögunnar og vil raunar gera það enn í ávarpi mínu hér, minnugur spakmælisins; "að fortíð skal hyggja, þegar framtíð skal byggja. "
Þegar íslenska þjóðin fagnaði konungi sínum á Þingvöllum 1874 kvað Hjálmar Jónsson frá Bólu ljóðið Ísland í nafni fjallkonunnar og sagði meðal annars:
      Sjá nú, hvað ég er beinaber,
      brjóstin visin og fölar kinnar,
      eldsteyptu lýsa hraunin hér
          hörðum búsifjum ævi minnar.
          Kóróna mín er kaldur snjár
          klömbrur hafísa mitt aðsetur,
          þrautir mínar í þúsund ár
          þekkir guð einn og falið getur.
Í gegnum kaldar aldir, þegar þau áföll herjuðu sem gerðu landið óbyggilegt. Í fátækt og þrautagöngu forfeðra okkar var gengið á auðlindir þessa lands og búsetan kallaði á nýtingu skóganna í einni eða annarri mynd. Þeir voru nýttir til eldiviðar, smíða, kolagerðar, beitar og fleiri slíkra þátta sem búsetunni fylgdu. Þá sögu þekkja allir.

Því má heldur aldrei gleyma að nýting þeirra átti sinn hlut í að gera forfeðrum okkar kleift að búa í landinu, - sem jafnvel mætti frekar orða, - að þrauka af í landinu þegar harðindi og óáran kreppti að þjóðinni. Við megum því ekki dæma of hart þá sem eyddu þessum skógum í baráttu fyrir lífi sínu.

Nú er hins vegar liðin þessi tíð og senn kemur ný öld og á henni stefnum við að ræktun fjölbreyttra skóga um allt land.
Þar sem áður óx skógur ætti nú að vera hægt að rækta hann að nýju. Í dag höfum við næga þekkingu, tækni og annað sem þarf til slíkra hluta og því er það skylda okkar að hefja endurgreiðslu á skuld okkar við landið.

Endurheimt skóglendis hefur margvíslegan ávinning í för með sér. Má þar nefna bindingu vatns og þar með jarðvegsvernd, bindingu kolefnis í jarðvegi, aukið beitiland, skjól fyrir annan gróður og síðast en ekki síst fegrar skógur ásýnd landsins og eykur á ánægju manna við hvers konar útivist. Þótt þessi þáttur sé illmælanlegur skal ekki vanmeta hann.

Í því sambandi langar mig til að rifja upp stutta frásögn sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1988. Er hún um "Fundarhrísluna" í Þórðarskógi í Fnjóskadal og skrifuð af Jóni Kr. Kristjánssyni frá Víðivöllum í Fnjóskadal. Jón vitnar í Ólaf Pálsson sem fæddur var 1874 en hann segir svo í skráðum endurminningum sínum:
"Í Þórðarstaðaskógi var ein afarstór hrísla sem bar af öðrum hríslum og var hún kölluð "Fundarhríslan". Oft skemmtu menn sér við hríslu þessa, bæði dalbúar og aðkomufólk. Alloft kom þangað fólk af Akureyri. Stundum kom það fyrir að hlutaveltur voru haldnar þarna og skemmtisamkomur. Ég man þar eftir ræðuflutningi og kvæðalestri."

Annar maður, Jón Rögnvaldsson frá Fífilgerði, segir svo í endurminningum sínum: "Í Þórðarstaðaskógi, sem blasir við í hlíðinni gegnt Grjótagerði, var stórt rjóður. Þar var stór hrísla, talin stærsta tré skógarins og jafnvel á öllu Íslandi. Hún stóð ein og sér og var ákaflega mikið og fagurt tré. Þar voru haldnar samkomur á sumrin og fórum við þangað stundum með foreldrum okkar."

Spyrja má; hvernig stóð á því að þessi stóra hrísla var þarna?

Um miðja 19. öldina og fram til 1893 bjó á Þórðarstöðum Jónatan Þorláksson sem ber að minnast sem eins fyrsta og merkasta verndara íslenskra skógarleifa á 19. öld. Ungur hafði hann verið smali föður síns og gerþekkti hinn víðlenda Þórðarstaðaskóg. Honum sveið að sjá hve nyrsti hluti hans, sem lá undir Fjósatungu, var illa farinn. Fjósatunga var þá í eigu eyfirskra presta er þóttu sumir harðdrægir og höfðu látið ryðja hvert skógarsvæðið eftir annað.
Eftir að Jónatan fékk nokkur ráð í hendur og síðar eftir að hann var orðinn bóndi, tók hann til óspilltra mála að bæta þennan skóg. Hann setti fastar reglur um grisjun hans og leið engum þar högg nema undir ströngu eftirliti. Meira að segja var á orði haft hvað hann, sem taldist hófsemdar- og geðprýðismaður, hefði verið strangur við smala sína, ef þeir vildu taka sér hríslu eða gönguprik í hönd.
Árangur þessara verka lét ekki á sér standa og við friðunina dafnaði skógurinn.

Einn náttúrufræðingurinn sem leið átti um skóginn á þessum tíma, Sæmundur Eyjólfsson, tók þannig til orða: "Þá farið er um Þórðarstaðaskóg má sjá þess glögg merki að hann hefur orðið fyrir betri meðferð um langan tíma og meiri ræktarsemi og umhyggju en venjulegt er um skóga hér á landi. Er það sannast af að segja, að ég hef engan mann hitt fyrr, er með meiri alúð hefur viljað vernda skóginn á bújörð sinni og hlynna að honum en Jóhann á Þórðarstöðum. "

Í þessu reit dafnaði þessi stóra og fræga hrísla þar til dagar hennar voru taldir og hún felld 1919 og notuð í vandaða smíðisgripi sem enn eru til.

Ég vitna í þessar frásagnir til að ítreka hvað lítið rjóður og ein hrísla sem eflaust þætti ekki stór innan um þau tré sem víða má nú finna hér á landi, hvað þá erlendan skóg, vakti athygli. Hún skapaði skjól, hún dró að sér fólk og umhverfi hennar var samkomustaður hérðaðsbúa.

Við rennum senn inn í nýja öld sem fela mun í sér margar breytingar sem við sjáum engan veginn fyrir og ómögulegt er að spá um. Ef hins vegar ekkert óvænt gerist getum við verið viss um að á sviði skógræktar verða þær miklar. Byggt verður á þeirri þekkingu sem til staðar er og hefur sannað að skóg má rækta nánast hvar sem er á landinu og í burðarliðnum eru skógrækarverkefni sem eiga að tryggja öfluga skógrækt í öllum landsfjórðungum.

Tímahjól skógræktarinnar fór vart að snúast fyrr en í upphafi þessarar aldar og snérist hægt lengi framan af, enda margir núningsfletirnir sem hömluðu. Hraði þess hefur hins vegar aukist mjög nú á síðustu 10 – 15 árum og virðist nú fátt geta stöðvað það. Mín spá er sú að þegar litið verður til baka seinna meir verði upphaf nytjaskógræktar á Íslandi miðuð við þessi aldamót.

Aðeins eru 8 ár síðan lög um Héraðsskóga voru samþykkt, sem kveða á um ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði. Með þeim var hrundið af stað stórmerkilegu átaki sem markar kaflaskil í skógræktarsögu okkar. Þetta verkefni gengur með ágætum. Með verkefninu er ekki einungis verið að skapa nýja auðlind í formi skógar heldur hefur það fært mikla atvinnu, aukið verðmæti jarða og treyst búsetu á öllu svæðinu. Ekkert bendir til annars en að Hérað verði eitt samfellt skógræktarsvæði í framtíðinni.

Í kjölfar góðrar reynslu af Héraðsskógum var ákveðið fyrir tveimur árum að stofnsetja Suðurlandsskóga sem ætlað er enn fjölbreyttara hlutverk en Héraðsskógum. Stefnt er að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta á Suðurlandi, þ.e.a.s. í Árnes- Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu. Nú hafa 80 bændur plantað skógarplöntum í lönd sín og nærri jafn margir hafa lagt út skjólbelti. Alls eru um 140 jarðir sem hafa tekið þátt í átakinu á fyrstu tveimur árum. Stefnt er að því að 190 jarðir verða komnar inn í Suðurlandsskóga árið 2000, en það er sá fjöldi sem hefur sótt um þáttöku í verkefninu nú þegar
Og eitt kallar á annað.
Á sl. vetri voru samþykkt lög um landshlutabundin skógræktarverkefni sem fela í sér að heimilt er að stofnsetja og styrkja staðbundin verkefni í skógrækt. Í framhaldi af lögunum var hafist handa við stofnun Norðurlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum og Vesturlandsskóga og liggja nú fyrir áætlanir vegna þeirra verkefna. Geri ég ráð fyrir að þeim verði öllum veitt fjármagn til starfseminnar við afgreiðslu fjárlaga. Þessi verkefni öll segja sína sögu um gífurlegan áhuga landsmanna á skógrækt. Vonandi eiga þessi verkefni öll eftir að skila þeim árangri sem til er ætlast. Án efa mun starfsemi þeirra marka stórt spor í skógrækt á Íslandi.

Samhliða þessum verkefnum hafa risið upp ný samtök, Landssamtök skógareigenda sem eru farin að taka fullan þátt í skógræktarumræðunni. Þótt aðilar að samtökunum eigi lítinn eða engan raunverulega skóg í dag sjáum við fram á þá tíma að skógarreitir þeirra verða farnir að veita verulega atvinnu, skapa fjármagn og gera Íslendingum kleift að nýta innlendan trjávið í miklu magni í stað innflutts.

Í þessari umræðu má ekki gleyma því mikla verkefni sem Skógrækt ríkisins hefur sinnt á þessari öld. Án þess værum við ekki á þeim reit á taflborði skógræktar sem við stöndum nú. Hlutverk hennar hefur verið brautryðjendastarf. Hún hefur sannað með gróðursetningum hvar og hvernig skóg er hægt að rækta á landinu og lengst af hefur hún framleitt mest af þeim plöntum sem notaðar hafa verið til skógræktar. Á vegum hennar hafa farið fram skógræktartilraunir sem eru forsenda þess að við getum nú hafið stór skógræktaverkefni. Val á kvæmum, tegundum og hvers kyns afbrigðum af plöntum byggist á þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur.

Við höfum nýtt okkur reynslu annarra þjóða en sérstaða Íslands er mikil og landsvæðin mismunandi. Við ætlum okkur hins vegar að rækta skóg á Rangárvöllum, Reykhólum, Raufarhöfn og Reyðarfirði og það sem hentar á einum stað hentar ekki á þeim næsta. Því eru okkar eigin rannsóknir á sviði skógræktar nauðsynlegar og með stóraukinni skógrækt í landinu verður þörfin fyrir þær brýnni. Staðreyndin er að þeir fjármunir sem varið er til þessara rannsókna eru smámunir miðað við það ef eitthvað fer úrskeiðis og gróðursetning eða heilu skógarsvæðin misfarast eða eyðileggjast og rekja má til ónógra rannsókna og fræðslu.

Hlutverk Skógræktar ríkisins hefur breyst á liðnum misserum í samræmi við aðrar breytingar í þjóðfélaginu. Plöntuframleiðslu hefur verið hætt að mestu og draga mun úr gróðursetningu enda nú til staðar mikill fjöldi einstaklinga sem tekið hafa við þeim verkefnum. Framkvæmdir í skógrækt verða fluttar til fólksins. Þannig á þetta að vera, - hin mikla íslenska skógræktartilraun sem hófst í upphafi þessarar aldar hefur sannað sig og nú getur hinn almenni maður tekið við amboðunum og sagt: "Nú get ég."
Í framtíðinni mun það verða hlutverk landbúnaðarráðuneytisins og Skógræktar ríkisins að aðstoða þjóðina við skógrækt frekar en að rækta skóg fyrir hana.
Þættir sem áður voru nauðsynlegir og áberandi í starfsemi Skógræktarinar munu víkja fyrir ríkari áherslum á rannsóknir, miðlun þekkingar og reynslu og umsjón með hinum skógi vöxnu þjóðlendum, þjóðskógunum, en þeir verða æ mikilvægari sem útivistarsvæði fyrir þjóð sem býr að svo stórum hluta í þéttbýli.

Svo ég sletti nýyrði sem gaman er að, þá heitir þetta að sinna fólki sem kýs afborgun í ríkari mæli. Með orðinu afborgun er átt við að fólk vilji fara út úr borginni og út á land í frítímum sínum.
Þann stutta tíma sem ég hef gegnt starfi landbúnaðarráðherra hef ég orðið áþreifanlega var við þessa ásókn sem kemur m.a. fram í sókn þéttbýlisbúans eftir jarðnæði.

Breytingar á hlutverki Skógræktarinnar kalla á ný skógræktarlög og hef ég ákveðið að á næstunni muni hefjast stefnumótunarvinna og að henni ljúki með nýju frumvarpi skógræktarlaga. Geri ég mér vonir um að það frumvarp verði til umfjöllunar á næsta þingi.

Ég geri mér ljóst að skógrækt kostar mikið fjármagn. Óhæfa væri að ætla að bændur, félagasamtök eða hugsjónamenn klæddu Ísland í skóg að nýju án opinberrar aðstoðar og sem betur fer dettur engum slíkt í hug. Á þessu sviði sem svo mörgum öðrum er það fjármagnið sem skiptir máli. Það mikla starf sem unnið er á sviði skógræktar og þau viðamiklu verkefni sem verið er að skipuleggja í öllum landshlutum kallar á stóraukin útgjöld hins opinbera til skógræktar ef sá árangur á að nást sem að er stefnt.



Sem betur fer stendur hugur landsmanna til þessara mála og sú staðreynd vegur þungt þegar fjármagninu er skipt. Ég mun leggja mitt að mörkum í þeirri baráttu en geri mér ljóst að langt er í að fullnægt sé fjárþörf til skógræktar á Íslandi.

Þá skulum við hafa í huga að þótt skógurinn vaxi hægt þá flýgur tíminn og því verðum við að fara að huga enn frekar að markaðsþættinum. Hvernig getum við nýtt þær afurðir sem skógurinn gefur af sér í dag og hvernig eigum við að markaðssetja afurðirnar í framtíðinni. Þessum spurningum verðum við að svara innan tíðar.

Skógrækt er landbúnaður og fellur því að sjálfsögðu undir landbúnaðarráðuneytið enda málefni hennar ekki tengd betur stjórnsýslu annarra ráðuneyta. Að skógræktarmálum koma allir landsmenn, sveitarfélög, fyrirtæki, félög, stofnanir og einstaklingar. Mjög mikilvægt er því að milli þessara aðila og hins opinbera ríki gagnkvæmur trúnaður og samvinna. Ég tel að svo sé nú í dag og vil stuðla að því að þannig megi áfram verða.

Ég vil á þessum tímamótum minnast þess mikla starfs sem unnið hefur verið af hugsjónarmönnunum. Þeir voru brautryðjendurnir og vegna þeirra einlæga áhuga, vilja og baráttu tókst að sanna að hér var hægt að rækta skóg og kveikja áhuga annarra. Starf áhugamanna hefur verið gífurlega mikið og með Skógræktarfélag Íslands í fararbroddi hefur verið ráðist í stór verkefni og má þar nefna landgræðsluskógaverkefnið sem nú er að verða tíu ára. Því verkefni var tryggður rekstrargrundvöllur á síðasta ári.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna hér umræðuna um gróðurhúsaáhrifin. Sú umræða mun ágerast á komandi árum, en í þeim efnum höfum við Íslendingar betri möguleika en flestar aðrar þjóðir á að taka á málum með jákvæðum hætti. Við getum bundið mikið magn koltvísýrings með aukinni skógrækt og þá skiptir ekki máli hvort við erum að binda það sem losað er hér á landi eða hinum megin á hnettinum. Mikilvægi íslenskrar skógræktar í þessum efnum mun aukast mjög þegar líða tekur á næstu öld.

Fyrir fjórum árum samþykkti ríkisstjórnin að verja samtals 450 milljónum króna fram til ársins 2000 til að auka landgræðslu og skógrækt með það að markmiði að auka bindingu koltvísýrings í anda rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og til að kanna bindimöguleika íslensku skóganna. Fyrstu rannsóknir benda til mikillar bindingar, bæði í skógi og landgræðslu og gefa þessar upplýsingar fyrirheit um mikla möguleika Íslands á þessu sviði. Hver veit nema sá tími komi fyrr en okkur grunar að það geti orðið veruleg tekjulind að selja erlendum aðilum aðgang að bindingu kolsýrings í íslenskum gróðri.


Góðir ráðstefnugestir.

Skógrækt er landbúnaður og skógrækt er byggðamál sem stuðlar að sjálfbærri byggðaþróun. Skógrækt kallar fram gleði og ást í brjóstum þeirra sem gera skóginn og skógrækt að áhugamáli.

Sú reynsla sem við höfum fengið af nytjaskógrækt sannar að hún er öflugt vopn gegn þeim miklu þjóðflutningum sem nú eiga sér stað af landsbyggðinni.
Ég trúi því ekki að nokkur vilji í raun sjá byggðir landsins tæmast af fólki og að eftir standi gapandi húsin og yfirgefin fyrirtæki.
Ég er sannfærður um að ef okkur tekst að hefja öfluga skógrækt um allt land muni það efla byggðina. Fólkið fær vinnu, það horfir á auðlindina vaxa og starf þess hefur öðlast nýjan tilgang. Jarðir þeirra og aðrar eignir vaxa að verðmætum og "menningin vex í lundi nýrra skóga" eins og þjóðskáldið okkar Hannes Hafstein orðaði svo vel.
Ég vil þakka öllu því fólki, félögum, fyrirtækjum og stofnunum, sem hafa staðið að og stutt íslenska skógrækt, óeigingjarnt starf í 100 ár sem skilað hefur svo miklum árangri.

Lifið heil.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta