Iðnþing 25.02.00
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ræða á Iðnþingi, 25. febrúar 2000.
Ágætu iðnþingsgestir,
I.
Við lifum nú síðasta ár 20. aldarinnar, aldar sem fært hefur okkur meiri framfarir en allar fyrri aldir Íslandssögunnar samanlagt. Breytingarnar þessi eitt hundrað ár hafa stöðugt verið með vaxandi hraða og þær hafa fært atvinnulífinu og þjóðinni allri mikil og stöðugt ný tækifæri, en um leið verið ógnun við hefðbundnar venjur og rótgróin gildi. Með auknu frelsi og tækifærum fólks til athafna og fjárfestinga við lok síðustu aldar fór vegur þjóðarinnar vaxandi. Í nýrri bók Guðmundar Jónssonar sagnfræðings er nefnist "Hagvöxtur og iðnvæðing - þróun landsframleiðslu á Íslandi 1870 - 1945", sem Þjóðhagsstofnun gefur út eru leidd rök að því að í stað þess að miða upphaf iðnvæðingar á Íslandi við vélvæðingu sjávarútvegs á fyrstu árum þessarar aldar, sé eðlilegra að miða iðnbyltingu á Íslandi við þá gerbreytingu í formgerð atvinnulífsins á níunda áratug 19. aldar, er þéttbýlismyndunin fór á skrið með flutningi vinnuafls frá landbúnaði til sjávarútvegs og annarra atvinnugreina í bæjum.
Afleiðing þessara þjóðlífsbreytinga var að landsframleiðslan fór vaxandi og óx hraðar hér á landi en almennt gerðist í Evrópu á þeim tíma. Þetta leiddi til þess, að á undraskömmum tíma tókst okkur um miðja öldina að nálgast framleiðslu- og hagþróunarstig þeirra landa, sem mestar tekjur höfðu í heiminum og þar af leiðandi að ná svipuðum lífskjörum og voru í nágrannalöndum okkar. Styrjaldarárin ollu algerum straumhvöfum í þessum samanburði þar sem efnahgslegar framfarir voru miklar hér á landi á sama tíma og stöðnun og tortíming ríkti víðast annarsstaðar í álfunni.
Uppgangur atvinnulífsins og bætt lífskjör alla þessa öld hefur þó ekki verið trygging fyrir óbrigðula velgengni fyrirtækja. Þvert á móti hefur einstökum fyrirtækjum og atvinnugreinum vegnað misvel á öldinni. Í þessu sambandi má benda á að af 100 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna um seinustu aldarmót eru aðeins 16 í rekstri nú við lok aldarinnar. Þetta hefur verið tekið sem ábending til stjórnenda - að þróun fyrirtækja þeirra þurfi að vera í stöðugri endurskoðun og í takt við breytingar á kröfum markaðarins og þjóðfélagsgerðarinnar. Jafnframt hefur þetta verið tekið sem ábending til launþega að starf hjá stórfyrirtæki sé ekki ávísun á eilíft starfsöryggi, eins og verið hefur almennt viðhorf til skamms tíma.
Þvert á móti hefur komið í ljós að á seinasta áratug hafa fjölmörg störf tapast hjá stórum fyrirtækjum, en ný störf fyrst og fremst orðið til hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þessi staðreynd mun í auknum mæli móta afstöðu okkar til nýsköpunar í atvinnulífinu þar sem þekkingariðnaðurinn verður án efa ráðandi. Jafnframt ætti það að gefa fyrirheit um að þrátt fyrir yfirgnæfandi stöðu hinna stærri og ríkari eiga lítil fyrirtæki og litlar þjóðir betri möguleika en fyrr á að láta til sín taka í hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi viðskiptanna.
II.
Hin síðari ár hefur mönnum verið tíðrætt um blómlegt efnahagsástand og sterka samkeppnisstöðu atvinnugreinanna sem af því hefur leitt. Nú eru hins vegar blikur á lofti eins og formaður samtakanna benti á í ræðu sinni hér á undan. Eftir langt og samfellt hagvaxtarskeið samfara stöðugleika er ljóst að hagkerfið er við ystu mörk framleiðslugetu sinnar. Þessa sést glöggt merki í verðbólgunni sem nú er meiri en unað verður við. Þetta hefur átt sér stað þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi hækkað vexti sína fimm sinnum á seinustu tólf mánuðum.
Raungengi krónunnar, sem er sá mælikvarði sem lýsir samkeppnisstöðu atvinnuveganna hvað best, hefur hækkað nokkuð á undanförnum misserum samfara aukinni verðbólgu og hærra nafngengi krónunnar. Nú er svo komið að raungengi miðað við vísitölu neysluverðs hefur ekki verið hærra í sjö ár. Þetta birtist m.a. í lakari samkeppnisstöðu íslenskra iðnfyrirtækja gagnvart innflutningi.
Við þessar aðstæður er staða iðnaðarins vissulega áhyggjuefni, enda sést þess stað í veltutölum. Heildarvelta samkvæmt virðisaukaskattsframtölum jókst um tæplega 8% fyrstu átta mánuði síðasta árs í samanburði við árið 1998. Veltuaukning í verslun á sama tímabili var um 10% en í iðnaði aðeins um tæplega 2%.
Þrátt fyrir að vissulega sé aðgæslu þörf er ekki vafi á því að íslenska hagkerfið stendur þrátt fyrir allt nokkuð vel. Hagvöxtur hefur verið mikill og stöðugur og kaupmáttaraukningin einnig full atvinna hefur verið, og góð afkoma fyrirtækja er gleðiefni. Brýnustu verkefni næstu missera hljóta engu að síður að vera að draga úr verðbólgu og auka sparnað í þjóðfélaginu. Með þeim hætti getum við best tryggt áframhaldandi góð starfsskilyrði atvinnuveganna og þar með lífskjör í landinu.
III.
Núverandi skipan orkumála hefur um margt reynst vel. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, það er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Mikilvægt er að móta framtíðarskipan raforkumála á fenginni reynslu sem gefist hefur okkur vel. Engu að síður þarf að færa sér í nyt þekkingu og rannsóknir annarra þjóða í þessum málum, t.d. með því að virkja markaðsöflin til að auka hagkvæmi í raforkubúskapnum. Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa verið að breytast á þann veg, að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður komið við.
Þetta þýðir að skilið er á milli vinnslu raforku, flutnings hennar og dreifingar og sölu, en því fylgir einnig að vinnsla raforku og sala verður gefin frjáls í áföngum. Sú aukna samkeppni, sem þessu fylgir mun vafalítið verða til þess að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins gagnvart erlendri samkeppni.
Breytingar á skipan raforkumála mun ekki gerast á einni nóttu. Þær þarf að vinna í áföngum og endurmeta þarf stöðuna að loknum hverjum áfanga þannig að framvinda málsins verði eins góð og kostur er á, enda mikið í húfi. Meðal annars þarf að gæta að þeim víðtæku skyldum sem raforkufyrirtæki á borð við Landsvirkjun og Rarik hafa axlað varðandi framboð raforku og verðlagningu hennar. Einnig verður að hafa það í huga, að íslenska raforkukerfið er lítið og ótengt öðrum kerfum, sem torveldar samkeppni í þeim mæli sem annars væri unnt að koma á.
Í þeim tilgangi að hrinda þessum breytingum í framkvæmd hef ég í hyggju að leggja fyrir yfirstandandi þing nýtt frumvarp til raforkulaga. Markmið frumvarpsins er, eins og þar stendur: að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulinda þjóðarinnar í því skyni að efla atvinnulíf og byggð í landinu að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða, varðveislu þjóðminja og hefðbundinna landnytja. Þá á frumvarpið, ef að lögum verður, að gera vinnslu, flutning, dreifingu og viðskipti með rafmagn sem skilvirkust, þannig að kostnaður við starfsemina og verð raforku verði eins lágt og unnt er, en jafnframt sé afhending tryggð og umhverfissjónarmiða gætt.
Þau markmið í frumvarpi til raforkulaga sem ég hef hér stuttlega drepið á undirstrika m.a. mikilvægi nýtingar orkulindanna, eflingu byggðar í landinu og varðveislu umhverfis nitja og minja. Um þessa samverkandi þætti þarf að nást víðtæk sátt, þar sem hverskonar öfgar verða að víkja fyrir skynsemisrökum. Í því sambandi þarf sérstaklega að huga að málefnum hinna dreifðu byggða landsins.
IV.
Líkt og í lok síðustu aldar eiga sér nú stað miklir búferlaflutningar við lok þessarar aldar. Fyrir 100 árum fluttist fólk fyrst og fremst úr sveitum að sjávarsíðunni til að taka þátt í uppbyggingu sjávarútvegsins og bæjarsamfélaganna víðsvegar um landið. Nú, einni öld síðar flytur fólk fyrst og fremst af landbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessi þróun stafar m.a. af þeirri miklu hagræðingu sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi á síðustu árum og rekstrarvanda í landbúnaði. Ekki er nú lengur deilt um það að þessi þróun sé óæskileg og hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið. Verkefnið framundan er því að treysta undirstöður byggðar í landinu þannig að hægt verði að skapa sem best skilyrði fyrir það fólk sem vill búa á landsbyggðinni. Það verður þó trauðla gert nema til komi ný atvinnustarfsemi sem getur skilað arði.
Dæmi um slíka starfsemi er bygging álvers við Reyðarfjörð. Starfsemi þess mun ekki einungis skapa störf í álverinu sjálfu heldur verða einnig til margskonar störf í þjónustu sem með einum eða öðrum hætti tengist starfsemi orkuversins og iðjuversins enda er það vilji þeirra sem hyggjast reisa álverið að sækja sem mest af þjónustu út fyrir fyrirtækið. Takist að byggja upp slíka þjónustu á Austurlandi getur hún jafnframt nýst öðrum atvinnufyrirtækjum sem þar starfa.
Með þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999 til 2001 markaði Alþingi stefnu sína í byggðamálum til fjögurra ára. Í þingsályktuninni er fjallað um aðgerðir á sviði nýsköpunar í atvinnulífinu, menntun, þekkingu, menningu og jöfnun lífskjara. Það er hlutverk mitt sem ráðherra byggðamála að fylgja þessari stefnu eftir. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að samhæfa sem best þá atvinnuþróunarstarfsemi sem fram fer á vegum hins opinbera. Þannig tel ég að hægt verði að nýta betur en nú þá krafta og opinberu fjármuni sem varið er í þessu skyni.
Á vegum Byggðastofnunar er um þessar mundir verið að vinna að verkefni sem miðar að því að greina möguleika einstakra landshluta m.t.t. auðlindanýtingar, iðnaðar, verslunar, sjávarútvegs, samgangna og þjónustustarfsemi. Hér er um svokallaða SVÓT greiningu að ræða sem margir þekkja, þar sem ógnanir og tækifæri einstakra landshluta verða greindir miðað við framangreindar forsendur. Ég vænti þess að þessi vinna gagnist jafn opinberum aðilum sem einkaaðilum þannig að styrkleikar einstakra svæða á landinu verði sem best nýttir til atvinnuuppbyggingar í framtíðinni.
Ég tel að forsenda lífvænlegra byggða séu sterkir byggðakjarnar. Þessi skoðun mín er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að miða opinberar aðgerðir við, að það myndist sterkir byggðakjarnar úti á landi, sem hafa burði til að bjóða uppá fjölbreytta atvinnu, menntun og þjónustu. Við þurfum mótvægi við höfuðborgarsvæðið til hagsbóta fyrir höfuðborgarsvæðið og landbyggðina.
V.
Yfirskrift þessa Iðnþings er "Iðnaður og upplýsingatækni við upphaf nýrrar aldar". Sú yfirskrift er mjög við hæfi þar sem atvinnulífið byggir nú í stöðugt ríkari mæli á þekkingu og vafalítið er upplýsingatæknin í fararbroddi þekkingar iðnaðarins um þessar mundir. Það er athyglisvert að íslenskur upplýsingatækni-iðnaður reis í upphafi nánast að sjálfu sér, og án þess að frumkvöðlarnir nytu sérstakrar aðstoðar stuðningsumhverfis hins íslenska vísinda- og tæknisamfélags. Athygli vakti að þrátt fyrir þetta fóru hugbúnaðarfyrirtækin fljótlega að flytja afurðir sínar til annarra landa. Þótt útflutningurinn hafi verið í smáum stíl í upphafi hefur hann margfaldast seinasta áratuginn.
Sé tekið mið af árabilinu frá 1990 til 1998, þá hefur útflutningur fyrirtækja í hugbúnaðargerð og ráðgjöf meira en áttatíu faldast á þessu átta ára tímabili. Segja má að árið 1998 hafi fyrirtæki í upplýsingatækni komist á blað með afgerandi hætti er útflutningur þeirra náði að vera meira en 1 % af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þá nam útflutningurinn tæplega 30 % af heildarveltunni í hugbúnaðargerð og hefur hlutdeild útflutningsins í veltu fyrirtækjanna verið stöðugt vaxandi.
Sé þetta skoðað út frá þjóðartekjum lætur nærri, að upplýsingatæknin hafi skapað 4% af vergum þáttartekjum þjóðarinnar árið 1998. Einnig fer þetta hlutfall hækkandi þannig að greinin er stöðugt að skapa stærri og stærri hlut af þjóðartekjum okkar.
Íslensku fyrirtækin hafa fram á seinustu ár verið smá enda ung að árum og flest frumkvöðulsfyrirtæki í upphafi. Þetta hefur þó verið að breytast hin síðari ár. Í því sambandi hafa breytingar á fjármagnsmarkaði skipt veigamiklu máli svo og að áhættufjárfestar hafa áttað sig á hversu gríðarlegir framtíðarmöguleikar felast í mannauði þessara fyrirtækja.
Við það að nýir fjárfestar fengu aukin áhrif í greininni hafa komið til skýrari langtímamarkmið og aðrar kröfur verið gerðar til rekstrar og afkomu fyrirtækjanna. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að fyrirtækin hafa sameinast með beinum hætti eða að eignarhald fyrirtækja hefur runnið saman og úr orðið samstæðar sjáfstæðar einingar.
Þessar breytingar í rekstararforminu og stóraukinn áhugi alþjóðlegra áhættufjárfesta á íslenskum fyrirtækjum, sem starfa í upplýsingatækni og áhugi íslenskra áhættufjárfesta á samskonar erlendum fyrirtækjum sýnir hversu alþjóðleg þessi starfsemi er orðin. Upplýsingatæknin á sér engin landamæri og tækifærin eru á sama hátt ekki bundin við nein landamæri einkum eftir að Netið varð alþýðueign og á allra færi að nota það.
Þekkingin verður án efa helsta auðlegð næstu aldar. Þetta þýðir að hlutfall þekkingarinaðar í þjóðarframleiðslunni verður ríkjandi. Þessa þróun sjáum við nú þegar í öllum greinum atvinnulífsins, m.a. í okkar heðfbundnu höfuðatvinnugreinum fiskveiðum og vinnslu. Í þessum greinum eins og flestum öðrum hefur hlutfall þekkingar í verðmætaaukningu framleiðslunnar stöðugt orðið meira en vægi hráefnisins minna. Þetta byggist á því að atvinnulífið er stöðugt að verða tæknivæddara um leið og kröfur um hagræðingu og arðsemi aukast.
Hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi mun opnast enn frekar, tæknilegar viðskiptahindranir hverfa og ríkisstyrkir leggjast af. Þetta leiðir til þess að samkeppnisstaða lítilla þjóða batnar hlutfallslega meira en hinna stærri.
Styrkleiki fyrirtækjanna næstu ára mun fyrst og fremst byggjast á sveigjanleika þeirra og hæfni til að koma fram með nýjungar og bregðast við breytingum í umhverfi sínu. Fjarlægðir milli viðskiptavina eða landfræðileg lega þeirra mun ekki skipta veigamiklu máli. Traust viðskiptasiðgæði, hátt menningarstig og áreiðanlegir stjórnarhættir munu aftur á móti skipta sköpum í rafrænum viðskiptum framtíðarinnar.
VI.
iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Samtök iðnaðarins hafa átt mjög gott og náið samstarf í mörg ár. Ráðuneytið og samtökin hafa í flestum málum verið samstíga um þau framfaramál sem þau hafa unnið að. Í ræðu formanns Samtaka iðnaðarins, hér á undan, kom fram hjá Haraldi Sumarliðasyni, að hann kveður nú samtökin eftir 15 ára samfellt og farsælt starf fyrir Samtök iðnaðarins frá stofnun þeirra árið 1994 og þar á undan fyrir Landssamband íslenskra iðnaðarmanna. Það er ástæða fyrir ráðuneyti málefna iðnaðarins að þakka Haraldi samstarfið öll þessi ár, sérstaklega þar sem mér er kunnugt um, að það hefur ætíð verið til mikillar fyrirmyndar.
Meðal þeirra samstarfsverkefna sem iðnaðarráðuneytið og Samtök iðnaðarins hafa ráðist í er gerð upplýsingaveitu um málefni iðnaðarins sem hefur verið í vinnslu í um hálft annað ár. Þessi upplýsingaveita hefur fengið nafnið: iðnaður.is, sem er eins og nafnið bendir til að finna á Netinu. Það er vel til fundið að formleg opnun iðnaður.is sé á dagskrá þessa iðnþings þar sem yfirskriftin er "Iðnaður og upplýsingatækni við upphaf nýrrar aldar". Iðnaður.is er vissulega tímanns tákn.
Að þessu sögðu er það mér sönn ánægja að opna upplýsingaveituna iðnaður.is sem er eins og áður sagði samstarfsverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Samtaka iðnaðarins.