Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. mars 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Búnaðarþing 2000

Búnaðarþing 2000

Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra
5. mars 2000 á Hótel Sögu



      Er vorið kemur, grænka gömul tún
      með glampa af sól við fjall og hamrabrún
      og kveikir ljós við vetrarmyrkan mar
      svo mjöllin deyr og grasið fæðist þar

      sem hjarnið lá, og heiður dagur fer
      um hæð og mó og fagnar einnig þér
      svo hlýr og góður, feginn frelsi því
      sem fjallblátt landið sækir enn á ný

      í greipar frosts og snjóa: röðull rís
      úr rauðu myrkri, þíðir fönn og ís
      og heggur sundur hlekki lands og ber
      sinn heita jarðarilm að vitum þér.

      Og þá mun einnig þiðna klakaspöng
      úr þínu brjósti, nótt þess myrk og löng
      mun leita uppi ljós og sólaryl.
      Þér leggst á hverju vori eitthvað til.
Þessi erindi eru sótt í ljóð Matthíasar Johannessen, Fögnuður, sem er fyrsta ljóðið í IV kafla bókarinnar "fagur er dalur" en kaflinn ber yfirskriftina "Hér slær þitt hjarta, land".

Þessi erindi eiga vel við hér í upphafi Búnaðarþings. Þessi erindi lýsa í stuttu máli þeim kröftum sem drífa áfram íslenskt samfélag og hversu þráin eftir vorinu hefur lengi haldið lífinu í okkur Íslendingum. Hvernig sólin og vorið leysa hlekki vetrarins og lífið fær gildi og tilgang. Þegar tilveran breytir um svip og setur upp bros.

Við aldahvörf getur verið holt að líta til baka, jafnvel allt til þess tíma er landbúnaður var höfuðatvinnuvegurinn, lífið sjálft. Þá varð maðurinn að treysta á sjálfan sig og gat ekki skotið sér bak við tækni nútímans heldur var einn sinnar gæfu smiður. Þá voru áræðni og þor besta veganestið og ef með fylgdi dugnaður og fylgni var framtíðin björt. Í þá tíð var bóndi bústólpi og bú landstólpi en er svo enn? Ég efast ekki um svarið "Hér slær þitt hjarta, land".

En söguskoðun verður að víkja fyrir verkefnum morgundagsins. Við vitum að maðurinn er fljótur að gleyma og þriðja kynslóð malarinnar sem nú tekst á við lífið hefur ekki þær taugar, þau tengsl, við landbúnaðinn sem nauðsynleg eru. Nauðsynleg eru til að menn skilji uppruna sinn og gildi þess að byggja Ísland og vera sjálfstæð þjóð. Sveitarómantík fyrri ára skáldsagna er fjarri tölvuleikjum nútímans, kúgildin eru fjarri gengi hlutabréfa og Kaupfélögin mistur í stórmörkuðum.

Sá landbúnaður, sem nauðsynlegur er hverri þjóð, verður að gera sig gildandi, verður að vera sýnilegur og þátttakandi í þjóðmálaumræðu hvers tíma. Það að vera sjálfum sér nægar um matvæli er ekki sjálfsagður hlutur fyrir þjóðir heimsins. Því sjálfstæði megum við Íslendingar ekki kasta frá okkur, það verðum við að vernda.

En landbúnaðurinn verður að svara kalli tímans og bjóða fram vörur sem neytandinn óskar eftir á verði sem er sem næst því verði sem þekkist í öðrum löndum. Úrvalið má ekki vera minna og gleymum ekki að ánægður neytandi er besti lagsmaður landbúnaðarins. Neysluvenjur eru að breytast og þróun í framboði matvæla líka. Þar hefur misvel tekist til. Mjólkuriðnaðurinn, garðyrkjan og svínabændur hafa unnið mjög vel að sínu. Þeir fara fyrir og eru til eftirbreytni. Verr gengur hjá öðrum og stöðugur samdráttur í neyslu lambakjöts er að mörguleyti áhyggjuefni. Hvernig má það vera að stærsta kjötgreinin skilur ekki betur en raun ber vitni kall tímans? Hvers vegna gerist þetta á sama tíma og heildarkjötneysla eykst? Hvenær mun "þiðna klakaspöng" sauðfjárræktarinnar.

En í harðnandi baráttu um markað á íslenskur landbúnaður aðeins eitt lausnarorð, gæði. Hvar sem minnst er á íslenskan landbúnað og hvar sem afurðir hans eru boðnar verður að vera tryggt að þar fari gæðavara. Við Íslendingar byggjum hreint land, eigum gnægð vatns, hreint loft og ómengaða jörð. Þessi gæði notum við til að framleiða úrvalsvöru. Vöru sem neytendur, hvarvetna í heiminum geta treyst. Mér er það minnisstætt þegar ég var á ferð með útlendingum úti í náttúrunni. Það var heitt í veðri og lífið lék við hvurn sinn fingur. Mig þyrsti, ég gekk að næsta læk, kraup á kné og saup úr læknum. Þetta voru forréttindi í augum minna útlensku félaga. Forréttindi sem okkur finnast sjálfsögð en eru þau það?

Ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að mér finnst hreinleika ímynd íslensks landbúnaðar hafa beðið hnekki síðustu mánuði. Við höfum allt frá upphafi skipulegs eftirlits í landbúnaði lagt sóma okkar í að útrýma sjúkdómum, gæta að dýravelferð og bjóða heilnæma gæðavöru. Það hefur fallið móða á þessa mynd. Hver uppákoman eltir aðra og landbúnaðurinn er kominn í vörn. Hvers vegna er þetta að gerast?

Ég kann ekki að skýra þetta ástand en ég hef fullan hug á að það verði gert. Ég hef skipað starfshópa undir forystu færustu vísindamanna til að greina vandamálið. Ég er þess fullviss að það liggur í umhverfinu. Mengun af mannavöldum, ágangur vargs, of mikill þéttleiki í búskap, búskaparhættirnir sjálfir, óhóflegt vinnuálag, draugur úr fortíðinni eða í sumum tilfellum menn sem skortir þekkingu á meðferð dýra og móður jörð.

Ég hef þá trú að þetta séu ný vandamál og við verðum að greina þau og gera viðeigandi ráðstafanir. Ef við erum farin að ofbjóða náttúrunni eða framleiðsluferlinu þá skal því linna. Neytendur íslenskra afurða skulu hér eftir sem hingað til geta notið þeirra, óhræddir við afleiðingar þess. Annað er óþolandi.

En þessi atvik hafa vakið umræðu um eftirlitskerfi með landbúnaði og afurðum hans. Í ljós hefur komið að það er ekki nógu skilvirkt. Jafnvel höfum við orðið vitni að hinum ótrúlegustu atvikum þar sem eftilitsaðilar bera hvern annan sökum í fjölmiðlum. Þessar deilur sýndu betur en margt annað að kefið brást. Það brást bændum og það brást neytendum. Það má ekki koma fyrir aftur.

Ég hef fært fyrir því rök að eftirlitið þurfi að vera á einni hendi, undir einni stjórn, allt frá "haga að maga". Danir ákváðu fyrir 5 árum að breyta öllu sínu kerfi. Það lítur nú stjórn eins ráðuneytis. Eftirlit sveitarfélaganna var fært frá þeim og nú er öll ábyrgðin á sömu hendi. Þar verður ekki öðrum um kennt ef illa fer. Þessi kerfisbreyting var ekki sársaukalaus en hún virkar.

Nú er unnið að því á vegum ríkisstjórnarinnar að skilgreina eftirlit með matvælum og matvælaframleiðslu. Í farmhaldi af þeirri vinnu verður ákveðið hvernig þessu verður fyrirkomið hér á landi. Í landbúnaðarráðuneytinu er nú unnið að því samhliða vinnu ríkisstjórnarinnar, að skipuleggja eftirlit ráðuneytisins upp á nýtt. Það verkefni gengur undir vinnuheitinu Búnaðarstofa og höfum við fengið Brynjólf Sandholt til sérstaks ráðuneytis í þeirri vinnu. Þar er ætlunin að skoða kosti þess að sameina á einn stað allt eftirlit og stjórnun. Með þeirri vinnu viljum við sjá vænlegan valkost til að takast á við sífellt meira krefjandi eftirlit framtíðarinnar. Og það sem er auðvitað aðalatriði. Kerfi sem virkar, öllum til hagsbóta.

Þekking og eftir atvikum reynsla hefur ávallt verið gott búsílag hjá þeim sem landbúnað stunda. Nú á tímum stöðugt aukinna krafna, örrar þróunar og nýjunga er slíkt nauðsyn. Ég er stoltur af þeim stofnunum sem undir landbúnaðarráðuneytið heyra og sjá um menntun í landbúnaði. Ný löggjöf um búnaðarfræðslu og sá metnaður sem einkennir allt starf þessara skóla gefa fyrirheit um bjarta framtíð. Með vísan til þess sem ég sagði hér að ofan um hreinleika og gæði er ánægjulegt að sjá hversu mikla þýðingu þeir þættir hafa í öllu námi skólanna.

Lokið er gerð árangurstjórnunarsamninga við Landbúnaðar-háskólann á Hvanneyri og Hólaskóla. Þessir samningar eru sýn inn í framtíðina, bæði hvað varðar verkefni og áherslur. Reynsla af þessari samningsgerð er ekki mikil hér á landi en það er mikill kostur fyrir stjórnendur skólanna og ábyrgðaraðila í ráðuneytinu að geta unnið með skýr markmið. Þá getur Alþingi einnig unnið fjárveitingaráætlun til lengri tíma. Þessir samningar eins og allir aðrir eru ekki bara gefandi heldur ekki síður krefjandi fyrir skólana. Ég hef þá trú að styrkja eigi tengsl starfsréttinda í landbúnaði við menntun, ekki síst vegna þeirrar auknu ábyrgðar sem fylgir matvælaframleiðslu í hörðum samkeppnisheimi.

Tengsl stoðgreina í landbúnaði hafa gefið ótal tilefni til vangaveltna um samstarf, samvinnu eða samruna. Þríeykið kennsla , leiðbeiningar og rannsóknir eru auðvitað samtengd og geta ekki án hvers annars verið. Nú finnst mér nóg komið af þeirri umræðu, henni ber að ljúka svo viðkomandi geti snúið sér að alefli að verkum sínum. Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að tillögugerð í þessum málaflokki og þó einkum í rannsóknum. Ég mun taka þeirri tillögugerð með jákvæðu viðhorfi og skoða kosti hennar og galla. Það mun ekki taka langan tíma eftir að tillögurnar berast því ég vil ekki að starfsfólk þessara stofnana búi við sífellda óvissu um framtíðina. Framtíðin er okkar og hana skal nýta.

Nú er rétt að ljúka samningi við bændur um framleiðslu sauðfjárafurða. Um samningsgerðina má ýmislegt segja en það verður látið bíða betri tíma. Ég vil bara segja það að sú reynsla sem ég hef nú öðlast segir mér að við samning eins og þennan skal einhenda sér í verkefnið og vinna það á skömmum tíma. Allan undirbúning verður að sjálfsögðu að vinna vel og færustu sérfræðingar að vera til ráðgjafar þegar þarf.

Í þeim samningi sem nú liggur fyrir var lagt til grundvallar að búgreinin gæti eflst og þróaðst, þeir sem hana stunda fái tækifæri til að njóta ávaxta sinna og aðstæðna, neytandinn hafi vissu fyrir gæðum vörunnar, uppruna hennar og framleiðsluaðstæðum og síðast en ekki síst að þeir sem vilja hætta framleiðslu geti það með sæmilegri reisn. Ég tel að eftir atvikum hafi þessi markmið náðst.

Nú er það svo að hinar öru breytingar á kjötmarkaði hafa verið lambakjöti í óhag. Neyslan hefur fallið mikið en rétt er þó að benda á að frá 1995 hefur hægt mjög á fallinu. Tölur um 15 kg neyslu á mann innan 10 ára eru því vonandi fjarri lagi. Það er auðvitað gott að hafa fjölbreytni á markaði en ytri aðstæður mega ekki hafa svo afgerandi áhrif á val neytandans að sú vara sem mest byggir á innlendum aðföngum, vinnu og fóðri, verði ekki samkeppnishæf þrátt fyrir verulegan stuðning ríkisins og velvilja þjóðarinnar. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að GATT og tóku á sig skuldbindingar varðandi verslun með landbúnaðarvörur þá var það sagt að heimsmarkaðsverð yrði hærra. Ríkisstuðningur við landbúnaðarvörur myndi allsstaðar lækka, sérstaklega útflutningsbæturnar og verð varanna færðist nær framleiðslukostnaði. Við þessar skuldbindingar hafa Íslendingar staðið.

En hvað hefur gerst hjá öðrum þjóðum. Nú nýlega var það kannað í landbúnaðarráðuneytinu hver hefði orðið verðþróun á innfluttu byggi. Grunngagna var leitað hjá Hagstofu Íslands. Á síðustu fjórum árum hefur verðið fallið úr kr. 11.60 á kg í kr 7.70 á kg eða um tæpar fjórar krónur. Á sama tíma höfum við lækkað þær álögur sem voru á þessu fóðri. Hér eru hlutirnir ekki eins og talað var fyrir. Með þessu er samkeppnin skekkt, hlutirnir færðir úr lagi. Þetta dæmi og önnur slík gefa tilefni til að áhrif GATT verði endurmetin af hlutlausum aðila og hef ég ákveðið að ræða þetta mál í ríkisstjórninni um leið og við ræðum frekari þátttöku í viðræðum um alheimsviðskipti með landbúnaðarvörur. Skuldbindingar verða að vera meira en orðin tóm.

En áður en ég segi skilið við sauðfjársamninginn þá vil ég gera að umtalsefni þá framtíðarsýn sem hann gefur vegna ákvæða um gæðastýringu. Þar hafa sauðfjárbændur haft frumkvæði að því að gera auknar kröfur til sjálfra sín m.a. með tilliti til landnota, beitar.

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hvílíkt heillaspor hér er stigið. Sauðkindin hefur til langstíma verið gerð að blóraböggli gagnvart því vandamáli sem mannvist hefur haft á ásýnd landsins. Nú er mál að linni. Sauðfjárbændur ganga nú móts við nýja tíma. Þeir óska samstafs við yfirvöld, stofnanir, samtök og einstaklinga sem vilja vinna með þeim að því að bæta landið. Héðan í frá verður engum vært að liggja á liði sínu. Nú tökum við á. Tilbúin er Viljayfirlýsing þeirra er mesta ábyrgð bera og verður hún undirrituð fljótlega. En þessi sátt tekur tíma, landið verður ekki grænt á einni nóttu og hluti þess verður aldrei grænn. En sóknarfærin eru mörg og að því verður unnið.

Og hverjir aðrir en bændur eru betur til þess fallnir að vinna þetta verk. Þeir hafa alist upp með landinu, skilja þarfir þess og getu. Þeir hafa tækin, þekkinguna og eru hluti af þeirri heild sem kallast menningarlandslag. Átak í landgræðslu skapar mörg störf á landsbyggðinni og hér eigum við tækifæri til að treysta byggð víða um land. Nú megum við ekki bregðast þjóðinni, byggðinni, bændunum og síðast en ekki síst, landinu sjálfu. Öllum þessum eigum við skuld að gjalda, nú er komið að skuldaskilum.

Landgræðsla ríkisins og Skogræktin munu fá ærin verkefni vegna þessa átaks. Þar er styrk stjórn og hér á Búnaðarþingi verða kynnt fyrstu drög að langtíma landgræðsluáætlun. Með henni verður mótaður sá rammi sem starf okkar mun byggja á. Af því starfi nýtur framtíðin, næstu kynslóðir, ávaxtanna. Þegar ég hugsa um vel unnin verk landgræðslumanna liðinna ára og þá framtíð sem bíður með dyggri aðstoð bænda þá verður mér hugsað til skáldsins frá Rauðsgili í Hálsasveit þar sem hann yrkir sína Áfanga og þá væntanlega staddur í Kaupmannahöfn.

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði
runnin upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði


Þegar ég nú við upphaf Búnaðarþings lít til framtíðar og hef tækifæri til að taka á með stórum hópi dugmikilla íslenskra bænda, þá sé ég margt ánægjulegt. Ég vil til að mynda lýsa yfir gleði minni með aukna þátttöku kvenna í félagsstörfum bænda. Konur hafa auðvitað alla tíð verið virkir bændur heima á búunum, kannski undirstaðan sem annað byggði á. Í hópi íslenskra bændakvenna eigum við auð sem ég vil sjá vaxa og dafna. Nú á tímum finnst einhverjum orð eins og þessi lítis virði en ég brýni konur til enn frekari starfa. Íslenskur landbúnaður þarf á ykkur að halda, nú sem aldrei fyrr.

Í landbúnaði eigum við sóknarfæri á mörgum sviðum. En á sama tíma get ég ekki sætt mig við þá miklu skuldaaukningu sem nú er hjá bændum. Það unga fólk sem nú býr sig undir lífsstarfið og margir þeirra sem við landbúnað hafa starfað, safna nú skuldum. Um leið mega sumir vart mæla fyrir hrifningu á þeirri hagræðingu sem orðið hefur. Hér hefur einhver slegið falskan tón. Hagræðingin hefur kallað á kerfi þar sem framtíðinni, unga fólkinu, er gert að kaupa sér rétt til að framleiða nauðþurftir þjóðarinnar. Afurðastöðvar, sveitarfélög og bændur stíga taktinn í þessum Hrunadansi og það svo knálega að fáum fipast enn. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að bændur framtíðarinnar verði þrælar þessa kerfis. 700 milljón kr. skuldaaukning kúabænda á einu ári er viðvörun sem við eigum að taka alvarlega.

Auðvitað verður ný kynslóð að kaupa sig inn í atvinnustarfsemi. Það hefur alltaf verið með þeim hætti. En þegar ríkisstuðningurinn er að verða megin verslunarvaran, þá er rétt að gá til veðurs. Kosti og galla þessa kerfis verður að greina og ég hef ákveðið að beita mér fyrir þeirri könnun á næstu mánuðum. Það verður gert í góðri sátt við bændur.

Áður en ég kveð ykkur langar mig að minnast á athyglisverða umræðu, sem átti sér stað á fundi upp í Borgarnesi nú nýlega. Þar kom ungt fólk í ræðustólinn og sagði nú vera komið nóg af úttektum og skýrslum um hvað vont væri að búa úti á landi. Nú væri tímabært fyrir Byggðastofnun og fl. að gera úttekt á kostum þess að búa á landsbyggðinni. Hér og nú tek ég undir með þessu unga fólki og heiti því liðsinni mínu. Ég vil byggja landið því án lífs er landið minna virði.

Ég vitnaði í upphafi í hvatningarljóð Matthíasar Johannessen. Um leið og ég óska Búnaðarþingi heilla í störfum sínum og hvet íslenska bændur til dáða þá leyfi ég mér, þrátt fyrir erfiðleika á ýmsum stöðum, að minna á lokaorð kvæðisins. Þau segja meira en langar ræður.

Þér leggst á hverju vori eitthvað til.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta