Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. mars 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Orkustofnunar 15.03.00.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á ársfundi Orkustofnunar
15. mars 2000.

I
Mér er það sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ársfund Orkustofnunar. Orkumálin eru mikilvægur málaflokkur í iðnaðarráðuneytinu. Orkustofnun hefur í aldarþriðjung gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki við þá grundvallar breytingu sem orðið hefur í orkubúskap þjóðarinnar á þessu tímabili. Í engu iðnríki er eins miklum hluta orkuþarfarinnar mætt með endurnýjanlegum innlendum orkulindum. Nýting innlendra orkulinda hefur verið lyftistöng fyrir allt atvinnulíf í landinu og kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis er lægri hér á landi en í öðrum iðnríkjum. Nýting jarðvarmans og vatnsorkunnar er samofin þeim þjóðfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað á tuttugustu öldinni.

Öldin hefur fært okkur meiri framfarir en allar fyrri aldir Íslandssögunnar samanlagt. Breytingarnar hafa stöðugt verið með vaxandi hraða og þær hafa fært þjóðinni mikil og stöðugt ný tækifæri - en um leið verið nokkur ógnun við hefðbundnar venjur og rótgróin gildi.

Hinn öri hagvöxtur sem verið hefur á Íslandi á 20. öldinni á að verulegu leyti rætur í nýtingu á náttúrulegum auðlindum þjóðarinnar, bæði gjöfulum fiskimiðum og orkulindum. Beislun orkulindanna hefur líka átt drjúgan þátt í að bæta lífsgæði okkar sem í landinu búum. Við upphaf aldarinnar biðu bæði vatnsaflið og jarðvarminn þess að verða þær auðlindir sem yrðu grundvöllur betra lífs þjóðarinnar. Á þeim tíma sóttum við innlenda orku í mó og tað, en framsýnir menn voru farnir að líta til nýtingar vatnsorkunnar og jarðvarmans sem undirstöðu framfara og bættra kjara í landinu. Nú hundrað árum síðar vitum við að þessir menn höfðu rétt fyrir sér, jafnframt því sem við vitum að allar forsendur eru til staðar til að orkulindirnar geti skapað fleiri sóknarfæri fyrir íslenskt þjóðfélag á nýrri öld.

Umræða um nýtingu orkulindanna hefur á síðustu misserum oft verið á heldur neikvæðum nótum. Spyrja má hvort við höfum gleymt fortíðinni. Gerum við okkur grein fyrir þeirri byltingu sem varð í bæjum landsins á fyrri hluta aldarinnar og í sveitum landsins með rafvæðingunni sem hófst um miðja öldina. Nú virðast sum okkar vilja rafmagnið en ekki mannvirkin sem þarf til að framleiða það og koma því til okkar.

Það var stór áfangi í nýtingu jarðvarmans þegar héraðsskólarnir að Laugum, Laugarvatni, Reykjum og Reykholti voru reistir á 3. og 4. áratugunum. Jarðhiti réð því hvar þessir skólar voru reistir. Þeir voru snar þáttur í að efla menntun þjóðarinnar og þar kynntust margir þeim gæðum sem jarðhitinn hefur uppá að bjóða. Stofnun hitaveitu í Reykjavík og á mörgum þéttbýlisstöðum í landinu hefur aukið velsæld og vellíðan íbúanna og skapað þá hreinu ímynd sem landið hefur.

Þegar rætt er um umhverfisáhrif orkuvinnslunnar þarf að skoða málið í samhengi bæði við þau lífsgæði sem beislun vatnsorkunnar og jarðvarmans hefur fært okkur sem og að heita vatnið og rafmagið hefur leyst af hólmi eða komið í veg fyrir brennslu kola eða olíu og þá mengun sem brennslunni fylgir. Við þurfum að kynna þjóðinni og erlendum ferðamönnum sem sækja okkur heim hversu vel hefur tekist til í nýtingu orkulindanna.
II
Sú skipan orkumála sem komið var á hér á landi á sjöunda áratugnum hefur um margt reynst okkur vel. Flestar hitaveiturnar eru orðnar stöndug fyrirtæki sem bjóða orku til hitunar á lægra verði en þekkist í öðrum iðnríkjum. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, það er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Atvinnulíf á Akureyri lamast ekki þó ístruflanir verði í Laxá svo dæmi sé tekið. Staða orkumála er því allt önnur nú en fyrir aldarþriðjungi.

Á undanförnum árum hefur eins og ykkur er kunnugt um verið unnið að endurskoðun á skipan þessara mála. Endurskoðunin þarf að taka mið af sérstöðu okkar í þessu efni, m.a. þeirri staðreynd að við eigum miklar endurnýjanlegar okulindir sem ekki hafa verið nýttar nema að litlu leyti. Ný skipan þarf að stuðla að því að við höldum áfram að nýta orkulindirnar með skilvirkum hætti um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmi í orkubúskapnum.

Skilja þarf á milli þátta eftir því hvort samkeppni verður við komið eða ekki. Með því að tryggja eðlilegan aðgang að flutnings- og dreifikerfum raforku samkvæmt gjaldskrá verður unnt að koma á samkeppni í vinnsla og sölu raforku. Undirbúningur að því er hafinn. Í gær var kynnt skýrsla nefndar sem forveri minn skipaði til að fjalla um framtíðarskipulag raforkuflutnings á Íslandi.

Í þeim tilgangi að koma á breyttri skipan þessara mála hef ég í hyggju að leggja fyrir yfirstandandi þing til kynningar frumvarp til nýrra raforkulaga. Markmið frumvarpsins verður að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulinda þjóðarinnar í því skyni að efla atvinnulíf og styrkja byggð í landinu að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða, varðveislu þjóðminja og hefðbundinna landnytja. Ég vonast til að unnt verði að endurskoða frumvarpið næsta sumar í ljósi umræðu innan þings og utan með það að markmiði að hægt verði að leggja nýtt frumvarp fyrir Alþingi næsta haust og að ný lög verði samþykkt á næsta vetri. Ný lög þurfa að gera starfsemi orkufyrirtækjanna og viðskipti með rafmagn sem skilvirkust, þannig að kostnaður við starfsemina og verð raforku verði eins lágt og kostur er. Ný lög þurfa að stuðla að því að nýtt fjármagn fáist til greinarinnar, það kallar að sjálsögðu á að við verðum að gera eðlilegar arðkröfur til þess fjármagns sem bundið er í greininni.

Í framhaldi af endurskoðun laga um raforkumál geri ég ráð fyrir að lög um hitaveitur verði endurskoðuð enda eðlilegt að orkufyrirtækin búi við eins lík starfskilyrði og unnt er.
III
En það eru fleiri verkefni sem bíða okkar við árþúsundamót. Hér á eftir mun Gerald W. Doucet framkvæmdastjóri Alþjóða orkuráðsins fjalla um orku fyrir komandi kynslóðir og það verður áreiðanlega lærdómsríkt að kynnast framtíðarsýn hans. Hér á landi bíða okkar ný og ögrandi verkefni. Ég vil drepa á nokkur slík.

Í kjölfar olíukreppa fyrst á árinu 1973 og síðan á árinu 1979 hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu verulega og í byrjun 9. áratugarins var það orðið sex til sjö sinnum hærra en á fyrri hluta ársins 1973. Þessi mikla hækkun hafði að sjálfsögðu mikil áhrif um allan heim. Hér á landi kom hún mjög þungt niður á sjávarútvegi jafnframt því sem kostnaður þeirra sem kynntu hús sín með olíu varð óbærilegur. Á þessu tímabili var eðlilega lögð mikil áhersla á að spara olíu eða nota ódýrari eldsneyta en einnig var gert átak í að nýta innlendar orkulindir í stað olíunnar. Þar ber að hæst stofnun fjölmargra hitaveitna víða um land til að nýta jarðvarmann. Þessar aðgerðir leiddu meðal annars til þess að hlutur olíu hefur lækkað úr um 45% árið 1973 í um 2%.

Á árunum 1973 til 1985 voru aðgerðir til að bregðast við háu olíuverði einn helsti drifkraftur í orkustefnu ríkja heims. Á þessu tímabili var leitað leiða til að spara orku, vindmyllur voru þróaðar og gerðar margvíslegar tilraunir með tilbúið eldsneyti, svo sem metanól og etanól svo nokkur dæmi séu tekin. Orku- eða olíusparnaður var efst á verkefnalistanum og allt reynt til þess að draga úr áhrifum olíuverðshækkana. Á sama tíma lögðu vestræn ríki mikla áherslu á að efla olíuleit og olíuvinnslu. Allt þetta leiddi til þess að Samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, ákváðu í lok ársins 1985 að tryggja aðildaríkjum sínum það sem þau kölluðu réttláta hlutdeild í olíumarkaðinum. Framboð olíu var aukið og í kjölfarið lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu verulega og á síðustu árum hefur það verið um þriðjungur af því sem var í upphafi 9. áratugarins. Olíuverðið hefur því á síðustu 15 árum ekki verið sami drifkraftur í orkustefnunni og áður.

Nú virðist hins vegar sem blikur kunni að vera á lofti. Olíuverð hefur hækkað verulega undanfarna mánuði og útlit er fyrir að það verði hátt a.m.k. fram eftir þessu ári. Þessar hækkanir segja eðlilega til sín fyrir þjóðarbúskapinn. Ef þær yrðu viðvarandi myndu þær hækka olíureikninginn um 4 til 5 milljarða á ári. Við þessu þarf að bregðast. Við þurfum að leggja aukna áherslu á að fara vel með olíuna og stuðla að olíusparnaði á öllum sviðum. Sem betur fer er óverulegur hluti húshitunarinnar enn á olíu og í flestum tilvikum eiga þeir sem nota olíu til kyndingar kost á rafhitun. Á heimilunum kemur því olíuhækkun fyrst og fremst fram í því að dýrara er að reka einkabílinn. En hækkunin hefur að sjálfsögðu áhrif í fiskveiðum og á alla flutninga hvort heldur er á sjó, í lofti eða á landi. Ég ætla mér ekki að reyna að spá um hvort hér er um varanlega olíuhækkun að ræða en ég tel að óháð því eigum við að leggja aukna áherslu á að minnka notkun olíu. Slík áhersla er í samræmi við þá stefnu að draga úr losun gróðurhúsalofttegundanna svokölluðu.
IV
Ein þeirra leiða sem nefnd hefur verið til þess að auka nýtingu innlendra orkulinda er framleiðsla á innlendu eldsneyti. Ég hef átt þess nokkurn kost á undanförnum vikum að kynnast viðhorfum til þessa, einkum vetnis, bæði í Þýskalandi og Bandaríkjum Norður Ameríku. Ljóst er að ýmsir aðilar, einkum framleiðendur tækja og búnaðar, í þessum ríkjum leggja mikið fé til rannsókna og tilrauna með vetni sem orkubera.

Íslensk NýOrka var stofnuð snemma á síðasta ári. Tilgangur félagsins er m.a. að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í samgöngutækjum. Félagið hefur undanfarið undirbúið rannsóknarverkefni á notkun vetnis í almenningsfarartækjum ásamt fleiri aðilum, og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja 80 milljónir króna til verkefnisins á næstu þremur árum. Félagið hefur einnig í hyggju að rannsaka notkun vetnis í samgöngum á sjó.

Ég legg áherslu á að svara þarf mörgum spurningum áður en úr því fæst skorið hvort hagkvæmt er fyrir íslenskt samfélag að nota vetni eða annað tilbúið eldsneyti til að knýja samgöngutæki okkar og fiskveiðiflota. Getum við t.d. gefið okkur að það verði hagkvæmt að nýta orkulindir okkar til að framleiða slíkt eldsneyti? Ef það verður ódýrara að framleiða það erlendis hlýtur það að verða flutt inn nema flutningskostnaður vegi þann mun upp. Loks bendi ég á að nokkur tími mun líða áður en hægt er að svara þessum spurningum. Ólíklegt er að svör við þeim verði komin á tímabilinu sem skuldbindingar Kyotóbókunarinnar taka til þ.e. áranna 2008 til 2012. Alla vega er ljóst að á því tímabili yrði ekki búið að skipta um eldsneyti nema í óverulegum hluta samgöngutækjanna og fiskveiðiflotans jafnvel þó svo að slíkt teldist hagkvæmt. Við getum því ekki byggt aðild okkar að Kyotóbókuninni á því að við ætlum að nota vetni eða annað tilbúið eldsneyti á skuldbindingartímabilinu.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyotóbókunin við samninginn er vissulega ein af megin drifkröftunum í orkustefnu okkar eins og annarra iðnríkja. Við erum í annarri stöðu en flest önnur iðnríki. Við notum endurnýjanlegar orkulindir til að mæta stærstum hluta orkuþarfarinnar og við eigum mikið af endurnýjanlegum orkulindum sem einungis hafa verið nýttar að litlu leyti. Í samþykktum heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhvefi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiró árið 1992 er hvatt til nýtingar slíkra orkulinda bæði til þess að draga úr loftmegnun og minnka hættu á loftslagsbreytingum.
V
Öllum er ljóst að nýting innlendra orkulinda bæði vatnsafls og jarðvarma hefur áhrif á hið náttúrulega umhverfi okkar. Á síðastliðnu ári var í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum hafin vinna við gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti á að leggja grundvöll að flokkun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnu, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta gæði og gagn landsins allt þetta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Sextán manna verkefnisstjórnin undir formennsku Sveinbjörns Björnssonar fyrrverandi háskólarektors hefur nú í tæplega eitt ár unnið að nánari mótun verkefnisins og í síðastliðnum mánuði skipaði ég um 47 sérfræðinga flesta samkvæmt tilnefningum ýmissa samtaka og stofnana í fjóra fagahópa til þess að vinna með verkefnisstjórinni. Þá er starfandi opinn samráðsvettvangur í umsjón Landverndar til þess að gefa almenningi, félögum og félagasamtökum tækifæri til að koma á framfæri upplýsingu og ábendingum til faghópa og verkefnisstjórnar meðan á verkinu stendur.

Hér er um gríðarlega stórt og þýðingarmikið verkefni að ræða. Ég tel víst að það muni efla þekkingu og auka skilning okkar á þessu sviði og ég vona að það stuðli að því að sátt náist um nýtingu þessara auðlinda sem í senn tryggi að við getum áfram nýtt orkulindirnar til að efla atvinnulíf og styrkja byggð í landinu og að ekki verði gengið óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu. Orkustofnun hefur bæði lagt talsvert fé og vinnu til þessa verkefnis og ég er ánægð með að sjá að fjallað verður um áætlunina á þessum fundi.


VI
Verkefnin sem bíða okkur á árþúsundamótum eru bæði mörg og krefjandi. Ég nefni nokkur:
  • Það þarf að breyta skipan orkumála og koma á markaðsbúskap í viðskiptum með rafmagn.
  • Það þarf að efla vitund okkar um nauðsyn þess að draga úr olíunotkun og nýta alla orku með hagkvæmum hætti.
  • Það þarf að kanna hvort skynsamlegt sé að nota og hugsanlega framleiða innlent eldsneyti sem kæmi í stað olíu.
  • Það þarf að auka þekkingu okkar um áhrif nýtingar orkulinda þjóðarinnar á umhverfi, efnahag, atvinnu og byggð í landinu, flokka orkulindirnar og ná samstöðu bæði um nýtingu þeirra og verndun hins náttúrulega umhverfis.
Ég vonast til að eiga góða samvinnu við Orkustofnun, orkumálastjóra og starfsmenn á næstu misserum og árum um þessi og önnur mikilvæg verkefni á sviði orkumála.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að ávarpa fundinn.



Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta