Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp hjá samtökum verslunar og þjónustu , 29.03.00.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu,
miðvikudaginn 29. mars 2000 kl. 16:00
í Ársal Hótel Sögu

Fundarstjóri, ágætu aðalfundarfulltrúar.
Ég vil í upphafi máls þakka fyrir að hafa verið boðin til þessa fyrsta aðalfundar Samtaka verslunar og þjónustu sem stofnuð voru á haustdögum á síðasta ári eftir töluverðan aðdraganda. Með þessu var stigið stórt skref til sameiningar verslunargreina í ein samtök auk þess sem vöruflutningar og margar aðrar þjónustugreinar urðu aðilar að samtökunum.
Segja má að þarna hafi verið fylgt þróun sem er merkjanleg víða um heim í átt til stærri og öflugri eininga sem þar með geta unnið betur að hagsmunum umbjóðenda sinna en mörg smærri samtök gerðu áður. Á öllum Norðurlöndunum eru hliðstæð landssamtök verslunar og þjónustugreina starfandi. Þessi sameining margra og um margt ólíkra starfsgreina í einum öflugum samtökum undirstrikar jafnframt að skörp skil á milli starfsgreina eru að minnka og jafnvel hverfa, en aukinn samhljómur er í hagsmunagæslu þessara mismunandi greina sem fyrirtækja. Fyrirtæki eru líka að endurskilgreina sig sjálf og hlutverk sitt þannig að mun meira er gert úr upplýsinga- og þjónustuhlutverki þeirra en áður.
Sú þróun sem átt hefur sér stað í verslun á síðustu áratugum er í sjálfu sér ótrúleg. Kaupmaðurinn við búðarborðið er orðinn sjaldséður en hann lifir í minningu okkar. Sjálf er ég landsbyggðarmaður, fædd og uppalin í sveit þar sem þannig háttaði til að um tvo kosti var að ræða þegar gerð voru innkaup til heimilisins. Það var hægt að velja á milli KEA og Kaupfélags Svalbarðseyrar sem reyndar hafði útibú á jörðinni og hafði opið tvo eftirmiðdaga í viku.
Ein af mínum fyrstu minningum er atvik sem átti sér stað í Bjössabúð, eins og hún var kölluð, þegar ég var smástelpa. Ég var þar með mömmu minni og prestfrúna bar að garði. - Ég var farin að þekkja stafina og stafaði hátt og snjallt orðið SÓLSÁPA sem var þekkt vörutegund í þá tíð. Prestfrúin lét þá þessi orð falla: "Hún mun einhvern tíma láta til sín taka þessi".
Ég held að ég hafi áttað mig á að þetta var óþarfa framhleypni í návist prestfrúarinnar sem hafði virðingarstöðu í sveitarfélaginu á þeim tíma.
Netverslunin, þessi nýja gátt fyrirtækja og einstaklinga til gagnvirkra samskipta og viðskipta ýtir undir ákveðið endurmat. Jafnframt hverfa ekki aðeins landamæri starfsgreina heldur einnig landamæri héraða og landa og heimurinn allur verður markaðssvæði fyrirtækja sem skapa sér starfsumhverfi sem byggir á rafrænum samskiptum.
Við erum uppnumin af þessari tækni og nýja starfsumhverfi, en ekki má þó gleymast að tæknin, t.d. Netið, er verkfæri til að ná markmiðum en ekki markmið í sjálfu sér. Til að efla hag fyrirtækjanna og þjóðarinnar þurfum við m.a. vel rekin fyrirtæki í verslun og þjónustu sem starfa í heilbrigðu samkeppnisumhverfi sambærilegu því sem keppninautar í nágrannalöndunum búa við.
Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að eðlilegt væri að endurskoða lög um samkeppni sem sett voru á Alþingi árið 1993. Sú reynsla sem safnast hefur síðan lögin voru sett leiðir til þessarar niðurstöðu jafnframt því að samkeppnislöggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið að breytast. Nefnd sem fyrrverandi viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir samkeppnislögin skilaði athugasemdum sínum á síðasta ári. Fulltrúar verslunar og þjónustu áttu sæti í nefndinni og við samningu á hinu nýja frumvarpi var tekið tillit til fjölda atriða sem frá þeim komu.
Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir helstu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og er ætlað að styrkja lögin frá 1993:
Í fyrsta lagi ber að nefna bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkvæmt gildandi lögum er fyrirtækjum sem eru í markaðsráðandi stöðu ekki fyrirfram bannað að misbeita stöðu sinni til skaða fyrir samkeppnina. Þetta breytist nú til samræmis við EES-samninginn þannig að misnotkun á markaðsyfirráðum verður bönnuð fyrirfram.
Í öðru lagi verður víðtækara bann við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja. Þannig er fyrirtækjum sem starfa á sama sölustigi nú bannað að hafa með sér samráð um verð, markaðsskiptingu og gerð tilboða. Enn fremur er fyrirtækjum bannað að reyna að ákveða verð sem gilda skal við endursölu vöru á næsta sölustigi. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir mun víðtækara banni við samstarfi og samráði fyrirtækja. Þetta þýðir að hvers konar samstarf fyrirtækja sem raskað getur samkeppni verður bannað. Þó er ráð fyrir því gert að fyrirtæki geti fengið undanþágu frá banninu að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Í þriðja lagi má nefna breytingar á eftirliti með samruna fyrirtækja. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samrunaákvæði samkeppnislaga verði styrkt til muna. Með fyrirhugaðri breytingu tekur ákvæðið því einnig til þess að markaðsyfirráð verða efld með samruna sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni að mati samkeppnisyfirvalda. Enn fremur verður unnt að grípa til íhlutunar gegn samruna ef hann leiðir til svonefndra fákeppnismarkaðsráðandi stöðu. Ákvæði um tímafrest til að taka ákvörðun í samrunamálum verður samkvæmt frumvarpinu gert skýrara en í gildandi lögum.
Í fjórða lagi skal nefna ákvæði um samanburðarauglýsingar. Vegna skuldbindinga EES-samningsins er lagt til að lögfest verði efni tilskipunar ESB um samanburðarauglýsingar.
Loks má nefna breytingar um sektarákvæði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sektarákvæði samkeppnislaga verði skýrð og styrkt. Skort hefur á nægilega virk úrræði til þess að taka á brotum á reglum um auglýsingar og verðmerkingar. Ég tel þetta mjög mikilvægt því það er bæði í þágu neytenda og fyrirtækja að efla verðskyn og hafa í heiðri heilbrigða viðskiptahætti.

Góðir fundarmenn.
Eins og ykkur er kunnugt fluttust byggðamál til ráðuneyta minna um sl. áramót. Í samtökum ykkar eru fjöldi starfsgreina sem koma að hvers kyns atvinnu og þjónustustarfsemi á landsbyggðinni. Þróun mála á landsbyggðinni skiptir því mjög miklu máli fyrir marga félagsmenn í ykkar samtökum.
Mér finnst að fleirum sé að verða ljóst hversu mikilvægt það er að okkur takist að snúa við þeirri þróun að stöðugt fleiri flytji af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Menn eru t.d. farnir að átta sig á þeim mikla kostnaði sem þessi þróun hefur í för með sér fyrir höfuðborgarsvæðið. Við þurfum að snúa vörn í sókn með margþættum aðgerðum.
Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja sem best rekstrarskilyrði sjávarútvegsins sem er burðarás atvinnulífsins á landsbyggðinni.
Í öðru lagi þurfum við að byggja upp byggðakjarna til mótvægis við höfuðborgarsvæðið.
Í þriðja lagi þurfum við að tryggja að landsbyggðin geti tekið fullan þátt í hinu nýja samfélagi sem við erum að ganga inn í og byggir fyrst og fremst á menntun og þekkingu.
Í fjórða lagi þarf hið opinbera að auka þjónustu sína á landsbyggðinni og jafnvel að vera tilbúið til að draga úr henni á höfuðborgarsvæðinu.
Viðskiptaráðuneytið er fagráðuneyti verslunar og þjónustugreina og mun kappkosta að eiga sem best samskipti við hagsmunasamtök þeirra. Það er hlutverk þess ráðuneytis að fylgjast með greininni, skapa fyrirtækjunum sambærilegt starfsumhverfi og öðrum atvinnurekstri auk þess að treysta hvers konar viðskiptafrelsi. Í þessum samtökum verslunar og þjónustu eru auk verslunarinnar fjöldi þjónustugreina. Á það ber að leggja ríka áherslu að hvers konar þjónusta gegnir æ viðameira hlutverki í samfélaginu og þar eiga þessi samtök miklu hlutverki að gegna.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta