Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. apríl 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Álvers- og orkuframkvæmdir á Austurlandi - ávarp 02.04.00.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.




Álvers- og orkuframkvæmdir á Austurlandi

Ávarp á opnum kynningarfundi á Egilsstöðum,
sunnudaginn 2. apríl kl. 20:00


Það er mér ánægja að koma á þennan fund og fjalla um álvers- og orkuframkvæmdir á Austurlandi, þótt ég geri mér grein fyrir því að nýleg tíðindi af þeim vettvangi séu ekki öllum að skapi. Ég geri mér hins vegar vonir um að hér geti menn farið kalt og yfirvegað yfir þá stöðu sem við blasir og þannig geti fundurinn orðið liður í því að leggja grunn að farsælli niðurstöðu í þessu mikilvægi máli fyrir Austurland. Það liggur fyrir að taka stefnumarkandi ákvarðanir í þessum efnum á næstu vikum og ég treysti á að fá gott veganesti á þessum fundi til þeirrar ferðar sem fram undan er áður en komið er að næstu vegamótum.
    Eins og kunnugt er hafa fjárfestar í fyrirhuguðu álveri við Reyðafjörð lýst því yfir að þeir telji hugsanlega hagkvæmara að breyta áætlunum um byggingu álversins á þann veg að byrjunaráfanginn verði 240 þúsund tonn í stað 120 þúsund tonna eins og ráðgert hefur verið. Í framhaldi verði álverið stækkað um 120 þúsund tonn eða samtals í 360 þúsund tonn. Ástæðan hér að baki er sú að fjárfestarnir telja að stærri byrjunaráfangi verði hagkvæmari þegar á allt er litið og því áhugaverðari kostur fyrir þá. Fyrir vikið hafa fjárfestarnir óskað eftir því við samstarfsaðilana, ríkisstjórnina og Landsvirkjun, að þessi kostur verði kannaður nánar á næstu vikum með það fyrir augum að endurskoða Hallormsstaðayfirlýsinguna og fella hana að þessum kosti, ef sýnt þykir að hann sé hagstæðari.

    Hugmyndir fjárfestanna fela í sér miklar breytingar á þeim áætlunum sem legið hafa fyrir um virkjanir. Hagkvæmasta virkjunarútfærsla fyrir þennan kost er Kárahnúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal. Þetta þýðir með öðrum orðum að byrjað yrði á Kárahnúkavirkjun og síðan yrði Jökulsá í Fljótsdal veitt inn í aðrennslisgöngin sem liggja frá Hálslóni við Kárahnúka að stöðvarhúsinu innan við Valþjófsstað. Í þessari útfærslu yrði ekki þörf fyrir lón á Eyjabökkum heldur nægði lítið inntakslón fyrir neðan Eyjabakkafoss. Raforkuframleiðslan sem þessi kostur hefði í för með sér samræmist mjög vel áfangaskiptingunni sem tillögur fjárfestanna gera ráð fyrir. Hér á eftir mun Helgi Bjarnason lýsa nánar þessari virkjunarútfærslu.

    Þessar hugmyndir hafa verið til skoðunar hjá mér og ríkisstjórninni undanfarna daga og hef ég fallist á að þær verði útfærðar á næstu vikum í nánari atriðum þannig að í byrjun maí verði unnt að meta gildi þeirra á raunhæfum grunni. Ef þessi kostur verður talinn betri og hagkvæmari en fyrri áætlanir, verður gerð ný yfirlýsing byggð á Hallormsstaðayfirlýsingunni og þar verður meðal annars lýst viðskiptahugmyndinni, skuldbindingum hlutaðeigandi aðila og helstu dagsetningum. Endurnýjuð yfirlýsing fæli í sér vinnuferli, þróunarvinnu og útfærslu á umræddum hugmyndum sem hefði það að markmiði að lokaákvörðun um að ráðast í framkvæmdir yrði tekin fyrri hluta árs 2002, ef raunhæfar forsendur reynast fyrir álverinu. Í kjölfarið hæfust virkjunarframkvæmdir og áætlað er að raforkuframleiðsla gæti hafist á árinu 2007, hugsanlega 2006.

    Nú kann einhver að spyrja, svona í ljósi reynslunnar, hvort þetta sé ekki bara enn ein frestunin sem ekki leiði til neins. Þetta er eðlileg spurning en hins vegar er ekki til einhlítt svar við henni á þessari stundu. Það er enginn í þeirri stöðu nú að geta gefið loforð um að þessi áform gangi upp. En við skulum líta kalt á þau rök sem tala fyrir málinu. Þar ber auðvitað hæst að mikill áhugi er á verkefninu sem meðal annars birtist í því að aðilar máls eru reiðubúnir að taka á sig verulegar siðferðilegar og fjárhagslegar skuldbindingar til að ljúka þeirri þróunarvinnu sem nauðsynlegt er að liggi til grundvallar endanlegri ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir. Þetta lýsir mikilli trú á að umrætt álver og virkjanir geti orðið arðsöm og skynsamleg fjárfesting. Og þessi trú er byggð á ítarlegum vinnugögnum og rannsóknum, þótt meira þurfi að koma til áður en lokaákvörðun getur legið fyrir. Við bætist að þessi kostur fer í heildstætt umhverfismat í samræmi við gildani lög, þ. e. lögformlegt mat á umhverfisáhrifum eins og það hefur verið kallað, og fyrir bragðið ætti að nást betri samstaða um málið. Þá verður stærra álver mun öflugra fyrirtæki og því öruggari kjölfesta fyrir atvinnulíf á svæðinu en minna álver. Loks er ljóst að fjárfestarnir munu leggja mikinn metnað í þetta álver að því er varðar tækni, megunarvarnir, gæði málms og allt skipulag. Þetta verður líklega tæknilega fullkomnasta álver í heiminum með umhverfisvænstu framleiðslu sem þekkist.

    En hverjar eru þessar skuldbindingar sem menn eru reiðubúnir til að taka á sig ef frumathugun á næstu vikum gefur jákvæða niðurstöðu? Lítum fyrst til fjárfestanna í álverinu því spjótin hafa beinst að þeim, einkum hafa raddir heyrst sem dregið hafa í efa raunverulegan áhuga Norsk Hydro. Í fyrsta lagi mun yfirlýsingin, að sjálfsögðu ef af verður, fela í sér skuldbindingu til að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu á tilteknum tíma þannig að allar forsendur verði til ákvörðunar fyrri hluta árs 2002. Rétt er þó að leggja áherslu á að yfirlýsingin skuldbindur náttúrlega engan til að taka jákvæða afstöðu, heldur eingöngu til að taka ákvörðun af eða á um þetta verkefni á grundvelli þeirra gagna og athugana sem þá liggja fyrir. Í öðru lagi fellur í hlut fjárfestanna að standa straum af hluta þess kostnaðar sem þróunarvinnan felur í sér. Þarna er meðal annars um að ræða verkfræðivinnu og arðsemisathuganir, samningagerð og undirbúning fjármögnunar auk vinnu við umhverfismat. Þetta kostar háar fjárhæðir sem afskrifa verður ef álverið verður ekki reist. Í þriðja lagi hefur Norsk Hydro skýrt frá áhuga sínum um að eiga stærri hlut í svo stóru álveri, eða 40% eða svo, í stað 20-25% í litlu álveri. Við þetta má bæta að sumir íslensku fjárfestanna höfðu lýst efasemdum um arðsemi lítils álvers, þ. e. byrjunaráfangans samkvæmt Hallormsstaðayfirlýsingunni. En Geir A. Gunnlaugsson mun hér á eftir fjalla nánar um hug fjárfestanna til álversins.

    Eins og gefur að skilja mun Landsvirkjun jafnframt taka að sér margháttaðar rannsóknir og athuganir. Ég ætla ekki hér að tíunda verkefni fyrirtækisins, en vil þó nefna undirbúning mats á umhverfisáhrifum Kárahnúkavirkjunar með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal og að sjálfsögðu allan tæknilegan undirbúning. Ekki ætla ég heldur að gera verkefnum ríkis og sveitarfélaga tæmandi skil. Ég vil þó nefna fáein atriði. Ef farin verður sú leið sem hér er gerð að umtalsefni þarf heimildarlög frá Alþingi um umrædda virkjunarútfærslu. Ennfremur þarf að tryggja að þær stofnanir sem munu vinna við mat á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda geti, eftir því sem við verður komið, sinnt verkefnum sínum innan þess tímaramma sem samið verður um. Forsenda þess að unnt verði að taka ákvörðun um byggingu álvers og tilheyrandi virkjana fyrri hluta árs 2002 er að endanleg niðurstaða um umhverfismat liggi fyrir öðru hvoru megin við áramótin 2001/2002. Þetta stafar af því að útboð vegna virkjana verður að fara fram í byrjun ársins 2002. Vanda þarf mjög til matsvinnunnar því mikilvægt er að hún verði vel úr garði gerð og það takist að fá niðurstöðu úr henni á tilsettum tíma hver sem hún verður. Jafnframt þarf að samhæfa þessa vinnu, eftir því sem við verður komið, vinnunni að rammaáætlun. Þá þarf að vinna að margs konar leyfum bæði frá ríki og sveitarfélögum. Einnig er margt ófrágengið varðandi lóð undir álverið og hafnaraðstöðu. Loks vil ég nefna ráðstafnir til að treysta innri byggð á svæðinu og mun ég láta kanna sérstaklega á næstu vikum hvaða framkvæmdum við vegagerð o. fl. kæmi til álita að flýta til að búa í haginn fyrir umræddar stórframkvæmdir ef ákvörðun verður tekin um að fara að tillögu fjárfestanna. Vonast ég eftir að niðurstaða í því efni geti legið fyrir um leið og ákvörðun verður tekin um framhald álmálsins.

    Þetta er hér nefnt til að sýna að þó að ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir tefjist til fyrri hluta ársins 2002 verður mikið verk að vinna hjá öllum aðilum málsins. Það er því alls ekki svo að allt detti í dúnalogn sem snýr að stóriðju á Austurlandi. Þvert á móti má fullyrða að menn verði að halda vel á spöðunum til að tryggja að nauðsynlegri undirbúningsvinnu verði lokið á tilsettum tíma.

    Eins og gefur að skilja er að mörgu að huga varðandi þetta verkefni. Auk þess að vinna að þessari þróunarvinnu sem ég hef lýst hér á undan er ljóst að stjórnvöld munu fylgjast vel með framvindu áliðnaðar í heiminum og hugsanlegum áhuga slíkra fyrirtækja á fjárfestingu hér á landi. Það er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir það sem er að gerast í greininni á hverjum tíma til að tryggja að við missum ekki af áhugaverðum tækifærum. Við bætist að ef áhugi þeirra fjárfesta í álveri sem við eigum nú í samningum við dvínaði þá er nauðsynlegt að hafa aðra möguleika. Einn af meginkostum þeirrar leiðar sem hér er til umræðu er einmitt að þegar þróunarvinnunni er lokið ættum við að hafa til reiðu mjög áhugaverðan kost fyrir álfyrirtæki í heiminum.

    Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna að sumir hafa haft á orði að 240 þúsund tonna álversáfangi með 120 þúsund tonna viðbót síðar væri alltof stór biti fyrir samfélagið á Austurlandi, það réði ekkert við svona fyrirtæki. Þessu sjónarmiði er ég algerlega ósammála og lýsi reyndar furðu minni á þeirri vantrú á Austfirðinga sem það felur í sér. Þetta er fyrirtæki með 500-600 starfsmenn og að halda því fram að svona samfélag geti ekki tekið vel á móti slíku fyrirtæki á nokkrum árum er að mínu viti fráleitt. Aðrir halda því fram að þjóðarbúið ráði ekki við svona stóra framkvæmd. Það er einnig rangt að mínu viti og nægir í því sambandi að benda á að þessar framkvæmdir eru ekki umfangsmeiri að tiltölu við þjóðarbúskapinn en framkvæmdirnar við Búrfellsvirkjun og Ísal á sínum tíma.

    Að lokum vil ég ítreka að við stöndum nú á vissum tímamótum í þessu verkefni. Eins og fram kom hér á undan hef ég fallist á hugmyndir fjárfestanna um að skoða rækilega á næstu vikum nýja útfærslu á áfangaskiptingu álversins og virkjana. Þennan tíma þarf að nota vel því það er stór ákvörðun að breyta fyrri áætlunum. Ég vona að við eigum eftir að eiga gagnlega umræðu hér á eftir um farsæla lausn málsins.
    Var efnið hjálplegt?
    Takk fyrir

    Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

    Af hverju ekki?

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

    Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

    Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta