Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. apríl 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Nýskipan raforkumála- fundur hjá Samtökum iðnaðarins 06.04.00.

Valgerður Sverrisdótir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á fundi Samtaka iðnaðarins
um nýskipan raforkumála
6. apríl 2000.


Ég fagna því að fá tækifæri til að ávarpa þennan fund Samtaka iðnaðarins um nýskipan orkumála, en orkumál hljóta ávallt að vera einn grunnþátturinn í starfsemi hins iðnvædda þjóðfélags. Mikilvægt er því fyrir framtíðaruppbyggingu iðnaðarins og þjóðfélagsins alls að vel sé að þessum málum staðið á hverjum tíma.

Skipulag raforkumála hefur að stofni til verið óbreytt síðasta aldarþriðjunginn. Telja má að það hafi gefist vel til að byggja upp raforkukerfið, en því fylgja ýmsir annmarkar og vandamál þegar stefnt er að aukinni samkeppni á þessu sviði. Þar má t.d. nefna að ekki er í gjaldskrám greint á milli vinnslu og flutnings á rafmagninu og alþekkt er að veruleg verðjöfnun er fyrir hendi í núverandi gjaldskrám orkufyrirtækjanna.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að stefnumörkun á framtíðaskipulagi raforkumála á Íslandi í því skyni að leggja grunn að samkeppni á í greininni, einkum þó í framleiðslu og sölu á raforku. Hér liggur að baki sú hugsun að markaðsumhverfi skili mestum árangri á þessu sviði eins og á flestum sviðum efnahagslífsins. Í mars á s.l. ári voru lögð fram til kynningar drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga, sem byggðust að verulegu leyti á niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem lauk störfum í október árið 1996. Frumvarpsdrögin byggja einnig á umræðum á Alþingi um þingsályktunartillögu sem lögð var fram á þinginu í lok árs 1997. Í ráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun frumvarpsdraganna, en athugasemdir bárust frá ýmsum aðilum.

Í nóvember 1998 skipaði iðnaðarráðherra sérstaka nefnd til að fjalla um stofnun fyrirtækis er annast skyldi flutning raforku frá virkjunum til dreifiveitna og stórnotenda. Nefndin lauk störfum nú í ársbyrjun og verður skýrsla nefndarinnar nánar kynnt hér á eftir og mun ég því ekki fjalla um efnisatriði hennar hér.

Ein meginbreyting í drögum að nýjum raforkulögum verður sú að samkeppnisþættir í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnsla og sala verði aðgreind frá starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar.

Markmið með ofangreindum breytingum hlýtur að vera að auka þjóðhagslega hagkvæmni í nýtingu orkulindanna, og stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og landnytja. Með breytingunum verður stefnt að því að draga úr opinberum rekstri, tryggja gagnsæja verðmyndun og stuðla að lækkun orkuverðs. Loks ber að nefna að einnig þarf að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar, sem við höfum gengist undir. Rétt er þó að taka fram að þær eru ekki og eiga ekki að vera drifkrafturinn í breytingunum. Í því sambandi má nefna að á mörgum sviðum ganga fyrirliggjandi drög lengra í átt til markaðsbúskapar en t.d. tilskipun Evrópusambandsins um innri markað á sviði raforku.

Mikilvægt er þó að við miðum allar breytingar við okkar aðstæður og vinnum að þeim í áföngum. Undirbúningur að aðgreiningu framleiðslu og flutnings raforku hjá raforkufyrirtækjum er þegar hafinn sem fyrsta skref í stofnun sjálfstæðs fyrirtækis um raforkuflutning í eigu orkufyrirtækjanna í framtíðinni. Í því sambandi er mikilvægt að tryggja aðgengi bæði þeirra sem vinna og kaupa rafmagn að flutnings- og dreifikerfunum. Ella verður virkri samkeppni ekki komið á.

Ljóst er þó að áður en ný skipan verður ákveðin þarf að ræða og greina ýmis álitamál nánar. Meðal álitaefna má nefna til dæmis: Hvernig tryggjum við nauðsynlegt jafnvægi í samkeppni, þ.e.a.s. samkeppni í vinnslu og sölu? Hvar á að skilja milli flutningskerfisins og dreifikerfisins? Hvernig ber að tryggja vinnsluaðilum og kaupendum eðlilegan aðgang að flutnings- og dreifikerfinu? Hvernig verður eftirliti sinnt með skilvirkum hætti? Svo mætti áfram spyrja. Hér á eftir verður væntanlega minnst frekar á þessi álitamál.

Góðir fundarmenn.
Gerum okkur grein fyrir því að öruggt og gott raforkukerfi er grundvöllur að uppbyggingu nútíma þjóðfélags. Breytingar eru örar í samfélagi okkar í dag og sífellt verður erfiðara að spá fyrir um þróun mála á þessu sviði eins og öðrum. Það er hins vegar ljóst að við eigum eftir að upplifa miklar breytingar á sviði raforkumála á næstu árum sem munu gera raforkukerfið skilvirkara, opnara og hagkvæmara. Aðeins virk samkeppni í raforkuvinnslu og sölu mun skila þjóðinni aukinni hagkvæmni á þessu sviði í framtíðinni.
Með þessum orðum mínum vonast ég til að hér megi verða frjóar og áhugaverðar umræður sem leiði okkur áfram götuna til góðs við að ná góðri sátt um þetta mikilvæga mál.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta