Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Grein um neytendamál í Morgunblaðinu 20.05.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Stór skref í átt til aukinnar neytendaverndar á Íslandi

Á Alþingi voru nýverið samþykktir fjórir nýir lagabálkar sem allir fela í sér stórtækar og umtalsverðar réttarbætur fyrir neytendur. Neytendaréttur á Íslandi hefur verið í örri þróun á undanförnum árum. Við undirbúning framangreindra mála hefur nú sem fyrr verið höfð náin og góð samvinna við hin Norðurlöndin en löng hefð er fyrir samvinnu Norðurlanda á þessu réttarsviði. Ég tel að rík ástæða sé til að vekja athygli neytenda og alls almennings á þeim nýmælum og horfa til framfara, ekki síst fyrir íslenska neytendur.

Ný lög um lausafjárkaup

Fyrst vil ég nefna að nú hefur Alþingi samþykkt ný lög um lausafjárkaup. Gildandi lög, sem einnig voru árangur norrænnar samvinnu, eru frá árinu 1922 og var því orðið brýnt að endurskoða lögin þannig að þau tækju betur mið af viðskiptaháttum á nýrri öld. Hin nýju lög um lausafjárkaup hafa fjögur megin markmið að leiðarljósi. Í fyrsta lagi að aðlaga íslenska viðskiptalöggjöf breyttum viðskiptaháttum og breyttri þjóðfélagsumgjörð. Í öðru lagi að treysta norræna réttareiningu á sviði kauparéttar. Í þriðja lagi að leiða í lög hér á landi efnisákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu vöru á milli ríkja sem gerður var árið 1980 (s.n. CISG-samningur). Í hinum nýju lögum er því nú í fyrsta sinn sett ákvæði um alþjóðleg kaup en með því er átt við að aðilar sem eiga í viðskiptum hafa atvinnustöð sína í mismunandi ríkjum.
Í fjórða lagi að efla réttarstöðu neytenda en auk eldri reglna sem voru í lögunum frá árinu 1922 um réttarstöðu kaupenda og seljenda hafa nú verið settar margvíslegar sérreglur sem gilda eiga um neytendakaup. Eiga þau við um viðskipti einstaklinga sem kaupa vörur til persónulegra þarfa eða fyrir fjölskylduna. Í lögunum er því að finna ýmsar sérreglur sem veita neytendum betri rétt en þeir hafa notið samkvæmt lögunum frá 1922. Réttur til þess að tilkynna ef um galla er að ræða er lengdur um helming, er nú almennt tvö ár en var áður aðeins eitt ár. Hinsvegar ef um er að ræða sölu á byggingarefni sem ætlaður er verulegur endingartími er frestur til að bera fyrir sig galla allt að fimm ár frá afhendingu. Í lögunum er einnig að finna ákvæði um kærunefnd sem aðilar að lausafjárkaupum geta snúið sér til ef ágreiningur kemur upp og fengið álit hennar á deiluefninu. Ný lög um lausafjárkaup taka gildi 1. júní 2001 en fram til þess tíma er mikilvægt að neytendur og aðilar í viðskiptalífinu kynni sér hinar nýju reglur og réttarstöðu sína samkvæmt þeim.


Lög um þjónustukaup

Frumvarp til laga um þjónustukaup var einnig samþykkt á Alþingi samhliða nýjum lögum um lausafjárkaup. Ákvæði laganna eru nýmæli hér á landi en markmið þessarar lagasetningar er að auka verulega vernd neytenda þegar þeir kaupa þjónustu sem felur í sér að vinna er innt af hendi við lausafjármuni og taka því lögin til hvers kyns viðgerðarþjónustu og önnur þjónustuverk sem tengjast fasteignum, s.s. viðhaldi þeirra o.s.frv. Með aukinni hagsæld hefur hlutur þjónustu af einkaneyslu landsmanna sífellt farið vaxandi og útgjöld heimila til þessara þátta hafa einnig aukist. Mikilvægt er því að í lögum sé kveðið á um réttindi og skyldur aðila að slíkum samningum, s.s. hvenær telst verk gallað sem seljandi þjónustu hefur innt af hendi og hvaða úrræði standa neytendum til boða ef seljandi vanefnir samning sinn um viðgerð, o.þ.h. Hingað til hefur aðeins í litlum mæli verið unnt að beita ákvæðum laga um lausafjárkaup enda taka ákvæði þeirra aðeins til sölu á vörum en ekki þjónustu. Í lögum um þjónustukaup er gert ráð fyrir að unnt sé að leita til kærunefndar komi til ágreinings milli seljanda þjónustu og neytenda. Hér hefur því verið stigið stórt skref til þess að auka vernd neytenda og skýra réttarstöðu seljanda til dæmis þegar farið er með hlut í viðgerð.

Lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga

Neytendur stunda í vaxandi mæli viðskipti á Netinu og framboð á ýmiskonar vörum og þjónustu sem þar er boðin fram eykst stöðugt. Þegar gerð eru kaup á vörum með fjarsölusamningi þá er einkenni slíks samnings að neytandi hefur ekki tækifæri til þess að skoða vöruna með sama hætti og þegar er kaup eru gerð með venjulegum hætti. Í lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga sem Alþingi hefur nú einnig samþykkt er réttarvernd neytenda stórlega bætt þegar kaup eru gerð í fjarsölu til dæmis á Netinu. Í lögunum er kveðið á um ríka upplýsingaskyldu seljenda vöru og þjónustu þegar um er að ræða sölu sem fram fer með fjarsölu, en hið sama á einnig við um þegar vörur eru seldar með svo nefndri húsgöngusölu. Jafnframt er neytendum veittur 14 daga skilaréttur þegar kaup eru gerð með framangreindum hætti og getur hann fallið frá kaupsamningnum innan þess tíma og ber að endurgreiða honum án nokkurs kostnaðar þær greiðslur sem hann kann að hafa innt af hendi. Í lögunum er einnig stemmt stigu við notkun ýmissa fjarskiptaaðferða við fjarsölu, s.s. símbréfa, tölvupósts, o.fl. Til viðbótar ákvæðum sem voru sett í lög árið 1992 um húsgöngusölu hefur nú verið bætt ákvæðum um fjarsölusamninga og er það nýmæli. Ástæða er til þess að hvetja neytendur og seljendur vöru og þjónustu til þess að kynna sér efni þessara nýju laga.

Lög um lagaskil á sviði samningaréttar

Á undanförnum árum hafa viðskipti yfir landamæri aukist stöðugt, ekki síst vegna þess hve þróun rafrænna viðskipta er ör um þessar mundir. Í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum er í undirbúningi frumvarp til laga um rafrænar undirskriftir sem ég hyggst leggja fyrir Alþingi í október n.k. Að margra áliti mun tilkoma rafrænna undirskrifta ýta ennfrekar undir og auka rafræn viðskipti.
Ekki síst vegna sívaxandi alþjóðavæðingar viðskiptalífsins þótti nauðsynlegt að skrásetja ýmsar meginreglur lagaskilaréttar og kveða skýrar á um eftir hvaða landslögum skuli fara ef kemur upp ágreiningur í viðskiptum yfir landamæri. Í lögunum er að finna margvísleg ákvæði sem veita mikilvægar leiðbeiningar undir slíkum kringumstæðum, jafnt fyrir neytendur sem og viðskiptalífið í heild. Sem dæmi um aukna neytendavernd samkvæmt lögunum má nefna að ekki er heimilt að takmarka þá vernd sem neytendur njóta samkvæmt ófrávíkjanlegum lagareglum í því landi sem neytandi býr og treystir því ákvæðið réttarstöðu þeirra sem hér eru búsettir.

Niðurlag

Samþykkt framangreindra laga marka að mínu áliti ákveðin kaflaskil í þróun neytendaréttar á Íslandi. Ljóst er að frekari þróunar er að vænta á þessu sviði á næstu árum og mun verða fylgst náið með framvindu mála á þessu, jafnt hér á landi sem erlendis. Rétt er þó að benda á að mikilvægt er að allir hlutaðeigandi aðilar kynni sér efni þeirra réttarbóta sem nú hafa verið samþykkt á Alþingi og standi vörð um þau réttindi sem þeir njóta að lögum. Það er hagkvæmt fyrir viðskiptalífið og neytendur þegar til lengri tíma er litið.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta