Ný þota Flugleiða bætist í flugflotann
Apríl 2000
Flugleiðum bættist ný þota í flugflotann þegar flugvélin Leifur Eiríksson kom til landsins 26.4.s.l. og var gefið nafn af eiginkonu minni Hallgerði Gunnarsdóttur við hátíðlega athöfn í flugskýli Flugleiða á Keflavíkurflugvelli. Í ræðu minni við það tækifæri vakti ég athygli á mikilvægi flugsins fyrir íslenska ferðaþjónustu. Við eyþjóðin eigum mikið undir því að rekstur flugfélaga okkar gangi vel og almenningur jafnt sem erlendir viðskiptvinir beri traust til þeirra. Þegar ný flugvél bætist í flota Flugleiða er ástæða til að fagna og óska félaginu og starfsmönnum þess allra heilla.
Almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki í flutningum farþega milli landshluta. Á það bæði við um þjónustu við íbúa landsins sem þurfa að fara á milli staða og einnig erlenda ferðamenn sem velja að nota almenningssamgöngurnar.
Með betri vegum, aukinni vetrarþjónustu á þjóðvegunum og fjölgun einkabíla hefur þeim farið fækkandi sem nota almenningssamgöngur milli landshluta. Gildir það jafnt um flugsamgöngur sem rúturnar. Flugleiðum hefur því fækkað og mun fækka enn frekar að öllu óbreyttu. Rekstur sérleyfa hefur dregist saman og er nú svo komið að rekstur þeirra hefur verið að komast í þrot og sum fyrirtæki hafa hætt. Vegna þessarar alvarlegu stöðu efndi samgönguráðuneytið til ráðstefnu í Borgarnesi um almenningssamgöngur. Tókst hún hið besta. Var varpað skýrara ljósi á vanda þeirra sem sem stunda þennan rekstur og einnig kom fram hvaða kröfur eru gerðar til þesarar þjónustu.
Í framhaldi af ráðstefnunni hefur verið unnið að því í ráðuneytinu að leggja á ráðin um lausnir. Nú liggur fyrir annars vegar að samkvæmt nýsamþykktri vegáætlun er gert ráð fyrir auknum stuðningi við sérleyfishafa. Ég hef lagt ríka áherslu á að sérleyfishafarnir endurskoði og hagræði í rekstri sínum og leitist við að gera rekstur hagkvæmari og bæti þjónustuna.
Þá er í undirbúningi að bjóða út flug frá Akureyri til Grímseyjar, Þórshafnar, Vopnafjarðar, Egilsstaða og Ísafjarðar. En einnig milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar yfir veturinn þegar ófært er landleiðina á milli, og frá Reykjavík eða Akureyri til Siglufjarðar. Útboð flugsins fer fram samhliða útboði á sjúkraflugi. Er þess að vænta að því geti fylgt hagræði, bæði fyrir sjúkraflutninga og áætlunarflugið.
Með þessum aðgerðum vona ég að takast megi að bæta almennigssamgöngur í landinu og skapa fyrirtækjunum skilyrði til rekstar.