Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Erindi á fundi um byggðamál á Akureyri 24.05.00-

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Erindi á fundi um byggðamál
í Fiðlaranum á Akureyri, 24.05.00.



Góðir fundarmenn,

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ræða hér á þessum fundi um byggðamálin, sérstaklega undir yfirskriftinni "Í sóknarhug", enda tel ég að það sé einmitt í þeim anda, sem við eigum að starfa að þeim málum. Ég vil sérstaklega þakka atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fyrir að hafa skipulagt þessa fundi í vetur. Sú umræð sem hefur farið fram á fyrri fundum hefur vakið athygli og að mínu viti aukið skilning á sjónarmiðum landsbyggðarinnar.

Fjölmargar spurningar voru settar fram við kynningu á þessum fundi, og mun ég leitast við að koma að þeim eins og kostur er. Einhverju verður þó ósvarað, enda gefst okkur tækifæri til að ræða málin frekar að þessari framsögu minni lokinni.

Stefna Alþingis og ríkisstjórnar í byggðamálum liggur fyrir. Ríkisstjórnin vinnur samkvæmt byggðaáætlun, sem samþykkt var fyrir rúmu ári og gildir út árið 2001. Í byggðaáætlun er tekið á fjölmörgum þáttum er snúa að atvinnumálum, menntamálum og jöfnun lífskjara. Hér er um að ræða málaflokka sem heyra undir mörg ráðuneyti. Það er á ábyrgð einstakra ráðuneyta að framfylgja þeim verkefnum sem undir þau heyra samkvæmt byggðaáætlunni. Það er hins vegar verkefni mitt að fylgja því eftir á vettvangi ríkisstjórnarinnar að byggðaáætlun sé fylgt og hafa frumkvæði að endurskoðun og gerð nýrra byggðaáætlana.

En hvað er það, sem við köllum byggðavanda og hvers vegna rekum við byggðastefnu? Þær miklu breytingar á búsetu fólks, flutningar af landsbyggð og úr dreifbýli til höfuðborgarsvæðis höfum við litið á, sem vanda. Ekki aðeins vanda dreifbýlisins og landsbyggðarinnar heldur vanda þjóðarinnar allrar. Mun fleiri eru nú farnir að sjá og skilja að hin mikla fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar er bæði óheillavænleg og óhagkvæm. Á fundi hér fyrr í vetur vakti borgarstjórinn í Reykjavík athygli á þeim mikla kostnaði sem er samfara mikilli fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu á skömmum tíma. Sama gerði bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi á fundi um atvinnumál sem haldinn var á Ólafsfirði nú í vetur. Á sama tíma og kostnaður höfuðborgarsvæðisins er að aukast eru tekjur sveitarfélaga á landsbyggðinni að dragast saman vegna fækkunar íbúa. Það er því orðið sameiginlegt hagsmunamál sveitarfélaganna að snúa þessari þróun við. Þannig hafa augu æ fleiri opnast fyrir því að byggð í landinu öllu snertir ekki aðeins hagsmuni þeirra, sem á landsbyggðinni búa, heldur landsmenn alla. Að mínu viti er þessi sameiginlegi skilningur afar mikilvægur og ætti að gera okkur auðveldara fyrir um að ná samstöðu um aðgerðir til að sporna við þessari þróun.

Við höfum nokkur tæki til að beita til að framfylgja byggðastefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Þar má fyrst nefna Byggðastofnun. Árið 1985 voru fyrst sett lög um starfsemi Byggðastofnunar. Talverðar breytingar voru þó gerðar á þeim lögum í tengslum við flutning á yfirstjórn stofnunarinnar frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis um síðustu áramót. Með hinum nýju lögum er lögð mikil áhersla á að Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að auka samstarf sitt við allt stoðkerfi atvinnulífsins og að stofnunin taki virkan þátt í að þjóna þörfum þeirra fjölmörgu sem til hennar leita.

Starfsemi ríkisstofnana þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Það á ekki síst við um stofnun eins og Byggðastofnun. Við eigum að opin fyrir því að gera breytingar og jafnvel að leggja niður stofnanir ef við teljum að hægt ná markmiðum okkar með betri hætti. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skipan þessara mála í löndunum í kringum okkur. Sum lönd hafa verið að sameina alla atvinnuþróunarstarfsemi undir einn hatt. Nægir í því sambandi að nefna Noreg en þar voru gerðar umtalsverðar skipulagsbreytingar sem komu til framkvæmda í upphafi árs 1993. Breytingarnar í Noregi fólu það m.a. í sér að fjármunir sem áður voru nýttir til atvinnuþróunastarfsemi á vegum einstakra ráðuneyta eða sjóða sem störfuðu á þeirra vegum voru settir undir eina stofnun. Þannig var í raun safnað á einn stað öllu því fé sem norska ríkið ver til atvinnuþróunarstarfsemi þar í landi. Þeir sem óska eftir þjónustu þurfa því einungis að fara á einn stað en ekki á marga - eins og tíðkast hér hjá okkur. Þetta fyrirkomulag getur – ef rétt er á málum haldið - tryggt betri þjónustu og yfirsýn varðandi þær ráðstafanir sem í boði eru. Fyrir rúmlega 10 árum var stofnuð sérstök byggðastofnun á Nýfundnalandi. Þessi stofnun var lögð niður fyrir nokkrum árum þannig að hún starfaði einungis í 5-6 ár. Þess í stað var sett á laggirnar sérstakt byggðamálaráðuneyti sem hefur bein og milliliðalaus samskipti við atvinnuþróunarfélög sem starfa í héröðum. Það vill svo til að byggðamálaráðherra Nýfundnalands er staddur hér á Akureyri í dag. Ég mun eiga fund með honum síðar í dag og ræða sérstaklega við hann um skipulag byggðamála þar í landi.

Spurt er hvort beita eigi sértækum lausnum í byggðamálum. Því er ekki að leyna að víða í Evrópu er beitt styrkjum til stofnunar fyrirtækja á tilteknum svæðum. Í því sambandi má nefna Noreg en þar í landi geta fjárfestingarstyrkir til stofnunar fyrirtækja numið allt upp í 50% af kostnaði. Hæstu styrkirnir eru í Norður-Noregi. Ef við tækjum ákvörðun um að veita styrki til stofnsetningar fyrirtækja sem starfa á landsbyggðinni þá tel ég að við þyrftum að fara mjög varlega í slíkum málum. Það þjónar ekki hagsmunum landsbyggðarinnar til lengri tíma að koma þar á fót atvinnustarfsemi sem ekki getur borið sig án styrkja. Með því móti værum við e.t.v. að stuðla að flutningi láglaunastarfa til landsbyggðarinnar. Ég held að allir geti verið sammála um að markmiðið hlýtur að vera að stuðla frekar að því að það verði til hálaunastörf á landsbyggðinni.

Á fyrsta ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn verður hér á Akureyri þann 7. júní n.k. verður sérstaklega fjallað um atvinnuþróunarstarfsemi í Noregi og þær aðgerðir sem stjórnvöld þar í landi beita til að stuðla að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.

Ríkisvaldið hefur einnig möguleika til að beita sínu afli í þágu byggðar, með öðrum afskiptum af atvinnulífinu, en í gegnum Byggðastofnun. Opinberir sjóðir eru enn fjölmargir og spyrja má hvort ekki sé rétt að sameina einhverja af þeim.

Í dag má segja að allt of lítil samhæfing eigi sér stað milli ráðuneyta og stofnana, í málum, sem tvímælalaust teljast til byggðamála. Þar má t.d. nefna vega- og jarðgangnaáætlun. Við gerð hennar ætti auðvitað að ganga út frá samþættri byggðastefnu stjórnvalda, við útdeilingu fjármuna til þessara þátta ætti að liggja til grundvallar áherslur í byggðamálum. Það sama á í raun við um alla opinbera þjónustu ríkisins. Það er t.d. alveg tómt mál að tala um það að koma upp sterkum byggðakjörnum ef hið opinbera gerir ekki samræmdar áætlanir um uppbyggingu opinberrar þjónustu á hinum einstökum landssvæðum. Hér er verk að vinna fyrir ríki og sveitarfélög.

Í byggðaáætlun Alþingis, sem ríkisstjórninni ber að vinna eftir, er mikil áhersla lögð á menntamálin. Ég er reyndar sannfærð um að gott framboð menntunar á háskólastigi, sé ein grunnforsendan fyrir sterkum byggðakjörnum á landsbyggðinni. Við verðum að laða ungt menntafólk til starfa á landsbyggðinni og reynslan hér á Akureyri sýnir svo ekki verður um villst að staðsetning háskóla skiptir þar sköpum. Í byggðaáætlun Alþingis er kveðið á um að bjóða eins fljótt og verða má upp á nám á háskólastigi á Austurlandi og Vestfjörðum. En í þessum málaflokki þarf einnig samþættingu milli ráðuneyta. Menntastefna og forgangsröðun í menntakerfinu hefur veruleg áhrif á byggðaþróun, og framgang byggðastefnu.

Sveitarstjórnir eru auðvitað mikilvægt tæki, í þeirri baráttu, sem byggðamálin eru. Ég tel að það þurfi að hraða sameiningu sveitarfélaga. Þau þurfa að stækka, svo þau geti betur sinnt verkefnum sínum og e.t.v. tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu. Jafnframt þarf að laga tekjustofna sveitarfélaganna, en styrking sveitarstjórnarstigsins getur haft veruleg áhrif á þróun byggðar.

Ég tel að það sé farsælla að stjórnvöld einbeiti sér að almennum aðgerðum í byggðamálum, bæti starfsskilyrði atvinnulífsins, beiti sér fyrir sterkara sveitarstjórnarstigi, aðgengi að menntun og háskólagengnu starfsfólki og bættum búsetuskilyrðum, en að sértækum aðgerðum verði beitt í minna mæli. Með sértækum aðgerðum á ég við fjárhagslegan stuðning við einstök fyrirtæki.

Ég legg áherslu á að byggðastefna á ekki að snúast um það að koma í veg fyrir að fólk flytji frá einum stað til annars. Byggðastefna á að snúast um það að vekja áhuga fólks á búa á landsbyggðinni. Við verðum að tryggja að ungt menntafólk setjist að á landsbyggðinni. Markvissasta leiðin er að auka nám á háskólastigi á landsbyggðinni. Þá þurfa sveitarfélög og fyrirtæki að vera vakandi og hvetja ungt fólk sem fer til náms utan heimabyggðar til að koma aftur.

Við eigum einnig að stuðla að þekkingaryfirfærslu, með endurmenntun eða aukinni fjölbreyttni í atvinnulífinu. Fjarvinnsla er gott dæmi um þekkingaryfirfærslu, þar sem ný atvinnutækifæri skapa einnig nýja þekkingu starfsmanna. Mér finnst stundum eins og sumir telji að fjarvinnsla sé eingöngu innsláttur á gögnum. Þessu fer víðsfjarri. Ég hef t.d. heyrt af fyrirtækinu Element á Sauðarkróki sem er almennt hugbúnaðarfyrirtæki og nýtir sér fjarvinnslutækni til að sinna verkefnum um allt land á sviði hugbúnaðargerðar. Þetta fyrirtæki og mörg önnur eru lýsandi dæmi um það sem hægt er að gera þar sem duglegt og framsýnt fólk velst til forystu.

Hvað varðar flutning ríkisstofnana út á land þá hef ég ákveðið að láta fara fram faglega úttekt á starfsemi allra stofnana sem starfa á vegum minna ráðuneyta til að kanna hagkvæmni þess að flytja verkefni út á land. Þessi vinna er í fullu samræmi við þær áherslur sem settar eru fram í stefnumótandi byggðaáætlun Alþingis en þar segir að hvert ráðuneyti eigi að leggja fram tillögur varðandi fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þegar þessari hagkvæmni úttekt er lokið mun ég kynna niðurstöðuna fyrir ríkisstjórn, jafnframt því sem ég mun leggja fram áætlun minna ráðuneyta um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þessari vinnu á að ljúka næsta haust. Ekki hefur verið gert ráð fyrir að opinber útgjöld verði aukin til að ná fram því markmiði að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Þetta þýðir að sjónarmið hagkvæmni þurfa að ráða enda er það eðlilegt að sömu lögmál gildi fyrir opinberan rekstur og einkarekstur hvað þetta varðar.

Sú mikla áhersla sem lögð er á fjölgun opinberra starfa og verkefna í byggðaáætlun Alþingis þarf ekki að koma neinum á óvart sem til þekkir á landsbyggðinni. Miklar breytingar eru að verða í atvinnuháttum sem stafa af mikilli hagræðingu í sjávarútvegi annars vegar og rekstrarvanda í landbúnaði hins vegar. Þá eru blikur á lofti í ferðamálum og samkeppnisgreinum vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á raungengi krónunnar á síðustu mánuðum og misserum. Margt fólk á landsbyggðinni býr því við óöryggi í atvinnumálum og gerir kröfu um réttlátari skiptingu starfa og verkefna sem kostuð eru með opinberu fé. Þá er gríðarlega mikilvægt að reyna að stuðla að fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en það er forsenda fyrir því að okkur takist að snúa við þeirri þróun búferlaflutninga sem við höfum séð á síðustu árum. Ýmislegt jákvætt er þó að gerast þessa dagana. Við höfum t.d. séð að einkafyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér upplýsingatæknina til að láta vinna verkefni á landsbyggðinni. Nýleg dæmi eru fyrirtæki á sviði fjármálaþjónustu og trygginga. Þessi fyrirtæki leita hagkvæmustu lausna, og af hagkvæmnisástæðum hafa þau stigið þessi skref. Það sama á auðvitað að gilda í opinberum rekstri, að leita hagkvæmra leiða. Opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins hafa, sem betur fer, einnig verið að gera svipaða hluti og ég fullyrði að meira muni gerast í þessum málum á næstu vikum.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni getur átt sér stað með flutningi einstakra verkefna, t.d. með einkavæðingu, flutningi stofnana eða staðsetningu nýrra stofnana og verkefna á landsbyggðinni. Eins og sjálfsagt öllum hér er kunnugt hef ég ákeðið að láta fara fram hagkvæmniathugun á því að höfuðstöðvar Rarik verði fluttar til Akureyrar og sameinaðar í nýju veitufyrirtæki. Forsenda flutnings er hagkvæmni í rekstri. Hugmyndin hefur víða hlotið góðar undirtektir, og vil ég sérstaklega fagna jákvæðum viðbrögðum sveitarstjórna á landsbyggðinni við þessum hugmyndum. Oft hefur mér þótt skorta á samstöðu þeirra, þegar á hefur reynt í þessum efnum, en ég er sannfærð um að með samstöðu sveitarfélaga í einstökum málum, verði baráttan einfaldari. Ég á einnig von á því að stjórn Byggðastofnunar leggi til að sú stofnun verði flutt til Sauðárkrók. Ráðuneytið mun kanna hagkvæmni þess að flytja stofnunina komi slík tillaga frá stjórninni - en ég get lýst þeirri skoðun minni, að ef Byggðastofnun getur ekki starfað á landsbyggðinni, getum við nú bara gleymt því að hægt sé að reka opinbera stofnun þar.

Undanfarin ár hefur verið litið á orku- og stóriðjumál, sem byggðamál, enda er það stefna ríkisstjórnarinnar að uppbygging orkufreks iðnaðar skuli eiga sér stað við orkuveiturnar. Í morgun var fjölmiðlum kynnt ný yfirlýsing stjórnvalda, Landsvirkjunar, Reyðaráls, Norsk-Hydro og Hæfis um byggingi álvers í Reyðarfirði og virkjun fallvatna norðan Vatnajökuls. Samkvæmt þessari yfirlýsingu verður unnið að hagkvæmniathugunum, samningagerð og mati á umhverfisáhrifum næstu mánuði svo unnt verði að taka ákvörðun um byggingu álvers fyrir 1. febrúar árið 2002. Í fyrsta áfanga verði þá byggt 240 þúsunda tonna álver, sem verði fljótlega stækkað í 360 þúsund tonn. Virkjað verður við Kárahnjúka, og auk þess byggð miðlunargöng af Fljótsdalsheiði. Í heildina er um að ræða fjárfestingu upp á 160 til 170 milljarða króna, og í 360.000 tonna álveri í Reyðarfirði munu skapast störf fyrir milli fimm og sexhundruð manns.

Ég fullyrði að samlegðar áhrif af byggingu álvers í Reyðarfirði yrðu gríðarleg og hér yrði því um eitt mesta byggðamál að ræða í okkar atvinnusögu.

Hér á Norðurlandi eru auðvitað einnig tækifæri í tengslum við orkulindir svæðisins. Ekki þarf þó að einblína á stóriðju í því sambandi, en það væri óneitanlega vítamínsprauta fyrir svæðið ef hér fengist stór fjárfestir til framkvæmda. Að þessum málum er unnið í samvinnu heimamanna og Fjárfestingastofunnni, orkusviði.

Spurt er hvort stórfellt laxeldi geti orðið stóriðja Eyjafjarðar. Ég treysti mér ekki til að leggja mat á það. Ég hef hins vegar tekið eftir því að Norðmenn eru nú komnir alla leið norður í Finnmörku með sitt laxeldi. Þeir virðast því hafa náð tókum á því að stunda laxeldi í mun kaldari sjó en áður var talið hægt. Hvers vegna ætti þá ekki að vera hægt að stunda laxeldi með góðum árangri hér í Eyjafirði? Takmarkað hafsvæði við stendur Noregs og Færeyjar setur þeim mikla vexti sem hefur verið í fiskeldi í þessum löndum þröngar skorður. Eins og staðan er nú höfum sýnist mér að við höfum næg hafsvæði. Þrátt fyrir að illa hafi tekist til í fiskeldi hér á landi fyrir rúmum 10 árum þá þarf það ekki að þýða að við eigum að dæma okkur úr leik í þessari mikilvægu atvinnugrein. Ef okkur tækist vel til þá yrði hér um mjög mikilvæga atvinnugrein að ræða fyrir strandbyggðir landsins.

Góðir fundamenn, ég hef hér að framan tæpt á nokkrum atriðum sem ég tel að skipti máli í umræðunni um byggðamálin. Ég vil skapa opna og upplýsta umræðu í landinu öllu um þennan málaflokk og leita leiða til að ná samstöðu um stefnu og aðgerðir sem hafa varanlega þýðingu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta