Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. júní 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp v. Europe 500- 16.06.00 -

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp í mótttöku til heiðurs íslenskum frumkvöðlum á lista Europe}s 500


Ágætu gestir

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að afhenda viðurkenningu þeim íslensku frumkvöðlum sem náðu þeim glæsilega árangri að komast á lista yfir 500 framsæknustu fyrirtæki í Evrópu. Það er ekki auðhlaupaverk að komast á þann lista. Valið er úr milljónum fyrirtækja í allri Evrópu og lýtur það ströngum skilyrðum um vöxt og uppruna hans, svo sem eignaraðild frumkvöðuls, sjálfstæði, veltuaukningu, stærð og aldur fyrirtækisins. Þetta er í fjórða sinn sem valið á 500 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu fer fram. Í öll skiptin hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og Samtök iðnaðarins stutt þetta starf með gagnasöfnun og kynningu.

Í ár eru það átta íslenskir frumkvöðlar í sex fyrirtækjum sem komast á listann. Fjórir frumkvöðlanna hafa verið áður á lista Europe}s 500; þau Arngrímur og Þóra í Atlanta, Friðrik í Tölvumyndum og Rúnar í Tæknivali. Hinir fjórir frumkvöðlarnir eru nýir á listanum, þeir Guðjón og Skúli í Oz, Ólafur hjá Hugviti og Guðbjartur hjá Landsteinum.

Það verður að teljast afar glæsilegur árangur að sex íslensk fyrirtæki skuli komast inn á þennan lista. Ég tel að það sé merki um sterka frumkvöðlamenningu á Íslandi og þann dugnað og kraft sem býr í þjóðinni. Frumkvöðlar skapa þúsundir starfa og margháttaðar tekjur fyrir þjóðarbúið. En fjöldi íslenskra fyrirtækja á listanum er einnig merki þess að íslenskir frumkvöðlar hafa nýtt sér til fullnustu þann stöðugleika og efnahagslega meðbyr sem við Íslendingar höfum notið í mörg ár. Samkeppnishæfni þjóðarbúsins er meiri nú en hún hefur nokkurn tímann verið áður. Þetta sést meðal annars í nýlegri skýrslu IMD um samkeppnishæfni 47 helstu iðnríkja heims. Ísland lenti í 10. sæti í könnuninni árið 2000 og hefur á fjórum árum hækkað um 15 sæti á þessum lista yfir samkeppnishæfni ríkja.

Ágætu gestir. Ég ætla ekki að þreyta gesti hér með langri ræðu. Ég á hér eftir að afhenda frumkvöðlunum viðurkenningar sínar og síðan ætlum við að taka upp léttara hjal yfir veitingum. Ég vil í lokin óska frumkvöðlunum til hamingju með góðan árangur. Ég þakka fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta