Opnun atvinnulífssýningar á Hvammstanga, 24.06.00 -
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp við opnun atvinnulífssýningar á Hvammstanga,
24. júní 2000
24. júní 2000
Góðir sýningargestir,
Það er mér mikil ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag við opnun þessarar glæsilegu atvinnulífssýningar. Þessi sýning endurspeglar vel þá möguleika, sem landsbyggðin á, þótt á móti hafi blásið undanfarna áratugi. Fjölbreytni sýnenda er merki þess að fjölbreytileiki atvinnulífs staðarans er að aukast. Það er enda nauðsynlegt. Við höfum búið við alltof einhæft atvinnulíf á landsbyggðinni, þar sem undirstaðan hefur verið í landbúnaði og sjávarútvegi. Öll þekkjum við til fækkunar starfa í þessum höfuðatvinnugreinum, sökum hagræðingar eða samdráttar.
Almennt má segja að breytingar á viðskiptaháttum hafi stórbreyst á undanförnum árum. Hömlur á viðskipti á milli landa hafa stórlega minnkað hin síðari ár, og er nú svo komið að heimurinn er allur að verða meira og minna að einu markaðssvæði. Af eðlilegum ástæðum hefur ýmislegt breyst við þetta. Sumt hefur glatast og fylgir því alltaf nokkur eftirsjá. Því verður þó varla á móti mælt að meira hefur áunnist við breytingarnar og hefur ávinningur almennings, -eða neytandans- líklega verið mestur. Þótt ekki sé litið yfir lengra tímabil er síðasta áratuginn sjáum við gríðarlegar breytingar á lífháttum okkar og umgjörð. Fyrir flesta er umbylting smásölumarkaðarins sennilega eftirtektarverðust, enda hefur vöruúrvalið margfaldast og vöruverðið stórlækkað.
Breytingunum hefur fylgt bætt afkoma og nýir möguleikar til endurnýjunar atvinnulífsins. Vöxturinn hefur verið mestur í þjónustugreinum og greinum sem byggja á þekkingu. Nú er farið að tala um - ,,þekkingarþjóðfélagið".
Ég geri þetta að umtalsefni hér í dag vegna þess að þessi sýning - ATVINNA 2000 - endurspeglar að nokkru leyti þessa umbreytingu sem orðið hefur í þjóðfélaginu hin síðari ár. Hér er hvoru tveggja lögð áhersla á framleiðslugreinar og þjónustu. Hér eru saman komin fyrirtæki í ferða- og tölvuþjónustu, matvælaframleiðslu og handverki, iðnaði og þjónustu.
Ágætu gestir,
Um leið og ég óska öllum þeim til hamingju, sem standa að þessari sýningu, legg ég fram þá von mína að við hin, sem erum hingað komin til að skoða, njótum vel. Þessi sýning er merki um framsækni í atvinnulífi og stolt þátttakenda yfir eigin störfum.
Ég lýsi atvinnulífssýninguna ATVINNA 2000 - setta!