Útflutningsaukning og hagvöxtur, útskrift þátttakenda, 28.06.00 -
Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp ráðherra í tilefni af útskrift þátttakenda úr verkefninu
"Útflutningsaukning og hagvöxtur" í Skála Hótel Sögu
miðvikudaginn 28 júní 2000 kl. 17:00.
"Útflutningsaukning og hagvöxtur" í Skála Hótel Sögu
miðvikudaginn 28 júní 2000 kl. 17:00.
Ágætu samkomugestir.
I.
Mér er það sönn ánægja að taka þátt í þesum atburði sem markar lok tíu mánaða vinnu við gerð markaðsáætlana á vegum verkefnisins "Útflutningsaukning og hagvöxtur". Að þessu sinni eru það fulltrúar frá níu framsæknum fyrirtækjum sem ljúka þessum áfanga. Ef miða má við árangur fyrirtækjanna sem tekið hafa þátt í verkefninu á undangengnum tíu árum, er líklegt að dagurinn marki einnig viss tímamót í rekstri þeirra fyrirtækja sem nú hafa lokið við gerð nýrra stefnumótandi markaðsáætlana. Við getum t.d. litið um öxl, nokkur ár aftur í tímann, og reynt að sjá fyrir okkur fyrri hópa sem hafa staðið í ykkar sporum. Þar er meðal annarra góðra manna að finna fulltrúa frá Össuri og Bakkavör. Vegsemd þeirra hefur verið all nokkur á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að þeir luku við gerð markaðsáætlana sinna og hafa bæði þessi fyrirtæki m.a. hlotið Útflutningsverðlaun forseta Íslands.
II.
Fyrir nokkrum árum síðan var haft á orði að einn eftirtektarverður munur á Dönum og Íslendingum lýsti sér í því að ef þú rækist á Dana í fjarlægu landi þá væri hann að selja afurðir sínar en ef þú rækist á Íslending á sama stað þá væri hann að kaupa vörur til að flytja heim. Einhver fótur var vafalaust fyrir þessari sögu þótt með óbeinum hætti kunni að hafa verið. Að minnsta kosti fannst mörgum að árangur okkar af útflutningi á öðru en fiskafurðum væri heldur rýr. Nýjar greinar sem komu fram á þessum tíma náðu oft takmörkuðum árangri í útflutningi og okkar litli heimamarkaður gaf ekki tækifæri á miklum vexti. Ný fyrirtæki byggðu gjarnan á einum frumkvöðli sem e.t.v. hafði góða tæknilega menntun og - hugmynd og hæfni til að framleiða nýja vöru. Þegar kom að markaðssetningunni var það ekki óalgengt að frumkvöðullinn taldi sig geta annast markaðssetninguna einnig enda væri björninn unninn þegar varan lá á borðinu í frumgerð sinni. Reynslan varð því miður ekki alltaf í samræmi við væntingarnar. Þegar á hólminn var komið var það skortur á rekstrarlegri og markaðslegri þekkingu sem reið mörgum þessara fyrirtækja að fullu. Þar með glötuðust ómæld tækifæri og verðmæti fóru í súginn.
Þetta hefur án efa breyst til batnaðar hin síðari ár. Engu að síður er það álit margra sem fylgjast með þróun atvinnulífsins hér á landi að enn sé langt í land að rekstrarleg og markaðsleg þekking innan fyrirtækjanna sé nægjanleg. Þetta er einkum bagalegt þegar um er að ræða fyrirtæki sem eiga erindi og möguleika á að vaxa og dafna við útrás á erlenda markaði.
Allt viðskiptalegt umhverfi fyrirtækjanna hefur tekið gríðarlegum breytingum hin síðari ár. Orsakir þess má fyrst og fremst rekja til stórstígra framfara í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem sett hefur spor sín á vísindi og tækni, - atvinnulífið, - viðskiptahætti og í raun - þjóðfélagið allt. Á sama tíma hefur losnað mjög um tæknilegar viðskiptahindranir og flestir eru sammála um að ríkisstyrkir og verndartollar séu á hröðu undanhaldi. Í alþjóðlegu samhengi er þetta okkur sérstaklega hagstætt því við höfum lengi þurft að glíma við ójafna samkeppni við niðurgreiddar vörur annarrra þjóða.
Hér á heimavelli okkar hefur umbreyting fjármagnsmarkaðarins hin síðari ár gjörbreytt umgjörð atvinnulífsins og býr nýsköpunin nú við betri skilyrði en nokkru sinni fyrr. Fjárfestar eru mun opnari fyrir framsæknum nýsköpunarhugmyndum og mannauðurinn er orðinn að raunverulegri eign sem gerir veðbönd í steinsteypu léttvæg miðað við það sem áður var. Einnig er mikilvægt að áhættufjárfestum í hópi einkaaðila hefur stórfjölgað sem gerir það að verkum að atvinnulífið hefur miklu greiðari aðgang að áhættufé en áður. Einkum er þessi breyting áberandi hvað varðar fjármögnun frumstigs nýsköpunarinnar og er t.d. áberandi hversu áhættufjárfestar eru mun fúsari nú en áður að taka þátt í að fjármagna viðskiptahugmyndir sem jafnvel eru á rannsóknar- og þróunarstigi.
III.
Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá að helmingur þátttakenda að þessu sinni kemur utan af landi, enda brýn þörf á að styrkja atvinnulífið þar sérstaklega.
---------
Ég vil nú biðja fulltrúa fyrirtækjanna níu að koma hér nær til móttöku skírteina til staðfestingar á þátttöku í verkefninu "Útflutningsaukning og hagvöxtur".
Þessi fyrirtæki eru:
- Ásprent POB.
- Gullsmiðja Reykjarvíkur
- Prjónarverksmiðjan Glófi
- Íshreinn
- Leðuriðjan
- Pottagaldrar
- Sjávarleður
- Skúli Guðbjarnason og
- Þingból.