Ávarp við setningu Landsmóts hestamanna 4. júlí 2000
Ávarp
Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra
við setningu Landsmóts hestamanna
4. júlí 2000
Forseti Íslands. Góðir landsmótsgestir, innlendir og erlendir. Gleðilega hátíð!
Framundan eru dýrðardagar hér í Víðidalnum. Ég flyt ykkur góðar kveðjur frá ríkisstjórn Íslands.
"Hesturinn skaparans meistaramynd
er mátturinn, steyptur í hold og blóð.
Sá sami sem bærir vog og vind
og vakir í listanna heilögu glóð."
Þannig kvað Einar Benediktsson.
Íslenski hesturinn er gersemi sem á sér aðdáendur um víða veröld. Hér heima er hann þjóðareign og treystir tengsl bæjar- og borgarbúanna við sveitina og landið sjálft. Hesturinn er ævintýrið í lífi margra.
Það er fjölhæfnin og töltið þíða, það er persónuleikinn sem hann ber.
"Hvert spor er sem flug gegnum foss eða rok
sem slær funa í hjartað og neista úr grjóti."
Það eru þúsundir erlendra manna sem elska Ísland og íslenska sveit í gegnum hestinn.
Ríkisstjórn Íslands ákvað á síðasta ári að styrkja hrossaræktina og gerði það á mörgum sviðum. Tilgangurinn er að taka á með þeim sem veðja á hestinn sem atvinnutæki og að þakka frábæran árangur ræktunarmanna.
Ég fann það best í Rieden í Þýskalandi í fyrra á heimsmeistaramótinu, að það eru fleiri en bítlarnir sem eiga sér aðdáendur, fólk kom alls staðar að til að verða vitni af árangri og afrekum íslenska hestsins - ógleymanleg stund.
Við eigum upprunaland hestsins og verðum að vera Mekka hans og brautryðjendur í framtíðinni.
Gæðastýrður ræktunarbúskapur er boðskapur dagsins. Árangur næst með elju - enginn má misþyrma landinu kæra með ofbeit. Færri hross og betri er markmiðið.
Íslenskir hestamenn hafa náð miklum árangri og eru í fremstu röð í reiðlist. Hesturinn er segull sem dregur hingað ferðamenn, bæði til útreiða um landið og til viðskipta.
Einstaklingar og fyrirtæki veðja á hestinn, hestabúgarðar rísa, bæjar- og sveitafélög skynja hann sem vin og tækifæri fyrir fjölskylduna alla.
Hólaskóli, ásamt einkareknum skólum, eru einu skólarnir hér sem draga að sér erlenda nemendur í stórum stíl. Á næstunni mun hesturinn og hestamenn verða í öndvegi þegar erlendir tignargestir heimsækja landið. Þessari hugmynd hefur verið vel tekið af forsætisráðherra og ríkisstjórn og sama er að segja um forseta Íslands.
Ágætu landsmótsgestir. Hér verður líf og fjör næstu daga.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist
ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök
lát hamstökkva svo draumar þíns hjarta rætist.
Ísland á eina þjóðarsál á stórum stundum. Á þessum dögum slær þjóðarhjarðað með íslenska hestinum. Heilir hildar til, heilir hildi frá, hestamenn.