Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júlí 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Gangsetning orkustöðvar Orkuveitu Húsavíkur, 22.07.00. -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við gangsetningu orkustöðvar Orkuveitu Húsavíkur

22. júlí 2000



Forseti Íslands, góðir Húsvíkingar og gestir.

Ég vil í upphafi máls míns óska Húsvíkingum til hamingju með stórafmæli kaupstaðarins, en um leið vil ég lýsa yfir ánægju minni með að fá tækifæri til þess hér í dag að gangsetja hina nýju orkustöð Orkuveitu Húsavíkur, sem markar tímamót í nýtingu jarðhitans á þessu svæði.

Það var fyrir ári síðan, hinn 19. júlí 1999 að þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, veitti Orkuveitu Húsavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuvinnslu með allt að 2 MW afli. Hitaveitan á Húsavík er að stofni til um 30 ára, en þegar fyrir lá að endurnýja þurfti aðveituæðina frá Hveravöllum til Húsavíkur var um leið könnuð hagkvæmni þess að nýta hinn mikla hita sem jarðhitasvæðið gefur til raforkuframleiðslu með því að nota hverfla til þess og þannig nýtist hitinn á bilinu 120°C niður í 80°C til að framleiða raforku. Miðað við að rennsli Hitaveitunnar verði um 80 l/s verður unnt á næsta áratug að framleiða allt að 2 MW afl í hinni nýju orkustöð. Hér er því stigið enn eitt skrefið til að nýta betur þá möguleika og tækifæri, sem jarðhiti landsins gefur okkur.

Á árinu 1970 bjó um helmingur þjóðarinnar við húshitun frá jarðvarma. Á árabilinu frá 1975 til þessa dags hafa orðið mikil umskipti hvað varðar nýtingu innlendra orkugjafa til hitunar þannig að í dag njóta um 86% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 12% frá rafhitun og um 2% njóta olíuhitunar. Stjórnvöld telja að enn megi gera betur og hefur frá árinu 1998 verið unnið markvisst að jarðhitaleit á svokölluðum köldum svæðum með tilraunaborunum og öðrum markvissum rannsóknum. Þetta átak hefur þegar leitt til þess að ný byggðarlög hafa tengst hitaveitum þar sem áður var talið að ekki væri heitt vatn að finna.

Aukin nýting jarðhitans hefur ekki haft lítil áhrif á lífskjör okkar Íslendinga. Sparnaður við að nýta jarðhita til húshitunar miðað við að flytja inn olíu í þeim tilgangi nemur í dag tæplega átta miljörðum króna á ári og er þá ekki meðtalinn hagnaður við raforkuframleiðslu, iðnaðarframleiðslu, ylrækt auk margháttaðra þæginda, sem þessi gæði landsins hafa veitt okkur og erfitt er að meta til efnislegs hagnaðar eða ábata.

Við eigum enn ótalda möguleika á nýtingu þessarar auðlindar. Umfangsmiklar rannsóknir eru nú hafnar á nýtingu hveraörvera og iðnaðarráðuneytið hefur veitt tveimur fyrirtækjum leyfi til rannsókna og hagnýtingar á hveraörverum og erfðaefnum þeirra á allt að 30 afmörkuðum svæðum. Fyrir örfáum árum hvarflaði ekki að nokkrum manni hér á landi að í örveiruflóru hveravatnsins væri að finna mikilvæga auðlind fyrir líftækniiðnaðinn, sem miklar vonir eru bundnar við í dag. Frekari verkefni varðandi nýtingu jarðhitans til iðnaðarnotkunar eru til athugunar og með aukinni nýtingu háhitans opnast fleiri möguleikar á því sviði, en nauðsynlegt er að við reynum að nýta orku jarðhitans eins vel og kostur er til hagbóta fyrir þjóðina.

Fyrir rúmum 120 árum dvaldist ungur piltur í föðurgarði hér í grenndinni, en hann hafði um nokkur misseri kvalist af veikindum, meðal annars vegna kulda í baðstofunni á bænum, sem raunar var kölluð Kaldidalur, trúlega vegna þess hve gisin hún var og hélt illa hita. Þetta var þó sjálft sýslumannssetur héraðsins, á Héðinshöfða. Þar þrifust menn varla að vetrarlagi sökum vosbúðar. Slíkur var aðbúnaður á betri manna bæjum á þessum tíma. sýslumannssonurinn ungi komst þó til heilsu á ný og varð síðar um tíma settur sýslumaður hér í héraði eins og kunngt er. Ævisaga Einars Benediktssonar og náttúruljóð hans um perlur héraðsins sýna glögglega hve mikla tryggð hann hélt við þetta svæði alla tíð, þó svo að hann hefði löngum haft í ýmsu öðru að snúast hérlendis og erlendis. Öðru fremur beindist þó hin veraldlega iðja hans að því að sannfæra landa sína um að það bæri, eins og segir í kvæðinu Dettifoss, "bæta lands og lýðs vors kjör" með því að nýta orkuauðlindir landsins.

Húsvíkingar hafa verið í fararbroddi varðandi nýtingu jarðhitans til iðnaðarframleiðslu, eins og flestum landsmönnum er kunnugt um, og að því leyti verið sporgöngumenn fyrrum sýslumanns og skáldjöfurs ykkar og það er vel. Hin nýja orkustöð mun því án efa efla og styðja mjög mannlíf, atvinnulíf og allt byggðarlagið til frekari dáða í framtíðinni og bæta ykkar kjör.

Um leið og ég óska Húsvíkingum til hamingju með hina nýju aðveitu hitaveitunnar og orkustöð vil ég leyfa mér að ljúka máli mínu með tilvitnun í tvær ljóðlínur Einars Benediktssonar, sem hann orti fyrir nákvæmlega 100 árum til að fagna þeirri öld, sem við nú kveðjum, í stórbrotnu kvæði sínu Aldamót.
Mér finnst í hnotskurn þessar ljóðlínur kvæðisins eiga við í dag og endurspegla þá hugsjón er Einar barðist fyrir og einnig þann hug er hann bar í brjósti til framtíðar byggðar í landinu og ekki þá síst heimahéraðs síns um tveggja áratuga skeið, sem hann hafði svo sterkar taugar til:
Í kvæðinu segir:
      Orka með dyggð reisi bæi og byggð,
      hver búi að sínu með föðurlands tryggð.

Þessar ljóðlínur segja allt sem segja þarf í dag.
Til hamingju Húsvíkingar!

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta