Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. ágúst 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á aðalfundi Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Selfossi 23. ágúst 2000

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á aðalfundi Landssambands kúabænda
haldinn á Hótel Selfossi 23. ágúst 2000



Íslenskur landbúnaður er atvinnugrein í mikilli þróun. Alla síðustu öld hafa breytingar verið örar. Veldur þar mestu aukin tæknivæðing, þjóðfélagsbreytingar, ytra áreiti s.s. alþjóðasamningar, og síðast en ekki síst er það atorka og framsýni íslenskra bænda sem þessu veldur.

Áhrif þessara breytinga eru eðlilega mismikil innan einstakra búgreina. Við sjáum vöxt og framgang og við mætum erfiðleikum vegna samdráttar. Þessar breytingar hafa víðtæk áhrif á byggð og búsetu í landinu og því nauðsyn nú sem aldrei fyrr að gefa gaum að fjölbreyttu hlutverki landbúnaðarins. Hlutverk landbúnaðarins er ekki eingöngu það að sjá okkur fyrir nauðsynjum, landbúnaðurinn er undirstaða fjölbreyttrar atvinnusköpunar og hann hefur skyldur gagnvart landinu og lífríki þess, samspili manns og náttúru.

Nautgriparæktin hefur ekki farið varhluta af breytingum undanfarinna áratuga en trúlega hafa þær aldrei verið jafn örar og nú. Ég er þó sannfærður um að staða greinarinnar er sterk. Um það vitnar kraftmikill búskapur, félagslegur áhugi, þróttmikil nýliðun, öflugt vinnslukerfi, frábær vöruþróun og markaðsstarf, svo og flestar þær hagtölur sem ég hef nýverið séð.

Með samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar er henni tryggður óbreyttur stuðningur ríkisvaldsins til ársloka 2005 og sköpuð skilyrði til þess að efla greinina til framtíðar þannig að hún verði hæfari til þess að takast á við aukna samkeppni. Ef litið er til þeirrar þróunar sem orðið hefur frá gildistöku samningsins er ljóst að hann opnar nýjar leiðir. Einingum í mjólkurframleiðslu fækkar um leið og þær stækka. Bændur virðast hafa fjármagn, tækni og tíma til að ráða við stærri einingar, sem líklegar eru til að mæta þeirri samkeppni sem nú ríkir og við blasir framundan. Þetta er hliðstæð þróun og í nágrannalöndum okkar. Ég álít að þessi þróun í átt til færri og stærri eininga upp að ákveðnu marki sé óhjákvæmileg. Ég ítreka hins vegar þá skoðun að takmörk séu fyrir því hvað skynsamlegt sé og réttlætanlegt að ganga langt í þeim efnum bæði með tilliti til umhverfissjónarmiða og þess að félagslegs jafnræðis sé gætt meðal framleiðenda varðandi stuðning samfélagsins við greinina.

Tvennt vil ég nefna í sambandi við framkvæmd mjólkursamningsins sem ég hef nokkrar áhyggjur af:

Í fyrsta lagi það hvernig framleiðsluheimildir eru verðlagðar. Þær eru að mínu mati alltof hátt verðlagðar og vandséð hvernig rekstur búanna getur staðið undir slíkum fjárfestingum. Hafa þarf í huga að þarna er að hluta til verið að versla með stuðning samfélagsins við mjólkurframleiðsluna og ég óttast að þetta háa verð kunni að leiða til þess að í næstu samningum muni ýmsir telja að greiðslugeta mjólkurframleiðslunnar sé slík að svigrúm sé til þess að lækka þann stuðning, ennfremur að yngri kynslóð bænda verði um of skuldsett og búi þess vegna við lakari afkomu. Í starfsskilyrðasamningnum eru ákvæði um að hagsmunaaðilar skipi nefnd er kanni viðskipti með greiðslumark og geri eftir atvikum tillögur til ráðherra um aðgerðir sem draga úr þenslu í viðskiptum með greiðslumark. Engin niðurstaða hefur orðið af starfi þessarar nefndar og vandséð um framhald þess starfs. Ég vil hins vegar hreyfa þeirri hugmynd hér að landbúnaðarráðuneytið og Landssamband kúabænda setji sameiginlega á fót starfshóp sem fái það hlutverk að skoða rekstrarskilyrði mjólkurframleiðslunnar til lengri framtíðar.

Hitt atriðið er sú staða sem við blasir vegna fækkunar búa. Enda þótt einhver samþjöppun í landbúnaði sé æskileg við núverandi aðstæður þarf að hafa í huga að á bak við hverja einingu í landbúnaði standa ekki bara byggingar, dráttarvélar og önnur tækni. Þar er líka fólk, undirstaða blómlegs lífs í hverju sveitarfélagi. Ekki má einblína svo á hagfræðihliðina að allt annað gleymist. Þá verður stærðin stjórnandinn og bóndinn þrællinn. Það er auðvitað mikilvægt að tryggja að íslenskt sveitafólk sé félagslega og fjárhagslega sterkt. En við skulum ekki láta það gerast með þeim hætti að eftir standi fáir einmana stórbændur. Það er ekki sú framtíð sem ég óska hinum hugprúða og lífsglaða sveitamanni. Ég get sagt það í þessu samhengi að um leið og ég dái athafnaþrek og dugnað þeirra bænda sem byggt hafa stóru eggja-, kjúklinga- og svínabúin þá er það ekki sú mynd sem ég sé fyrir mér um framtíð íslensks landbúnaðar. Vinir okkar á Morgunblaðinu óttast mjög þann óróa sem skapast hefur í þjóðfélaginu vegna þess hve veiðiheimildir í sjávarútvegi hafa færst á fáar hendur. Mér finnst hins vegar full ástæða til þess að benda þeim á það að sú mikla samþjöppun sem nú er að verða í alifugla og svínarækt og þeir lofsyngja á síðum blaðsins kann að leiða til eingu minna stríðs þegar fram líða stundir, ég tala nú ekki um ef það gerist einnig í röðum kúabænda.

Ég var nýlega á ferð um Noreg og naut þar gestrisni starfsbróður míns, norska landbúnaðarráðherrans. Í þeirri ferð sá ég að þótt þróun í norskum landbúnaði sé nokkuð önnur en hér, þá skilja þeir betur en flestir margþætt hlutverk landbúnaðarins. Þeir hafa sett reglur sem um margt hefta það sem við köllum framfarir hér á landi. Þar fær enginn að hafa fleiri en 50 gyltur á hverju svínabúi. Sumum þætti það lítið hér á landi. En þessar reglur draga um leið fram það besta. Ásýnd landbúnaðarins í Noregi er betri en hér á landi. Þar þarf ekki átak eins og "fegurri sveitir" því umgengni í sveitum og á búunum er til fyrirmyndar. Í Noregi finnur maður hugsun sem ég vil gjarnan innleiða hér í ríkari mæli. Það er skilningur á því að landbúnaður er miklu meira en bara framleiðsla. Við þurfum að gera hið margbreytta hlutverk landbúnaðarins sýnilegra og hér kalla ég eftir stuðningi kúabænda við þá hugsun. Það mun til lengri tíma verða íslensku þjóðfélagi happasælla en ýmislegt það sem nú ríður húsum í þjóðfélagi okkar.

Í vetur kynnti utanríkisráðherra á Alþingi skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og hugsanleg áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þar er að finna sérstakan kafla um áhrif hennar á landbúnaðinn. Sá kafli er að mínum dómi ömurleg lesning frá sjónarhóli okkar sem viljum veg landbúnaðarins hér sem mestan. Tekjur mjólkurframleiðenda myndu t.d. lækka um rúmlega helming og þó búast megi við áframhaldandi stuðningi við landbúnaðinn úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins þá ríkir mikil óvissa um framhald á stuðningi við mjólkurframleiðslu. Um sölu unninna mjólkurafurða segir orðrétt í skýrslunni: "Verð á unnum mjólkurvörum myndi að öllum líkindum lækka verulega." Ég endurtek; lækka verulega. Ætli það stafi ekki af því að erlenda stóriðjan í Mið-Evrópu yfirtæki að stórum hluta íslenska matvælagerð og landbúnaðarframleiðslu.

Ég get ekki að því gert að mér finnst íslenskir bændur furðulega andvaralausir í þessu máli. Örfáir forystumenn bænda hafa rætt þessi mál við mig. Aðrir forystumenn og bændur almennt virðast taka þessu létt. Þegar ég vegna vandræða fyrri ára gaf eftir tollalausan innflutning á 15 tonnum af osti frá Noregi rigndi yfir mig skömmum frá kúabændum og á aðalfundi LK á síðasta ári fóru sumir hamförum yfir þeirri ósvífni. Með einu pennastriki yrði mjólkurframleiðslan minnkuð um eitt gott meðalbú, sögðu menn. Hvar eru þessir menn nú og hvar hafa þeir verið síðan í apríl að skýrsla utnríkisráðherra leit dagsins ljós?

Ég er nýkominn heim af sameiginlegum fundi landbúnaðarráðherra Norðurlandanna. Þar ræddi ég við finnska landbúnaðarráðherrann um áhrifin af inngöngu Finnlands í Evrópusambandið. Í stuttu máli hefur það gerst að finnskum bændum hefur fækkað úr 80 þús. í 45 þús. á fimm árum. Verð á afurðum hefur lækkað verulega og samkeppni aukist. Samt hefur landbúnaðarframleiðslan í Finnlandi staðið í stað og tekjur bænda lítið breyst. Afköstin hafa með öðrum orðum aukist um helming en tekjurnar ekki. Þessi fækkun í sveitum Finnands hefur reynst þjóðfélaginu mjög erfið og afleiðingarnar eru enn ekki að fullu komnar í ljós. Ég hvet ykkur bændur til að skoða þessa sögu.

Ég ætla ekki að tala meira um Evrópusambandið nú en ég geri það hér með að tillögu minni að landbúnaðarráðuneytið, Bændasamtökin, búgreinafélögin og afurðastöðvar í kjöti, mjólk og grænmeti, leggi saman í sjóð til að fjármagna ítarlega úttekt á áhrifum Evrópusambandsaðildar á íslenskan landbúnað. Í þeim efnum dugar ekkert hik, heldur verður að vinna hratt og vel. Hvort sem við viljum eða ekki verður umræðan um aðild að Evrópusambandinu á dagskrá næstu árin og það er skylda okkar að greina þjóðinni rétt frá því hvað verður um íslenskan landbúnað og bændastétt ef við göngum í Evrópusambandið. Málið snertir einnig iðnaðar- og verkafólk í borg og bæ.

Í nokkur ár hefur staðið yfir umræða um innflutning á erfðaefni úr NRF- kúakyninu norska. Eðlilegt er að í vaxandi samkeppni og þegar krafan um aukna framleiðni verður sífellt háværari þá leiti menn leiða til þess að finna afkastameiri framleiðslutæki. Þessi umræða hefur oft á tíðum verið mjög hörð og skipt bændum og raunar þjóðinni allri í andstæðar fylkingar. Sú fylkingin sem leggst gegn innflutningi virðist sýnu stærri og lætur mun meira að sér kveða. Fyrstu hugmyndirnar sem settar voru fram um þetta efni og gerðu ráð fyrir umfangsmikilli samanburðarrannsókn á um 200 búum, hafa verið ráðandi í umræðunni og atkvæðagreiðslan, sem fram fór á meðal bænda um þær hugmyndir, vakti sterk viðbrögð. Hins vegar hefur sú umsókn um heimild til innflutnings á erfðaefni, sem liggur fyrir og umræðan ætti að snúast um, alltof lítið náð eyrum þeirra er mest láta sig málið varða. Það er augljóst að íslenska kýrin er nátengd því kerfi sem við höfum byggt upp í kringum mjólkurframleiðsluna og er hornsteinn þeirrar landbúnaðarstefnu sem ríkir. Ég hef í starfi mínu sem landbúnaðarráðherra lagt áherslu á að standa vörð um þá stefnu og get að sumu leyti tekið undir þá gagnrýni að í kynbótastarfi undanfarinna ára hafi ekki nægilega verið hugað að möguleikum íslensku kýrinnar í samanburði við þá norsku. Á undanförnum árum hefur orðið stöðug framför í afurðasemi íslenska kúastofnsins og það er staðreynd að bestu mjólkurframleiðendurnir hér á landi eru að ná árangri sem nálgast mjög það sem norsku kýrnar gefa.

Ég hefi lagt á það áherslu að vanda vel til afgreiðslu þessarar umsóknar og leyft umsækjendum að fylgjast með þeirri vinnu. Til undirbúnings ákvarðanatöku í þessu máli hefi ég að ýmsu leyti farið ótroðnar leiðir s.s. með því að leita eftir áliti Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Hagþjónustu landbúnaðarins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Þá var umsóknin send öðru sinni til umsagnar dýralækna vegna gildistöku nýrra laga um dýralækna.

Öll þau gögn sem óskað var eftir hafa nú skilað sér í ráðuneytið. Einnig ýmis önnur gögn frá aðilum sem telja sig málið varða. Í þeim hópi eru bændur og sérfræðingar, sem í gegnum tíðina hafa verið þekktir fyrir að vilja landbúnaði vel. Þar er einnig maðurinn af götunni sem vill segja sitt álit.

Síðustu gögnin sem ég óskaði eftir bárust mér í hendur í byrjun ágúst. Vegna sumarleyfa og annarra frátafa hefur mér ekki enn unnist tími til þess að kynna mér þau til hlítar.

Að mörgu er að hyggja þegar meta skal kosti þess og galla að leyfa innflutning á erfaefni. Það sem ég tel mikilvægast er að varðveita heibrigði íslenska búfjárins sem er ein mesta sérstaða íslensks landbúnaðar og um leið undirstaða gæða íslenskra búvara. Í því sambandi vil ég minna á þá umræðu sem orðið hefur um áhrif innflutnings á erfðaefni á gæði mjólkurinnar. Í janúar síðastliðinn skipaði ég nefnd til þess að meta hvort rétt sé að mjólk úr íslenskum kúm sé sérstök með tilliti til gæða og hollustu og hvort vænta megi breytinga á þeim þáttum, verði innflutningur heimilaður á fósturvísum úr noskum kúm. Nefndin hefur nú skilað áliti þar sem m.a. kemur fram það álit að innflutningur muni að öllum líkindum hafa lækkandi frumutölu í för með sér sem muni auka gæði og nýtingu í vinnslu mjólkurafurða. Einnig að líkur séu á að einhverjar breytingar verði á prótein- og fituhlutfalli mjólkurinnar, en væntanlega verði þær óverulegar. Varðandi hættu á auknu nýgengi sýkursýki í börnum telur nefndin auðvelt að kanna tilvist viðkomandi erfðavísa hjá báðum foreldrum fósturvísis þannig að velja megi gripi af NRF-stofni sem framleiðir mjólk með lægra hlutfalli A1-B/A2 proteingerðanna heldur en íslenski kúastofninn gerir í í dag.

Nefndin bendir á að á undanförnum árum hafi mörg ríki byrjað rannsóknir á sjúkdómaástandi búfjár innan landamæra sinna til að geta sett fram ákveðnar kröfur gagnvart útflutningslöndum þegar óskað er eftir að flytja inn lifandi dýr eða búfjárafurðir. Þessum aðgerðum hafi af skiljanlegum ástæðum mest verið beint gegn sjúkdómum sem mest hætta og tjón skapast af ef farsóttir berast til landsins. Sömu aðferðir megi nota þegar erfðaefni er flutt inn, að þá verði að taka tillit til erfðaþátta sem geta haft skaðleg áhrif á stofn sem fyrir er í landinu verði þeim blandað saman. Því verði að fara fram mat á því hver sú hætta sem skapast getur miðað við þann ávinning sem menn sjá við slíka blendingsræktun. Með þetta í huga verði að liggja fyrir niðurstöður rannsókna á hinu nýja erfðaefni áður en hafin er blöndun á því við þann stofn sem fyrir er í landinu.

Þá er í nefndarálitinu bent á að öllum innflutningi lifandi dýra eða erfðaefnis þeirra fylgi ákveðin áhætta. Ræktun nýs stofns verði að skila umtalsverðum ávinningi til að ásættanlegt sé að taka slíka áhættu og fyrir utan aukna framleiðni verði einnig að líta til þess að hollusta afurðanna verði að vera betri en fæst úr þeim kúastofni sem fyrir er í landinu í dag.

Undir þessi varnaðarorð vil ég taka.

Það kann að vera að sumir ykkar saknið þess að hér er engin ákvörðun sett fram af minni hálfu. Hitt skal ég viðurkenna, að ég tel þessa ákvörðun erfiða og vandasama. Ég er ekki einn í heiminum, þið eruð það ekki heldur. Gjarnan vildi ég eiga leið sem sætti fylkingar og öll sjónarmið.

Ég mun á næstu vikum fara yfir málið í heild með starfsmönnum ráðuneytisins og í góðu samstarfi við stjórn ykkar samtaka, Bændasamtakanna, og mun svar mitt við umsókn Landssambands kúabænda liggja fyrir nú á haustdögum.

Að svo mæltu óska ég ykkur heilla í störfum hér á fundinum.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta