Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Þing Neytendasamtakanna, 22.09.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp
á þingi Neytendasamtakanna 22. september 2000


Fundarstjóri, formaður, ágætu þingfulltrúar!

Mér er það sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til að ávarpa þing Neytendasamtakanna sem hafa nú í 47 ár staðið vörð um hagsmuni neytenda og þannig með sínu starfi stuðlað að aukinni velferð heimilanna í landinu. Það er einnig mikilvægt samfélaginu að í landinu starfi fjölmenn og frjáls samtök eins og Neytendasamtökin sem reki öflugt starf í þágu neytenda. Það er stjórnvöldum hollt að heyra sjónarmið og kröfur neytenda svo og að fá frá samtökum þeirra ábendingar til stjórnvalda um þau atriði sem betur mega fara í neytendaverndinni á hverjum tíma.

Ísland, alþjóðavæðingin og aukin neytendavernd

Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi á undanförnum árum og áratugum. Samhliða breyttri umgjörð í þjóðfélaginu hafa aðgerðir er miða að aukinni neytendavernd orðið mun algengari.
Aukin og greiðari samskipti yfir landamæri, ekki hvað síst vegna þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu, hafa einnig orðið til þess að á seinni árum hafa sífellt verið sett fleiri lagafyrirmæli sem hafa að meginmarkmiði að stuðla að betri neytendavernd.

Ný lög á sviði neytendaverndar

Mörg þessara lagafyrirmæla veita íslenskum neytendum sömu réttarstöðu og neytendur hafa almennt á hinu evrópska efnahagssvæði enda byggð á tilskipunum Evrópusambandsins eða öðrum alþjóðlegum samningum.

Þannig voru samþykkt nú í vor á Alþingi ný lög um lausafjárkaup og taka þau gildi næsta sumar eða hinn 1. júlí 2001. Lögin leysa af hólmi lög um sama efni frá árinu 1922 og eru margvísleg nýmæli í lögunum, einkum að því er varðar neytendakaup og aukna vernd neytenda þegar vörur eru keyptar eða seldar. Kaupgerningar eru algengustu löggerningar sem gerðir eru en þúsundir slíkra gerninga eru gerðir á hverjum degi.
Einnig voru samþykkt ný lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga en tilgangur þeirrar lagasetningar er meðal annars að stuðla að aukinni neytendavernd þegar vörur eru keyptar með notkun tölvutækninnar eða á Netinu.
Með aukinni velmegun hefur veltan í keyptri þjónustu farið sífellt vaxandi. Hér á ég við viðgerðarþjónustu af ýmsu tagi t.d. við bifreiðar eða viðgerðir fasteigna. Lengst af hefur verið reynt að beita grunnsjónarmiðum laga um lausfjárkaup þegar upp hafa komið ágreiningsmál um kaup á slíkri þjónustu. Það hefur hins vegar aðeins veitt neytendum takmarkaða réttarvernd. Af þessari ástæðu var lagt fram frumvarp til laga um þjónustukaup og var það einnig samþykkt sem lög nú í vor. Ákvæði þessara laga eru nýmæli hér á Íslandi og munu veita mun meiri réttarvernd þegar keypt er þjónusta af því tagi sem lögin taka til.

Af þessari upptalningu má sjá að um margt miðar áfram í því að auka réttarvernd neytenda á Íslandi. Jafnt á vettvangi Norðurlanda sem og Evrópusambandsins er unnið að ýmsum málum sem er ætlað að styrkja ennfrekar en orðið er stöðu neytenda í viðskiptum.

Norrænt samstarf
Á liðnu sumri sótti ég fund norrænna ráðherra sem fjalla um málefni neytenda sem haldinn var í Danmörku.

Á fundinum var rædd tillaga danska ráðherrans um að þegar í stað yrði kannað hvort ástæða sé til að setja nánari reglur um neytendavernd þegar um er að ræða samruna bankastofnana yfir landamærin. Opin og frjáls viðskipti á hlutabréfamarkaði með hlutabréf í bönkum og aukið gjaldeyrisfrelsi hafa leitt til samruna fjármálastofnana yfir landamærin hjá frændum okkar á Norðurlöndum. Þegar tvær bankastofnanir frá sitt hvoru landinu eru sameinaðar gæti niðurstaðan orðið sú að sömu skilmálar gildi ekki fyrir alla viðskiptamenn stofnunarinnar.

Það er álit ýmissa kollega minna að á fjármálaþjónustufyrirtækjum hvíli að hluta til ákveðnar samfélagslegar skyldur. Það sést best af því að í nútímasamfélagi verða allir að nota slíka þjónustu. Allir verða að hafa launareikning og fjármálastofnanir verða að bjóða neytendum þjónustu sem hæfir samfélagslegum þörfum þeirra. Síðast en ekki síst hvílir á þeim ákveðin skylda til að leiðbeina og meðhöndla viðskiptavini sína af jafnræði, trúmennsku og á siðferðilega fullnægjandi hátt.
Á fundinum var samþykkt að setja af stað verkefni til þess að kanna betur hvort ástæða sé til sameiginlegra aðgerða af hálfu Norðurlandanna í þessu sambandi.

Þetta dæmi sýnir að aukin alþjóðavæðing viðskiptalífsins hefur áhrif á stöðu neytenda í hverju landi fyrir sig og aðgerðir verða í auknum mæli að taka mið af þeirri staðreynd og krefjast þar af leiðandi æ oftar fjölþjóðlegs samráðs og samvinnu.

Matvöruverð og fjárhagur heimilanna

Matvöruverð
Á undanförnum árum hefur verðlagsþróun verið jákvæð hér á landi og verðbólga hefur minnkað verulega, þó svo að hún sé heldur meiri á allra síðustu mánuðum en við höfum átt að venjast á árunum þar á undan. Það hefur því verið áhyggjuefni að þróun verðlags í matvöruverslun á Íslandi hefur ekki verið eins hagstæð og vænta mátti og það þrátt fyrir að viðskiptakjör hafi farið batnandi á ýmsan hátt s.s. með gerð viðskiptasamninga við erlend ríki og tollalækkanir á undanförnum árum.

Ríkisstjórnin samþykkti því snemma í vor tillögu mína um sérstaka aukafjárveitingu til Samkeppnisstofnunar til þess að unnt verði að gera ítarlega könnun á þróun og samsetningu matvöruverðs hér á landi. Það er von mín að sú skýrsla muni skapa betri þekkingu og grundvöll fyrir umræður um þessi mál enda er mikið í húfi fyrir fjárhag heimilanna. Öflugt verðskyn neytenda er þó grundvallaratriði í hinni frjálsu samkeppni og ber því einnig að stuðla að því með virkum hætti t.d. með fræðslu í grunnskólunum og til almennings. Hér kann því að vera vænlegt að virkja betur en gert hefur verið samstarf stjórnvalda og Neytendasamtakanna sem óneitanlega hafa mikla reynslu á þessu sviði.

Skuldasöfnun heimilanna og neytendalán
Aukin skuldasöfnun heimilanna er einnig þróun sem vekur ugg og mikilvægt að almenningur reisi sér ekki hurðarás um öxl í því sambandi. Fyrir allnokkrum árum voru sett lög um neytendalán sem fjalla meðal annars um árlega hlutfallstölu kostnaðar.
Samkvæmt þeim lögum er seljendum vöru og þjónustu skylt við lánveitingar til neytenda að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar en í því felst að þeir verða að gefa upp í einni %-tölu kostnað og vexti sem hlýst af neytendalánum. Jafnframt ber þeim skylda til að tilgreina hana í öllum auglýsingum þar sem boðin eru fram neytendalán. Ég hef ákveðið að beita mér fyrir því að framangeind hlutafallstala verði meira kynnt og notuð í viðskiptum en verið hefur. Aukin notkun tölunnar er til þess fallin að auka samkeppnina á sviði neytendalána svo og meðvitund neytenda um kostnað við lántökur til heimilanna.
Þegar gildandi lög um neytendalán voru sett árið 1994 var samþykkt að þau skyldu aðeins gilda fyrir lán sem væru ekki hærri en 1, 5 milljónir króna. Það er hins vegar orðin þekkt staðreynd að lánsfjárhæðir hafa vaxið verulega í lánveitingum til neytenda. Ég tel því rétt að þessi fjárhæðarmörk verði afnumin og hef ég kynnt frumvarp í ríkisstjórninni sem miðar að því að breyta ákvæðum gildandi laga um neytendalán. Samhliða eru lagðar til nokkrar breytingar sem eiga að treysta ennfrekar ákvæði laganna og munu þær, ef að lögum verða, stuðla að enn betri framkvæmd og gera upplýsingaskylduna virkari við veitingu allra lána til neytenda, óháð lánsfjárhæð.


Neytendur á nýrri öld

Neytendur þekki rétt sinn

Eins og ég vék að í upphafi máls míns þá hefur þróunin í neytendamálum verið afar hröð undanfarin ár og sjást þess víða merki. Á vettvangi Alþingis kemur það fram í lagasetningu þegar þess gerist þörf. Ekki er þó síður mikilvægt að neytendur kynni sér þær réttarbætur sem felast í lögum sem sett eru til þess að styrkja réttarstöðu þeirra.

Þar reynir því á samtök eins og Neytendasamtökin og sérfræðinga sem hjá þeim starfa að veita aðstoð og leiðsögn til neytenda.

Til viðbótar því mikilvæga starfi hef ég ákveðið að beita mér fyrir sérstakri kynningu í tilefni af gildistöku nýrra kaupalaga og laga um þjónustukaup, er miði að því að kynna efni þeirra fyrir neytendum og aðilum í viðskiptalífinu, lögfræðingum og öðrum sem málið varðar sérstaklega.

Ég tel brýnt að í framkvæmd sé fylgt eftir ákvæðum sem sett hafa verið í lög og tryggt að ekki sé gengið á rétt neytenda vegna vanþekkingar á þeim lagaákvæðum sem gilda hverju sinni.

Skilaréttur neytenda við kaup á vörum

Við meðferð frumvarpsins sem nú er orðið að nýjum lögum um lausafjárkaup á síðasta löggjarþingi Alþingis kom fram að huga þyrfti sérstaklega að skilarétti neytenda þegar vörur eru keyptar og þær henta ekki í þeim tilgangi sem þær eru keyptar. Þetta vandamál er einkum áberandi eftir miklar gjafahátíðir svo sem jól og fermingar. Í nágrannaríkjum okkar er þetta vandamál einnig þekkt og hefur þeim ekki tekist fremur en okkur að leysa það mál með lagasetningu. Hins vegar er brýnt að hugað verði að þessu máli og reynt að finna lausnir til dæmis í formi verklags eða siðreglna sem neytendur og seljendur vöru geta sætt sig við. Ég hef því skipað nefnd þar sem eiga sæti einn fulltrúi frá Neytendasamtökunum, Verslunarráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu svo og fulltrúi frá ráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að skila sínum tillögum fyrir jól en hvort takast megi að koma betri skipan á þessi mál fyrir þann tíma skal ósagt látið. Ég vona þó sannarlega að í niðurstöðum nefndarinnar verði að finna fyrirkomulag að því er varðar betri skilarétt sem samstaða og víðtæk sátt kann að nást um.

Evrópusamstarfið

Vegna aðildar Íslands að EES-samstarfinu þarf á næsta löggjafarþingi að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tveggja tilskipana.

Í fyrsta lagi vil ég nefna ákvæði tilskipunar nr. 99/44/EB um neytendakaup en hún mun færa neytendum enn betri réttarstöðu en þeir hafa haft samkvæmt ákvæðum í gildandi lögum um kaup. Sem dæmi hér um má nefna að eftir ákvæðum tilskipunarinnar mun vara teljast gölluð þegar neytandi á að setja hana saman sjálfur en leiðbeiningar seljanda um samsetninguna eru svo óljósar að ekki tekst að setja hlutinn rétt saman og það verður til þess að hann skemmist eða annað tjón hlýst af.

Það er nefnilega oftar en ekki þannig að neytendur eru ekki fávísir heldur skortir þá oft fullnægjandi upplýsingar og af því hlýst skaðinn.

Í öðru lagi vil ég nefna ákvæði tilskipunar nr. 98/27/EB um lögbannsaðgerðir til verndar hagsmunum neytenda.
Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar ber stjórnvöldum að tilgreina þá aðila eða opinberar stofnanir sem skulu hafa rétt til þess að krefjast banns gegn athöfnum sem fela í sér brot á ýmsum lögum á sviði neytendaréttar þegar heildarhagsmunir neytenda krefjast þess að slík athöfn verði stöðvuð.
Ljóst er að oft kann að vera nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að vernda hagsmuni neytenda án þess fyrirfram hafi verið skilgreindur ákveðinn hópur sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni eins og gildandi réttarfarsreglur gera ráð fyrir. Hér er því á ferðinni nýtt og mikilvægt úrræði á sviði neytendaverndar. Nefnd sem ég hef nýlega skipað mun væntanlega fljótlega eftir áramót gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar þessarar tilskipunar Evrópusambandsins.

Umfang og skipulag neytendamála
Neytendamál hafa á undanförnum árum sífellt orðið umsvifameiri málaflokkur eins og öllum hér er kunnugt um. Ég tel því að ýmsar aðstæður kunni að leiða til þess að á allra næstu árum verði óhjákvæmilegt að huga nánar en gert hefur verið að skipulagi neytendastarfs sem fram fer hjá hinu opinbera. Hér hef ég ekki fram að færa fullmótaðar hugmyndir á þessu stigi en ég vænti þess að geta átt um þetta gott samstarf við alla þá fjölmörgu aðila sem starfa að málefnum neytenda hér í landinu.

Samstarfið og verkefnin á nýrri öld
Yfirskrift á þingi samtakanna að þessu sinni er Neytendur á nýrri öld.
Í mínum huga er ljóst að þrátt fyrir að mjög svo hafi miðað áfram á sviði neytendamála á undanförnum árum bíða ýmis mál sem vænta má að verði meira í deiglunni en verið hefur.
Að undanförnu hefur mikið verið rætt um öryggi matvæla og rétt neytenda til hollrar og ómengaðrar fæðu. Á Íslandi erum við svo heppin að frá náttúrunnar hendi eigum við að hafa mörg og góð tækifæri til þess að tryggja íslenskum neytendum gæðavörur. Það kann að vera æskilegt að stjórnvöld í samvinnu við innlenda framleiðendur hugi að því hvort og hvernig megi koma skilaboðum um heilnæmi matvöru til neytenda á sem einfaldastan hátt, t.d með sérstökum merkingum eins og margar grannþjóðir okkar hafa gert.
Hér á Íslandi erum við tengd mjög umræðu um málefni neytenda á alþjóðlegum vettvangi og því þess að vænta að umræðan hér á landi dragi dám af því sem helst er á döfinni alþjóðlega hverju sinni. Við munum fylgjast náið með þeim málum svo sem við höfum gert á undanförnum árum og einnig verður áhugavert að heyra hvað hinn erlendi gestur hefur fram að færa í þessu sambandi. Það hefur lengi verið vitað að vandamál neytenda og þær lausnir sem þau gera kröfu um hverju sinni eru yfirleitt ekki bundin við landamæri. Það er því augljóslega af því mikill styrkur ef á vettvangi neytenda á sér stað öflug miðlun á þekkingu og reynslu sem neytendur og stjórnmálamenn geta notið góðs af þegar leggja skal til aðgerðir á sviði neytendaverndar þannig að þær styrki í raun hag neytenda og skerði ekki samkeppnina.

Að lokum vil ég þakka fyrir þetta tækifæri til þess að koma og ávarpa ykkur hér í upphafi ykkar þings um leið og ég óska ykkur góðs gengis við þingstörfin og þeirrar góðu vinnu sem hér mun væntanlega fara fram.

Þakka áheyrnina!

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta